Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 NÁMSGREIN 2

Þú getur verið öðrum „til mikillar hughreystingar“

Þú getur verið öðrum „til mikillar hughreystingar“

„Þeir eru ... samstarfsmenn mínir fyrir ríki Guðs ... og hafa verið mér til mikillar hughreystingar.“ – KÓL. 4:11.

SÖNGUR 90 Gefum gætur hvert að öðru

YFIRLIT *

1. Við hvers konar erfiðleika eiga margir trúir þjónar Jehóva að glíma?

MARGIR þjónar Jehóva um heim allan eiga við erfiðleika að glíma sem valda þeim kvíða og sársauka. Hefurðu tekið eftir því í söfnuðinum þínum? Sumir eru að berjast við alvarleg veikindi eða hafa misst ástvin. Aðrir hafa horft upp á náinn vin eða einhvern í fjölskyldunni yfirgefa söfnuðinn og eru að glíma við sársaukann sem fylgir því. Og sumir eru að takast á við eftirköst náttúruhamfara. Öll þessi trúsystkini okkar þurfa á hughreystingu að halda. Hvernig getum við aðstoðað þau?

2. Hvers vegna þurfti Páll postuli stundum á hughreystingu að halda?

2 Páll postuli lenti í lífshættu hvað eftir annað. (2. Kor. 11:23–28) Hann þurfti að þola ,þyrni í holdinu‘, hugsanlega einhvers konar heilsuvandamál. (2. Kor. 12:7) Hann varð líka fyrir miklum vonbrigðum þegar Demas, fyrrverandi samstarfsmaður hans, yfirgaf hann „þar sem hann elskaði þennan heim“. (2. Tím. 4:10) Páll var andasmurður kristinn maður, hugrakkur og óspar að hjálpa öðrum en stundum varð jafnvel hann niðurdreginn. – Rómv. 9:1, 2.

3. Hvaðan fékk Páll hughreystingu og stuðning?

3 Páll fékk þá hughreystingu og þann stuðning sem hann þarfnaðist. Hvernig? Jehóva styrkti hann vissulega með heilögum anda sínum. (2. Kor. 4:7; Fil. 4:13) Jehóva sá líka til þess að trúsystkini hans hughreystu hann. Páll talar um að sumir samstarfsmenn hans hafi verið honum  „til mikillar hughreystingar“. (Kól. 4:11) Hann nafngreinir suma þeirra, meðal annars Aristarkus, Týkíkus og Markús. Þeir styrktu Pál og hjálpuðu honum að halda út. Hvaða eiginleikar gerðu þessum þrem bræðrum kleift að vera svona hughreystandi? Hvernig getum við líkt eftir góðu fordæmi þeirra þegar við reynum að hughreysta og hvetja hvert annað?

TRYGG EINS OG ARISTARKUS

Við getum verið tryggir vinir eins og Aristarkus með því að standa með trúsystkinum okkar „í andstreymi“. (Sjá 4. og 5. grein.) *

4. Hvernig reyndist Aristarkus tryggur vinur Páls?

4 Aristarkus reyndist vera tryggur vinur Páls en hann var kristinn maður frá Þessaloníku í Makedóníu. Hann er fyrst nefndur til sögunnar þegar Páll kom til Efesus á þriðju trúboðsferð sinni. Hann var þar á ferð með Páli þegar æstur múgur dró hann með sér. (Post. 19:29) Þegar honum var sleppt forðaði hann sér ekki heldur fylgdi Páli áfram. Nokkrum mánuðum síðar er Aristarkus enn með Páli í Grikklandi þrátt fyrir að óvinir Páls sitji um líf hans. (Post. 20:2–4) Aristarkus fylgdi Páli á langri ferð hans þegar hann var sendur sem fangi til Rómar um árið 58 og var með honum þegar þeir biðu skipbrot á leiðinni. (Post. 27:1, 2, 41) Hann sat greinilega í fangelsi með Páli um tíma eftir komuna til Rómar. (Kól. 4:10) Það er skiljanlegt að Páli hafi fundist hughreystandi og hvetjandi að eiga svona tryggan félaga.

5. Hvernig getum við verið tryggir vinir samkvæmt Orðskviðunum 17:17?

5 Við getum verið tryggir vinir eins og Aristarkus með því að standa með trúsystkinum okkar bæði í blíðu og stríðu. (Lestu Orðskviðina 17:17.) Bræður og systur þurfa oft á hughreystingu að halda þó að erfiðleikarnir séu liðnir hjá. Frances * missti báða foreldra sína úr krabbameini á innan við þrem mánuðum. Hún segir: „Ég held að erfið lífsreynsla hafi oft langvarandi áhrif á okkur. Ég er þakklát fyrir að eiga trygga vini  sem muna að ég er enn í sárum þó að nokkuð sé um liðið síðan foreldrar mínir dóu.“

6. Hvað gera tryggir vinir?

6 Tryggir vinir færa fórnir til að geta stutt trúsystkini sín. Bróðir að nafni Peter greindist með ágengan og banvænan sjúkdóm. Kathryn eiginkona hans segir: „Hjón í söfnuðinum fóru með okkur í viðtalið þar sem við fengum að vita hvað amaði að Peter. Þau ákváðu á staðnum að láta okkur ekki ganga þessa þrautargöngu ein og þau hafa alltaf verið til taks þegar við höfum þurft á að halda.“ Það er ákaflega hughreystandi að eiga sanna vini sem geta hjálpað okkur að halda út í raunum okkar.

TRAUSTUR EINS OG TÝKÍKUS

Við getum verið traustir vinir eins og Týkíkus þegar aðrir eiga við erfiðleika að glíma. (Sjá 7.–9. grein.) *

7, 8. Hvernig reyndist Týkíkus traustur eins og sjá má af Kólossubréfinu 4:7–9?

7 Týkíkus var annar tryggur félagi Páls en hann var kristinn maður frá rómverska skattlandinu Asíu. (Post. 20:4) Um árið 55 gekkst Páll fyrir fjársöfnun til aðstoðar kristnum mönnum í Júdeu og vera má að hann hafi beðið Týkíkus að aðstoða sig við þetta mikilvæga verkefni. (2. Kor. 8:18–20) Síðar, þegar Páll var fangi í Róm í fyrra sinnið, var Týkíkus sendiboði hans. Hann fór með bréf Páls til safnaðanna í Asíu og flutti þeim uppörvandi fréttir. – Kól. 4:7–9.

8 Týkíkus reyndist traustur vinur Páls. (Tít. 3:12) En það voru ekki allir í söfnuðinum jafn áreiðanlegir og hann. Um árið 65, þegar Páll var fangi í síðara skiptið, skrifaði hann að margir safnaðarmenn í skattlandinu Asíu hefðu hætt að umgangast hann, hugsanlega sökum ótta við andstæðinga. (2. Tím. 1:15) Páll gat hins vegar reitt sig á Týkíkus og fól honum enn eitt verkefnið. (2. Tím. 4:12) Honum þótti greinilega verðmætt að eiga góðan vin eins og Týkíkus.

9. Hvernig getum við líkt eftir Týkíkusi?

9 Við getum líkt eftir Týkíkusi með því að vera traustir vinir. Við lofum ekki bara að aðstoða trúsystkini okkar sem  eru hjálparþurfi heldur gerum líka ýmislegt til að hjálpa þeim. (Matt. 5:37; Lúk. 16:10) Það er mjög uppörvandi fyrir þá sem þarfnast hjálpar að vita að þeir geta reitt sig á okkur. Systir nokkur útskýrir hvers vegna: „Maður þarf ekki að velta fyrir sér hvort sá sem bauðst til að hjálpa kemur tímanlega til að gera það sem hann lofaði.“

10. Hvar er hægt að fá hughreystingu eftir áfall eða vonbrigði, samanber Orðskviðina 18:24?

10 Það getur verið hughreystandi fyrir þá sem hafa orðið fyrir áfalli eða vonbrigðum að trúa traustum vini fyrir tilfinningum sínum. (Lestu Orðskviðina 18:24.) Það var mikið áfall fyrir Bijay að syni hans var vikið úr söfnuðinum. Hann segir: „Ég þurfti að segja einhverjum sem ég gat treyst frá tilfinningum mínum.“ Carlosi urðu á mistök sem ollu því að hann fékk ekki lengur að sinna ákveðnu verkefni í söfnuðinum. „Mig vantaði trúnaðarvin sem ég gat tjáð mig opinskátt við án þess að þurfa að óttast að vera dæmdur,“ segir hann. Hann fann slíka vini meðal öldunganna sem hjálpuðu honum að sigrast á vandanum. Það var líka hughreystandi fyrir hann að vita að öldungarnir voru þagmælskir og hann gat talað við þá í trúnaði.

11. Hvernig getum við verið traustir vinir?

11 Til að vera traustir vinir þurfum við að vera þolinmóð. Þegar eiginmaður Zhönnu fór frá henni fannst henni hughreystandi að segja nánum vinum frá líðan sinni. „Þau hlustuðu þolinmóð á mig,“ segir hún, „þó að ég hafi sennilega sagt það sama aftur og aftur.“ Þú getur líka reynst góður vinur með því að vera góður áheyrandi.

HJÁLPFÚS EINS OG MARKÚS

Páll þraukaði með hjálp Markúsar og við getum sömuleiðis hjálpað trúsystkinum okkar á raunastund. (Sjá 12.–14. grein.) *

12. Hver var Markús og hvernig reyndist hann fús til að aðstoða?

12 Markús var kristinn Gyðingur frá Jerúsalem. Barnabas frændi hans var trúboði sem margir könnuðust við. (Kól. 4:10) Fjölskylda Markúsar virðist hafa verið efnuð en efnislegir hlutir skipuðu þó ekki fyrsta sæti í lífi hans. Markús var hjálpfús maður alla ævi og var alltaf tilbúinn að þjóna öðrum. Hann starfaði á ýmsum tímum með bæði Páli postula og Pétri þegar þeir sinntu verkefnum sínum á vegum safnaðarins. Hugsanlegt er að Markús hafi séð um matarinnkaup fyrir þá, útvegað húsnæði og annað af því tagi. (Post. 13:2–5; 1. Pét. 5:13) Páll kallar hann ,samstarfsmann sinn fyrir ríki Guðs‘ og segir að hann hafi ,verið sér mikill styrkur‘. – Kól. 4:10, 11, neðanmáls.

13. Hvernig má sjá af 2. Tímóteusarbréfi 4:11 að Páll kunni að meta dyggilega aðstoð Markúsar?

13 Markús varð náinn vinur Páls. Þegar Páll var fangi í Róm í seinna skiptið, um árið 65, skrifaði hann síðara bréfið til Tímóteusar. Þar biður hann Tímóteus að koma til Rómar og taka Markús með sér. (2. Tím. 4:11) Páll kunni eflaust að meta hvernig Markús hafði aðstoðað hann áður og biður hann því að koma á þessari ögurstund. Markús aðstoðaði Pál á ýmsa vegu. Ef til vill hefur hann útvegað honum mat og ritföng. Þessi stuðningur og hvatning hefur líklega hjálpað Páli að þrauka síðustu dagana áður en hann var líflátinn.

14, 15. Hvað segir í Matteusi 7:12 og hvernig hjálpar það okkur að sjá hvernig við getum aðstoðað aðra?

14 Lestu Matteus 7:12Við kunnum sannarlega að meta aðstoð annarra  þegar mikið bjátar á. „Margir hversdagslegir hlutir virðast ógerlegir þegar maður er í sárum,“ segir Ryan en faðir hans dó óvænt í hörmulegu slysi. „Það er mjög hughreystandi að fá aðstoð, jafnvel við eitthvað smávægilegt.“

15 Ef við erum vakandi fyrir þörfum annarra komum við sennilega auga á leiðir til að hjálpa þeim. Systir nokkur átti frumkvæðið að því að aðstoða Peter og Kathryn sem áður er getið að komast til læknis. Þau voru ekki lengur fær um að aka bíl svo að systirin gerði lista yfir læknisheimsóknirnar þannig að bræður og systur gætu skipst á að keyra þau milli staða. Skipti þetta máli fyrir þau? „Okkur fannst þungri byrði af okkur létt,“ segir Kathryn. Vanmetum aldrei hve hughreystandi það getur verið fyrir fólk að fá jafnvel smávægilega aðstoð frá okkur.

16. Hvað getum við lært af Markúsi um að hughreysta aðra?

16 Lærisveinninn Markús hafði meira en nóg á sinni könnu. Hann fékk mikilvæg verkefni í þjónustu Jehóva, meðal annars að skrifa guðspjallið sem er nefnt eftir honum. Hann gaf sér samt tíma til að hughreysta Pál og Páll var ófeiminn að biðja hann að aðstoða sig. Angela varð fyrir því áfalli að náinn ættingi var myrtur. Það var henni mikils virði að þeir sem hughreystu hana skyldu vera hjálpfúsir. „Það er auðvelt að tala við vini sem vilja hjálpa manni,“ segir hún. „Þeir virka ekki tregir til eða hikandi.“ Við getum spurt okkur hvort við séum þekkt fyrir að vera tilbúin til að hughreysta trúsystkini og hjálpa þeim.

LEGGJUM OKKUR FRAM UM AÐ HUGHREYSTA AÐRA

17. Hvernig getur 2. Korintubréf 1:3, 4 verið okkur hvatning til að hughreysta aðra?

17 Það er enginn vandi að finna bræður og systur sem þarfnast hughreystingar. Kannski getum við jafnvel sagt þeim frá einhverju sem aðrir hafa sagt til að hughreysta okkur. Nino sagði eftir að hún missti ömmu sína: „Jehóva getur  látið okkur hughreysta aðra ef við leyfum honum nota okkur til þess.“ (Lestu 2. Korintubréf 1:3, 4.) Frances sem áður er getið segir: „Það er mikill sannleikur í 2. Korintubréfi 1:4. Við getum hughreyst aðra með því sem hefur hughreyst okkur.“

18. (a) Hvers vegna eru sumir hikandi við að hughreysta aðra? (b) Hvernig getum við hughreyst aðra? Nefndu dæmi.

18 Við þurfum að leita leiða til að aðstoða aðra þó að það geti reynt á. Okkur gæti til dæmis fundist erfitt að vita hvað við eigum að segja eða gera fyrir þann sem hefur orðið fyrir áfalli. Öldungur sem heitir Paul minnist þess hvernig sumir reyndu sitt besta eftir að hann missti föður sinn. „Ég fann að þeir áttu ekki auðvelt með að koma og tala við mig,“ segir hann. „Þeir vissu ekki hvað þeir áttu að segja. En ég var þakklátur fyrir að þeir skyldu vilja styðja mig og hughreysta.“ Bróðir sem heitir Tajon upplifði öflugan jarðskjálfta. Hann segir: „Ég man hreinlega ekki eftir öllum skilaboðunum sem ég fékk dagana eftir jarðskjálftann en hitt man ég að fólki var nógu annt um mig til að athuga hvort ég væri óhultur.“ Við getum hughreyst aðra með því að sýna að okkur sé annt um þá.

19. Hvers vegna ættum við að leggja okkur fram um að vera öðrum „til mikillar hughreystingar“?

19 Endalok þessa heimskerfis eru nærri og því er viðbúið að ástandið versni og lífið verði erfiðara. (2. Tím. 3:13) Auk þess gerum við sjálf ýmis mistök vegna þess að við erum ófullkomin og þess vegna þurfum við á hughreystingu að halda. Páll postuli var trúfastur allt til dauðadags, meðal annars vegna þess að trúsystkini hans hughreystu hann. Við skulum vera trygg eins og Aristarkus, traust eins og Týkíkus og hjálpfús eins og Markús. Þá getum við hjálpað bræðrum okkar og systrum að vera staðföst í trúnni. – 1. Þess. 3:2, 3.

^ gr. 5 Páll postuli lenti í margs konar erfiðleikum á lífsleiðinni. Sumir samstarfsmenn hans voru honum til mikillar hughreystingar þegar á reyndi. Í greininni er bent á þrjá eiginleika sem gerðu þeim kleift að vera mjög hughreystandi. Við skoðum einnig hvernig við getum líkt eftir þeim þegar við aðstoðum aðra.

^ gr. 5 Sumum nöfnum í þessari grein er breytt.

SÖNGUR 111 Gleðjumst og fögnum

^ gr. 56 MYND: Aristarkus og Páll lentu í sjávarháska.

^ gr. 58 MYND: Týkíkusi var trúað fyrir því að fara með bréf Páls til safnaðanna.

^ gr. 60 MYND: Markús aðstoðaði Pál á ýmsa vegu.