Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 ÆVISAGA

Blessun Jehóva var framar öllum vonum mínum

Blessun Jehóva var framar öllum vonum mínum

ÉG ÁTTAÐI mig á að ég ætti að vera brautryðjandi en velti þó fyrir mér hvort brautryðjandastarfið væri nokkuð svo spennandi. Vinnan sem ég var í veitti mér mikla ánægju. Ég sá um útflutning á matvörum frá Þýskalandi til framandi staða í Afríku eins og Dar es Salaam, Elisabethville og Asmara. Ég vissi það ekki þá en seinna átti ég eftir að þjóna Jehóva í fullu starfi á mörgum stöðum í Afríku, meðal annars í þessum borgum.

Með tímanum sigraðist ég á efasemdum mínum og gerðist brautryðjandi. Brautryðjandastarfið var meira spennandi en ég hefði getað ímyndað mér. (Ef. 3:20) Viltu vita hvernig það gerðist? Það er saga að segja frá því.

Ég fæddist í Berlín árið 1939, aðeins nokkrum mánuðum eftir að síðari heimsstyrjöldin braust út. Undir lok stríðsins, árið 1945, varð Berlín fyrir þungum loftárásum. Gatan þar sem við fjölskyldan bjuggum varð fyrir einni slíkri árás. Við leituðum skjóls í loftvarnarbyrgi og síðar flúðum við í öruggt skjól til Erfurt, fæðingarborgar mömmu.

Með foreldrum mínum og systur í Þýskalandi um 1950.

Mamma var mjög leitandi. Hún las rit ýmissa heimsspekinga og kynnti sér mörg trúarbrögð en fann hvergi fullnægjandi svör. Það hefur verið í kringum 1948 sem tveir vottar Jehóva bönkuðu upp á heima hjá okkur. Mamma bauð þeim inn og var með margar spurningar. Það var varla klukkutími liðinn þegar mamma sagði við mig og yngri systur mína: „Ég hef fundið sannleikann!“ Fljótlega fórum við þrjú að sækja samkomur í Erfurt.

Árið 1950 fluttumst við aftur til Berlínar. Þar mættum við á samkomur hjá vottum Jehóva í Kreuzberg-söfnuðinum. Eftir að hafa flutt okkur um set í Berlín mættum við á samkomur hjá Tempelhof-söfnuðinum. Mamma tók framförum og lét skírast. Ég var hins vegar tvístígandi. Hvers vegna?

AÐ TAKAST Á VIÐ FEIMNI

Þar sem ég var mjög feiminn tók ég litlum framförum. Ég fór að vísu í boðunina en lét aðra sjá um að tala í heil tvö ár. Breyting varð á þegar ég kynntist trúsystkinum sem höfðu sýnt mikið hugrekki og varðveitt hollustu sína gagnvart Jehóva á erfiðum tímum. Sum þeirra höfðu verið í fangabúðum nasista eða í fangelsum í Austur-Þýskalandi. Önnur trúsystkini höfðu smyglað ritum til  Austur-Þýskalands og með því stefnt frelsi sínu í hættu. Fordæmi þeirra hafði djúpstæð áhrif á mig. Ég hugsaði sem svo að fyrst þau hættu lífi og limum fyrir Jehóva og trúbræður sína hlyti ég í það minnsta að geta reynt að takast á við feimnina.

Árið 1955 var gert sérstakt boðunarátak. Ég tók þátt í því og það hjálpaði mér að takast á við feimnina. Í bréfi sem var birt í Informant * lýsti bróðir Nathan Knorr yfir að þetta átak væri eitt það stærsta í sögu safnaðarins. Hann sagði að ef allir boðberar tækju þátt yrði þetta „gleðilegasti mánuðurinn í boðuninni hér á jörð“. Og sú varð raunin. Stuttu seinna vígði ég mig Jehóva og árið 1956 skírðist ég ásamt pabba mínum og systur. En það leið ekki á löngu þar til ég þurfti að taka mikilvæga ákvörðun.

Árum saman sló ég brautryðjandastarfinu á frest þótt ég vissi að ég ætti í rauninni að stefna að því. Ég ákvað að fara fyrst í starfsnám hjá fyrirtæki í Berlín sem sá um inn- og útflutning á vörum. Eftir það vildi ég vinna í faginu um tíma til að öðlast reynslu og færni. Þess vegna þáði ég starf í Hamborg, stærstu hafnarborg Þýskalands. Því betri tökum sem ég náði á starfinu því minna hugsaði ég um að byrja í brautryðjandastarfinu. Hvað breytti því?

Ég er Jehóva þakklátur fyrir að hafa notað umhyggjusama bræður til að hjálpa mér að skilja að þjónustan við hann skiptir mestu máli. Nokkrir vina minna höfðu gerst brautryðjendur og fordæmi þeirra hvatti mig áfram. Erich Mundt, bróðir sem hafði verið í útrýmingarbúðum, hvatti mig auk þess til að treysta á Jehóva. Hann sagði að bræður sem höfðu eingöngu treyst á sjálfa sig í útrýmingarbúðunum hefðu með tímanum orðið veikir í trúnni. Þeir sem treystu algerlega á Jehóva varðveittu aftur á móti ráðvendni sína og gátu síðar meir komið að miklu gagni í söfnuðinum.

Nýbyrjaður í brautryðjandastarfinu, 1963.

Bróðir Martin Pötzinger, sem sat síðar meir í stjórnandi ráði, hvatti bræðurna til dáða og sagði: „Enginn eiginleiki er jafn þarfur og hugrekki.“ Ég hugleiddi þetta vel, sagði síðan upp vinnunni og gerðist brautryðjandi í júní árið 1963. Það var besta ákvörðun sem ég gat tekið! Rétt tveim mánuðum seinna bauðst mér að gerast sérbrautryðjandi, meira að segja áður en ég var farinn að leita mér að nýrri vinnu. Nokkrum árum seinna naut ég þeirrar blessunar að vera í 44. nemendahóp Gíleaðskólans. Þessi blessun frá Jehóva var framar öllum mínum vonum.

EITT ÞAÐ MIKILVÆGASTA SEM ÉG LÆRÐI Í GÍLEAÐ

Að gefa verkefni sitt ekki fljótt upp á bátinn var eitt það mikilvægasta sem ég lærði. Bræðurnir Nathan Knorr og Lyman Swingle lögðu sérstaka áherslu á þetta. Þeir hvöttu okkur til að halda út í þeim verkefnum sem okkur yrði úthlutað, þótt það gæti reynst erfitt. Bróðir Knorr spurði: „Hverju ætlarðu að einbeita þér að? Flugunum, fátæktinni, moldinni og rykinu? Eða tekurðu eftir fallegu trjánum, blómunum og glaðlegum andlitum? Lærðu að elska fólkið sem þú hittir!“ Einn daginn útskýrði bróðir Swingle fyrir okkur hvers vegna sumir bræður gæfust fljótt upp. Hann varð mjög meyr. Hann þurfti að gera stutt hlé til þess að jafna sig. Þetta hafði sterk áhrif á mig og ég var staðráðinn í að valda hvorki Kristi né trúföstum bræðrum hans vonbrigðum. – Matt. 25:40.

Ég, Claude og Heinrich þegar við vorum trúboðar í Lubumbashi 1967.

Við fengum að lokum að vita hvert við yrðum send. Nokkrir Betelítar voru áhugasamir um hvert við færum. Þeir brugðust jákvætt við þegar þeir heyrðu hvert nemendurnir væru að fara, það er að segja þar til ég svaraði: „Kongó (Kinshasa).“ Eftir smá þögn sögðu þeir: „Æ, æ, Kongó! Jehóva verði með þér.“ Á þessum tíma snerist fréttaflutningur um Kongó aðallega um stríðsátök, málaliða og launmorð. En ég reyndi að hafa hugfast það sem ég hafði lært síðustu mánuðina. Í september 1967, stuttu eftir útskriftina,  lagði ég síðan af stað til Kinshasa, höfuðborgar Kongó, ásamt Heinrich Dehnbostel og Claude Lindsay.

FRÁBÆR ÞJÁLFUN FYRIR TRÚBOÐA

Við lærðum frönsku í þrjá mánuði eftir að við komum til Kinshasa. Þá flugum við til Lubumbashi sem hét áður Elisabethville og er syðst í Kongó við landamæri Sambíu. Við fengum að búa á trúboðsheimilinu sem var í miðbænum.

Í Lubumbashi höfðu fáir heyrt boðskapinn þar sem þetta var að mestu leyti ósnert svæði. Okkur fannst því spennandi að segja fólkinu þar frá boðskapnum. Áður en langt um leið héldum við fleiri biblíunámskeið en við gátum með góðu móti sinnt. Við vitnuðum líka fyrir embættismönnum og lögreglumönnum en margir þeirra báru mikla virðingu fyrir orði Guðs og boðun okkar. Flestir heimamenn töluðu svahílí þannig að við Claude Lindsay tókum þeirri áskorun að læra tungumál þeirra líka. Skömmu síðar vorum við því sendir til svahílí-mælandi safnaðar.

Það var margt skemmtilegt sem dreif á daga okkar en það gekk líka á ýmsu. Við urðum oft fyrir barðinu á árásargjörnum lögreglumönnum eða drukknum hermönnum sem sökuðu okkur um að hafa gert hitt og þetta. Hópur vopnaðra lögreglumanna ruddist eitt sinn inn á samkomu á trúboðsheimilinu og fór með okkur bræðurna á lögreglustöðina. Þar þurftum við að sitja á gólfinu til klukkan tíu um kvöldið þar til við vorum látnir lausir.

 Árið 1969 var ég útnefndur farandhirðir. Á ferðum mínum um starfssvæðið fékk ég að kynnast óbyggðum Afríku þar sem ég gekk langar vegalengdir um grösuga moldarstígana. Eitt sinn gisti ég í þorpi þar sem hæna með unga sína leitaði skjóls á næturnar undir rúminu þar sem ég svaf. Ég gleymi því aldrei hvernig hún reif mig á fætur með ógurlegum látum fyrir sólarupprás. Ég hugsa líka oft með hlýju til þess tíma þegar ég og vinir úr söfnuðinum áttum ánægjulegar samræður um sannleikann við varðeld fram á nótt.

Eitt það erfiðasta sem við þurftum að takast á við voru falsbræður sem studdu Kitawala-hreyfinguna. * Sumir þeirra létu skírast og urðu jafnvel öldungar í söfnuðinum. Þeir voru eins og „blindsker“ en bræður okkar og systur létu þó ekki blekkjast. (Júd. 12, Biblían 1981) Jehóva hreinsaði að lokum söfnuðinn sem gerði það að verkum að fjölmargir komu inn í sannleikann.

Árið 1971 var ég sendur til deildarskrifstofunnar í Kinshasa. Þar sinnti ég ýmsum verkefnum eins og ritarastörfum og ritapöntunum, auk verkefna sem heyra nú undir þjónustudeildina. Á Betel lærði ég hvernig skipuleggja ætti starfið í stórum þróunarríkjum. Stundum var erfitt að koma bréfasendingum til safnaða og það gat jafnvel tekið marga mánuði. Bréfin voru send flugleiðis og svo komið fyrir í bátum sem mjökuðust hægt áfram í gegnum þéttar breiður af vatnahýasintum. En hlutirnir gengu alltaf upp þrátt fyrir hindranir eins og þessar.

Það var ótrúlegt að sjá hvernig bræðurnir gátu haldið stór mót þótt þeir hefðu ekki úr miklu að spila. Þeir skáru út ræðupúlt úr termítabúum, notuðu fílagras fyrir veggi og rúlluðu því upp til að nota sem sessur fyrir sætin. Þeir notuðu bambusstangir fyrir burðarstólpa og bjuggu til þak og borð úr reyrmottum. Í stað nagla notuðu þeir trjábörk sem þeir skáru í ræmur og bundu bambusstangirnar með. Ég gat ekki annað en dáðst að þessum þrautseigu og útsjónarsömu trúsystkinum. Mér fór að þykja mjög vænt um þau og það var því sárt að þurfa að kveðja þau þegar ég var sendur á nýtt starfssvæði.

NÝTT STARFSSVÆÐI Í KENÍA

Árið 1974 var ég sendur til deildarskrifstofunnar í Naíróbí í Kenía. Það var mikið að gera enda hafði deildarskrifstofan þar umsjón með boðuninni í tíu nærliggjandi löndum, og í sumum þeirra var starfið bannað. Ég var oft sendur til þessara landa, sérstaklega Eþíópíu þar sem bræður okkar voru ofsóttir og þurftu að ganga í gegnum mikla erfiðleika. Margir voru fangelsaðir eða þeim misþyrmt á hrottalegan hátt og sumir jafnvel drepnir. En þeir voru trúfastir og héldu út vegna þess að þeir elskuðu Jehóva og hver annan.

Líf mitt tók óvænta stefnu þegar ég giftist ástinni minni árið 1980. Hún heitir Gail Matheson og er kanadísk. Við vorum í sama nemendahópi í Gíleaðskólanum og höfðum haldið sambandi í gegnum bréfaskriftir. Gail starfaði sem trúboði í Bólivíu. Við hittumst svo aftur í New York tólf árum eftir útskriftina. Við giftum okkur stuttu seinna í Kenía. Ég er henni mjög þakklátur því að hún sér hlutina alltaf frá sjónarhóli Jehóva og er nægjusöm og þakklát fyrir það sem hún hefur. Hún er mér stoð og stytta enn þann dag í dag.

Árið 1986, á sama tíma og ég var í deildarnefndinni, vorum við hjónin send til að sinna farandstarfi. Það fól í sér að heimsækja mörg af þeim löndum sem deildarskrifstofan í Kenía hafði umsjón með.

Á móti í Asmara 1992.

Ég man vel eftir því þegar við undirbjuggum mót árið 1992 í Asmara (í Eritreu), en starfsemi okkar var bönnuð þar. Við fundum ekkert betra en hrörlega hlöðu sem leit jafnvel verr út að innan en utan. Ég var undrandi þegar ég sá hversu vel bræðrunum hafði tekist að breyta hlöðunni í fallegan tilbeiðslustað  sem var boðlegur Jehóva. Til dæmis hjálpuðust margar fjölskyldur að við að hylja það sem stakk í augun og fegra salinn. Mótið var ánægjulegt og dagskráin spennandi en alls sóttu 1.279 manns mótið.

Það var mikil breyting fyrir okkur að vera í farandstarfinu. Við gistum á mismunandi stöðum í hverri viku og þurftum því að vera sveigjanleg. Eitt sinn gistum við í glæsilegri gestaálmu í stóru húsi við ströndina. Öðru sinni vorum við í bárujárnsskúr og við þurftum að ganga meira en 100 metra til að nota snyrtinguna. En það sem stendur upp úr eru minningarnar af löngum dögum í boðuninni með kappsömum brautryðjendum og boðberum. Þegar við fengum okkar næsta verkefni þurftum við að kveðja marga góða vini sem við áttum eftir að sakna.

UPPGANGUR Í EÞÍÓPÍU

Seint á níunda áratug síðustu aldar og snemma á þeim tíunda var banninu aflétt á starfsemi okkar í nokkrum löndum sem deildarskrifstofan í Kenía hafði umsjón með. Þá voru opnaðar deildarskrifstofur á fleiri stöðum og einnig landsskrifstofur. Árið 1993 var okkur falið að starfa á landsskrifstofu í Addis Ababa í Eþíópíu þar sem starfsemi okkar var nú leyfð eftir að hafa verið neðanjarðar í áratugi.

Við hjónin í farandstarfi í Eþíópíu 1996.

Jehóva hefur blessað starfið í Eþíópíu. Á hverju ári hefur ríflega fimmti hver boðberi þjónað sem brautryðjandi síðan 2012. Skólar á vegum safnaðarins hafa auk þess veitt nauðsynlega kennslu og fleiri en 120 ríkissalir hafa verið reistir. Betelfjölskyldan fluttist inn í nýtt húsnæði árið 2004 og reist var mótshöll á svæðinu sem hefur verið mikil blessun.

Við hjónin höfum eignast marga góða vini í Eþíópíu í gegnum árin. Okkur þykir innilega vænt um þau en þau eru svo umhyggjusöm og hlýleg. Vegna heilsuleysis þurftum við nýverið að flytjast til deildarskrifstofunnar í Mið-Evrópu. Þótt hugsað sé vel um okkur hér er vina okkar í Eþíópíu sárt saknað.

JEHÓVA GAF VÖXTINN

Við höfum séð hvernig Jehóva hefur gefið vöxtinn. (1. Kor. 3:6, 9) Nú starfa til að mynda fleiri en 30.000 bræður og systur í Rúanda. En engir boðberar voru starfandi þar í landi þegar ég vitnaði í fyrsta skipti fyrir námuverkamönnum frá Rúanda í koparbelti Kongó. Árið 1967 voru í kringum 6.000 boðberar í Kongó. Nú eru þeir orðnir um 230.000 og meira en milljón manns sótti minningarhátíðina árið 2018. Í þeim löndum sem heyrðu eitt sinn undir deildarskrifstofuna í Kenía eru boðberar orðnir fleiri en 100.000 talsins.

Jehóva notaði ýmsa bræður til að hjálpa mér að hefja þjónustu í fullu starfi fyrir meira en hálfri öld. Þótt ég sé enn þá feiminn hef ég lært hversu mikilvægt það er að reiða sig alltaf á Jehóva. Reynslan sem ég hlaut í Afríku hefur kennt mér að vera þolinmóðari og nægjusamari. Við hjónin berum mikla virðingu fyrir trúsystkinum okkar sem við kynntumst þar. Þau sýna einstaka gestrisni, þolgæði í þrautum og traust á Jehóva. Ég þakka Jehóva fyrir að hafa verið mér svona góður. Blessun hans hefur verið framar öllum mínum vonum og væntingum. – Sálm. 37:4.

^ gr. 11 Síðar kallað Ríkisþjónusta okkar en nú hefur Líf okkar og boðun – vinnubók fyrir samkomur tekið við af henni.

^ gr. 23 Orðið kitawala er dregið af sögn á svahílí sem þýðir ,að drottna, stjórna eða stýra‘. Þetta var pólitísk hreyfing sem barðist fyrir sjálfstæði undan oki Belga. Kitawala-hópar urðu sér úti um rit Votta Jehóva, kynntu sér efni þeirra, dreifðu því og sneru út úr kenningum Biblíunnar til að styðja eigin pólitísk viðhorf, heiðna siði og ranga hegðun sína.