Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sjáðu muninn á fólki

Sjáðu muninn á fólki

„Þá munuð þið ... sjá muninn á réttlátum og ranglátum.“ – MAL. 3:18.

SÖNGVAR: 127, 101

1, 2. Í hvaða erfiðu aðstöðu eru þjónar Jehóva nú á dögum? (Sjá myndir í upphafi greinar.)

MARGIR heilbrigðisstarfsmenn starfa meðal fólks sem er haldið smitnæmum sjúkdómum. Þeir annast sjúklinga sína vegna þess að þeir vilja liðsinna þeim. En þeir þurfa að gera vissar varúðarráðstafanir til að smitast ekki af þeim sjúkdómum sem þeir reyna að lækna fólk af. Þjónar Jehóva eru að sumu leyti í svipaðri aðstöðu. Mörg okkar vinna og búa meðal fólks sem sýnir viðhorf og eiginleika sem stangast á við mælikvarða Guðs. Þetta veldur okkur vissum erfiðleikum því að við getum smitast af umhverfi okkar.

2 Síðustu dagar einkennast af algerri ringulreið í siðferðismálum. Í síðara bréfi sínu til Tímóteusar lýsir Páll postuli einkennum fólks sem þjónar ekki Guði, og þessi einkenni verða sífellt meira áberandi eftir því sem líður á síðustu daga. (Lestu 2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13.) Það vekur vissulega óhug að þessir eiginleikar skuli vera mjög áberandi en það er líka ákveðin hætta á að við smitumst af ríkjandi viðhorfum og hátterni umhverfisins. (Orðskv. 13:20) Í þessari grein er rætt um útbreidd einkenni fólks núna á síðustu dögum og þau borin saman við þá eiginleika sem þjónar Guðs temja sér. Við könnum líka hvernig við getum varið  okkur gegn því að smitast af umhverfinu og hvernig við getum hjálpað fólki að kynnast Jehóva.

3. Hverja er Páll að tala um í 2. Tímóteusarbréfi 3:2-5?

3 „Á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir,“ skrifaði Páll. Síðan telur hann upp 19 miður góð einkenni sem yrðu áberandi í fari fólks á þessu tímabili. Upptalningin er ekki ósvipuð þeirri sem er að finna í Rómverjabréfinu 1:29-31 þó að í Tímóteusarbréfinu komi fyrir hugtök sem finnast ekki annars staðar í Grísku ritningunum. Upptalning Páls hefst með orðunum „menn verða ...“ og vísar auðvitað bæði til karla og kvenna því að bæði kynin geta sýnt af sér þessa lesti. Lýsingin á þó ekki við alla því að þjónar Guðs sýna af sér allt aðra eiginleika. – Lestu Malakí 3:18.

HVERNIG LÍTUM VIÐ Á SJÁLF OKKUR?

4. Lýstu drambsamri manneskju.

4 Samkvæmt upptalningu Páls yrðu margir sérgóðir og fégjarnir en einnig raupsamir, hrokafullir og drambsamir. Fólk, sem er þannig, lítur stórt á sig og finnst það yfir aðra hafið, oft vegna útlits, hæfileika, eigna eða stöðu. Það þráir viðurkenningu og aðdáun. Fræðimaður segir eftirfarandi um þann sem er heltekinn stolti og stærilæti: „Hann er með smá altari í hjartanu þar sem hann krýpur fyrir sjálfum sér.“ Sumir segja að óhóflegt stolt sé svo fráhrindandi að jafnvel hinir stoltu hafi óbeit á því í fari annarra.

5. Hvernig hefur dramb orðið jafnvel trúum þjónum Guðs fjötur um fót?

5 Jehóva hefur andstyggð á drambi. Hann hatar „hrokafullt augnaráð“. (Orðskv. 6:16, 17) Dramblát manneskja getur ekki nálgast Guð. (Sálm. 10:4) Dramb er eitt af einkennum Satans. (1. Tím. 3:6) Því miður eru jafnvel dæmi um að trúir þjónar Jehóva hafi orðið drambi að bráð. Ússía Júdakonungur var Guði trúr árum saman. Hins vegar segir í Biblíunni: „Þegar Ússía var orðinn mjög voldugur varð hann svo hrokafullur að hann vann óhæfuverk og braut af sér gegn Drottni, Guði sínum ... Hann gekk inn í musteri Drottins og brenndi reykelsi á reykelsisaltarinu.“ Hiskía konungur varð líka hrokafullur um tíma. – 2. Kron. 26:16; 32:25, 26.

6. Hvers vegna hefði Davíð getað orðið hrokafullur en hvers vegna var hann það ekki?

6 Sumir verða drambsamir vegna útlits, vinsælda, líkamsburða, tónlistarhæfileika eða hárrar stöðu. Davíð hafði allt þetta til að bera en var samt auðmjúkur allt til æviloka. Eftir að hann felldi Golíat og Sál konungur bauð honum dóttur sína fyrir konu sagði hann: „Hver er ég og hver ættkvísl mín og hver er ætt föður míns í Ísrael að ég geti orðið tengdasonur konungs?“ (1. Sam. 18:18) Hvað hjálpaði Davíð að vera auðmjúkur? Hæfileikar hans og sá heiður sem hann hlaut stafaði af því að Jehóva ,horfði djúpt‘, það er að segja auðmýkti sig og gaf honum gaum. (Sálm. 113:5-8) Davíð vissi að allt það góða, sem hann hafði, var gjöf Jehóva. – Samanber 1. Korintubréf 4:7.

7. Hvað getur verið okkur hvatning til að vera auðmjúk?

7 Þjónar Jehóva leggja sig fram um að vera auðmjúkir, rétt eins og Davíð. Það snertir okkur djúpt að hugsa til þess að Jehóva, sem er æðstur í alheimi, skuli sýna þennan aðlaðandi eiginleika.  (Sálm. 18:36) Við reynum að fylgja innblásinni hvatningu Biblíunnar: „Íklæðist ... hjartagróinni meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi.“ (Kól. 3:12) Við vitum líka að kærleikurinn „er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp“. (1. Kor. 13:4) Það getur laðað fólk að Jehóva ef við sýnum auðmýkt. Eiginkona getur unnið manninn sinn orðalaust með hegðun sinni. Eins geta þjónar Guðs laðað fólk að honum með því að vera auðmjúkir. – 1. Pét. 3:1.

HVERNIG KOMUM VIÐ FRAM VIÐ AÐRA?

8. (a) Hvernig er stundum litið á það núna að börn séu óhlýðin foreldrum sínum? (b) Hvað hvetur Biblían börn til að gera?

8 Páll lýsti hvernig fólk myndi koma fram hvert við annað á síðustu dögum. Hann sagði að börn yrðu óhlýðin foreldrum sínum. Í bókum, kvikmyndum og sjónvarpsþáttum er stundum látið sem slík hegðun sé eðlileg og jafnvel ýtt undir hana, en í rauninni veikir hún undirstöður fjölskyldunnar sem er mikilvægasta eining samfélagsins. Það hefur lengi verið viðurkennt. Í Grikklandi til forna var maður sviptur öllum borgaralegum réttindum ef hann sló foreldra sína, og samkvæmt rómverskum lögum jafnaðist það á við morð að slá föður sinn. Bæði Hebresku og Grísku ritningarnar hvetja börn til að heiðra foreldra sína. – 2. Mós. 20:12; Ef. 6:1-3.

9. Hvað getur hjálpað börnum að vera hlýðin foreldrum sínum?

9 Börn geta varað sig á þessu hugarfari með því að hugleiða það sem foreldrarnir hafa gert fyrir þau. Það er líka gott fyrir þau að minna sig á að Guð, faðir okkar allra, ætlast til þess að þau séu hlýðin. Með því að tala jákvætt um foreldra sína geta börn og unglingar hjálpað öðrum ungmennum að sjá foreldra sína í jákvæðu ljósi. Ef foreldrarnir eru kærleikslausir gagnvart börnunum getur þeim að vísu fundist erfitt að vera hlýðin. En ef barn finnur greinilega fyrir ástúð foreldra sinna langar það til að hlýða, jafnvel þó að því finnist hitt freistandi. „Foreldrar mínir gerðu sanngjarnar kröfur til mín,“ segir Austin, „skýrðu hvers vegna þeir settu reglur og við gátum alltaf rætt málin opinskátt. Það auðveldaði mér að vera hlýðinn, þó að það væri oft freistandi að reyna að komast upp með eitthvað. Ég fann að þeim var annt um mig og þess vegna langaði mig til að þóknast þeim.“

10, 11. (a) Hvað vitnar um að það vantar mikið upp á náungakærleika í heiminum? (b) Hve langt nær náungakærleikur sannkristinna manna?

10 Páll telur upp fleiri lesti sem vitna um að fólk elskar ekki hvert annað. Hann nefnir vanþakklæti eftir að hafa sagt að börn verði óhlýðin foreldrum. Það er rökrétt vegna þess að þeir sem eru vanþakklátir kunna ekki að meta það góða sem aðrir gera fyrir þá. Menn yrðu líka guðlausir. Þeir yrðu ósáttfúsir og óviljugir að friðmælast við aðra. Páll segir að þeir yrðu illmálgir og sviksamir því að þeir myndu tala illa um og lasta náunga sinn og jafnvel Guð. Auk þess yrðu þeir rógberar því að þeir myndu bera út ósannindi um aðra til að skemma mannorð þeirra. *

11 Þeir sem tilbiðja Jehóva eru ólíkir fjöldanum að því leyti að þeir bera ósvikinn kærleika til náungans. Það hafa þeir alltaf gert. Jesús sagði að boðorðið  um að elska náungann (beygingarmynd agape) væri næstæðsta boðorð Móselaganna, næst boðorðinu um að elska Guð. (Matt. 22:38, 39) Jesús benti líka á að sannkristnir menn myndu þekkjast á því að þeir elskuðu hver annan. (Lestu Jóhannes 13:34, 35.) Þeir myndu meira að segja elska óvini sína. – Matt. 5:43, 44.

12. Hvernig sýndi Jesús kærleika?

12 Jesús sýndi einstakan náungakærleika. Hann fór borg úr borg og sagði fólki frá fagnaðarerindinu um ríki Guðs. Hann læknaði blinda, lamaða, holdsveika og heyrnarlausa. Hann reisti upp dána. (Lúk. 7:22) Hann gaf meira að segja líf sitt fyrir allt mannkynið þó svo að margir hötuðu hann. Jesús endurspeglaði kærleika föður síns fullkomlega. Vottar Jehóva líkja eftir Jesú og sýna fólki kærleika.

13. Hvernig getum við laðað fólk að Jehóva?

13 Við löðum fólk að föðurnum á himnum með því að sýna náunganum kærleika. Maður í Taílandi sótti umdæmismót og var snortinn af kærleikanum sem hann sá meðal trúsystkina okkar þar. Eftir að hann sneri heim bað hann um að fá biblíukennslu tvisvar í viku. Hann talaði um trúna við alla ættingja sína og aðeins hálfu ári eftir mótið flutti hann sinn fyrsta biblíulestur í ríkissalnum. Hvernig stöndum við okkur í að sýna öðrum kærleika? Þú gætir spurt sjálfan þig: Legg ég mig fram við að hjálpa öðrum í fjölskyldunni, söfnuðinum og í boðuninni? Reyni ég að líta fólk sömu augum og Jehóva gerir?

ÚLFAR OG LÖMB

14, 15. Teldu upp nokkra slæma eiginleika í fari margra. Hvernig hafa sumir breytt sér til hins betra?

14 Fólk sýnir af sér ýmsa fleiri lesti núna á síðustu dögum sem við ættum að varast. Þeir sem þjónuðu ekki Guði myndu vera andsnúnir öllu góðu eða eins og það er orðað í öðrum þýðingum  „ekki elskandi það sem gott er“ eða „hata hið góða“. Þeir yrðu taumlausir og grimmir, og sumir framhleypnir, það er að segja hvatvísir og glannafengnir eins og gríska orðið getur einnig merkt.

15 Margir sem voru eins og grimm villidýr hafa breytt sér til hins betra. Þessari umbreytingu er fagurlega lýst í biblíuspádómi. (Lestu Jesaja 11:6, 7.) Þar lesum við að villidýr eins og úlfar og ljón búi í friði hjá húsdýrum eins og lömbum og kálfum. Taktu eftir að þessi friður kemur til af því að „allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni“. (Jes. 11:9) Dýr geta ekki fræðst um Jehóva þannig að spádómurinn lýsir breytingum sem verða á fólki.

Meginreglur Biblíunnar geta breytt fólki. (Sjá 16. grein.)

16. Hvernig hefur Biblían verið fólki hvatning til að breyta sér?

16 Margir voru einu sinni eins og grimmir úlfar en eru nú friðsamir. Þú getur lesið frásögur sumra þeirra á vefnum jw.org í greinaröð sem nefnist „Biblían breytir lífi fólks“. Þeir sem hafa kynnst Jehóva og þjóna honum eru ólíkir þeim sem hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar en afneita krafti hennar. Hinir síðarnefndu láta eins og þeir þjóni Guði en verkin sýna annað. Meðal þjóna Jehóva eru hins vegar margir sem voru eins og villidýr en hafa ,íklæðst hinum nýja manni sem skapaður er í Guðs mynd og breytir eins og Guð vill og lætur réttlæti og sannleika helga líf sitt‘. (Ef. 4:23, 24) Þegar fólk kynnist Guði áttar það sig á að það þurfi að fylgja lífsreglum hans. Það er þeim hvatning til að breyta trúarskoðunum sínum og tileinka sér ný viðhorf og framferði. Það er ekki auðvelt að breyta sér en það er hægt vegna þess að andi Guðs hjálpar þeim sem þrá í einlægni að gera vilja hans.

„FORÐASTU ÞÁ“

17. Hvað getum við gert til að smitast ekki af þeim sem þjóna ekki Guði?

17 Munurinn á þeim sem þjóna Guði og þeim sem gera það ekki verður sífellt greinilegri. Við sem þjónum Guði megum ekki láta skaðleg viðhorf umheimsins hafa áhrif á okkur. Það er skynsamlegt að fylgja leiðsögn Jehóva og forðast þá sem er lýst í 2. Tímóteusarbréfi 3:2-5. Við getum auðvitað ekki forðast allt samneyti við þá sem þjóna ekki Guði. Ef til vill þurfum við að vinna með þeim, sækja skóla með þeim eða búa með þeim. Við þurfum hins vegar ekki að hugsa og hegða okkur eins og þeir. En til að það gerist ekki þurfum við að styrkja sambandið við Jehóva með biblíunámi og samneyti við þá sem elska hann.

18. Hvernig getum við hjálpað öðrum að kynnast Jehóva með orðum okkar og verkum?

18 Við ættum einnig að hjálpa öðrum að kynnast Jehóva. Vertu vakandi fyrir tækifærum til að segja frá honum og biddu hann að hjálpa þér að velja viðeigandi orð á réttum tíma. Segjum öðrum að við séum vottar Jehóva. Þá erum við honum til heiðurs með góðri hegðun okkar en beinum ekki athyglinni að sjálfum okkur. Jehóva hefur kennt okkur að „afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum“. (Tít. 2:11-14) Ef við hegðum okkur eins og Jehóva vill taka aðrir eftir því og sumir segja kannski: „Við viljum fara með ykkur, við höfum heyrt að Guð sé með ykkur.“ – Sak. 8:23.

^ gr. 10 Orðið „rógberi“ er þýðing gríska orðsins diaʹbolos. Í Biblíunni er það notað til að lýsa Satan sem rægir Guð.