Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vissir þú?

Vissir þú?

Hvaða skatta þurfti fólk að borga á dögum Jesú?

ÍSRAELSMENN höfðu frá fornu fari stutt sanna tilbeiðslu með fjárframlögum. En á dögum Jesú voru skattarnir orðnir íþyngjandi og erfiðir fyrir Gyðinga.

Allir fullorðnir karlmenn meðal Gyðinga borguðu hálfan sikil (tvær drökmur) árlega til að styðja tilbeiðsluna við tjaldbúðina og seinna musterið. Á fyrstu öld voru þessi framlög notuð til að viðhalda musterinu sem Heródes lét byggja og útvega fórnargjafir. Sumir Gyðingar spurðu Pétur um afstöðu Jesú til skatta og hann mælti ekki gegn því að borga þá. Hann bað reyndar Pétur að ná í pening til að greiða í skatt. – Matt. 17:24–27.

Fólk Guðs borgaði líka tíund í þá daga, sem þýddi að það borgaði tíunda hluta af uppskeru eða tekjum. (3. Mós. 27:30–32; 4. Mós. 18:26–28) Trúarleiðtogarnir heimtuðu að tíundin væri borguð af öllu grænmeti, jafnvel „af myntu, dilli og broddkúmeni“. Jesús mælti ekki á móti tíund en afhjúpaði hræsni fræðimanna og farísea. – Matt. 23:23.

Rómverjar voru við völd á þeim tíma og þeir lögðu marga skatta á fólk. Landeigendur þurftu til dæmis að borga skatt í formi peninga eða afurða. Áætlað er að þessi skattur hafi verið á bilinu 20 til 25 prósent. Gyðingar þurftu líka að borga nefskatt. Þetta var skatturinn sem farísearnir spurðu Jesú um. Hann sýndi hvað væri rétt afstaða þegar hann sagði: „Gjaldið þá keisaranum það sem tilheyrir keisaranum en Guði það sem tilheyrir Guði.“ – Matt. 22:15–22.

Það var líka borgað gjald af vörum sem fóru inn á ákveðið gjaldsvæði eða út úr því. Skatturinn var innheimtur við hlið, brýr, vegamót eða þar sem farið var inn í bæ eða á markað.

Allir þessir skattar voru fólki ákaflega þung byrði undir stjórn Rómverja. Rómverski sagnfræðingurinn Tacitus sagði að þegar Tíberíus keisari var við völd á dögum Jesú hafi Sýrland og Júdea verið að kikna undan byrðum sínum og grátbeðið um að skattgjaldið yrði lækkað.

Byrðin varð enn þyngri vegna þess hvernig innheimtu skattana var háttað. Vinnuna við innheimtuna fengu hæstbjóðendur sem sömdu síðan við aðra um að innheimta féð. Allir reyndu þeir að hagnast á vinnunni. Sakkeus virðist hafa verið með slíka innheimtumenn á sínum snærum. (Lúk. 19:1, 2) Fólki misbauð þetta skiljanlega og það hafði ekki mikið álit á þeim sem innheimtu af því fé.