Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 NÁMSGREIN 23

„Gætið þess að láta engan hertaka ykkur“

„Gætið þess að láta engan hertaka ykkur“

„Gætið þess að láta engan hertaka ykkur með marklausu, villandi spekitali sem byggist á mannasetningum.“ – KÓL. 2:8.

SÖNGUR 96 Bók Guðs er fjársjóður

YFIRLIT *

1. Hvernig reynir Satan að ná tökum á huga okkar samkvæmt Kólossubréfinu 2:4, 8?

SATAN vill snúa okkur gegn Jehóva. Hann höfðar til langana okkar og beitir ýmsum blekkingum í von um að hafa áhrif á hugsunarhátt okkar. Með þessum hætti reynir hann að ná okkur á sitt vald. – Lestu Kólossubréfið 2:4, 8.

2, 3. (a) Af hverju þurfum við að taka viðvörunina í Kólossubréfinu 2:8 alvarlega? (b) Um hvað er rætt í þessari grein?

2 Er virkilega hætta á að Satan leiði okkur afvega? Já, sú hætta er fyrir hendi. Páll var ekki að skrifa vantrúuðum þegar hann sagði það sem stendur í Kólossubréfinu 2:8 heldur kristnum mönnum sem voru smurðir heilögum anda. (Kól. 1:2, 5) Þessir kristnu menn voru í hættu staddir og við sem nú lifum erum í enn meiri hættu. (1. Kor. 10:12) Af hverju? Af því að Satan hefur verið kastað niður til jarðar og reynir eins og hann getur að villa um fyrir trúum þjónum Guðs. (Opinb. 12:9, 12, 17) Við lifum auk þess tíma þegar vondir menn og svikarar „magnast í vonskunni“. – 2. Tím. 3:1, 13.

3 Í þessari grein könnum við hvernig Satan beitir innantómum blekkingum til að reyna að hafa áhrif á huga okkar og skoðum þrenns konar „vélabrögð“ sem hann notar. (Ef. 6:11) Í greininni á eftir er síðan rætt hvernig við getum upprætt öll skaðleg áhrif sem hann hefur ef til vill haft á hugsunarhátt okkar með blekkingum sínum. En fyrst skulum við kynna okkur hvernig Satan leiddi  Ísraelsmenn afvega eftir að þeir gengu inn í fyrirheitna landið og hvað megi læra af því.

FREISTAÐ TIL AÐ DÝRKA SKURÐGOÐ

4–6. Hvernig þurftu Ísraelsmenn að breyta búskaparháttum sínum þegar þeir settust að í fyrirheitna landinu, samanber 5. Mósebók 11:10–15?

4 Satan beitti lævísri aðferð til að freista Ísraelsmanna til að dýrka skurðgoð. Hann notfærði sér það að þeir þurftu að sjá fyrir sér. Þegar Ísraelsmenn settust að í fyrirheitna landinu þurftu þeir að læra nýjar aðferðir við að rækta matvæli. Í Egyptalandi höfðu þeir sótt vatn í Níl til að vökva akra sína. Í fyrirheitna landinu byggðist akuryrkja hins vegar ekki á því að sækja vatn í stórt og mikið fljót heldur á því að nýta árstíðabundið regn og eins döggina sem vökvaði gróðurinn. (Lestu 5. Mósebók 11:10 – 15; Jes. 18:4, 5) Þess vegna þurftu Ísraelsmenn að tileinka sér nýjar ræktunaraðferðir. Það hefur ekki verið auðvelt því að flestir þeirra sem höfðu einhverja reynslu af landbúnaði dóu í eyðimörkinni.

Hvernig tókst Satan að hafa áhrif á hugsunarhátt ísraelskra bænda? (Sjá 4.–6. grein.) *

5 Jehóva útskýrði fyrir fólki sínu að aðstæður þess hefðu breyst. Síðan bætti hann við eftirfarandi viðvörun sem við fyrstu sýn virðist ekki eiga neitt skylt við akuryrkju: „Gætið þess að láta ekki ginna ykkur til að víkja af leið og þjóna öðrum guðum og sýna þeim lotningu.“ (5. Mós. 11:16, 17) Hvers vegna varaði Jehóva þá við því að dýrka falsguði þegar hann var tala um nýjar búskaparaðferðir?

6 Jehóva vissi að Ísraelsmönnum þætti freistandi að læra ýmsa staðbundna búskaparhætti af heiðingjunum sem þeir  bjuggu á meðal. Nágrannarnir voru auðvitað miklu reyndari en þeir og það mátti læra margt gagnlegt af þeim. En viss hætta var á ferðum. Þessir kanversku bændur trúðu á Baal og það hafði áhrif á hugsunarhátt þeirra. Þeir trúðu að Baal ætti himininn og gæfi þeim regnið. Jehóva vildi ekki að þjónar sínir létu blekkjast af slíkri falstrú. Engu að síður kusu Ísraelsmenn æ ofan í æ að tilbiðja Baal. (4. Mós. 25:3, 5; Dóm. 2:13; 1. Kon. 18:18) Taktu nú eftir hvernig Satan tókst að ná Ísraelsmönnum á sitt vald.

ÞRJÁR AÐFERÐIR SATANS TIL AÐ NÁ ÍSRAELSMÖNNUM Á SITT VALD

7. Hvernig reyndi á trú Ísraelsmanna í fyrirheitna landinu?

7 Fyrsta aðferðin sem Satan notaði var að höfða til eðlilegrar löngunar að sjá regnið vökva landið. Það rigndi lítið í fyrirheitna landinu frá því seint í apríl fram til septemberloka. Líf fólks og afkoma var háð regntímabilinu sem hófst yfirleitt í október. Satan taldi Ísraelsmönnum trú um að þeir yrðu að tileinka sér siði heiðinna nágranna sinna til að vegna vel. Nágrannarnir trúðu að guðirnir létu ekki rigna nema þeir löðuðu þá til þess með ákveðnum helgisiðum. Þeir sem voru veikir í trúnni á Jehóva héldu að þetta væri eina leiðin til að afstýra langvinnum þurrki svo að þeir viðhöfðu heiðna helgisiði til heiðurs falsguðinum Baal.

8. Nefndu aðra aðferð sem Satan beitti. Lýstu henni nánar.

8 Önnur aðferð sem Satan beitti var að höfða til siðlausra langana Ísraelsmanna. Gróft kynferðislegt siðleysi var annar þáttur í guðsdýrkun heiðingjanna. Það var meðal annars fólgið í því að bæði konur og karlar stunduðu vændi við musteri guðanna. Kynlíf samkynhneigðra og annað siðlaust kynlíf var ekki aðeins umborið heldur talið eðlilegt. (5. Mós. 23:17, 18; 1. Kon. 14:24) Heiðingjarnir trúðu að helgisiðir af þessu tagi væru guðunum hvatning til að gera landið frjósamt. Siðlausar trúarathafnir heiðingjanna toguðu í Ísraelsmenn með þeim afleiðingum að þeir létu tælast til að dýrka falska guði. Þannig náði Satan þeim á sitt vald.

9. Hvernig misstu Ísraelsmenn sjónar á því hver Jehóva væri, samanber Hósea 2:18, 19?

9 Þriðja aðferð Satans var að láta Ísraelsmenn missa sjónar á því hver Jehóva væri. Á dögum Jeremía spámanns sagði Jehóva að falsspámenn hefðu fengið Ísraelsmenn til að gleyma nafni hans „vegna Baals“. (Jer. 23:27) Þjóð Guðs hætti greinilega að nota nafnið Jehóva og tók í staðinn upp nafnið Baal en það merkir ,eigandi‘ eða ,húsbóndi‘. Þetta gerði Ísraelsmönnum erfitt fyrir að sjá muninn á Jehóva og Baal svo að það var ekkert tiltökumál að blanda saman helgisiðum Baalsdýrkunar og tilbeiðslunni á Jehóva. – Lestu Hósea 2:18, 19.

AÐFERÐIR SATANS NÚ Á TÍMUM

10. Hvaða aðferðum beitir Satan nú á tímum?

10 Satan beitir sömu aðferðum nú á dögum. Hann nær fólki á sitt vald með því að höfða til eðlilegra langana, ýta undir kynferðislegt siðleysi og láta það missa sjónar á því hver Jehóva er. Lítum fyrst á síðastnefndu aðferðina.

11. Hvernig hefur Satan ruglað fólk í ríminu?

 11 Satan lætur fólk missa sjónar á því hver Jehóva er. Eftir að postular Jesú dóu fóru sumir sem kölluðu sig kristna að útbreiða falskar kenningar. (Post. 20:29, 30; 2. Þess. 2:3) Þessir fráhvarfsmenn rugluðu fólk í ríminu svo að það fékk skakka mynd af hinum eina sanna Guði. Þeir fjarlægðu til dæmis nafn hans þegar þeir gerðu afrit af Biblíunni og settu titil eins og „Drottinn“ í staðinn. Þannig gerðu þeir fólki erfitt fyrir að sjá muninn á Jehóva og öðrum ,drottnum‘ sem nefndir eru í Biblíunni. (1. Kor. 8:5) Þeir notuðu titilinn „Drottinn“ bæði um Jehóva og Jesú þannig að það var ekki lengur skýrt fyrir fólki að Jehóva og sonur hans væru tvær persónur og ólíkir að tign. (Jóh. 17:3) Þessi ruglingur greiddi fyrir kennisetningunni um þrenningu – en hún á sér enga stoð í Biblíunni. Afleiðingin er sú að Guð er hjúpaður dulúð og margir halda að það sé ekki hægt að kynnast honum. Það er helber lygi! – Post. 17:27.

Hvernig hefur Satan notað fölsk trúarbrögð til að höfða til siðlausra langana? (Sjá 12. grein.) *

12. Hvað hafa fölsk trúarbrögð ýtt undir og með hvaða afleiðingum, samanber Rómverjabréfið 1:28–31?

12 Satan höfðar til siðlausra langana. Á tímum Forn-Ísraels notaði Satan falstrú til að ýta undir siðleysi. Hið sama er uppi á teningnum núna. Fölsk trúarbrögð umbera siðlaust líferni eða ýta jafnvel undir það. Margir sem segjast þjóna Guði hafa þar af leiðandi látið skýrar siðferðisreglur hans lönd og leið. Páll postuli lýsir afleiðingunum í Rómverjabréfinu. (Lestu Rómverjabréfið 1:28 – 31.) Meðal þess sem er ,ósæmilegt‘ má nefna alls konar kynferðislegt siðleysi, þar á meðal kynhegðun samkynhneigðra. (Rómv. 1:24–27, 32; Opinb. 2:20) Það er ákaflega mikilvægt að hvika ekki frá skýrum kenningum Biblíunnar.

13. Nefndu enn eitt kænskubragð sem Satan beitir.

13 Satan höfðar til eðlilegra langana. Okkur langar eðlilega til að mennta okkur í einhverju sem getur auðveldað okkur að sjá fyrir sjálfum okkur og fjölskyldu okkar. (1. Tím. 5:8) Námfúsir  nemendur geta lært margt gagnlegt í skóla. En við þurfum að sýna varúð. Menntakerfi margra landa leggur ekki aðeins áherslu á að nemendur afli sér verkkunnáttu og færni heldur ýtir einnig að þeim hugmyndafræði heimsins. Nemendur eru hvattir til að véfengja að Guð sé til og því er haldið fram að lítið mark sé takandi á Biblíunni. Þeim er sagt að þróunarkenningin sé eina vitlega skýringin á uppruna lífsins. (Rómv. 1:21–23) Hugmyndir af þessu tagi stríða gegn „speki Guðs“. – 1. Kor. 1:19–21; 3:18–20.

14. Undir hvað ýtir hugmyndafræði manna?

14 Hugmyndafræði manna tekur ekki mið af réttlátum mælikvarða Jehóva og stangast oft á við hann. Hún hjálpar okkur ekki að bera ávöxt anda Guðs heldur ýtir undir „holdsins verk“. (Gal. 5:19–23) Hún vekur upp stolt og stærilæti með þeim afleiðingum að fólk verður eigingjarnt. (2. Tím. 3:2–4) Þessir eiginleikar stinga í stúf við þá auðmýkt og hógværð sem þjónar Guðs eru hvattir til að temja sér. (Ef. 4:2) Sumir vottar sem hafa farið í háskóla hafa látið hugarfar sitt mótast af hugmyndum manna en ekki Guðs. Við skulum líta á eitt dæmi um hvernig getur farið.

Hvernig getur hugmyndafræði manna brenglað hugsun okkar? (Sjá 14.–16. grein.) *

15, 16. Hvað má læra af reynslu systur nokkurrar?

15 Systir sem hefur þjónað Jehóva í fullu starfi í meira en 15 ár segir: „Sem skírður vottur hafði ég lesið og heyrt um hætturnar sem fylgja háskólanámi en ég gaf því engan gaum. Mér fannst þessar leiðbeiningar ekki eiga við mig.“ Hvaða  erfiðleika hafði það í för með sér? „Námið var svo tímafrekt og krefjandi,“ segir hún, „að ég gaf mér varla tíma til að biðja til Jehóva eins og ég hafði verið vön, var of þreytt til að búa mig almennilega undir samkomur og svo uppgefin að ég naut þess ekki að ræða við fólk um biblíuleg mál. Þegar ég gerði mér grein fyrir að strembið háskólanám kom niður á sambandi mínu við Jehóva vissi ég að ég yrði að hætta náminu. Sem betur fer gerði ég það.“

16 Hvaða áhrif hafði æðri menntun á hugsunarhátt þessarar systur? Hún svarar: „Ég skammast mín fyrir að þurfa að viðurkenna að menntunin sem ég valdi kenndi mér að vera gagnrýnin á aðra, sérstaklega trúsystkini mín, ætlast til of mikils af þeim og einangra mig frá þeim. Ég var lengi að venja mig af þessu. Þessi reynsla sýndi mér hve hættulegt það er að hunsa þær viðvaranir sem faðir okkar á himnum gefur fyrir milligöngu safnaðarins. Jehóva þekkti mig betur en ég gerði sjálf. Ég vildi óska að ég hefði hlustað.“

17. (a) Hvað ættum við að vera ákveðin í að gera? (b) Um hvað er rætt í næstu grein?

17 Vertu ákveðinn í að láta aldrei ,hertaka þig með marklausu villandi spekitali‘ þessa heims. Vertu alltaf á verði gegn kænskubrögðum Satans. (1. Kor. 3:18; 2. Kor. 2:11) Misstu aldrei sjónar á því hver Jehóva er. Lifðu í samræmi við háleitar siðferðisreglur hans. Og láttu Satan ekki plata þig til að hunsa leiðbeiningar Jehóva. En segjum að þú uppgötvir að þú hafir litast af hugsunarhætti heimsins. Í næstu grein er rætt hvernig Biblían getur hjálpað okkur að uppræta rótgrónar venjur og hugmyndir. – 2. Kor. 10:4, 5.

SÖNGUR 49 Gleðjum hjarta Jehóva

^ gr. 5 Satan er snillingur í að blekkja fólk. Hann hefur talið mörgum trú um að þeir séu frjálsir þó að þeir séu í rauninni fangar hans. Í þessari grein brjótum við til mergjar nokkrar aðferðir sem Satan beitir til að villa um fyrir fólki.

^ gr. 48 MYND: Ísraelsmanna sem umgangast Kanverja er freistað til að tilbiðja Baal og til að gerast sekir um siðleysi.

^ gr. 51 MYND: Auglýsing frá trúfélagi sem er umburðarlynt gagnvart samkynhneigð.

^ gr. 53 MYND: Ung systir við háskólanám. Hún og samnemendur hennar gleypa við þeirri staðhæfingu prófessorsins að vísindi og tækni geti leyst öll vandamál mannkyns. Í ríkissalnum er hún síðan áhugalítil og gagnrýnin.