Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 NÁMSGREIN 25

Reiddu þig á Jehóva þegar þú ert undir álagi

Reiddu þig á Jehóva þegar þú ert undir álagi

„Ég er ... með hryggð í hjarta.“ – 1. SAM. 1:15, Biblían 1981.

SÖNGUR 30 Guð er vinur minn og faðir

YFIRLIT *

1. Hvers vegna þurfum við að hlusta á viðvörun Jesú?

JESÚS sagði í spádómi sínum um síðustu daga: „Hafið gát á sjálfum yður, látið ekki ... áhyggjur þessa lífs ná tökum á yður.“ (Lúk. 21:34) Hvers vegna þurfum við að hlusta á þessa viðvörun? Eins og er þurfum við að takast á við sams konar álag og erfiðleika og aðrir.

2. Hvers konar erfiðleikum standa bræður okkar og systur frammi fyrir?

2 Stundum herja margs konar erfið vandamál á okkur á sama tíma. Skoðum eftirfarandi dæmi: Vottur að nafni John, * sem er með MS-sjúkdóminn, var niðurbrotinn þegar eiginkona hans fór frá honum eftir 19 ára hjónaband. Síðan hættu báðar dætur hans að þjóna Jehóva. Hjónin Bob og Linda stóðu frammi fyrir annars konar erfiðleikum. Þau misstu bæði vinnuna og síðan misstu þau heimilið. Auk þessara erfiðleika greindist Linda með hjartasjúkdóm sem gat dregið hana til dauða og annar sjúkdómur herjaði á ónæmiskerfið.

3. Hvað getum við verið viss um samkvæmt Filippíbréfinu 4:6, 7?

3 Jehóva er kærleiksríkur faðir okkar og skapari. Við getum verið viss um að hann skilur hvernig okkur líður undir álagi. Og hann vill hjálpa okkur að takast á við erfiðleikana sem við stöndum frammi fyrir. (Lestu Filippíbréfið 4:6, 7.) Í orði Guðs er að finna margar frásögur sem segja frá erfiðleikum sem þjónar Jehóva gengu í gegnum. Þar er líka sagt frá því hvernig Jehóva hjálpaði  þeim að takast á við erfiðleikana. Skoðum nokkur dæmi.

„ELÍA VAR MAÐUR EINS OG VIГ

4. Hvaða prófraunum stóð Elía frammi fyrir og hvernig hugsaði hann um Jehóva?

4 Elía þjónaði Jehóva á erfiðum tímum og stóð frammi fyrir miklum prófraunum. Akab var einn af ótrúu konungunum í sögu Ísraels. Hann kvæntist Jesebel en hún var vond kona sem tilbað Baal. Þau hvöttu til Baalsdýrkunar um allt landið og myrtu marga spámenn Jehóva. Elía tókst að flýja. Hann lifði einnig af mikla hungursneyð með því að reiða sig á Jehóva. (1. Kon. 17:2–4, 14–16) Elía reiddi sig einnig á Jehóva þegar hann bauð spámönnum og tilbiðjendum Baals birginn. Hann lagði ríkt á við Ísraelsmenn að tilbiðja Jehóva. (1. Kon. 18:21–24, 36–38) Elía upplifði oft hvernig Jehóva verndaði og hjálpaði honum á þessum erfiðu tímum.

Jehóva sendi engil til að hjálpa Elía að endurheimta styrkinn. (Sjá 5. og 6. grein.) *

5, 6. Hvernig leið Elía eins og sjá má í 1. Konungabók 19:1–4 og hvernig sýndi Jehóva að hann elskaði hann?

5 Lestu 1. Konungabók 19:1–4En Elía varð hræddur þegar Jesebel drottning hótaði að drepa hann. Hann flúði því til Beerseba. Hann varð svo kjarklaus að hann „óskaði þess eins að deyja“. Hvers vegna leið honum þannig? Elía var ófullkominn maður, hann var „maður eins og við“. (Jak. 5:17) Hann var ef til vill örmagna og bugaður af álagi. Elía virðist hafa haldið að það sem hann lagði á sig  til að stuðla að hreinni tilbeiðslu hafi verið til einskis, að ekkert hefði batnað í Ísrael og að hann væri sá eini sem tilbæði Jehóva enn þá. (1. Kon. 18:3, 4, 13; 19:10, 14) Okkur kemur kannski á óvart að þessum trúfasta spámanni skyldi hafa liðið þannig. En Jehóva skildi tilfinningar Elía.

6 Jehóva skammaði Elía ekki fyrir að tjá tilfinningar sínar. Þess í stað hjálpaði hann honum að endurheimta styrk. (1. Kon. 19:5–7) Seinna leiðrétti Jehóva hugsunarhátt Elía vinsamlega með því að sýna honum mikilfenglegan mátt sinn. Jehóva benti honum svo á að það væru enn 7.000 manns í Ísrael sem neituðu að tilbiðja Baal. (1. Kon. 19:11–18) Með þessu sýndi Jehóva að hann elskaði Elía.

HVERNIG HJÁLPAR JEHÓVA OKKUR?

7. Hvernig hughreystir það okkur að sjá hvernig Jehóva hjálpaði Elía?

7 Ert þú að kljást við erfiðar aðstæður? Það er hughreystandi til þess að vita að Jehóva skildi tilfinningar Elía. Það fullvissar okkur um að hann skilji líka hugarkvöl okkar. Hann þekkir takmarkanir okkar og veit jafnvel hvað við hugsum og hvernig okkur líður. (Sálm. 103:14; 139:3, 4) Ef við líkjum eftir Elía og reiðum okkur á Jehóva hjálpar hann okkur að takast á við erfiðleika sem valda okkur streitu. – Sálm. 55:23.

8. Hvernig hjálpar Jehóva þér að rísa undir álagi?

8 Við getum farið að hugsa neikvætt þegar við erum undir álagi og það dregur úr okkur kjarkinn. Ef það gerist hjá þér skaltu muna að Jehóva mun hjálpa þér að rísa undir álaginu. Hvernig gerir hann það? Hann býður þér að segja sér frá erfiðleikum þínum. Og hann svarar þér þegar þú leitar til hans. (Sálm. 5:4; 1. Pét. 5:7) Biddu því oft til Jehóva og segðu honum frá erfiðleikum þínum. Hann talar ekki til þín á sama hátt og hann talaði við Elía en hann talar til þín í orði sínu Biblíunni og fyrir milligöngu safnaðarins. Frásögurnar sem þú lest í Biblíunni geta hughreyst þig og veitt þér von. Og bræður og systur geta uppörvað þig. – Rómv. 15:4; Hebr. 10:24, 25.

9. Hvernig getur góður vinur hjálpað okkur?

9 Jehóva sagði Elía að fela Elísa sum verkefna sinna. Þannig gaf Jehóva Elía góðan vin sem gat hjálpað honum að halda út þegar hann var niðurdreginn. Á sama hátt getur góður vinur hjálpað okkur að bera byrðar okkar ef við segjum honum hvernig okkur líður. (2. Kon. 2:2; Orðskv. 17:17) Ef þér finnst þú ekki geta tjáð þig við neinn skaltu biðja Jehóva að hjálpa þér að finna þroskaðan vin innan safnaðarins sem getur veitt þér tilfinningalegan stuðning.

10. Hvernig veitir reynsla Elía okkur von og hvernig getur loforðið í Jesaja 40:28, 29 hjálpað okkur?

10 Jehóva hjálpaði Elía að rísa undir álagi og þjóna trúfastur í mörg ár. Reynsla hans veitir okkur von. Stundum getum við verið undir svo miklu álagi að við erum líkamlega og tilfinningalega úrvinda. En ef við reiðum okkur á Jehóva gefur hann okkur kraftinn sem við þurfum til að halda áfram að þjóna honum. – Lestu Jesaja 40:28, 29.

HANNA, DAVÍÐ OG „ASAF“ REIDDU SIG Á JEHÓVA

11–13. Hvaða áhrif hafði tilfinningaálag á þrjá þjóna Guðs til forna?

11 Aðrar biblíupersónur voru líka undir miklu álagi. Til dæmis þurfti Hanna  að þola þá smán að vera barnlaus auk þess sem hin eiginkona mannsins hennar niðurlægði hana. (1. Sam. 1:2, 6) Þetta gerði Hönnu svo örvæntingarfulla og sára að hún grét og missti matarlystina. – 1. Sam. 1:7, 10.

12 Stundum var Davíð konungur að kikna undan álagi. Hugsaðu þér erfiðleikana sem hann þurfti að þola. Hann var með mikla sektarkennd vegna þeirra mörgu mistaka sem honum urðu á. (Sálm. 40:13) Absalon, elskaður sonur Davíðs, gerði uppreisn gegn föður sínum og það varð honum að falli. (2. Sam. 15:13, 14; 19:1) Og einn af nánustu vinum Davíðs sveik hann. (2. Sam. 16:23–17:2; Sálm. 55:13–15) Margir sálma Davíðs lýsa bæði depurð hans og óhagganlegu trausti á Jehóva. – Sálm. 38:6–11; 94:17–19.

Hvað hjálpaði sálmaritaranum að endurheimta gleðina í þjónustunni við Jehóva? (Sjá 13.–15. grein.) *

13 Seinna fór annar sálmaritari að öfunda hina guðlausu. Hann gæti hafa verið afkomandi Asafs sem var Levíti og hann þjónaði við „helgidóma Guðs“. Þessi sálmaritari var undir tilfinningaálagi sem varð til þess að hann varð ósáttur og óhamingjusamur. Hann dró jafnvel í efa blessunina sem hlýst af því að þjóna Guði. – Sálm. 73:2–5, 7, 12–14, 16, 17, 21.

14, 15. Hvað lærum við af þessum þrem frásögum í Biblíunni um það að leita hjálpar hjá Jehóva?

14 Þessir þrír trúföstu þjónar Jehóva reiddu sig allir á hjálp hans. Þeir sögðu honum frá kvíða sínum í innilegum bænum. Þeir töluðu frjálslega við hann um það hvers vegna þeim leið illa. Og þeir héldu áfram að sækja tilbeiðslustað Jehóva. – 1. Sam. 1:9, 10; Sálm. 55:23; 73:17; 122:1.

 15 Jehóva svaraði hverjum og einum þeirra á samúðarfullan hátt. Hanna öðlaðist hugarró. (1. Sam. 1:18) Davíð sagði: „Margar eru raunir réttláts manns en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum.“ (Sálm. 34:20) Og hinn sálmaritarinn fann að Jehóva ,hélt í hægri hönd hans‘ og leiðbeindi honum á kærleiksríkan hátt. Hann söng: „Mín gæði eru það að vera nálægt Guði, ég gerði Drottin að athvarfi mínu.“ (Sálm. 73:23, 24, 28) Hvað lærum við af þessum dæmum? Stundum íþyngja vandamál okkur og valda okkur áhyggjum. En við getum haldið út með því að hugleiða hvernig Jehóva hefur hjálpað öðrum, reiða okkur á hann í bæn og hlýða honum með því að gera það sem hann biður okkur um. – Sálm. 143:1, 4–8.

NJÓTTU FARSÆLDAR MEÐ ÞVÍ AÐ REIÐA ÞIG Á JEHÓVA

Í fyrstu langaði systur eina að einangra sig en ástandið breyttist til hins betra þegar hún leitaði leiða til að hjálpa öðrum. (Sjá 16. og 17. grein.)

16, 17. (a) Hvers vegna ættum við ekki að einangra okkur? (b) Hvernig getum við endurheimt styrkinn?

16 Við getum dregið annan mikilvægan lærdóm af þessum þrem dæmum – við ættum ekki að einangra okkur frá Jehóva og söfnuði hans. (Orðskv. 18:1, NW) Nancy varð fyrir miklu áfalli þegar eiginmaður hennar fór frá henni. Hún  segir: „Oft langaði mig ekki til að hitta eða tala við neinn. En því meira sem ég einangraði mig því niðurdregnari varð ég.“ Ástandið breyttist þegar Nancy leitaði leiða til að hjálpa öðrum sem voru að glíma við vandamál. Hún segir: „Ég hlustaði þegar aðrir sögðu mér frá erfiðleikum sínum og tók eftir að þegar ég hafði meiri samúð með þeim vorkenndi ég sjálfri mér minna.“

17 Við getum endurheimt styrkinn með því að sækja safnaðarsamkomur. Þegar við mætum á samkomur gefum við Jehóva fleiri tækifæri til að ,hjálpa okkur og hugga‘. (Sálm. 86:17) Á samkomum notar hann heilagan anda sinn, Biblíuna og trúsystkinin til að styrkja okkur. Þar höfum við tækifæri til að „uppörvast saman“. (Rómv. 1:11, 12) Systir sem heitir Sophia segir: „Jehóva og söfnuðurinn héldu mér gangandi. Samkomurnar voru mér mikilvægastar. Ég hef komist að því að ég tekst betur á við áhyggjur og álag þegar ég legg mig fram í boðuninni og í söfnuðinum.“

18. Hvað getur Jehóva gefið okkur ef við erum kjarklaus?

18 Þegar eitthvað dregur úr okkur kjark skulum við muna að Jehóva lofar ekki bara varanlegri lausn í framtíðinni heldur býðst hann líka til að hjálpa okkur að rísa undir álagi núna. Hann gefur okkur bæði löngun og kraft til að takast á við kjarkleysi og vonleysi. – Fil. 2:13.

19. Hvað fullvissar Rómverjabréfið 8:37–39 okkur um?

19 Lestu Rómverjabréfið 8:37–39Páll postuli fullvissar okkur um að ekkert geti gert okkur viðskila við kærleika Guðs. Hvernig getum við hjálpað bræðrum okkar og systrum sem eru undir miklu álagi? Í næstu grein skoðum við hvernig við getum líkt eftir Jehóva með því að sýna samúð og styðja trúsystkini okkar þegar þau eru undir álagi.

SÖNGUR 44 Bæn hins bágstadda

^ gr. 5 Við getum orðið fyrir líkamlegum og tilfinningalegum skaða ef við erum undir miklu álagi eða undir álagi í langan tíma. Hvernig getur Jehóva hjálpað okkur? Við skoðum hvernig hann hjálpaði Elía að rísa undir álagi. Fleiri dæmi úr Biblíunni sýna hvernig við getum leitað til Jehóva þegar við erum undir álagi.

^ gr. 2 Nöfnum í þessari grein hefur verið breytt.

^ gr. 53 MYND: Engill Jehóva vekur Elía blíðlega og gefur honum brauð og vatn.

^ gr. 55 MYND: Afkomandi Asafs nýtur þess að semja sálma og syngja með öðrum Levítum.