Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 NÁMSGREIN 27

Búðu þig núna undir ofsóknir

Búðu þig núna undir ofsóknir

„Allir [verða] ofsóttir sem lifa vilja guðrækilega í Kristi Jesú.“ – 2. TÍM. 3:12.

SÖNGUR 129 Reynumst þolgóð

YFIRLIT *

1. Hvers vegna þurfum við að búa okkur undir ofsóknir?

KVÖLDIÐ áður en Drottinn okkar Jesús var líflátinn sagði hann að allir lærisveinar hans yrðu hataðir. (Jóh. 17:14) Enn þann dag í dag eru trúfastir þjónar Jehóva ofsóttir af andstæðingum sannrar tilbeiðslu. (2. Tím. 3:12) Og við gerum ráð fyrir að andstæðingar okkar herði ofsóknirnar eftir því sem endir þessa heimskerfis nálgast. – Matt. 24:9.

2, 3. (a) Hvað þurfum við að vita um ótta? (b) Hvað skoðum við í þessari grein?

2 Hvernig getum við búið okkur undir ofsóknir núna? Við þurfum ekki að hugsa um allt það slæma sem gæti komið fyrir okkur. Ef við gerðum það gætum við orðið heltekin af ótta og kvíða. Við gætum látið bugast af ímyndaðri ógn áður en við verðum fyrir nokkurri raunverulegri prófraun. (Orðskv. 12:25; 17:22) Hræðsla er öflugt vopn sem ,óvinur okkar, djöfullinn,‘ reynir að nota gegn okkur. (1. Pét. 5:8, 9) Hvað getum við gert núna til að búa okkur undir að þola ofsóknir?

3 Í þessari grein ræðum við um hvernig við getum styrkt samband okkar við Jehóva og hvers vegna er mikilvægt að gera það núna. Við skoðum einnig hvað við getum gert til að efla kjarkinn. Og að lokum skoðum við hvernig við getum staðist hatur frá andstæðingum.

HVERNIG GETURÐU STYRKT VINÁTTUNA VIÐ JEHÓVA?

4. Hvað er okkur sagt í Hebreabréfinu 13:5, 6 og af hverju þurfum við að vera sannfærð um að það sé rétt?

4 Vertu sannfærður um að Jehóva elski þig og að hann yfirgefi þig aldrei. (Lestu Hebreabréfið 13:5, 6.) Fyrir  mörgum árum sagði í Varðturninum: „Sá sem þekkir Guð best treystir honum best í prófraunum.“ Það er hverju orði sannara. Til að geta staðist ofsóknir verðum við að elska Jehóva og treysta honum algerlega og við megum aldrei efast um að hann beri umhyggju fyrir okkur. – Matt. 22:36–38; Jak. 5:11.

5. Hvað getur hjálpað þér að finna hvernig Jehóva elskar þig?

5 Lestu daglega í Biblíunni með það markmið að nálægja þig Jehóva. (Jak. 4:8) Beindu athyglinni að blíðum eiginleikum Jehóva þegar þú lest. Reyndu að finna fyrir kærleika hans og umhyggju í því sem hann segir og gerir. (2. Mós. 34:6) Sumum getur fundist erfitt að trúa að Guð elski þá vegna þess að þeim hefur aldrei verið sýnd ástúð. Ef þér líður þannig skaltu reyna að skrifa niður á hverjum degi hvernig Jehóva hefur sýnt þér miskunn og góðvild. (Sálm. 78:38, 39; Rómv. 8:32) Þér kemur eflaust margt í hug sem Jehóva hefur gert fyrir þig þegar þú hugleiðir það sem þú hefur upplifað sjálfur og lesið í orði Guðs. Samband þitt við Jehóva styrkist eftir því sem þú verður þakklátari fyrir það sem hann gerir. – Sálm. 116:1, 2.

6. Hvernig geta innilegar bænir hjálpað þér, samanber Sálm 94:17–19?

6 Biddu reglulega til Jehóva. Ímyndaðu þér lítinn strák í fangi pabba síns. Strákurinn er alveg öruggur og segir pabba sínum frá öllu sem gerðist yfir daginn, bæði því góða og slæma. Þú getur notið sams konar sambands ef þú nálægir þig Jehóva í innilegri bæn á hverjum degi. (Lestu Sálm 94:17–19.) Þegar þú biður til kærleiksríks föður þíns skaltu ,úthella hjarta þínu eins og vatni‘ og segja honum frá öllu því sem veldur þér ótta og áhyggjum. (Harmlj. 2:19) Þá kynnistu því sem Biblían kallar ,frið Guðs, sem er æðri öllum skilningi‘. (Fil. 4:6, 7) Þú verður nánari Jehóva eftir því sem þú biður oftar á þennan hátt. – Rómv. 8:38, 39.

Það veitir okkur kjark að treysta á Jehóva og ríki hans.

Stanley Jones styrkti sig með því að fullvissa sig um að Guðsríki væri raunverulegt. (Sjá 7. grein.)

7. Hvers vegna þarftu að vera sannfærður um að loforð Jehóva um Guðsríki rætist?

7 Vertu sannfærður um að blessunin sem Guðsríki færir verði að veruleika. (4. Mós. 23:19) Ef trú þín á loforð Guðs er ekki sterk er auðveldara fyrir Satan og fulltrúa hans að hræða þig. (Orðskv. 24:10; Hebr. 2:15) Hvernig geturðu styrkt trú þína á ríki Guðs núna? Taktu þér tíma til að rannsaka loforð Guðs um ríkið og hvers vegna þú getur verið fullviss um að þau rætist. Hvernig hjálpar það þér? Hugleiddu reynslu Stanley Jones sem sat í fangelsi í sjö ár vegna trúarinnar. * Hvað hjálpaði honum að halda út trúfastur? Hann sagði:  „Vitneskjan um ríki Guðs styrkti mig. Ég var alveg viss og efaðist ekki eitt augnablik. Mér var ekki haggað.“ Ef þú hefur sterka trú á loforð Guðs verðurðu nánari Jehóva og lætur ótta ekki ná tökum á þér. – Orðskv. 3:25, 26.

8. Hvað getum við lært um sjálf okkur þegar við skoðum viðhorf okkar til samkomusóknar? Skýrðu svarið.

8 Sæktu samkomur reglulega. Samkomurnar hjálpa okkur að nálægja okkur Jehóva. Viðhorf okkar til samkomusóknar er góð vísbending um hvernig við eigum eftir að takast á við ofsóknir í framtíðinni. (Hebr. 10:24, 25) Hvernig þá? Ef við leyfum smámunum að koma í veg fyrir að við mætum á samkomur núna, hvað verður þá um okkur í framtíðinni ef við þurfum að stofna okkur í hættu til að hitta trúsystkini okkar? Ef við aftur á móti einsetjum okkur að sækja alltaf samkomur látum við ekki undan þegar andstæðingar reyna að hindra okkur í að safnast saman. Núna er rétti tíminn til að læra að meta samkomurnar. Ef við njótum þess að sækja samkomur getur engin mótspyrna, ekki einu sinni bann frá yfirvöldum, fengið okkur til að hætta að hlýða Guði framar en mönnum. – Post. 5:29.

Að leggja á minnið ritningarstaði og söngvana okkar núna getur veitt þér styrk í ofsóknum. (Sjá 9. grein.) *

9. Hvers vegna er gott að búa sig undir ofsóknir með því að að leggja ritningarstaði á minnið?

9 Leggðu á minnið ritningarstaði sem eru í uppáhaldi hjá þér. (Matt. 13:52) Þó að þú sért ekki með fullkomið minni getur Jehóva notað heilagan anda sinn til að hjálpa þér að muna þessa ritningarstaði. (Jóh. 14:26) Taktu eftir því hvað bróðir sem var fangelsaður í Austur-Þýskalandi og settur í einangrun sagði: „Ég var mjög ánægður þá að hafa verið búinn að læra nokkur hundruð ritningarstaði utanbókar. Í einverunni gat ég haldið huganum uppteknum við að hugleiða ýmis biblíuefni.“ Þessi biblíuvers hjálpuðu bróður okkar að varðveita náið samband við Jehóva og vera trúfastur.

(Sjá 10. grein.) *

10. Hvers vegna ættum við að leggja söngva á minnið?

10 Syngdu söngva sem lofa Jehóva og leggðu þá á minnið. Þegar Páll og Sílas voru fangar í Filippí sungu þeir lofsöngva sem þeir höfðu lagt á minnið. (Post. 16:25) Hvernig styrktu trúsystkini okkar í Sovétríkjunum trú sína á svipaðan hátt þegar þau voru send í útlegð til  Síberíu? Systir Maríja Fedún sagði: „Við sungum alla söngvana sem við kunnum úr söngbókinni.“ Hún sagði að þessir söngvar hefðu uppörvað þau öll og að þeim hefði fundist þau nálæg Jehóva. Styrkir það þig að syngja söngvana okkar sem eru í uppáhaldi hjá þér? Þá skaltu leggja þá á minnið núna. – Sjá rammann „ Gefðu mér kjark“.

HVERNIG GETURÐU EFLT KJARKINN?

11, 12. (a) Hvað gerði Davíð kjarkmikinn eins og sjá má af 1. Samúelsbók 17:37, 45–47? (b) Hvaða mikilvæga lærdóm drögum við af frásögunni af Davíð?

11 Það þarf kjark til að standast ofsóknir. Hvað geturðu gert ef þér finnst að þig skorti kjark? Hafðu í huga að hugrekki ræðst ekki af stærð þinni, styrk eða getu. Hugleiddu hvað hinn ungi Davíð gerði þegar hann stóð frammi fyrir Golíat. Í samanburði við þennan risa var Davíð lítill, veikbyggður og illa vopnum búinn. Hann var ekki einu sinni með sverð. En hann var kjarkmikill. Davíð hljóp djarfur fram til að berjast við þennan hrokafulla risa.

12 Hvað gerði Davíð svona kjarkmikinn? Hann treysti því algerlega að Jehóva væri með honum. (Lestu 1. Samúelsbók 17:37, 45–47.) Davíð einblíndi ekki á það hve stór Golíat var í samanburði við hann heldur á hvað Golíat var agnarsmár í samanburði við Jehóva. Hvað lærum við af þessu? Við fyllumst kjarki ef við erum sannfærð um að Jehóva sé með okkur og að andstæðingar okkar séu agnarsmáir í samanburði við almáttugan Guð. (2. Kron. 20:15; Sálm. 16:8) Hvernig getum við eflt kjarkinn núna – áður en við lendum í ofsóknum?

13. Hvernig getum við eflt kjarkinn? Skýrðu svarið.

13 Við getum eflt kjarkinn núna með því að boða öðrum fagnaðarerindið um ríki Guðs. Hvernig þá? Þegar við boðum trúna lærum við að treysta á Jehóva og vinna bug á ótta við menn. (Orðskv. 29:25) Rétt eins og æfing styrkir vöðvana styrkir það hugrekki okkar að boða trúna hús úr húsi, á almannafæri, óformlega og í fyrirtækjum. Ef við byggjum upp hugrekki til að boða trúna núna verðum við vel undirbúin til að halda því áfram þó að starfsemi okkar verði bönnuð. – 1. Þess. 2:1, 2.

Nancy Yuen neitaði að hætta að boða fagnaðarerindið. (Sjá 14. grein.)

14, 15. Hvað getum við lært af Nancy Yuen og Valentínu Garnovskaju?

 14 Við getum lært margt af tveim trúföstum systrum sem sýndu einstakt hugrekki. Nancy Yuen var rétt um einn og hálfur metri á hæð en það var ekki auðvelt að hræða hana. * Hún neitaði að hætta að boða fagnaðarerindið um ríki Guðs og sat því í fangelsi í Kína í meira en 20 ár. Embættismennirnir sem yfirheyrðu hana sögðu að hún væri „þrjóskasta manneskjan“ í landinu.

Valentína Garnovskaja var sannfærð um að Jehóva væri með henni. (Sjá 15. grein.)

15 Valentína Garnovskaja var fangelsuð þrisvar í Sovétríkjunum og sat í fangelsi í samtals 21 ár. * Hvers vegna? Hún var svo harðákveðin í að halda áfram að boða trúna að embættismenn sögðu að hún væri „einstaklega hættulegur lögbrjótur“. Hvað veitti þessum tveim trúföstu systrum hugrekki? Þær voru sannfærðar um að Jehóva væri með þeim.

16. Hver er lykillinn að sönnu hugrekki?

16 Eins og við höfum þegar rætt byggjum við ekki upp hugrekki með því að treysta á eigin styrk og getu. Við verðum öllu heldur að treysta því að Jehóva sé með okkur og að hann berjist fyrir okkur. (5. Mós. 1:29, 30; Sak. 4:6) Það er lykillinn að sönnu hugrekki.

HVERNIG GETURÐU STAÐIST HATUR FRÁ MÖNNUM?

17, 18. Hvaða viðvörun gaf Jesús okkur í Jóhannesi 15:18–21? Skýrðu svarið.

17 Þó að við viljum njóta virðingar annarra megum við ekki halda að við séum einskis verð ef fólki líkar ekki við okkur. Jesús sagði: „Sælir eruð þér þá er menn hata yður, þá er þeir útskúfa yður og smána og bera út óhróður um yður vegna Mannssonarins.“ (Lúk. 6:22) Hvað átti Jesús við?

18 Hann átti ekki við að kristnum mönnum myndi líka vel við að vera hataðir. Hann var bara raunsær. Við erum ekki hluti af heiminum. Við lifum í samræmi við það sem Jesús kenndi og boðum  sama boðskap og hann. Þess vegna hatar heimurinn okkur. (Lestu Jóhannes 15:18–21.) Við viljum þóknast Jehóva. Og við látum það ekki draga úr okkur kjarkinn þegar menn hata okkur vegna þess að við elskum föður okkar.

19. Hvernig getum við líkt eftir fordæmi postulanna?

19 Þú skalt aldrei skammast þín fyrir að vera vottur Jehóva, sama hvað fólk segir eða gerir. (Míka 4:5) Við getum lært að sigrast á ótta við menn með því að hugleiða fordæmi postulanna í Jerúsalem rétt eftir að Jesús var tekinn af lífi. Þeir vissu hve mikið trúarleiðtogar Gyðinga hötuðu þá. (Post. 5:17, 18, 27, 28) En þeir héldu áfram að fara daglega í musterið og sýndu að þeir væru lærisveinar Jesú með því að boða trúna. (Post. 5:42) Þér létu ótta ekki stöðva sig. Við getum einnig sigrast á ótta við menn með því að vera ófeimin við að sýna að við séum vottar Jehóva hvort sem við erum í vinnunni, skólanum eða hverfinu okkar. – Post. 4:29; Rómv. 1:16.

20. Hvers vegna voru postularnir ánægðir þrátt fyrir að vera hataðir?

20 Hvers vegna voru postularnir ánægðir? Þeir vissu hvers vegna þeir voru hataðir og þegar farið var illa með þá fyrir að gera vilja Jehóva álitu þeir það heiður. (Lúk. 6:23; Post. 5:41) Pétur postuli skrifaði seinna: „Þótt þið skylduð líða illt fyrir að gera það sem er rétt, þá eruð þið sæl.“ (1. Pét. 2:19–21; 3:14) Ef við gerum okkur grein fyrir að fólk hatar okkur fyrir að gera það sem er rétt leyfum við hatri frá mönnum aldrei að lama okkur af ótta.

UNDIRBÚNINGUR KEMUR ÞÉR AÐ GAGNI

21, 22. (a) Hvað ætlar þú að gera til að búa þig undir ofsóknir? (b) Hvað skoðum við í næstu grein?

21 Við vitum ekki hvenær ofsóknaralda skellur á eða yfirvöld banna stafsemi okkar. En við vitum að við getum undirbúið okkur núna með því að styrkja vináttuna við Jehóva, efla kjarkinn og læra að standast hatur frá mönnum. Það sem við gerum núna til að undirbúa okkur á eftir að hjálpa okkur að vera staðföst.

22 En hvað ef starfsemi okkar verður bönnuð? Í næstu grein skoðum við meginreglur sem hjálpa okkur að halda áfram að þjóna Jehóva þó að starfsemi okkar verði bönnuð.

SÖNGUR 118 Auk okkur trú

^ gr. 5 Okkur langar ekki að mæta hatri. En fyrr eða síðar þurfum við öll að þola ofsóknir. Í þessari grein fáum við hjálp til að vera hugrökk og búin undir ofsóknir.

^ gr. 7 Sjá Varðturninn á ensku 15. desember 1965, bls. 756–767.

^ gr. 14 Sjá myndskeiðið Nafn Jehóva verður gert kunnugt í Sjónvarpi Votta Jehóva. Veldu VIÐTÖL OG FRÁSÖGUR. Sjá einnig Varðturninn á ensku 15. júlí 1979, bls. 4–7.

^ gr. 15 Sjá Varðturninn 15. apríl 2009, bls. 9–10, gr. 10–11 og árbók Votta Jehóva 2008, bls. 191–192.

^ gr. 67 MYND: Foreldrar nota minnisspjöld í tilbeiðslustund fjölskyldunnar til að hjálpa börnunum að leggja ritningarstaði á minnið.

^ gr. 70 MYND: Fjölskylda æfir ríkissöngva í bílnum á leiðinni á samkomu.