Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verum staðráðin í að láta ,bróðurkærleikann haldast‘

Verum staðráðin í að láta ,bróðurkærleikann haldast‘

„Bróðurkærleikurinn haldist.“ – HEBR. 13:1.

SÖNGVAR: 72, 119

1, 2. Hvers vegna skrifaði Páll kristnum Hebreum bréf?

ÁRIÐ var 61. Kristnu söfnuðirnir um allan Ísrael bjuggu við tiltölulega friðsamt ástand. Páll postuli var að vísu fangi í Róm en hann vonaðist til að losna fljótlega úr haldi. Tímóteusi, félaga hans, hafði nýlega verið sleppt úr fangelsi og þeir áformuðu að heimsækja trúsystkini sín í Júdeu. (Hebr. 13:23) En fimm árum síðar áttu ,herfylkingar eftir að umkringja Jerúsalem‘, rétt eins og Jesús hafði spáð fyrir. Kristnir menn í Júdeu, sérstaklega þeir sem bjuggu í Jerúsalem, urðu þá að bregðast skjótt við. Jesús hafði varað þá við og sagt að um leið og þeir sæju þessa atburði koma fram þyrftu þeir að flýja. – Lúk. 21:20-24.

2 Frá því að Jesús flutti þennan spádóm voru liðin 28 ár og trúfastir kristnir Gyðingar í Ísrael höfðu þegar þurft að standast mikla andstöðu og ofsóknir. (Hebr. 10:32-34) Páll vissi þó að mestu trúarprófraunirnar voru enn fram undan. (Matt. 24:20, 21; Hebr. 12:4) Hann vildi hjálpa þeim að búa sig undir hvaðeina sem yrði á vegi þeirra. Þeir þyrftu að vera einstaklega þolgóðir og sýna mikla trú, trú sem væri nógu  sterk til að varðveita líf þeirra. (Lestu Hebreabréfið 10:36-39.) Jehóva innblés því Páli að skrifa þessum kæru trúsystkinum sínum bréf til að hjálpa þeim að takast á við erfiðleikana. Við þekkjum þetta bréf sem Hebreabréfið.

3. Hvers vegna ættum við að hafa áhuga á Hebreabréfinu?

3 Við ættum öll að hafa áhuga á því sem Páll skrifaði þessum kristnu Hebreum á fyrstu öld. Af hverju? Af því að við erum í svipaðri aðstöðu og þeir. Á þessum ,örðugu tíðum‘ hafa þjónar Jehóva mætt alls kyns andstöðu og ofsóknum. (2. Tím. 3:1, 12) Við höfum sannað trú okkar og tryggð við Guð svo ekki verður um villst. Mörg okkar búa þó við nokkuð friðsamar aðstæður eins og er og finna ekki fyrir beinum ofsóknum. En við þurfum samt að vera á varðbergi líkt og kristnir menn á tímum Páls. Hvers vegna? Bráðlega stöndum við frammi fyrir erfiðari trúarprófraunum en nokkurn tíma fyrr! – Lestu Lúkas 21:34-36.

4. Hver er árstextinn 2016 og hvers vegna er það vel við hæfi?

4 Hvað getur hjálpað okkur að búa okkur undir þá atburði sem nú eru rétt fram undan? Í Hebreabréfinu bendir Páll á margt sem hjálpar okkur að styrkja trúna. Eitt mikilvægt atriði kemur fram í fyrsta versi síðasta kaflans í bréfinu. Þetta vers hefur verið valið sem árstextinn 2016 en þar segir: „Bróðurkærleikurinn haldist.“ – Hebr. 13:1.

Árstextinn 2016 er: „Bróðurkærleikurinn haldist.“ – Hebreabréfið 13:1.

HVAÐ ER BRÓÐURKÆRLEIKUR?

5. Hvað er bróðurkærleikur?

5 Hvað felst í því að sýna bróðurkærleik? Gríska orðið filadelfiʹa, sem Páll notar, þýðir bókstaflega „ást til bróður“. Bróðurkærleikurinn myndar sterkt, hlýlegt og náið samband eins og það sem við eigum við fjölskyldu okkar eða náinn vin. (Jóh. 11:36) Við þykjumst ekki vera bræður og systur – við erum bræður og systur. (Matt. 23:8) Nánum tilfinningatengslum okkar hvert til annars er fallega lýst með þessum orðum: „Verið ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika og keppist um að sýna hvert öðru virðingu.“ (Rómv. 12:10) Ef þessi kærleikur er sýndur ásamt kærleika sem byggist á meginreglum, agaʹpe, stuðlar það að nánum vináttuböndum meðal þjóna Guðs.

6. Hverja ættu kristnir menn að líta á sem bræður sína?

6 Fræðimaður segir: „Orðið ,bróðurkærleikur‘ er frekar sjaldséð annars staðar en í kristnum bókmenntum.“ Í gyðingdómi gat orðið „bróðir“ stundum náð til annarra en bókstaflegra ættingja en það var samt takmarkað við Gyðinga og náði því ekki til heiðingja. Í kristinni trú eru hins vegar allir sem trúa bræður og skiptir þá þjóðerni engu máli. (Rómv. 10:12) Jehóva hefur kennt okkur sem trúsystkinum að sýna hvert öðru bróðurkærleik. (1. Þess. 4:9) En hvers vegna er nauðsynlegt að við látum bróðurkærleikann haldast?

HVERS VEGNA ER SVO MIKILVÆGT AÐ SÝNA BRÓÐURKÆRLEIK?

7. (a) Hver er mikilvægasta ástæðan fyrir okkur til að sýna bróðurkærleik? (b) Bentu á aðra ástæðu fyrir því að það sé mikilvægt að styrkja kærleiksböndin.

7 Einfalda svarið er að Jehóva ætlast til þess að við sýnum hvert öðru bróðurkærleik. Við getum ekki sagst elska Guð ef við elskum ekki bræður okkar og systur. (1. Jóh. 4:7, 20, 21) Þar fyrir utan þurfum við á hvert öðru að halda, sérstaklega á erfiðum tímum. Páll  vissi að sumir kristnu Hebreanna, sem hann skrifaði bréfið, yrðu bráðlega að yfirgefa heimili sín og eigur. Jesús hafði lýst hve erfiðir þessir tímar yrðu. (Mark. 13:14-18; Lúk. 21:21-23) Þessir kristnu menn þurftu því meira en nokkru sinni fyrr að styrkja kærleiksböndin sín á milli. – Rómv. 12:9.

8. Hvað þurfum við að gera núna áður en þrengingin mikla hefst?

8 Bráðlega verður vindum eyðingarinnar sleppt og mesta þrenging í sögu mannkyns hefst. (Mark. 13:19; Opinb. 7:1-3) Þá þurfum við að fylgja þessum innblásnu leiðbeiningum: „Gakktu, þjóð mín, inn í herbergi þín og læstu dyrum á eftir þér, feldu þig skamma hríð uns reiðin er liðin hjá.“ (Jes. 26:20) Með ,herbergjum‘ getur verið að átt sé við söfnuðina okkar. Þar komum við saman sem bræður og systur til að tilbiðja Jehóva. En það er ekki nóg að við hittumst reglulega. Páll minnti kristnu Hebreana á að þeir ættu að nota slík tækifæri til að hvetja hvert annað „til kærleika og góðra verka“. (Hebr. 10:24, 25) Við þurfum að þroska með okkur bróðurkærleik núna því að hann á eftir að hjálpa okkur í öllum erfiðleikum og prófraunum sem kunna að verða á vegi okkar í framtíðinni.

9. (a) Hvaða tækifæri höfum við til að sýna bróðurkærleik núna? (b) Nefndu dæmi um hvernig þjónar Jehóva hafa sýnt bróðurkærleik.

9 En það er líka nauðsynlegt að kærleiksböndin við trúsystkini okkar séu sterk núna, áður en þrengingin mikla hefst. Mörg trúsystkina okkar hafa orðið illa úti í jarðskjálftum, fellibyljum, flóðum, flóðbylgjum eða öðrum náttúruhamförum. Sumir bræður og systur þjást vegna andstöðu og ofsókna. (Matt. 24:6-9) Ofan á allt þetta finnum við daglega fyrir efnahagserfiðleikum sem eru afleiðing þess hve heimurinn er spilltur. (Opinb. 6:5, 6) Eftir því sem slík vandamál aukast fáum við fleiri tækifæri til að sýna hve sterkur bróðurkærleikur okkar er. Þó að ,kærleikur flestra kólni‘ þurfum við að sýna að bróðurkærleikurinn haldist hjá okkur. – Matt. 24:12. [1]

HVERNIG GETUM VIÐ LÁTIÐ BRÓÐURKÆRLEIKANN HALDAST?

10. Hvað ætlum við nú að skoða?

10 Hvernig getum við séð til þess að bróðurkærleikurinn haldist þrátt fyrir erfiðleikana sem við glímum við? Hvernig getum við sýnt að við berum þess konar kærleik til trúsystkina okkar? Eftir að Páll postuli hafði hvatt kristna menn til að láta ,bróðurkærleikann haldast‘ benti hann á nokkrar leiðir til þess. Skoðum nú sex þeirra.

11, 12. Hvað felst í því að vera gestrisinn? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

11 „Gleymið ekki gestrisninni.“ (Lestu Hebreabréfið 13:2.) Frummálsorðið, sem þýtt er „gestrisni“, merkir „kærleikur til ókunnugra“. Þetta orðalag minnir okkur ef til vill á fordæmi Abrahams og Lots. Báðir sýndu þeir ókunnugum gestum kærleik en í ljós kom að þessir gestir voru englar. (1. Mós. 18:2-5; 19:1-3) Páll vísar óbeint til fordæmis þeirra þegar hann hvetur kristna Hebrea til að sýna bróðurkærleik með því að vera gestrisnir.

12 Sýnum við öðrum gestrisni með því að bjóða þeim heim í mat eða til að eiga uppörvandi stund með þeim? Við þurfum ekki að kosta miklu til eða hafa mikið fyrir hlutunum til að vera gestrisin. Og við ættum ekki bara að bjóða þeim sem geta endurgoldið okkur með einhverjum  hætti. (Lúk. 10:42; 14:12-14) Markmið okkar ætti að vera að uppörva gesti okkar, ekki að ganga í augun á þeim. Við þekkjum kannski ekki farandhirðinn og konu hans vel en leggjum við okkur samt fram um að sýna þeim gestrisni? (3. Jóh. 5-8) Þrátt fyrir annríki og álag daglegs lífs er mjög mikilvægt að við ,gleymum ekki gestrisninni‘.

13, 14. Hvernig getum við ,minnst bandingjanna‘?

13 „Minnist bandingjanna.“ (Lestu Hebreabréfið 13:3.) Páll var hér að tala um fanga, en ekki hvaða fanga sem er. Hann átti við þá sem voru í fangelsi vegna trúarinnar. Páll hafði sjálfur verið fangi í um fjögur ár þegar hann skrifaði kristnum Hebreum þessi orð. (Fil. 1:12-14) Hann hrósaði trúsystkinum sínum fyrir að hafa ,þjáðst með bandingjunum‘ og sýnt þeim samkennd. (Hebr. 10:34) Kristnu Hebrearnir bjuggu ekki nálægt Páli, ólíkt þeim sem aðstoðuðu hann í fangelsinu. Hvernig gátu þeir þá hjálpað honum? Þeir gátu gert það með því að biðja ákaft fyrir honum. – Hebr. 13:18, 19.

14 Við búum kannski ekki heldur nálægt trúsystkinum okkar sem eru í fangelsi og getum ekki veitt þeim þá aðstoð sem vottar á staðnum geta veitt. En við getum sýnt samkennd og bróðurkærleik með því að minnast þessara trúföstu bræðra og systra og nefna þau oft í bænum okkar og biðja ákaft fyrir þeim. Minnumst við til dæmis þeirra fjölda bræðra og systra, og jafnvel barna, sem eru í fangelsi í Eritreu, þeirra á meðal bræðra okkar þriggja – Paulosar Eyassus, Isaacs Mogosar og Negedes Teklemariams – sem hafa verið í fangelsi í rúmlega 20 ár?

15. Hvernig getum við virt hjónabandið?

15 „Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum.“ (Lestu Hebreabréfið 13:4.) Við getum einnig sýnt bróðurkærleik með því að vera siðferðilega hrein. (1. Tím. 5:1, 2) Ef einhver „skyldi ganga á hlut eða blekkja nokkurn bróður eða systur“ með því að fremja kynferðislegt siðleysi með honum eða henni myndi hann valda bæði trúsystkininu og fjölskyldu þess miklum skaða. Það myndi rjúfa traustið sem bróðurkærleikurinn byggist á. (1. Þess. 4:3-8) Hugsaðu þér líka hvernig eiginkonu liði ef hún uppgötvaði að maðurinn hennar hefði svikið hana með því að horfa á klám. Bæri slík hegðun vitni um að hann elskaði hana og virti þá ráðstöfun sem hjónabandið er? – Matt. 5:28.

16. Hvernig hjálpar nægjusemi okkur að sýna bróðurkærleik?

16 „Látið ykkur nægja það sem þið hafið.“ (Lestu Hebreabréfið 13:5.) Nægjusemi byggist á trausti okkar til Jehóva. Hún gerir okkur kleift að hafa skynsamlegt viðhorf til efnislegra hluta. (1. Tím. 6:6-8) Ef við erum nægjusöm skiljum við að samband okkar við Jehóva og trúsystkini okkar er miklu verðmætara en nokkuð sem fæst fyrir peninga. Nægjusöm manneskja kvartar ekki, nöldrar né finnur að. Hún lætur ekki öfund og græðgi ná tökum á sér en það getur dregið úr bróðurkærleikanum. Nægjusemi stuðlar öllu heldur að örlæti. – 1. Tím. 6:17-19.

17. Hvernig auðveldar hugrekki okkur að sýna bróðurkærleik?

17 Verum „örugg“. (Lestu Hebreabréfið 13:6.) Traust okkar á Jehóva veitir okkur öryggi og hugrekki í hvaða erfiðleikum sem kunna að mæta okkur. Hugrekki hjálpar okkur síðan að vera  jákvæð. Og jákvætt hugarfar samhliða bróðurkærleik gerir okkur kleift að styrkja og hughreysta trúsystkini okkar. (1. Þess. 5:14, 15) Jafnvel í þrengingunni miklu, myrkasta tíma mannkynssögunnar, eigum við eftir að geta ,rétt úr okkur og borið höfuðið hátt‘ þar sem við vitum að lausn okkar er í nánd. – Lúk. 21:25-28.

Kanntu að meta þá vinnu sem öldungarnir leggja á sig fyrir okkur? (Sjá 18. grein.)

18. Hvernig getum við styrkt bróðurkærleikann til öldunganna?

18 „Minnist leiðtoga ykkar.“ (Lestu Hebreabréfið 13:7, 17.) Þegar við hugsum um alla þá vinnu sem öldungarnir leggja á sig fyrir okkur – án þess að fá laun fyrir – verðum við þeim þakklátari og bróðurkærleikurinn styrkist. Við myndum aldrei vilja að þeir misstu gleðina eða andvörpuðu út af einhverju sem við gerðum. Með því að hlýða þeim og vera þeim eftirlát getum við hins vegar ,auðsýnt þeim sérstaka virðingu og kærleika fyrir starf þeirra‘. – 1. Þess. 5:13.

TÖKUM ENN MEIRI FRAMFÖRUM

19, 20. Hvernig getum við sýnt enn meiri bróðurkærleik?

19 Það leikur enginn vafi á að þjónar Jehóva eru þekktir fyrir að sýna bróðurkærleik. Páll benti á að svo var einnig á hans dögum. En samt hvatti hann alla til að „taka enn meiri framförum“. (1. Þess. 4:9, 10) Við getum alltaf haldið áfram að bæta okkur.

20 Þegar við horfum á árstextann í ríkissalnum þetta árið ættum við að hugleiða þessar spurningar: Get ég sýnt meiri gestrisni? Hvernig get ég minnst trúsystkina minna sem eru í fangelsi? Sýni ég viðeigandi virðingu fyrir þeirri ráðstöfun Guðs sem hjónabandið er? Hvað auðveldar mér að vera nægjusamur? Hvernig get ég styrkt traust mitt á Jehóva? Hvernig get ég unnið betur með þeim sem fara með forystu í söfnuðinum? Ef við leggjum okkur fram á þessum sex sviðum verður árstextinn ekki bara skilti á vegg í ríkissalnum. Hann verður okkur góð áminning og hvatning til að láta ,bróðurkærleikann haldast‘. – Hebr. 13:1.

^ [1] (9. grein.) Dæmi um hvernig vottar Jehóva sýna bróðurkærleik þegar hamfarir dynja á má sjá í 20. kafla bókarinnar Ríki Guðs stjórnar og í enskri útgáfu Varðturnsins 15. júlí 2002, bls. 8-9.