Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna skiptir enn þá máli að vera hógvær?

Hvers vegna skiptir enn þá máli að vera hógvær?

„Hjá hinum hógværu er viska.“ – ORÐSKV. 11:2.

SÖNGVAR: 38, 69

1, 2. Hvers vegna hafnaði Guð manni sem hafði verið hógvær? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

SÁL, konungur í Ísrael til forna, var hógvær og virtur maður í upphafi stjórnartíðar sinnar. (1. Sam. 9:1, 2, 21; 10:20-24) En fljótlega fór hann að sýna af sér hroka sem birtist við ýmis tækifæri. Þegar Samúel, spámaður Guðs, mætti ekki á tilsettum tíma til Gilgal varð Sál óþreyjufullur. Filistear voru að búa sig til bardaga og Ísraelsmenn voru farnir að yfirgefa Sál. Hann hefur eflaust hugsað með sér: „Ég verð að gera eitthvað, og það fljótt.“ Hann færði því Guði fórn þó að hann hefði ekki umboð til þess. Jehóva var ekki ánægður. – 1. Sam. 13:5-9.

2 Samúel ávítaði Sál þegar hann kom til Gilgal. En Sál tók ekki við leiðréttingunni heldur kom með afsakanir, reyndi að kenna öðrum um og gerði lítið úr mistökum sínum. (1. Sam. 13:10-14) Þetta hrinti af stað röð skelfilegra atvika sem kostaði Sál að lokum konungdóminn og það sem verra var,  velþóknun Jehóva. (1. Sam. 15:22, 23) Þrátt fyrir góða byrjun endaði Sál ævina með ósköpum. – 1. Sam. 31:1-6.

3. (a) Hvað finnst mörgum um hógværð? (b) Við hvaða spurningum fáum við svör?

3 Í heimi nútímans ríkir mikil samkeppni og mörgum finnst þeir þurfa að skara fram úr til að komast áfram í lífinu. Til þess fórna þeir stundum allri hógværð. Þekktur leikari, sem gerðist stjórnmálamaður, sagði eitt sinn: „Hógværð er orð sem á ekki við um mig á nokkurn hátt – og ég vona að svo verði aldrei.“ En hvers vegna skiptir enn þá máli að vera hógvær? Hvað er hógværð og hvað er hún ekki? Og hvernig getum við verið hógvær þegar á reynir eða þegar aðrir beita okkur þrýstingi? Í þessari grein er fyrstu tveim spurningunum svarað. Rætt verður um þriðju spurninguna í þeirri næstu.

HVERS VEGNA ER MIKILVÆGT AÐ VERA HÓGVÆR?

4. Hvernig birtist hroki?

4 Biblían lýsir hógværð sem andstæðu hroka. (Lestu Orðskviðina 11:2.) Davíð bað Jehóva um að ,varðveita sig frá drambsemi‘. (Sálm. 19:14, Biblían 1859) Hvernig birtist drambsemi eða hroki? Þegar einhver gerir eitthvað sem hann hefur ekki rétt á í fljótfærni eða af virðingarleysi sýnir hann hroka. Þar sem við höfum fengið syndina í arf sýnum við öll hroka af og til. En ef við leggjum það í vana að troða okkur áfram kemur það fyrr eða síðar niður á sambandi okkar við Jehóva eins og sjá má af dæmi Sáls konungs. Í Sálmi 119:21 er sagt um Jehóva: „Þú straffar hina dramblátu.“ (Biblían 1859) Hvers vegna gerir hann það?

5. Hvers vegna er það alvarlegt mál að vera hrokafullur?

5 Hroki er mun alvarlegri en sakleysisleg mistök. Skoðum þrjár ástæður fyrir því. Ef við sýnum stærilæti heiðrum við ekki Jehóva sem réttmætan Drottin okkar. Og ef við förum út fyrir valdasvið okkar er líklegt að við lendum upp á kant við aðra. (Orðskv. 13:10) Þegar það kemur í ljós að við höfum sýnt hroka getum við líka orðið okkur til skammar eða jafnvel verið niðurlægð. (Lúk. 14:8, 9) Hroki leiðir ekkert gott af sér. Eins og fram kemur í Biblíunni ættum við alltaf að reyna að sýna hógværð.

HVAÐ FELST Í ÞVÍ AÐ VERA HÓGVÆR?

6, 7. Hvað er auðmýkt og hvernig er hógværð tengd henni?

6 Hógværð og auðmýkt eru nátengdir eiginleikar. Í Biblíunni er auðmýkt það að vera laus við stolt og hroka. Auðmýkt birtist í lítillæti. (Fil. 2:3) Þeir sem eru auðmjúkir eru yfirleitt líka hógværir. Þeir þekkja vel hæfni sína og takmörk, viðurkenna mistök sín og taka fúslega við tillögum og hugmyndum annarra. Jehóva kann vel að meta að við sýnum auðmýkt.

7 Í Biblíunni snýst hógværð líka um að meta sjálfan sig rétt og vera meðvitaður um takmörk sín. Í gríska frumtextanum virðist áherslan vera á það hvernig sú vitneskja ætti að hafa áhrif á framkomu okkar við aðra.

8. Nefndu nokkur viðvörunarmerki um drambsemi.

8 Hvenær gæti drambsemi gert vart við sig í huga okkar eða verkum? Skoðum nokkur viðvörunarmerki. Ef til vill tökum við sjálf okkur eða verkefni okkar of alvarlega. (Rómv. 12:16) Við gætum verið farin að draga óhóflega athygli  að sjálfum okkur. (1. Tím. 2:9, 10) Eða kannski stöndum við fast á eigin skoðunum bara vegna stöðu okkar, tengsla eða persónulegs álits. (1. Kor. 4:6) Þegar við gerum slíkt áttum við okkur oft ekki á að við séum farin að sýna hroka og séum ekki lengur hógvær.

9. Hvað hefur orðið til þess að sumir hafa sýnt af sér hroka? Nefndu dæmi úr Biblíunni.

9 Hver sem er getur orðið dramblátur ef hann lætur langanir holdsins ná tökum á sér. Framagirni, öfund og taumlaus reiði hefur fengið marga til að sýna af sér hroka. Sumir sem talað er um í Biblíunni, eins og Absalon, Ússía og Nebúkadnesar, létu undan slíkum ,verkum holdsins‘ og Jehóva auðmýkti þá vegna þess að þeir sýndu af sér hroka. – 2. Sam. 15:1-6; 18:9-17; 2. Kron. 26:16-21; Dan. 5:18-21.

10. Hvers vegna ættum við ekki að dæma hvatir annarra? Nefndu dæmi úr Biblíunni.

10 Það geta þó verið aðrar ástæður fyrir því að fólk sýnir ekki alltaf hógværð. Skoðum til dæmis frásögur Biblíunnar í 1. Mósebók 20:2-7 og Matteusi 26:31-35. Abímelek og Pétur virtust kannski vera hrokafullir, en bjuggu syndugar langanir að baki? Eða var málið einfaldlega að þeir þekktu ekki allar staðreyndir eða höfðu slakað á verðinum? Við getum ekki lesið hjörtu fólks og þess vegna er bæði skynsamlegt og kærleiksríkt að vera ekki fljót til að draga ályktanir um hvatir þess. – Lestu Jakobsbréfið 4:12.

HLUTVERK ÞITT Í SÖFNUÐI GUÐS

11. Hverju þurfum við að átta okkur á til að geta verið hógvær?

11 Til að vera hógvær þurfum við að átta okkur á hlutverki okkar í söfnuði Guðs. Jehóva hefur gott skipulag á hlutunum og gefur okkur öllum ákveðið hlutverk í alheimsfjölskyldu sinni. Þar er þörf fyrir hvert og eitt okkar. Jehóva sýnir okkur einstaka góðvild og hefur því gefið okkur vissar gáfur, færni, getu og hæfileika. Við getum notað það allt til að heiðra hann og hjálpa öðrum. (Rómv. 12:4-8) Jehóva hefur falið okkur ráðsmennsku og sýnir þannig að hann virðir okkur, treystir og væntir þess að við notum vel það sem við höfum fengið. – Lestu 1. Pétursbréf 4:10.

Hvað lærum við af fordæmi Jesú varðandi það að fá ný verkefni? (Sjá 12.-14. grein.)

12, 13. Hvers vegna ætti það ekki að koma okkur á óvart ef hlutverk okkar í söfnuði Guðs breytist af og til?

12 Hlutverk okkar í söfnuði Guðs er þó ekki alltaf það sama. Það getur breyst með tímanum. Tökum Jesú sem dæmi. Upphaflega var hann einn með Jehóva. (Orðskv. 8:22) Síðan hjálpaði hann til við að skapa aðrar andaverur, efnisheiminn og að lokum mennina. (Kól. 1:16) Jesús fékk síðar meir nýtt hlutverk en það var á jörðinni. Fyrst var hann hjálparvana kornabarn og síðan fullorðinn maður. (Fil. 2:7) Eftir að hafa fórnað lífi sínu sneri hann aftur til himna sem andavera og varð konungur Guðsríkis árið 1914. (Hebr. 2:9) Og þetta var ekki í síðasta sinn sem hann fékk nýtt hlutverk. Þegar hann hefur ríkt í þúsund ár leggur hann ríkið í hendur Guðs þannig að „Guð verði allt í öllu“. – 1. Kor. 15:28.

13 Við megum líka búast við að verkefni okkar breytist af og til og oft er það vegna ákvarðana sem við tökum. Til dæmis geturðu hafa verið einhleypur en ákvaðst síðan að gifta þig. Ertu kominn með börn? Hefurðu einfaldað líf þitt á efri árum til að geta þjónað Jehóva í fullu starfi? Öllum þessum ákvörðunum fylgir viss ábyrgð. Breyttar aðstæður  geta annaðhvort aukið eða takmarkað það sem við getum gert. Ertu ungur eða gamall? Ertu hraustur eða lélegur til heilsunnar? Jehóva veit hvernig hvert og eitt okkar getur nýst sem best í þjónustunni við hann. Hann ætlast ekki til meira af okkur en við getum og hann kann vel að meta allt sem við gerum. – Hebr. 6:10.

14. Hvernig hjálpar hógværð okkur að vera glöð og ánægð við allar aðstæður?

14 Jesús hafði ánægju af öllum verkefnum sínum og við getum einnig haft ánægju af verkefnum okkar. (Orðskv. 8:30, 31) Sá sem er hógvær er sáttur við þau verkefni og þá ábyrgð sem honum hefur verið falin í söfnuðinum. Hann veltir ekki endalaust fyrir sér verkefnum sem hann gæti fengið eða því sem aðrir fá að gera. Hann einbeitir sér frekar að því að sjá tilgang í þeim verkefnum sem hann sinnir núna og að hafa ánægju af þeim þar sem hann lítur svo á að þau komi frá Jehóva. Á sama tíma virðir hann það hlutverk sem Jehóva hefur falið öðrum. Að vera hógvær hjálpar okkur að virða aðra og styðja þá með glöðu geði. – Rómv. 12:10.

ÞAÐ SEM HÓGVÆRÐ ER EKKI

15. Hvað getum við lært af hógværð Gídeons?

15 Gídeon er framúrskarandi dæmi um hógværan mann. Þegar engill Jehóva birtist honum fyrst viðurkenndi Gídeon fúslega að hann væri hvorki merkilegur sjálfur né kæmi af merkilegri ætt. (Dóm. 6:15) Þegar hann þáði verkefnið sem Jehóva fól honum gekk hann úr skugga um  að hann skildi vel til hvers var ætlast af honum og leitaði leiðsagnar Jehóva. (Dóm. 6:36-40) Gídeon var sterkur og hugrakkur en sýndi samt varfærni og kænsku. (Dóm. 6:11, 27) Hann nýtti sér ekki stöðu sína til að láta upphefja sig. Í staðinn sneri hann aftur heim um leið og hann hafði lokið því sem Jehóva hafði falið honum. – Dóm. 8:22, 23, 29.

16, 17. Hverju veltir hógvær manneskja fyrir sér þegar hún vill taka framförum í trúnni?

16 Að vera hógvær þýðir ekki að við ættum aldrei að sækjast eftir eða þiggja verkefni í þjónustu Jehóva. Biblían hvetur okkur öll til að taka framförum. (1. Tím. 4:13-15) En þurfum við alltaf að fá nýtt verkefni til að geta gert það? Ekki endilega. Jehóva getur hjálpað okkur að taka framförum í þjónustunni við sig, sama hvaða verkefni við sinnum þá stundina. Við getum stöðugt reynt að bæta hæfileikana sem Jehóva hefur gefið okkur og þannig orðið færari í að þjóna honum og hjálpa öðrum.

17 Sá sem er hógvær skoðar hvers verður krafist af honum áður en hann tekur að sér nýtt verkefni. Þá getur hann metið aðstæður sínar rétt. Getur hann til dæmis tekið á sig meiri ábyrgð eða vinnu án þess að vanrækja annað sem skiptir máli? Er hægt að fela öðrum hluta af þeim verkefnum sem hann hefur núna svo að hann fái meiri tíma fyrir það nýja? Ef svarið við annarri spurningunni eða báðum er nei er kannski einhver annar í betri aðstöðu til að sinna verkefninu núna. Eftir að hafa beðið til Jehóva og velt þessu fyrir sér gæti sá sem er hógvær áttað sig á að hann sé ekki í stakk búinn til að taka verkefnið að sér. Við gætum þurft að afþakka verkefni ef við erum hógvær.

18. (a) Hvað gerir sá sem er hógvær þegar hann tekur að sér nýtt verkefni? (b) Hvernig hjálpar Rómverjabréfið 12:3 okkur að vera hógvær?

18 Þegar við tökum að okkur nýtt verkefni ætti fordæmi Gídeons að minna okkur á að við getum ekki leyst það vel af hendi nema við þiggjum leiðsögn Jehóva og hljótum blessun hans. Jehóva vill að við ,þjónum sér í hógværð‘. (Míka 6:8) Í hvert sinn, sem við tökum að okkur ný verkefni, þurfum við því að hugsa vandlega um það sem hann segir okkur í orði sínu og fyrir milligöngu safnaðarins. Við þurfum að læra að laga óstöðug skref okkar að traustri leiðsögn Jehóva. Munum að það er auðmýkt Jehóva sem ,gerir okkur mikil‘ en ekki eigin hæfileikar. (Sálm. 18:36, Biblían 1981) Þegar við þjónum Guði í hógværð er það okkur hjálp til að meta sjálf okkur hvorki of lítils né of mikils. – Lestu Rómverjabréfið 12:3.

19. Af hvaða ástæðum ættum við að þroska með okkur hógværð?

19 Jehóva er skapari okkar og drottinn alheims og þeir sem eru hógværir veita honum þann heiður sem hann á skilið. (Opinb. 4:11) Hógværð hjálpar okkur að vera ánægð með hlutverk okkar í söfnuði Guðs og gera verkefnum okkar góð skil. Hógvær manneskja virðir tilfinningar og skoðanir trúsystkina sinna og það stuðlar að einingu meðal þjóna Jehóva. Hún metur aðra meira en sjálfa sig og er varkár og forðast þannig að gera alvarleg mistök. Af þessum ástæðum skiptir hógværð enn þá máli fyrir þjóna Guðs og hann metur mikils þá sem þroska hana með sér. En hvernig getum við verið hógvær þegar á reynir? Um það er rætt í næstu grein.