Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 NÁMSGREIN 1

„Vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð“

„Vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð“

„Óttast eigi því að ég er með þér, vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér.“ – JES. 41:10.

SÖNGUR 7 Jehóva er styrkur okkar

YFIRLIT *

1-2. (a) Hvaða áhrif hafði Jesaja 41:10 á systur að nafni Yoshiko? (b) Hverjir geta haft gagn af orðunum sem Jehóva lét varðveita?

TRÚFÖST systir, sem heitir Yoshiko, fékk slæmar fréttir. Læknirinn hennar sagði að hún ætti aðeins fáeina mánuði eftir ólifaða. Hvernig brást hún við? Yoshiko fór að hugsa um eitt uppáhaldsversið sitt, Jesaja 41:10. (Lestu.) Hún hélt ró sinni og sagði síðan lækninum að hún væri ekki hrædd vegna þess að Jehóva héldi í hönd hennar. * Þessi kæra systir okkar fann hughreystingu í þessum orðum og hjálp til að treysta Jehóva fullkomlega. Þetta vers getur einnig hjálpað okkur að vera róleg þegar við stöndum frammi fyrir miklum prófraunum. Til að skilja hvernig það er hægt skulum við athuga hvers vegna Guð sagði þetta við Jesaja.

2 Jehóva fól Jesaja að skrifa þessi orð til að hugga Gyðingana sem áttu eftir að verða fluttir í útlegð til Babýlonar. En Jehóva lét ekki varðveita orðin aðeins fyrir Gyðingana í útlegðinni heldur fyrir alla þjóna sína eftir þann tíma. (Jes. 40:8; Rómv. 15:4) Við lifum núna á ,örðugum tíðum‘ og þurfum þess vegna meira en nokkru sinni fyrr á þeirri uppörvun að halda sem við finnum í Jesajabók. – 2. Tím. 3:1.

3. (a) Hvaða loforð er að finna í Jesaja 41:10? (b) Hvers vegna þurfum við að treysta þessum loforðum?

3 Í þessari grein beinum við huganum að þrem trústyrkjandi loforðum Jehóva í Jesaja 41:10, sem er árstextinn  2019: (1) Jehóva er með okkur, (2) hann er okkar Guð og (3) hann hjálpar okkur. Við þurfum að vera fullviss * um þetta vegna þess að við mætum prófraunum rétt eins og Yoshiko. Við þurfum líka að standast þrýsting frá heiminum. Sum okkar þurfa jafnvel að þola ofsóknir af hendi voldugra ríkisstjórna. Skoðum nú þessi þrjú loforð hvert fyrir sig.

„ÉG ER MEÐ ÞÉR“

4. (a) Hvaða loforð skoðum við fyrst? (Sjá einnig neðanmálsgrein.) (b) Hvernig tjáir Jehóva tilfinningar sínar í okkar garð? (c) Hvaða áhrif hafa orð Jehóva á þig?

4 Fyrst gefur Jehóva okkur eftirfarandi loforð: „Óttast eigi því að ég er með þér.“ * Jehóva sýnir að hann er með okkur með því að veita okkur óskipta athygli og láta sér innilega annt um okkur. Taktu eftir hvernig hann tjáir blíðar og sterkar tilfinningar sínar í okkar garð. „Þú ert dýrmætur í augum mínum, mikils metinn og ég elska þig,“ segir Jehóva. (Jes. 43:4) Ekkert afl í alheiminum getur fengið Jehóva til að hætta að elska þá sem þjóna honum. Trúfesti hans er óhagganleg. (Jes. 54:10) Kærleikur hans og vinátta fyllir okkur hugrekki. Hann verndar okkur núna eins og hann verndaði Abram (Abraham), vin sinn. Jehóva sagði við hann: „Óttast þú ekki, Abram. Ég er skjöldur þinn.“ – 1. Mós. 15:1.

Með hjálp Jehóva getum við tekist á við allar eldraunir og stormasöm tímabil í lífi okkar. (Sjá 5. og 6. grein.) *

5-6. (a) Hvernig vitum við að Jehóva langar til að hjálpa okkur þegar við glímum við erfiðleika? (b) Hvað getum við lært af reynslu Yoshiko?

5 Við vitum að Jehóva langar til að hjálpa okkur þegar við glímum við erfiðleika vegna þess að hann lofar þjónum sínum: „Gangir þú gegnum vötnin er ég með þér, gegnum vatnsföllin, þá flæða þau ekki yfir þig. Gangir þú gegnum eld skalt þú ekki brenna þig og loginn mun ekki granda þér.“ (Jes. 43:2) Hvað merkir þetta loforð Jehóva?

6 Jehóva lofar ekki að taka burt erfiðleika lífsins en hann leyfir hins vegar  ekki að við drukknum í ,vatnsföllum‘ vandamála eða að eldraunir skaði okkur varanlega. Hann lofar að vera með okkur með því að hjálpa okkur að ,ganga gegnum‘ erfiðleikana. Hvernig gerir hann það? Hann hjálpar okkur að sefa ótta okkar svo að við getum verið honum trúföst, jafnvel þótt við stöndum andspænis dauðanum. (Jes. 41:13) Yoshiko, sem áður var minnst á, komst að raun um það. Dóttir hennar segir: „Það snerti okkur mjög að sjá hve róleg mamma var. Jehóva gaf henni augljóslega innri frið. Mamma talaði við hjúkrunarfræðinga og sjúklinga um Jehóva og loforð hans alveg þangað til hún dó.“ Hvað lærum við af reynslu Yoshiko? Þegar við treystum á loforð Jehóva, „ég er með þér“, verðum við hugrökk og sterk í prófraunum.

„ÉG ER ÞINN GUГ

7-8. (a) Hvert er annað loforðið sem við munum skoða og hvað felur það í sér? (b) Hvers vegna sagði Jehóva við Gyðinga í útlegðinni: „Vertu ekki hræddur“? (c) Hvernig sefuðu orðin í Jesaja 46:3, 4 hjörtu þjóna Guðs?

7 Skoðum annað loforðið sem Jesaja færði í letur: „Vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð.“ Hvað er átt við með orðinu „hræddur“? „Hræddur“ er þýðing á frummálsorði sem ber með sér hugmyndina að „líta um öxl af ótta við aðsteðjandi ógn“ eða að „líta stöðugt í kringum sig eins og sá gerir sem er í mikilli hættu“.

8 Af hverju sagði Jehóva Gyðingunum, sem áttu eftir að verða útlagar í Babýlon, að vera ekki hræddir? Hann vissi að íbúar landsins áttu eftir að finna til ótta. Hvað myndi valda þessum ótta? Undir lok 70 ára útlegðar Gyðinga myndu öflugir herir Meda og Persa ráðast á Babýlon. Jehóva átti eftir að nota þennan her til að frelsa þjóð sína úr ánauð í Babýlon. (Jes. 41:2-4) Þegar Babýloníumenn og fólk af öðrum þjóðum vissu að óvinir nálguðust reyndu þeir að varðveita hugrekkið með því að segja hver við annan: „Vertu hughraustur.“ Þeir bjuggu líka til fleiri skurðgoð sem þeir vonuðust til að myndu vernda þá. (Jes. 41:5-7) En Jehóva sefaði hjörtu útlaganna því að hann hafði sagt: „Þú, Ísrael [ekki hinar þjóðirnar], þjónn minn ... vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð.“ (Jes. 41:8-10) Taktu eftir að Jehóva sagði: „Ég er þinn Guð.“ Með þessum orðum fullvissaði Jehóva trúfasta tilbiðjendur sína um að hann hafði ekki gleymt þeim – hann var enn Guð þeirra og þeir voru enn þjóð hans. Hann sagði við þá: „Ég mun bera yður og frelsa.“ Þessi hughreystandi orð styrktu án efa Gyðinga í útlegðinni. – Lestu Jesaja 46:3, 4.

9-10. Hvers vegna þurfum við ekki að vera hrædd? Lýstu með dæmi.

9 Fólk hefur í meiri mæli en nokkru sinni fyrr áhyggjur af versnandi heimsástandi. Við verðum að sjálfsögðu líka fyrir áhrifum af því. En við þurfum ekki að vera hrædd. Jehóva segir við okkur: „Ég er þinn Guð.“ Hvernig gefa þessi orð okkur góða ástæðu til að vera óhrædd?

10 Tökum dæmi: Jón og Benjamín eru farþegar í flugvél sem kastast til og frá í sterkum vindi. Þá heyrist rödd úr hátalarakerfinu: „Hafið sætisólar spenntar. Það verður ókyrrð um tíma.“ Jón verður mjög áhyggjufullur. En þá bætir flugstjórinn við: „Þetta er flugstjórinn sem talar. Verið ekki hrædd.“ Jón hristir höfuðið  og segir: „Ekki hjálpar það nú mikið.“ En hann tekur eftir að Benjamín er sallarólegur. Jón spyr hann: „Af hverju ertu svona rólegur?“ Benjamín brosir og segir: „Ég þekki flugstjórann mjög vel. Hann er pabbi minn.“ Síðan segir hann: „Mig langar til að segja þér frá honum. Ég er viss um að þú verður líka rólegur þegar þú heyrir hversu fær og reyndur flugmaður hann er.“

11. Hvað getum við lært af dæminu um farþegana tvo?

11 Hvað lærum við af þessu dæmi? Við erum róleg eins og Benjamín vegna þess að við þekkjum Jehóva, himneskan föður okkar, mjög vel. Við vitum að hann leiðbeinir okkur og varðveitir þegar við eigum við stormasöm vandamál að glíma núna á síðustu dögum þessa heims. (Jes. 35:4) Við getum haldið ró okkar þótt heimurinn sé gagntekinn af ótta vegna þess að við treystum á Jehóva. (Jes. 30:15) Líkt og Benjamín segjum við fólki frá ástæðunum sem við höfum til að treysta á Guð. Þá fær það líka möguleika á að sannfærast um að Jehóva styðji það, sama hvað á dynur.

„ÉG STYRKI ÞIG, ÉG HJÁLPA ÞÉR“

12. (a) Hvert er þriðja loforðið sem við munum skoða? (b) Hvað segir það okkur að talað skuli vera um ,arm Jehóva‘?

12 Skoðum þá þriðja loforðið sem Jesaja skráði: „Ég styrki þig, ég hjálpa þér.“ Jesaja hafði þegar lýst því hvernig Jehóva myndi styrkja þjóð sína: „Guð yðar kemur í mætti og ríkir með máttugum armi.“ (Jes. 40:10) Í Biblíunni táknar „armur“ oft mátt. Þegar sagt er að Jehóva ,ríki með máttugum armi‘ minnir það okkur á að hann er voldugur konungur. Hann notaði óviðjafnanlegan mátt sinn til að styðja og verja þjóna sína  til forna og hann styrkir líka og verndar þá sem treysta á hann nú á dögum. – 5. Mós. 1:30, 31; Jes. 43:10.

Ekkert vopn getur reynst sigursælt gegn máttugum verndararmi Jehóva. (Sjá 12.-16. grein.) *

13. (a) Við hvaða aðstæður eiga orðin „ég styrki þig“ sérstaklega við? (b) Hvaða loforð fyllir okkur trausti og fullvissu?

13 Jehóva heldur alltaf loforð sitt: „Ég styrki þig.“ Það á ekki síst við þegar óvinir ofsækja okkur. Sums staðar í heiminum reyna óvinir okkar eftir fremsta megni að stöðva boðunina eða banna starfsemi safnaðarins. En við höfum ekki of miklar áhyggjur af slíkum árásum. Jehóva hefur gefið okkur loforð sem fyllir okkur trausti og fullvissu. Hann lofar: „Ekkert vopn, sem smíðað verður gegn þér, skal reynast sigursælt.“ (Jes. 54:17) Þetta minnir okkur á þrennt.

14. Af hverju kemur það okkur ekki á óvart að óvinir Guðs ráðist á okkur?

14 Í fyrsta lagi gerum við ráð fyrir að vera hötuð vegna þess að við erum fylgjendur Krists. (Matt. 10:22) Jesús sagði fyrir að lærisveinar sínir yrðu fyrir hörðum ofsóknum á síðustu dögum. (Matt. 24:9; Jóh. 15:20) Í öðru lagi vekur spádómur Jesaja athygli okkar á að óvinir muni ekki aðeins hata okkur heldur líka beita ýmiss konar vopnum gegn okkur. Meðal þessara vopna eru lævísar blekkingar, hreinar lygar og grimmilegar ofsóknir. (Matt. 5:11) Jehóva hindrar ekki óvini okkar í að nota þessi vopn þegar þeir berjast gegn okkur. (Ef. 6:12; Opinb. 12:17) En við þurfum ekki að óttast. Hvers vegna ekki?

15-16. (a) Hver er þriðji þátturinn sem við þurfum að hafa í huga, samanber Jesaja 25:4, 5? (b) Hvernig er örlögum þeirra sem berjast gegn okkur lýst í Jesaja 41:11, 12?

15 Skoðum þriðja þáttinn sem við þurfum að hafa í huga. Jehóva sagði að „ekkert vopn“, sem yrði notað gegn okkur, myndi „reynast sigursælt“. Jehóva verndar okkur gegn ,anda ofríkismanna‘ rétt eins og veggur verndar okkur gegn  hættulegu slagveðri. (Lestu Jesaja 25:4, 5.) Óvinum okkar tekst aldrei að valda okkur varanlegum skaða. – Jes. 65:17.

16 Jehóva styrkir traust okkar til hans enn frekar með því að lýsa nákvæmlega hvernig fer fyrir þeim sem ,fyllast heift‘ gegn okkur. (Lestu Jesaja 41:11, 12.) Það breytir engu hversu hatrammlega óvinir okkar berjast gegn okkur eða hve heiftarlegt stríðið verður – allir óvinir þjóna Guðs „verða að engu og farast“.

STYRKJUM TRAUST OKKAR Á JEHÓVA

Við getum styrkt traust okkar á Jehóva með því að lesa reglulega um hann í Biblíunni. (Sjá 17. og 18. grein.) *

17-18. (a) Hvernig getur biblíulestur styrkt traust okkar á Jehóva? Lýstu með dæmi. (b) Hvers vegna er gagnlegt að hugleiða árstextann 2019?

17 Við styrkjum traust okkar á Jehóva með því að kynnast honum betur. Og eina leiðin til að kynnast honum vel er að lesa vandlega í Biblíunni og hugleiða það sem við lesum. Í Biblíunni má finna áreiðanlegar frásögur af því hvernig Jehóva verndaði þjóna sína til forna. Þessar frásögur fullvissa okkur um að Jehóva annist okkur líka.

18 Skoðum myndmál sem Jesaja notar til að lýsa því hvernig Jehóva verndar okkur. Hann lýsir Jehóva sem hirði og þjónum hans sem sauðum. Jesaja segir að Jehóva ,taki unglömbin í faðm sér og beri þau í fangi sínu‘. (Jes. 40:11) Við finnum vernd og erum róleg í faðmi hans. Til að hjálpa okkur að halda ró okkar þegar við stöndum frammi fyrir erfiðleikum hefur hinn trúi og hyggni þjónn valið Jesaja 41:10 sem árstextann 2019: „Vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð.“ Hugleiddu þessi hughreystandi orð. Þau munu styrkja þig í þeim erfiðleikum sem þú átt eftir að standa frammi fyrir.

SÖNGUR 38 Hann mun styrkja þig

^ gr. 5 Árstextinn 2019 gefur okkur þrjár ástæður fyrir því að halda rónni þegar slæmir atburðir gerast í heiminum eða í okkar eigin lífi. Í greininni skoðum við þessar ástæður. Það hjálpar okkur að draga úr ótta og eykur traust okkar á Jehóva. Hugleiddu árstextann. Leggðu hann á minnið ef þú getur. Það mun styrkja þig í þeim erfiðleikum sem eru fram undan.

^ gr. 3 ORÐASKÝRING: Fullvissa byggist á áreiðanlegu loforði um eitthvað sem á eftir að gerast. Þegar við erum fullviss um að loforð Jehóva rætast getur það dregið úr áhyggjum okkar.

^ gr. 4 NEÐANMÁLS: Orðin „óttast eigi“ koma fyrir þrisvar í Jesaja 41:10, 13 og 14. Í sömu versum er oft notað orðið „ég“ og er þá átt við Jehóva. Hvers vegna innblés Jehóva Jesaja að nota orðið „ég“ svona oft? Til að undirstrika mikilvæg sannindi – við getum aðeins unnið bug á ótta ef við treystum á Jehóva.

^ gr. 52 Mynd: Fjölskylda tekst á við heilsuvandamál og prófraunir í vinnunni, boðuninni og skólanum.

^ gr. 54 Mynd: Lögreglumenn ráðast inn á heimili þar sem vottar Jehóva halda samkomu. Bræður okkar og systur halda þó ró sinni.

^ gr. 56 Mynd: Að halda tilbeiðslustund fjölskyldunnar reglulega hjálpar okkur að vera þolgóð.