Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 NÁMSGREIN 4

Það sem einföld máltíð kennir okkur um himneskan konung

Það sem einföld máltíð kennir okkur um himneskan konung

„Þetta er líkami minn ... Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans.“ – MATT. 26:26-28.

SÖNGUR 16 Hyllum Jehóva fyrir smurðan son hans

YFIRLIT *

1-2. (a) Hvers vegna ætti það ekki að koma okkur á óvart að Jesús skyldi sjá okkur fyrir einfaldri leið til að minnast dauða síns? (b) Hvaða eiginleika Jesú skoðum við?

GETURÐU lýst því hvernig árleg minningarhátíð um dauða Krists fer fram? Flest okkar geta eflaust í stórum dráttum lýst kvöldmáltíð Drottins. Hvers vegna? Vegna þess að hún er svo einföld. En þetta er samt sem áður þýðingarmikill viðburður. Við gætum því spurt okkur hvers vegna hann sé svo fábrotinn.

2 Þegar Jesús var hér á jörð var hann þekktur fyrir að kenna mikilvæg sannindi á einfaldan, skýran og auðskilinn hátt. (Matt. 7:28, 29) Hann sá okkur fyrir einfaldri en þýðingarmikilli leið til að minnast * dauða síns. Skoðum nánar þessa kvöldmáltíð og sumt af því sem Jesús sagði og gerði. Þá skiljum við betur hversu hógvær, hugrakkur og kærleiksríkur Jesús er og lærum hvernig við getum líkt enn betur eftir honum.

JESÚS ER HÓGVÆR

Brauðið og vínið á minningarhátíðinni minna okkur á að Jesús fórnaði lífi sínu fyrir okkur og að hann ríkir núna sem konungur á himnum. (Sjá 3.-5. grein.)

3. Hversu einföld var minningarhátíðin sem Jesús innleiddi og sagt er frá í Matteusi 26:26-28 og hvað táknuðu brauðið og vínið?

3 Jesús innleiddi minningarhátíðina um dauða sinn í viðurvist 11 trúfastra postula sinna. Við þessa einföldu minningarathöfn notaði hann það sem eftir var af páskamáltíðinni. (Lestu Matteus 26:26-28.) Hann notaði einfaldlega ósýrða brauðið og vínið sem hann hafði við  höndina. Jesús sagði postulunum að þetta tvennt táknaði fullkominn líkama sinn og blóð sem hann myndi brátt fórna í þeirra þágu. Líklega kom það postulunum ekkert á óvart hversu einföld þessi athöfn var. Af hverju ekki?

4. Hvernig hjálpa ráðin, sem Jesús gaf Mörtu, okkur að skilja hvers vegna Jesús hafði minningarmáltíðina einfalda?

4 Íhugum nokkuð sem gerðist nokkrum mánuðum áður, á þriðja þjónustuári Jesú. Hann heimsótti nána vini sína, þau Lasarus, Mörtu og Maríu. Við þessar afslöppuðu aðstæður fór Jesús að kenna. Marta var viðstödd en hún var upptekin við að útbúa stóra máltíð fyrir heiðursgestinn. Þegar Jesús tók eftir þessu leiðrétti hann Mörtu vingjarnlega og hjálpaði henni að skilja að flókin máltíð væri ekki alltaf nauðsynleg. (Lúk. 10:40-42) Og nokkrum klukkustundum áður en Jesús dó fórnardauða fór hann eftir eigin ráðum. Hann hafði minningarmáltíðina einfalda. Hvað segir það okkur um Jesú?

5. Hvað segir einfaldleiki máltíðarinnar okkur um Jesú og hvernig sýnir Filippíbréfið 2:5-8 það sama?

5 Jesús var hógvær í öllu sem hann sagði og gerði. Það kemur því ekki á óvart að hann skyldi sýna mikla hógværð síðasta kvöld sitt sem maður á jörðinni. (Matt. 11:29) Hann vissi að hann var um það bil að færa stærstu fórn í sögu mannkyns og að Jehóva myndi reisa hann upp til hárrar stöðu á himnum. En hann dró samt ekki óhóflega athygli að sjálfum sér með því að fara fram á að dauða hans yrði minnst með margbrotinni athöfn. Hann sagði postulunum öllu heldur að þeir ættu að minnast hans árlega með þessari einföldu máltíð. (Jóh. 13:15; 1. Kor. 11:23-25) Þessi einfalda en viðeigandi máltíð sýnir að Jesús var ekki stoltur maður. Við getum glaðst yfir því að hógværð er einn mest áberandi eiginleiki konungs okkar á himnum. – Lestu Filippíbréfið 2:5-8.

6. Hvernig getum við líkt eftir hógværð Jesú þegar við verðum fyrir prófraunum?

6 Hvernig getum við líkt eftir hógværð Jesú? Með því að setja þarfir annarra framar okkar eigin. (Fil. 2:3, 4) Lítum aftur á síðasta kvöld Jesú sem maður á jörðinni. Jesús vissi að hann myndi bráðlega deyja kvalafullum dauðdaga en honum var mjög umhugað um trúfasta postula sína sem myndu bráðlega syrgja hann. Hann  notaði því síðasta kvöldið til að leiðbeina þeim, hvetja þá og hughreysta. (Jóh. 14:25-31) Í hógværð sinni hugsaði Jesús meira um velferð annarra en sína eigin. Hann er okkur sannarlega góð fyrirmynd.

JESÚS ER HUGRAKKUR

7. Hvernig sýndi Jesús mikið hugrekki rétt eftir að hann innleiddi kvöldmáltíð Drottins?

7 Rétt eftir að Jesús innleiddi kvöldmáltíð Drottins sýndi hann gríðarlegt hugrekki. Hvernig? Hann varð við vilja föður síns, jafnvel þótt hann vissi að hann yrði ákærður fyrir guðlast, sem var skammarlegur glæpur, og líflátinn. (Matt. 26:65, 66; Lúk. 22:41, 42) Jesús varðveitti fullkomna ráðvendni til að heiðra nafn Jehóva, styðja drottinvald hans og gera iðrandi mönnum kleift að hljóta eilíft líf. Jesús bjó fylgjendur sína einnig undir það sem þeir þyrftu bráðlega að þola.

8. (a) Hvað sagði Jesús trúföstum postulum sínum? (b) Hvernig fylgdu lærisveinar Jesú fordæmi hans um hugrekki árin eftir að hann dó?

8 Jesús sýndi einnig hugrekki með því að einbeita sér að þörfum trúfastra postula sinna í stað þess að hugsa um þær áhyggjur sem hann kann að hafa haft. Hann innleiddi einfalda máltíð eftir að hann lét Júdas fara. Hún myndi minna þá sem yrðu andasmurðir fylgjendur hans á hvaða gagn úthellt blóð hans og hlutdeild þeirra í nýja sáttmálanum gerði. (1. Kor. 10:16, 17) Jesús sagði fylgjendum sínum til hvers hann og faðir hans ætluðust af þeim. Það hjálpaði þeim að standa trúfastir og fá að vera með honum á himnum. (Jóh. 15:12-15) Jesús sagði postulunum líka frá þeim prófraunum sem þeir ættu eftir að þola.  Síðan benti hann þeim á fordæmi sitt og hvatti þá: „Verið hughraustir.“ (Jóh. 16:1-4a, 33) Mörgum árum seinna fylgdu lærisveinar Jesú enn fórnfúsu fordæmi hans og voru hugrakkir. Þeir studdu hver annan í ýmsum prófraunum, jafnvel þó að það kostaði þá mikið. – Hebr. 10:33, 34.

9. Hvernig getum við líkt eftir fordæmi Jesú og sýnt hugrekki?

9 Nú á dögum fylgjum við einnig fordæmi Jesú um hugrekki. Það kostar til dæmis hugrekki að aðstoða trúsystkini okkar sem eru ofsótt vegna trúarinnar. Trúsystkini okkar eru stundum hneppt í fangelsi fyrir rangar sakir. Þá verðum við að gera allt sem við getum fyrir þau, þar á meðal að tala máli þeirra. (Fil. 1:14; Hebr. 13:19) Önnur leið til að sýna hugrekki er að halda áfram að boða trúna „djarflega“. (Post. 14:3, Biblían 1981) Við erum staðráðin í að boða boðskapinn um ríki Guðs, eins og Jesús, þrátt fyrir mótlæti og ofsóknir. Okkur getur samt stundum skort hugrekki. Hvað getum við þá gert?

10. Hvað ættum við að gera vikurnar fyrir minningarhátíðina og hvers vegna?

10 Við getum eflt hugrekki okkar með því að hugleiða vonina sem lausnarfórn Krists gefur okkur. (Jóh. 3:16; Ef. 1:7) Vikurnar fyrir minningarhátíðina höfum við sérstakt tækifæri til að byggja upp þakklæti okkar fyrir lausnargjaldið. Fylgdu biblíulestraráætluninni fyrir minningarhátíðina og hugleiddu í bænarhug atburðina sem gerðust í kringum dauða Jesú. Ef við gerum það skiljum við betur merkingu brauðsins og vínsins – og þeirrar einstöku fórnar sem þau tákna – þegar við verðum viðstödd kvöldmáltíð Drottins. Von okkar styrkist  þegar við skiljum hvað Jesús og Jehóva hafa gert fyrir okkur og hvernig það gagnast okkur og ástvinum okkar. Það hvetur okkur til að halda hugrökk út allt til enda. – Hebr. 12:3.

11-12. Hvað höfum við lært hingað til?

11 Hingað til höfum við lært að kvöldmáltíð Drottins minnir okkur ekki aðeins á dýrmætt lausnargjaldið heldur einnig á hógværð og hugrekki Jesú. Við megum vera innilega þakkát fyrir að Jesús skuli halda áfram að sýna þessa eiginleika sem himneskur æðstiprestur okkar og málsvari. (Hebr. 7:24, 25) Til að sýna þakklæti okkar verðum við að fylgja boði Jesú og minnast dauða hans trúfastlega. (Lúk. 22:19, 20) Við gerum það á þeim degi sem samsvarar 14. nísan – mikilvægasta degi ársins.

12 Við lærum ýmislegt um annan eiginleika Jesú af því hve einföld síðasta kvöldmáltíðin var. Vegna þessa eiginleika var hann fús til að deyja fyrir okkur. Hann var þekktur fyrir þennan eiginleika þegar hann var maður á jörðinni. Hvaða eiginleiki er það?

JESÚS ER KÆRLEIKSRÍKUR

13. Hvernig lýsa Jóhannes 15:9 og 1. Jóhannesarbréf 4:8-10 kærleika Jehóva og Jesú, og hverjir njóta góðs af kærleika þeirra?

13 Jesús endurspeglaði fullkomlega kærleika Jehóva til okkar í öllu sem hann gerði. (Lestu Jóhannes 15:9; 1. Jóhannesarbréf 4:8-10.) Og umfram allt var hann fús til að gefa líf sitt í okkar þágu. Hvort sem við erum af hinum andasmurðu eða ,öðrum sauðum‘ njótum við góðs af kærleikanum sem Jehóva og sonur hans sýndu okkur með þessari fórn. (Jóh. 10:16; 1. Jóh. 2:2) Hugleiðum einnig hvernig brauðið og vínið á minningarhátíðinni bera vitni um kærleika og tillitssemi Jesú við lærisveina sína.

Í kærleika sínum innleiddi Jesús minningarhátíð sem var nógu einföld til að hægt væri að halda hana í margar aldir og við ýmsar aðstæður. (Sjá 14.-16. grein.) *

14. Hvernig sýndi Jesús lærisveinum sínum kærleika?

14 Jesús sýndi andasmurðum fylgjendum sínum kærleika með því að innleiða einfalda máltíð í stað þess að ætla þeim að fara eftir flóknum helgisiðum til að minnast dauða hans. Andasmurðir lærisveinar hans myndu halda minningarhátíðina árlega og þyrftu að gera það við ýmsar aðstæður, þar á meðal í fangelsum. (Opinb. 2:10) Hafa þeir getað hlýtt boði Jesú? Já, svo sannarlega.

15-16. Nefndu dæmi um þjóna Guðs sem hafa haldið kvöldmáltíð Drottins við erfiðar aðstæður.

15 Allt fram á okkar tíma hafa sannkristnir menn lagt sig fram um að minnast dauða Jesú. Þeir hafa fylgt forskrift Jesú um kvöldmáltíð Drottins eftir bestu getu, stundum við mjög erfiðar aðstæður. Hugleiðum eftirfarandi dæmi. Þegar bróðir Harold King var í einangrun í kínversku fangelsi þurfti hann að finna leið til að halda minningarhátíðina. Hann notaði það sem hann hafði til að undirbúa brauðið og vínið og reiknaði út dagsetninguna fyrir minningarhátíðina eins vel og hann gat. Þegar kominn var tími til að halda minningarhátíðina söng hann, fór með bæn og hélt fyrirlestur einn í klefanum sínum.

16 Annað dæmi er um hóp systra sem voru í fangabúðum í síðari heimsstyrjöldinni. Þær hættu lífinu til að halda kvöldmáltíð Drottins. En vegna þess hve einföld hún er gátu þær haldið hana í laumi. Þær sögðu: „Við stóðum þétt saman í hring og í miðjunni var brauðið og  vínið á fótskemli með hvítum dúk. Kerti lýsti upp herbergið þar sem rafmagnsljós hefði getað komið upp um okkur ... Við endurnýjuðum heitin við föður okkar um að nota allan okkar styrk til að verja heilagt nafn hans.“ Þær sýndu einstaka trú! Og Jesús sýndi sannarlega mikinn kærleika með því að gera okkur kleift að halda minningarhátíðina, jafnvel við mjög erfiðar aðstæður.

17. Hvaða spurninga er gott að spyrja sig?

17 Þegar nær dregur minningarhátíðinni er gott að spyrja sig: „Hvernig get ég líkt betur eftir kærleika Jesú? Hugsa ég meira um þarfir trúsystkina minna en mínar eigin? Ætlast ég til meira af trúsystkinum mínum en þau eru fær um eða geri ég mér grein fyrir takmörkum þeirra?“ Líkjum alltaf eftir Jesú og verum „hluttekningarsöm“. – 1. Pét. 3:8.

HAFÐU KENNSLUNA SKÝRT Í HUGA

18-19. (a) Hvað getum við verið viss um? (b) Hvað ætlar þú að gera?

18 Það er ekki ætlast til að við höldum minningarhátíðina um dauða Krists mikið lengur. Þegar Jesús „kemur“ í þrengingunni miklu mun hann safna saman til himna þeim sem eftir eru af „hans útvöldu“ og minningarhátíðin verður ekki lengur haldin. – 1. Kor. 11:26; Matt. 24:31.

19 Við getum verið viss um að þjónar Jehóva gleyma ekki þessari einföldu kvöldmáltíð, jafnvel þegar minningarhátíðin verður ekki lengur haldin. Þeir muna eftir henni og tengja hana við mestu hógværð, hugrekki og kærleika sem nokkur maður á jörðinni hefur sýnt. Þeir sem hafa verið viðstaddir þessa einstöku hátíð munu án efa segja frá henni og það mun gagnast öllum sem þá lifa. En til að hafa gagn af þessari hátíð núna verðum við að vera staðráðin í að líkja eftir hógværð, hugrekki og kærleika Jesú. Ef við gerum það getum við treyst að Jehóva launi okkur það. – 2. Pét. 1:10, 11.

SÖNGUR 13 Kristur, fyrirmynd okkar

^ gr. 5 Bráðlega verðum við viðstödd kvöldmáltíð Drottins til að minnast dauða Jesú Krists. Þessi einfalda máltíð kennir okkur margt um hógværð, hugrekki og kærleika Jesú. Í þessari grein ræðum við um hvernig við getum líkt eftir frábærum eiginleikum hans.

^ gr. 2 ORÐASKÝRING: Við höldum í heiðri minningu mikilvægra viðburða eða persóna með því að minnast þeirra.

^ gr. 56 Myndir: Sviðsettar myndir af trúföstum þjónum Jehóva að halda minningarhátíðina í söfnuði á fyrstu öld, seint á 19. öld, í fangabúðum nasista og í látlausum ríkissal í hlýju lofslagi í Suður-Ameríku á okkar tímum.