Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Við tilheyrum Jehóva

Við tilheyrum Jehóva

„Sæl er sú þjóð sem á Drottin að Guði, þjóðin sem hann valdi sér til eignar.“ – SÁLM. 33:12.

SÖNGVAR: 40, 50

1. Hvers vegna getum við sagt að Jehóva eigi allt? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

JEHÓVA á allt. Hann á ,himininn og himnanna himin og jörðina og allt sem á henni er‘. (5. Mós. 10:14; Opinb. 4:11) Þar sem Jehóva skapaði okkur mennina tilheyrum við öll honum. (Sálm. 100:3) Hins vegar hefur hann í aldanna rás valið sér ákveðna hópa fólks sem tilheyrðu honum á sérstakan hátt.

2. Hverjir hafa tilheyrt Jehóva á sérstakan hátt, samkvæmt því sem segir í Biblíunni?

2 Í Sálmi 135 kemur fram að Jehóva hafi útvalið trúfasta þjóna sína í Ísrael forðum daga til að vera sérstök eign sín. (Sálm. 135:4) Og í bók Hósea var sagt fyrir að fleiri en Ísraelsmenn myndu tilheyra þjóð hans. (Hós. 2:23) Spádómur Hósea uppfylltist þegar Jehóva fór að velja karla og konur, sem voru ekki Gyðingar, til að stjórna með Kristi á himni. (Post. 10:45; Rómv. 9:23-26) Þessi ,heilaga þjóð‘ er „eignarlýður“ Jehóva á einstakan hátt. Þeir sem tilheyra henni hafa verið smurðir heilögum anda og valdir til að lifa á himnum. (1. Pét. 2:9, 10) En hvað um alla þá trúföstu þjóna Guðs nú á dögum sem eiga von um að lifa að eilífu á jörð?  Jehóva kallar þá líka ,þjóð sína‘ og ,sína útvöldu‘. – Jes. 65:22.

3. (a) Hverjir njóta sérstakrar velþóknunar Jehóva nú á dögum? (b) Hvað er rætt í þessari grein?

3 Hin „litla hjörð“, sem hefur himneska von, og ,aðrir sauðir‘, sem hafa jarðneska von, mynda nú á dögum ,eina hjörð‘. Jehóva lítur á hana sem þjóð sína og metur hana mikils. (Lúk. 12:32; Jóh. 10:16) Við erum Jehóva innilega þakklát fyrir að fá að njóta sérstakrar velþóknunar hans. Í þessari grein er rætt hvernig við getum sýnt þakklæti okkar fyrir þann einstaka heiður.

VIÐ VÍGJUM JEHÓVA LÍF OKKAR

4. Hvernig getum við þakkað Jehóva fyrir að gera okkur kleift að eiga samband við sig og hvernig gerði Jesús nokkuð svipað?

4 Við sýnum Jehóva þakklæti með því að vígjast honum af öllu hjarta. Með niðurdýfingarskírn sýnum við opinberlega með formlegum hætti að Jehóva á okkur og að við erum fús til að hlýða honum. (Hebr. 12:9) Jesús gerði nokkuð svipað þegar hann skírðist. Hann sagði í raun við Jehóva: „Að gera vilja þinn, Guð minn, er mér yndi.“ (Sálm. 40:8, 9) Jesús bauð sjálfan sig fram til að gera vilja Jehóva þótt hann hafi tilheyrt þjóð hans frá fæðingu.

5, 6. (a) Hvernig var Jehóva innanbrjósts þegar Jesús skírðist? (b) Hvers vegna þykir Jehóva vænt um að við vígjum okkur honum þótt hann eigi allt? Lýstu með dæmi.

5 Hvernig var Jehóva innanbrjósts að sjá Jesú skírast? Í Biblíunni segir: „Þegar Jesús hafði verið skírður sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig. Og rödd kom af himnum: ,Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.‘“ (Matt. 3:16, 17) Jesús tilheyrði þegar Jehóva, himneskum föður sínum. En það gladdi Jehóva að sjá að hann var fús til að gera vilja hans í einu og öllu. Jehóva gleðst sömuleiðis þegar við vígjum okkur honum og hann lofar að blessa okkur. – Sálm. 149:4.

6 Lýsum þessu með dæmi. Ímyndaðu þér að maður hafi gróðursett mörg falleg blóm í garðinum sínum. Dag einn tínir litla stúlkan hans eitt af blómunum og gefur honum að gjöf. Átti hann ekki þegar blómið? Hvernig getur hún gefið honum eitthvað sem hann á þegar? Slíkar spurningar hvarfla ekki einu sinni að ástríkum föður. Hann tekur glaður við gjöf dóttur sinnar, en gjöfin er merki þess að hún elski hann. Honum þykir ábyggilega vænna um þetta eina blóm frá dóttur sinni en öll hin sem eru í garðinum. Jehóva er ekki síður ánægður þegar við vígjumst honum fúslega og af öllu hjarta. – 2. Mós. 34:14.

7. Hvernig lítur Jehóva á þá sem þjóna honum fúslega, samkvæmt því sem Malakí skrifaði?

7 Lestu Malakí 3:16Ef þú hefur ekki enn vígt þig Jehóva og látið skírast skaltu hugleiða hve mikilvægt skref það er. Þú tilheyrðir að vísu Jehóva allt frá því að þú varðst til, rétt eins og allir aðrir. En hugsaðu þér hversu ánægður Jehóva yrði að sjá þig viðurkenna drottinvald hans með því að vígjast honum og gera vilja hans. (Orðskv. 23:15) Jehóva veit hverjir þjóna honum fúslega og hann ritar nöfn þeirra í bók sína.

8, 9. Hvað þurfum við að gera til að Jehóva varðveiti nöfn okkar í „lífsins bók“?

8 Við þurfum að uppfylla viss skilyrði til að Jehóva álíti okkur þjóna  sína og varðveiti nöfn okkar í bók sinni. Malakí tók sérstaklega fram að við þyrftum að „óttast Drottin og virða nafn hans“. Jehóva fjarlægir nöfn okkar úr „lífsins bók“ ef við tilbiðjum nokkurn eða nokkuð annað en hann. – 2. Mós. 32:33; Sálm. 69:29.

9 Að vera vígður Jehóva felur því mun meira í sér en að gefa honum hátíðlegt loforð um að gera vilja hans og láta skírast. Við vígjumst og skírumst aðeins einu sinni og síðan er það búið og gert. En ef við viljum standa með Jehóva sem þjónar hans verðum við að hlýða honum alla daga – eins lengi og við lifum. – 1. Pét. 4:1, 2.

VIÐ HÖFNUM VERALDLEGUM GIRNDUM

10. Hvaða augljósi munur þarf að vera á þeim sem þjóna Jehóva og þeim sem gera það ekki?

10 Í greininni á undan var fjallað um frásögur Biblíunnar af Kain, Salómon og Ísraelsmönnum. Þeir sögðust allir tilbiðja Jehóva en hollusta þeirra var langt frá því að vera óskipt. Þessi dæmi sýna svo ekki verður um villst að þeir sem tilheyra Jehóva verða að hata hið vonda og taka einarða afstöðu með því sem er rétt. (Rómv. 12:9) Eftir að Malakí hafði talað um að Jehóva skrái nöfn trúrra þjóna sinna sagði Jehóva að það yrði augljós munur „á réttlátum og ranglátum, á þeim sem þjóna Guði og þeim sem þjóna honum ekki“. – Mal. 3:18.

11. Hvers vegna ætti það að vera öðrum augljóst að við sýnum Jehóva algera hollustu?

11 Þar komum við að annarri leið til að sýna Jehóva þakklæti fyrir að hafa valið okkur að þjónum sínum. Framför okkar í trúnni þarf að vera „öllum augljós“. (1. Tím. 4:15; Matt. 5:16) Spyrðu þig hvort það sé augljóst að þú sýnir Jehóva algera hollustu. Leitarðu færis til að segja öðrum að þú sért vottur Jehóva? Jehóva hefur valið okkur að þjónum sínum og því myndi honum sárna mikið ef við hikuðum við að segja öðrum að við tilheyrðum  honum. – Sálm. 119:46; lestu Markús 8:38.

Er augljóst af lífsstíl þínum að þú ert vottur Jehóva? (Sjá 12. og 13. grein.)

12, 13. Hvers vegna getur verið erfitt að átta sig á hvort sumir vottar Jehóva séu það í raun?

12 Því miður láta sumir vottar Jehóva „anda heimsins“ hafa áhrif á sig. Það er því erfitt að sjá muninn á þeim og hinum sem þjóna Jehóva ekki. (1. Kor. 2:12) Andi heimsins höfðar til ,jarðbundinna girnda‘. (Ef. 2:3) Sumir velja enn að klæða sig ósæmilega þrátt fyrir allar þær leiðbeiningar sem við höfum fengið um útlit og klæðaburð. Þeir klæðast fötum sem eru þröng og sýna of mikið af líkamanum, jafnvel á samkomum og mótum. Og sumir velja sér öfgakennda klippingu og hárgreiðslu. (1. Tím. 2:9, 10) Þar af leiðandi getur verið erfitt að átta sig á hvort þeir tilheyri Jehóva eða séu ,vinir heimsins‘. – Jak. 4:4.

13 Sumir hafa ekki alveg aðgreint sig frá heiminum á öðrum sviðum. Kannski dansa og hegða þeir sér eins og hæfir ekki kristnum mönnum þegar þeir eru í partíi. Þeir setja inn óviðeigandi athugasemdir og myndir af sjálfum sér á samfélagsmiðla. Þeir hafa kannski ekki hlotið ögun innan safnaðarins fyrir alvarlega synd en þeir gætu samt haft neikvæð áhrif á bræður og systur sem leggja sig fram um að vera ekki hluti af heiminum. – Lestu 1. Pétursbréf 2:11, 12.

Sumir taka ekki skýra afstöðu með Jehóva. Láttu þá ekki hafa áhrif á þig.

14. Hvað þurfum við að gera ef við viljum varðveita náið samband okkar við Jehóva?

14 Heimurinn reynir stöðugt að fá okkur til að einblína á „allt sem maðurinn girnist, allt sem glepur augað, allt oflæti vegna eigna“. (1. Jóh. 2:16) En þar sem við tilheyrum Jehóva erum við hvött til að „afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum“. (Tít. 2:12) Tal okkar, matar- og drykkjarvenjur, vinnusemi, klæðaburður og útlit – allt sem við gerum – ætti að bera þess skýrt merki að við séum helguð Jehóva. – Lestu 1. Korintubréf 10:31, 32.

 VIÐ HÖFUM „BRENNANDI KÆRLEIKA HVERT TIL ANNARS“

15. Hvers vegna eigum við að sýna trúsystkinum okkar góðvild og kærleika?

15 Ef við erum þakklát fyrir að eiga náið samband við Jehóva birtist það í framkomu okkar við trúsystkini. Þau tilheyra líka Jehóva. Svo framarlega sem við höfum það í huga komum við alltaf fram við bræður okkar og systur af góðvild og kærleika. (1. Þess. 5:15) Jesús sagði við fylgjendur sína: „Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“ – Jóh. 13:35.

16. Hvaða dæmi í Móselögunum hjálpar okkur að skilja tilfinningar Jehóva í garð þjóna sinna?

16 Skoðum dæmi sem sýnir fram á hvernig við eigum að koma fram við aðra í söfnuðinum. Áhöldin í musteri Jehóva voru helguð og aðeins ætluð til hreinnar tilbeiðslu. Í Móselögunum var útlistað í smáatriðum hvernig ætti að meðhöndla þau. Brot á þessu ákvæði laganna varðaði dauðarefsingu. (4. Mós. 1:50, 51) Jehóva var greinilega umhugað um dauða hluti sem voru notaðir við tilbeiðsluna á honum. Við megum því vera viss um að honum þyki enn vænna um vígða, trúa þjóna sína sem hann hefur valið að þjóð sinni. Jehóva sagði eitt sinn við þjóð sína: „Hver sá sem snertir við yður, snertir sjáaldur mitt.“ – Sak. 2:12.

17. Á hvað hlýðir Jehóva með athygli?

17 Malakí sagði að Jehóva tæki eftir því hvernig þjónar hans koma fram hver við annan. Hann ,hlýðir á með athygli‘. (Mal. 3:16) Jehóva þekkir vissulega þá sem tilheyra honum. (2. Tím. 2:19) Hann tekur vel eftir öllu sem við gerum og segjum. (Hebr. 4:13) Jehóva ,hlýðir á með athygli‘ þegar við erum ekki góðviljuð í garð bræðra og systra. En við getum líka treyst því að Jehóva gefi því gaum þegar við sýnum hvert öðru gestrisni, örlæti og góðvild og fyrirgefum fúslega. – Hebr. 13:16; 1. Pét. 4:8, 9.

JEHÓVA YFIRGEFUR EKKI ÞJÓNA SÍNA

18. Hvernig getum við sýnt þakklæti fyrir þann heiður að fá að vera þjónar Jehóva?

18 Við viljum sýna Jehóva að við erum innilega þakklát fyrir þann heiður að fá að tilheyra honum. Að vígjast honum er besta ákvörðun sem við getum tekið því að þannig viðurkennum við að hann á okkur. Þótt við búum „meðal rangsnúinnar og gerspilltrar kynslóðar“ viljum við vera „óaðfinnanleg og hrein“ og þannig skína „eins og ljós í heiminum“. (Fil. 2:15) Við tökum einarða afstöðu gegn því sem Jehóva hatar. (Jak. 4:7) Og við elskum og virðum trúsystkini okkar þar sem þau tilheyra Jehóva líka. – Rómv. 12:10.

19. Hvernig launar Jehóva þeim sem tilheyra honum?

19 Biblían lofar að Jehóva muni ekki yfirgefa fólk sitt. (Sálm. 94:14) Það er óhagganleg trygging. Jehóva snýr aldrei baki við okkur, sama hvaða erfiðleikum við verðum fyrir. Jafnvel dauðinn getur ekki gert okkur viðskila við kærleika hans. (Rómv. 8:38, 39) „Ef við lifum, lifum við Drottni, ef við deyjum, deyjum við Drottni. Hvort sem við þess vegna lifum eða deyjum þá erum við Drottins.“ (Rómv. 14:8) Við hlökkum ákaflega til þess dags þegar Jehóva reisir upp trúfasta vini sína sem hafa dáið. (Matt. 22:32) En við njótum líka ríkulegrar blessunar núna. Biblían segir: „Sæl er sú þjóð sem á Drottin að Guði, þjóðin sem hann valdi sér til eignar.“ – Sálm. 33:12.