Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Andinn vitnar með anda okkar

Andinn vitnar með anda okkar

„Sjálfur andinn vitnar með anda okkar að við erum Guðs börn.“ – RÓMV. 8:16.

SÖNGVAR: 109, 108

1-3. Hvað gerðist á hvítasunnu og hvernig uppfyllti það spádóma Biblíunnar? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

ÞAÐ var um níuleytið á sunnudagsmorgni. Þessi sunnudagur var sérstaklega spennandi fyrir alla sem voru í Jerúsalem. Þetta var bæði hátíðisdagur og hvíldardagur. Eflaust var búið að færa morgunfórnirnar við musterið eins og venja var. Nú var komið að því að æðstipresturinn færði veififórnina, tvö súrdeigsbrauð bökuð úr fyrstu hveitiuppskeru ársins. Þetta var hvítasunnudagur árið 33. – 3. Mós. 23:15-20.

2 Æðstipresturinn hafði fært þessa veififórn á hverju ári öldum saman. Fórnin var nátengd þýðingarmiklum atburði sem gerðist á hvítasunnu árið 33. Og þessi atburður gerðist meðal 120 lærisveina Jesú sem voru að biðja saman í loftstofu í Jerúsalem. (Post. 1:13-15) Jóel spámaður hafði spáð þessum atburði hér um bil 800 árum áður. (Jóel 3:1-5; Post. 2:16-21) Hvað gerðist sem var svona þýðingarmikið?

3 Lestu Postulasöguna 2:2-4. Guð úthellti heilögum anda sínum yfir þennan hóp kristinna manna sem var saman  kominn í loftstofunni. (Post. 1:8) Þeir byrjuðu að spá og segja frá öllu sem þeir höfðu séð og heyrt. Fjöldi fólks safnaðist saman og Pétur postuli útskýrði þá hvaða merkingu atburðurinn hafði. Síðan sagði hann: „Takið sinnaskiptum og látið skírast í nafni Jesú Krists svo að þið öðlist fyrirgefningu syndanna og gjöf heilags anda.“ Alls létu um 3.000 manns skírast þennan dag og fengu heilagan anda. – Post. 2:37, 38, 41.

4. (a) Hvers vegna ættum við að hafa áhuga á því sem gerðist á hvítasunnu árið 33? (b) Hvaða mikilvægi atburður kann að hafa gerst öldum áður á sama degi ársins?

4 Hvers vegna hefur hvítasunnudagurinn árið 33 þýðingu fyrir okkur? Það sem gerðist í musterinu í Jerúsalem var spádómleg fyrirmynd og Jesús Kristur, æðstipresturinn mikli, uppfyllti hana. [1] Æðstipresturinn í Ísrael færði Jehóva tvö súrdeigsbrauð þennan dag. Þau táknuðu andasmurða lærisveina sem Guð valdi úr hópi syndugra manna og ættleiddi sem syni sína. Þannig var leiðin opnuð til að sumir færu til himna til að ríkja með Jesú. Þessi hópur er kallaður „frumgróði“. (Jak. 1:18; 1. Pét. 2:9) Ríki Jehóva á eftir að veita hlýðnum mönnum mikla blessun. Hvort sem heimili okkar verður hjá Jesú á himnum eða í paradís á jörð hafa atburðir þessa dags mikil áhrif á líf okkar.

HVERNIG FER ANDASMURNING FRAM?

5. Hvernig vitum við að það fá ekki allir andasmurningu með sama hætti?

5 Lærisveinarnir í loftstofunni áttu aldrei eftir að gleyma þessum degi. Eitthvað sem líktist eldtungum settist á höfuð þeirra allra. Ef þú hefðir verið einn þeirra hefðirðu ekki verið í neinum vafa um að þú værir smurður heilögum anda, ekki síst ef þú hefðir líka farið að tala á erlendu tungumáli. (Post. 2:6-12) En fá allir andasmurningu sína með eins tilkomumiklum hætti og þessi fyrsti hópur? Nei. Hinir sem fengu andasmurningu sama dag í Jerúsalem fengu hana þegar þeir skírðust. (Post. 2:38) Það birtust engar eldtungur yfir höfði þeirra. Og það fá ekki allir andasmurningu þegar þeir skírast. Samverjar voru smurðir heilögum anda einhvern tíma eftir að þeir skírðust. (Post. 8:14-17) Biblían segir líka frá því óvenjulega dæmi þegar Kornelíus og heimilisfólk hans fengu andasmurningu áður en þau skírðust. – Post. 10:44-48.

6. Hvað fá allir hinir andasmurðu og hvaða áhrif hefur það á þá?

6 Það fá því ekki allir andasmurningu með sama hætti. Sumir hafa vitað frekar fljótt að þeir eru kallaðir en hjá öðrum hefur það tekið nokkurn tíma. En hvernig sem andasmurningin fer fram á það sem Páll postuli segir við um þá alla. Hann útskýrir að þeir hafi ,tekið trú og verið merktir innsigli heilags anda sem þeim var fyrirheitið. Hann er pantur arfleifðar þeirra.‘ (Ef. 1:13, 14) Þessi sérstaka verkun heilags anda er eins og innborgun eða trygging fyrir því sem er í vændum. Andasmurður kristinn maður er því algerlega sannfærður innra með sér um himneska köllun sína af því að hann hefur fengið þennan pant. – Lestu 2. Korintubréf 1:21, 22; 5:5.

7. Hvað verður andasmurður kristinn maður að gera til að hljóta launin á himnum?

7 Er öruggt að kristinn maður fari til himna ef hann fær andasmurningu?  Nei. Hann veit fyrir víst að hann hefur fengið boð um að fara til himna. En hvort hann fer til himna eða ekki ræðst af því hvort hann er trúr köllun sinni. Pétur útskýrði það þannig: „Kostið þess vegna fremur kapps um, systkin, að gera köllun ykkar og útvalning vissa. Ef þið gerið það munuð þið aldrei hrasa. Þá mun ykkur ríkulega veitast inngangur í hið eilífa ríki Drottins vors og frelsara Jesú Krists.“ (2. Pét. 1:10, 11) Andasmurður kristinn maður þarf því að kosta kapps um að vera trúr. Ef hann er það ekki hlýtur hann ekki launin á himnum. – Hebr. 3:1; Opinb. 2:10.

HVERNIG VEIT FÓLK AÐ ÞAÐ ER ANDASMURT?

8, 9. (a) Hvers vegna finnst flestum þjónum Guðs erfitt að skilja hvernig andasmurning fer fram? (b) Hvernig veit fólk að það hefur fengið köllun til himna?

8 Flestum þjónum Guðs finnst sennilega erfitt að skilja hvernig andasmurning fer fram. Það er ósköp eðlilegt því að þeir þekkja það ekki af eigin raun. Guð skapaði mennina til að lifa að eilífu hér á jörð. (1. Mós. 1:28; Sálm. 37:29) Jehóva hefur valið suma til að ríkja sem konungar og prestar á himnum en það er undantekning frá reglunni. Þegar hann smyr þá með anda sínum hefur það djúpstæð áhrif á hugsunarhátt þeirra og von þannig að þeir hlakka til að fara til himna. – Lestu Efesusbréfið 1:18.

9 Hvernig veit fólk að það hefur fengið himneska köllun, að það hafi í rauninni fengið þennan sérstaka ,pant‘? Svarið kemur skýrt fram í bréfi Páls til andasmurðra trúsystkina sinna í Róm sem voru heilög samkvæmt köllun. Hann skrifaði: „Þið hafið ekki fengið anda sem hneppir í þrældóm og leiðir aftur til hræðslu. Þið hafið fengið þann anda sem gerir mann að barni Guðs. Í þeim anda áköllum við: ,Abba, faðir.‘ Sjálfur andinn vitnar með anda okkar að við erum Guðs börn.“ (Rómv. 1:7; 8:15, 16) Með öðrum orðum gefur Guð einstaklingum skýr skilaboð með anda sínum um að hann hafi boðið þeim að ríkja með Jesú á himnum. – 1. Þess. 2:12.

10. Hvað er átt við í 1. Jóhannesarbréfi 2:27 þar sem segir að hinir andasmurðu þurfi þess ekki að neinn kenni þeim?

10 Þeir sem hafa fengið þetta sérstaka boð frá Guði þurfa ekki að fá staðfestingu á því frá neinum öðrum. Jehóva sér til þess að það sé enginn vafi í huga þeirra og hjarta. Jóhannes postuli segir hinum andasmurðu: „Þið þekkið öll sannleikann því að Hinn heilagi hefur smurt ykkur anda sínum.“ Hann segir enn fremur: „Andinn, sem Kristur smurði ykkur með, býr í ykkur og þið þurfið þess ekki að neinn kenni ykkur því andi hans fræðir ykkur um allt, hann er sannleiki en engin lygi. Verið stöðug í honum eins og hann kenndi ykkur.“ (1. Jóh. 2:20, 27) Andasmurðir kristnir menn þurfa fræðslu frá Jehóva eins og allir aðrir. En þeir þurfa ekki að fá staðfestingu hjá neinum um að þeir séu andasmurðir. Sterkasta aflið í alheiminum hefur gefið þeim þá sannfæringu.

ÞEIR ,FÆÐAST AÐ NÝJU‘

11, 12. Hvaða spurningar gætu sótt á andasmurðan kristinn mann en um hvað efast hann aldrei?

11 Þegar kristinn maður er smurður heilögum anda verður svo mikil breyting á honum að Jesús talaði um að  hann „fæðist að nýju“ eða „að ofan“. [2] (Jóh. 3:3, 5, neðanmáls) Hann sagði enn fremur: „Undrast eigi að ég segi við þig: Ykkur ber að fæðast að nýju. Vindurinn blæs þar sem hann vill og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki hvaðan hann kemur né hvert hann fer. Svo er um þann sem af andanum er fæddur.“ (Jóh. 3:7, 8) Það er því augljóslega ekki hægt að útskýra þessa köllun til hlítar fyrir þeim sem hafa ekki hlotið hana.

12 Þeir sem Guð hefur útvalið spyrja sig ef til vill: Hvers vegna hef ég verið valinn? Af hverju ég en ekki einhver annar? Þeir efast jafnvel um að þeir séu verðugir. Þeir efast hins vegar ekki um að Jehóva hafi útvalið þá. Þeir eru innilega þakklátir og glaðir. Þeim er eins innanbrjósts og Pétri en honum var innblásið að segja: „Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum og veitt oss óforgengilega, flekklausa og ófölnandi arfleifð sem yður er geymd á himnum.“ (1. Pét. 1:3, 4) Þegar hinir andasmurðu lesa þessi orð eru þeir ekki í minnsta vafa um að faðir þeirra á himnum sé að tala beint til þeirra.

13. Hvernig breytist hugsunarháttur þess sem er smurður heilögum anda og hvað veldur breytingunni?

13 Áður en þessir þjónar Guðs fengu köllun um að fara til himna höfðu þeir von um að lifa áfram hér á jörð. Þeir þráðu að vera á jörðinni þegar Jehóva hreinsar hana. Þeir sáu jafnvel fyrir sér hvernig þeir tækju á móti upprisnum ástvinum. Þeir hlökkuðu til að byggja hús og búa í þeim, gróðursetja tré og borða ávöxt þeirra. (Jes. 65:21-23) Hvers vegna fóru þeir að hugsa öðruvísi? Þeir urðu ekki óánægðir með vonina um eilíft líf á jörð. Þeir skiptu ekki um skoðun út af álagi og tilfinningaróti lífsins. Þeir hugsuðu ekki sem svo að það yrði leiðinlegt eða þreytandi að búa að eilífu á jörðinni eða langaði einfaldlega til að kanna nýjar víddir á himnum. Þeir fóru öllu heldur að hugsa öðruvísi vegna þess að andi Guðs bæði kallaði þá og breytti hugsun þeirra og von.

14. Hvernig hugsa hinir andasmurðu um líf sitt á jörðinni?

14 Ættum við þá að álykta sem svo að hinir andasmurðu vilji deyja? Páli var innblásið að svara spurningunni á þessa leið: „Á meðan við erum í tjaldbúðinni stynjum við mædd. Við viljum ekki afklæðast forgengilegum líkama okkar heldur íklæðast óforgengilegum líkama til þess að dauðleg tilvera okkar umbreytist og verði eilíf.“ (2. Kor. 5:4) Þeir hafa ekki misst áhugann á lífinu eða vilja að því ljúki sem fyrst. Þeir vilja óðfúsir nota hvern dag í þjónustu Jehóva ásamt vinum og ættingjum. En hvað sem þeir hafa fyrir stafni muna þeir alltaf eftir þeirri dásamlegu framtíðarvon sem þeir eiga. – 1. Kor. 15:53; 2. Pét. 1:4; 1. Jóh. 3:2, 3; Opinb. 20:6.

HEFUR ÞÚ VERIÐ KALLAÐUR?

15. Hvað er ekki sönnun fyrir því að þjónn Guðs hafi verið smurður heilögum anda?

15 Þú veltir ef til vill fyrir þér hvort þú hafir fengið himneska köllun. Ef þú heldur að það geti verið skaltu hugleiða nokkrar mikilvægar spurningar: Finnst þér þú hafa sérstaklega mikinn áhuga á boðuninni? Ertu duglegur biblíunemandi  og hefur mikið yndi af að kafa ofan í „djúp Guðs“? (1. Kor. 2:10, Biblían 1981) Finnst þér Jehóva hafa blessað þjónustu þína á sérstakan hátt? Hefurðu brennandi löngun til að gera vilja Jehóva? Finnurðu til mikillar ábyrgðar gagnvart öðrum og vilt hjálpa þeim að þjóna Jehóva? Hefurðu séð augljós merki þess að Jehóva hafi hjálpað þér í lífinu? Er svarið við öllum þessum spurningum eindregið já? Merkir það þá að þú hafir fengið himneska köllun? Nei, það gerir það ekki. Af hverju ekki? Af því að allir þjónar Guðs geta upplifað þetta, hvort sem þeir eru andasmurðir eða ekki. Andi Jehóva starfar af jafnmiklum krafti í lífi þeirra sem hafa von um að lifa að eilífu á jörð og hinna andasmurðu. Það eitt að þú skulir vera að velta fyrir þér hvort þú hafir fengið himneska köllun er merki um að þú hafir ekki fengið hana. Þeir sem Jehóva útvelur þurfa ekki að velta þessu fyrir sér. Þeir vita það fyrir víst.

16. Hvernig vitum við að það hafa ekki allir himneska köllun sem hafa fengið heilagan anda?

16 Í gegnum alla Biblíuna er að finna dæmi um trúfasta þjóna Guðs sem fengu anda hans í ríkum mæli en höfðu samt ekki himneska von. Jóhannes skírari var einn þeirra. Jesús talaði lofsamlega um hann en tók þó fram að hann færi ekki til himna. (Matt. 11:10, 11) Davíð fékk líka stuðning heilags anda. (1. Sam. 16:13) Hann fékk djúpstæðan skilning á andlegum sannindum og var meira að segja innblásið að skrifa hluta Biblíunnar. (Mark. 12:36) Á hvítasunnu árið 33 sagði Pétur samt að ,Davíð hefði ekki stigið upp til himna‘. (Post. 2:34) Heilagur andi var að verki með áberandi hætti í lífi þessara manna en Guð notaði hann ekki til að kalla þá til himna. Þetta þýddi þó engan veginn að þeir væru á einhvern hátt óverðugir eða óhæfir til að ríkja á himnum. Það þýðir einfaldlega að Jehóva ætlar að reisa þá upp til að lifa í paradís á jörð. – Jóh. 5:28, 29; Post. 24:15.

17, 18. (a) Hvaða von hafa langflestir þjónar Guðs nú á tímum? (b) Hvaða spurningum verður svarað í næstu grein?

17 Fæstir þjónar Guðs nú á tímum hafa himneska köllun. Langflestir hafa sömu von og Davíð, Jóhannes skírari og aðrir trúfastir menn á biblíutímanum. Líkt og Abraham hlakka þeir til að verða þegnar Guðsríkis á jörð. (Hebr. 11:10) Núna á endalokatímanum eru fáir eftir af þeim sem hafa verið útvaldir til að ríkja á himnum. Meirihluti þeirra 144.000, sem eru útvaldir, hafa dáið trúfastir Guði.

18 Hvernig ættu þeir sem hafa jarðneska von að líta á þá sem láta í ljós að þeir hafi himneska von? Hvernig ættirðu að bregðast við ef einhver í söfnuðinum þínum byrjar að neyta brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni? Er ástæða til að hafa einhverjar áhyggjur ef þeim fjölgar sem láta í ljós að þeir hafi himneska von? Þessum spurningum verður svarað í næstu grein.

^ [1] (4. grein.) Hvítasunnuhátíðin var hugsanlega haldin á sama tíma ársins og Móse tók við lögmálinu á Sínaífjalli. (2. Mós. 19:1) Það má því vera að Ísraelsþjóðin hafi gengist undir lagasáttmálann fyrir milligöngu Móse sama dag ársins og Jesús gerði nýja sáttmálann við nýja þjóð, hinn andlega Ísrael.

^ [2] (11. grein.) Nánari skýringu á því hvað það merkir að fæðast að nýju er að finna í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. apríl 2009, bls. 3-11.