Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leitaðu verndar gegn gildru Satans

Leitaðu verndar gegn gildru Satans

ÍSRAELSMENN til forna búa sig undir að fara yfir Jórdaná inn í landið sem Guð hafði lofað þeim. Þá koma gestir. Gestirnir eru útlendar konur sem bjóða mönnunum til veislu. Það gat virst vera frábært og einstakt tækifæri. Það gat verið mjög freistandi að eignast nýja vini, dansa og borða góðan mat. Venjur og siðferði þessara kvenna var ekki í samræmi við það sem Ísraelsmenn höfðu lært í lögmáli Guðs en sumir Ísraelskir karlmenn kunna að hafa hugsað: „Við ráðum við þetta. Við pössum okkur.“

 Hvað gerðist? Innblásin frásagan segir: ,Þjóðin tók að hórast með móabískum konum.‘ Í rauninni vildu konurnar fá ísraelsku karlmennina til að tilbiðja falsguði. Og það gerðu þeir! Skiljanlega „blossaði reiði Drottins upp gegn Ísrael“. – 4. Mós. 25:1–3.

Þessir Ísraelsmenn brutu lög Guðs á tvo vegu. Þeir féllu fram fyrir skurðgoðum og gerðust sekir um kynferðislegt siðleysi. Þúsundir dóu vegna óhlýðni þeirra. (2. Mós. 20:4, 5, 14; 5. Mós. 13:7–10) Hvað jók á þessa hörmung? Það gerði tímasetningin. Ef mennirnir hefðu ekki brotið lög Guðs hefðu þúsundir Ísraelsmanna brátt farið yfir Jórdan og inn í fyrirheitna landið. – 4. Mós. 25:5, 9.

Páll postuli skrifaði um þessa atburði: „Allt þetta kom yfir þá sem fyrirboði og það er ritað til viðvörunar okkur sem endir aldanna er kominn yfir.“ (1. Kor. 10:7–11) Það hefur vafalaust glatt Satan að sumir Ísraelsmannanna skyldu syndga alvarlega með þeim afleiðingum að þeir fengu ekki að fara inn í fyrirheitna landið. Það væri viturlegt að líta á frásöguna sem viðvörun til okkar. Satan yrði mjög ánægður ef hann gæti hindrað okkur í að komast inn í nýjan heim Guðs.

HÆTTULEG GILDRA

Satan reynir líka að hremma þjóna Guðs nú á dögum og notar til þess aðferðir sem hafa virkað áður. Eins og fram hefur komið notaði Satan kynferðislegt siðleysi til að veiða Ísraelsmenn í gildru. Sú gildra er enn þá hættuleg. Eitt sem hæglega getur leitt okkur í hana er klám.

Núorðið er hægt að horfa á klám án þess að aðrir taki eftir því. Áður fyrr þurfti sá sem vildi horfa á klám að fara út í bæ til að sjá óviðeigandi kvikmyndir eða kaupa klámfengið efni. Skömmin sem fylgdi því að láta sjá sig á svona stöðum eða nálægt þeim hélt vafalaust aftur af mörgum. En núna getur sá sem hefur aðgang að Netinu horft á klám í vinnunni eða í bílnum sínum. Í mörgum löndum geta menn nálgast klám án þess að fara út úr húsi.

En það er ekki allt og sumt. Snjalltæki hafa auðveldað fólki aðgang að klámi. Það getur gengið um götur eða ferðast með strætisvagni og horft um leið á siðlausar myndir í símanum sínum.

Þar sem nú er orðið auðveldara að horfa á klám og leyna því veldur það meiri skaða en nokkru sinni fyrr. Fjölmargir sem horfa á klám skaða hjónaband sitt og grafa undan mannlegri reisn sinni og samvisku. Það sem verra er, þeir eiga á hættu að skemma vináttusamband sitt við Guð. Þú getur verið viss um að klám skaðar þann sem horfir á það. Í mörgum tilfellum skilur það eftir djúp tilfinningaleg sár. Ef til vill gróa sárin smátt og smátt en þau geta skilið eftir sig ör til langs tíma.

Það er mikilvægt að vita að Jehóva býður okkur vernd gegn þessari gildru Satans. Til að njóta verndar Jehóva verðum við að gera það sem Ísraelsmenn til forna gerðu ekki – að hlýða honum. (2. Mós. 19:5) Við þurfum að gera okkur grein fyrir að Guð hatar klám. Hvernig vitum við það?

HATAÐU ÞAÐ EINS OG JEHÓVA GERIR

Hugleiddu eftirfarandi: Lögin sem Jehóva gaf Ísraelsþjóðinni voru frábrugðin lögum annarra þjóða til forna. Þau voru eins og veggur sem gat haldið þjóðinni aðskilinni frá þjóðunum í kring og viðbjóðslegum siðum þeirra. (5. Mós. 4:6–8) Lögin sýndu skýrt fram á þann mikilvæga sannleika að Jehóva hatar kynferðislegt siðleysi.

Jehóva taldi upp spilltar athafnir nágrannaþjóðanna og sagði Ísraelsmönnum að þeir ættu ekki að hegða sér samkvæmt  siðum íbúa Kanaanslands, þangað sem hann leiddi þá og bætti við: „Landið saurgaðist og ég refsaði því fyrir sekt sína.“ Lífsstíll Kanverja var svo ógeðslegur í augum hins heilaga Guðs Ísraels að hann leit á landið sem þeir bjuggu í sem óhreint, mengað. – 3. Mós. 18:3, 25.

Jehóva refsaði Kanverjunum en aðrar þjóðir héldu áfram að stunda kynferðislegt siðleysi. Meira en 1.500 árum síðar lifðu kristnir menn meðal þjóða sem Páll sagði ,tilfinningalausar‘ í siðferðismálum og að íbúar þeirra hefðu „ofurselt sig lostalífi svo að þeir frömdu alls konar siðleysi af græðgi“. (Ef. 4:17–19) Margt fólk nú á dögum er líka mjög siðlaust og skammast sín ekki fyrir það. Sannir tilbiðjendur Jehóva verða að forðast eftir fremsta megni að horfa á siðlausar athafnir.

Klám lýsir grófu virðingarleysi við Guð. Hann skapaði mennina í sinni mynd og áskapaði okkur tilfinningu fyrir því hvað sé rétt og rangt. Í visku sinni setti hann lög um kynlíf. Hann vildi að það væri heilbrigður og ánægjulegur þáttur í lífi hjóna. (1. Mós. 1:26–28; Orðskv. 5:18, 19) En hvað gera þeir sem framleiða klám og koma því á framfæri? Þeir hunsa algerlega siðferðisreglur Guðs. Fólk sem kemur klámi á framfæri vanvirðir Jehóva. Hann dæmir þá sem framleiða siðlaust efni eða koma því á framfæri og hafa þannig að engu lög hans. – Rómv. 1:24–27.

Hvað um fólk sem viljandi les klámfengið efni eða horfir á það? Sumum gæti fundist það vera skaðlaus skemmtun. En þeir styðja í rauninni þá sem vanvirða lög Guðs. Það var ef til vill ekki ætlun þeirra þegar þeir byrjuðu að horfa á klám. Biblían sýnir engu að síður að tilbiðjendur hins sanna Guðs eigi að hafa megnan viðbjóð á klámi. Biblían áminnir: „Þér, sem elskið Drottin, hatið illt.“ – Sálm. 97:10.

Jafnvel þeim sem vilja forðast að horfa á klám getur fundist það erfitt. Við erum ófullkomin og þurfum ef til vill að leggja hart að okkur til að geta barist gegn óhreinum kynferðislöngunum. Þar að auki gæti  ófullkomið hjarta okkar reynt að finna leið fram hjá lögum Guðs. (Jer. 17:9) En margir kristnir menn hafa sigrað í baráttunni. Sú vitneskja getur verið þér hvatning ef þú átt í svipaðri baráttu. Veittu athygli hvernig orð Guðs getur hjálpað þér að forðast þá gildru Satans sem klám er.

LÁTTU EKKI HUGANN DVELJA VIÐ SIÐLAUSAR LANGANIR

Eins og fram hefur komið létu margir Ísraelsmenn rangar langanir þróast með sér með hörmulegum afleiðingum. Það sama getur gerst núna. Jakob, hálfbróðir Jesú, lýsti hættunni svona: „Það er eigin girnd sem ... dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð elur hún synd.“ (Jak. 1:14, 15) Þegar röng löngun hefur vaxið að ákveðnu marki í hjarta manns er líklegt að hann syndgi. Við þurfum því að losa okkur við siðlausar hugsanir en láta hugann ekki dvelja við þær.

Bregstu um leið við ef óhreinar hugsanir sækja að þér. Jesús sagði: „Ef hönd þín eða fótur tælir þig til falls þá sníð hann af og kasta frá þér ... Og ef auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr og kasta frá þér.“ (Matt. 18:8, 9) Jesús var ekki að mæla bókstaflega með því að skaða líkamann. Hann notaði myndmál til að sýna að nauðsynlegt sé að fjarlægja hratt og örugglega hvaðeina sem getur orðið okkur að falli. Hvernig getum við farið eftir þessum leiðbeiningum í baráttunni við klám?

Ef þú rekst á klám skaltu ekki hugsa: „Ég ræð við þetta.“ Líttu tafarlaust undan. Slökktu strax á sjónvarpinu. Slökktu án tafar á tölvunni eða snjalltækinu. Beindu huganum að því sem er hreint. Það getur hjálpað þér að hafa stjórn á hugsun þinni í stað þess að láta rangar langanir stjórna þér.

HVAÐ MEÐ MINNINGAR UM SIÐLAUST AFÞREYINGAREFNI?

Hvað er til ráða ef þú hefur vanið þig á að horfa á klám og unnið bug á því en minningar um það sækja á þig af og til? Klámfengnar myndir eða hugsanir geta dvalið í  huganum í langan tíma. Þær geta skotið upp kollinum fyrirvaralaust. Ef það gerist finnurðu ef til vill sterka löngun til að gera eitthvað óhreint eins og að fróa þér. Gerðu þér því grein fyrir að slíkar hugsanir geta sótt á þig allt í einu og vertu undir það búinn að berjast gegn þeim.

Styrktu þann ásetning að láta hugsanir þínar og verk vera í samræmi við vilja Guðs. Líktu eftir Páli postula sem var tilbúinn að ,aga líkama sinn og gera hann að þræli sínum‘. (1. Kor. 9:27) Láttu ekki óhreinar langanir ná tökum á þér. Láttu „heldur umbreytast með hinu nýja hugarfari“ og lærðu „svo að skilja hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna“. (Rómv. 12:2) Mundu að ánægjan af því að hugsa og breyta í samræmi við vilja Guðs er miklu meiri en stundargleðin sem fylgir því að láta undan syndugum tilhneigingum.

Ánægjan af því að hugsa og breyta í samræmi við vilja Guðs er miklu meiri en stundargleðin sem fylgir því að láta undan syndugum tilhneigingum.

Reyndu að leggja ákveðin biblíuvers á minnið. Vertu ákveðinn í að hugleiða þessi vers þegar rangar hugsanir koma upp í hugann. Biblíuvers eins og Sálmur 119:37, Jesaja 52:11, Matteus 5:28, Efesusbréfið 5:3, Kólossubréfið 3:5 og 1. Þessaloníkubréf 4:4–8 geta hjálpað þér að laga hugsun þína að viðhorfi Jehóva til kláms og skilja hvers hann væntir af þér.

Hvað ef löngunin til að horfa á siðlaust efni eða láta hugann dvelja við siðleysi verður um stundarsakir nánast óbærileg? Líktu eftir fyrirmynd okkar Jesú. (1. Pét. 2:21) Eftir skírn Jesú hélt Satan áfram að freista hans. Hvað gerði Jesús? Hann hélt áfram að standa gegn honum. Hann vitnaði endurtekið í orð Guðs og stóðst freistingar Satans. Hann sagði: „Vík brott, Satan!“ Og Satan fór frá honum. Jesús gafst aldrei upp í baráttu sinni gegn Djöflinum. Þú ættir ekki heldur að gera það. (Matt. 4:1–11) Satan og heimur hans reynir að fá þig til að láta hugann dvelja við siðleysi. En gefstu ekki upp. Þú getur unnið baráttuna gegn klámi. Með hjálp Jehóva getur þú sigrað óvin þinn.

LEITAÐU TIL JEHÓVA Í BÆN OG HLÝDDU HONUM

Reiddu þig á Jehóva með því að leita oft til hans í bæn. Páll sagði: „Gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.“ (Fil. 4:6, 7) Friður Guðs auðveldar þér baráttuna gegn syndinni. Ef þú nálægir þig Guði ,mun hann nálgast þig‘. – Jak. 4:8.

Sterkt vináttusamband við alvaldan Drottin alheims er besta vörnin gegn hvers kyns hættum. Jesús sagði: „Höfðingi heimsins [Satan] kemur. Í mér á hann ekkert.“ (Jóh. 14:30) Hvernig gat Jesús verið svo viss um það? Hann útskýrði eitt sinn: „Sá sem sendi mig er með mér. Hann hefur ekki látið mig einan því ég geri ætíð það sem honum þóknast.“ (Jóh. 8:29) Jehóva yfirgefur þig aldrei ef þú reynir þitt besta til að gleðja hann í öllu sem þú gerir. Ef þú forðast þá gildru sem klám er tekst Satan aldrei að ná tangarhaldi á þér.