Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að vinna baráttuna um hugann

Að vinna baráttuna um hugann

ÞAÐ er verið að ráðast á þig! Og Satan, erkióvinur þinn, notar mjög öflugt vopn gegn þér. Það er sérhannað til að ráðast á huga þinn en ekki líkama. Þetta vopn er áróður.

Páll postuli gerði sér grein fyrir hættunni sem stafaði af áróðri Satans. Hið sama var þó ekki að segja um öll trúsystkini hans. Sumir kristnir menn í Korintu virðast til dæmis hafa orðið of sjálfsöruggir og talið sig hafa svo sterka trú að þeir gætu aldrei fallið. (1. Kor. 10:12) Þess vegna gaf Páll þessa viðvörun: „Ég er hræddur um að eins og höggormurinn tældi Evu með flærð sinni, svo kunni og hugsanir ykkar að spillast og leiðast burt frá einlægri og hreinni tryggð við Krist.“ – 2. Kor. 11:3.

Af orðum Páls sést að það er mikilvægt að vera ekki of öruggur með sig. Til að vinna baráttuna um hugann verðum við að gera okkur grein fyrir hættunni sem stafar af áróðri og verja okkur gegn henni.

ÁRÓÐUR – HVERSU HÆTTULEGUR ER HANN?

Hvað er áróður? Í þessu samhengi er átt við hlutdrægar eða villandi upplýsingar sem eru notaðar til að hafa áhrif á hvað fólk hugsar og gerir. Sumir leggja áróður að jöfnu við „lygar, rangfærslur, blekkingar, heilaþvott, sálfræðihernað [og] það að ráðskast með fólk,“ og tengja hann við „siðlaus, skaðleg og ósanngjörn bellibrögð“. – Propaganda and Persuasion.

Áróður er mjög hættulegur af því að hann getur smám saman haft áhrif á hugarfar okkar án þess að við áttum okkur á því. Honum mætti líkja við eiturgas sem við getum hvorki séð né fundið lyktina af. Atferlisfræðingurinn Vance Packard segir að  áróður „hafi mun meiri áhrif á mörg okkar en við höldum“. Annar fræðimaður segir að sökum áróðurs hafi fólk sýnt af sér „fráleita og stórhættulega hegðun“ – það hafi látið leiðast út í ,þjóðarmorð, stríð, kynþáttahatur, umburðarleysi gagnvart trúarbrögðum og órökrétta hegðun af ýmsu öðru tagi‘. – Easily Led – A History of Propaganda.

Fyrst menn geta blekkt okkur með áróðri sínum, hvað ætli Satan sé þá fær um að gera? Hann hefur fylgst með hegðun mannanna allt frá því að fyrsti maðurinn var skapaður. „Allur heimurinn“ er nú á valdi hans og hann getur notfært sér allt sem í honum er til að útbreiða lygar sínar. (1. Jóh. 5:19; Jóh. 8:44) Satan hefur tekist svo vel að ,blinda huga‘ fólks að hann hefur nú ,afvegaleitt alla heimsbyggðina‘. (2. Kor. 4:4; Opinb. 12:9) Hvernig geturðu staðist áróður hans?

STYRKTU VARNIR ÞÍNAR

Jesús gaf þetta einfalda ráð til að berjast gegn áróðri: ,Þekkið sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa.‘ (Jóh. 8:31, 32) Í stríði þarf hermaður að vita hvar hann getur fengið áreiðanlegar upplýsingar því að óvinurinn beitir lygum til að reyna að blekkja hann. Við erum í svipaðri stöðu. En Jehóva hefur látið okkur í té áreiðanlegar upplýsingar. Í Biblíunni geturðu fundið allt sem þú þarft til að geta barist gegn áróðri Satans. – 2. Tím. 3:16, 17.

Satan veit það mætavel. Þessi lævísi áróðursmeistari notar því heiminn til að letja fólk þess að lesa í Biblíunni og rannsaka hana. Ekki falla fyrir vélabrögðum hans! (Ef. 6:11) Það er ekki nóg að skilja grundvallaratriði sannleikans. Við þurfum að leggja hart að okkur til að dýpka þekkingu okkar. (Ef. 3:18) Höfum hugfast orð rithöfundarins Noams Chomskys sem sagði: „Enginn fyllir huga þinn af sannleika. Þú þarft sjálfur að komast að því hver hann er.“ Það geturðu gert með því að ,rannsaka daglega ritningarnar‘. – Post. 17:11.

Til að vinna baráttuna um hugann verðurðu að gera þér grein fyrir hættunni sem stafar af áróðri og verja þig gegn henni.

Mundu að Satan vill ekki að þú hugsir skýrt og rökrétt. Hvers vegna? Vegna þess að áróður „hefur mest áhrif ef fólk ... er latt þess að vera gagnrýnið“. (Media and Society in the Twentieth Century) Trúðu ekki  í blindni öllu sem þú heyrir. (Orðskv. 14:15) Notaðu rökhugsunina og skynsemina sem Guð gaf þér til að styrkja trú þína. – Orðskv. 2:10-15; Rómv. 12:1, 2, NW.

VARÐVEITUM EININGUNA

Áróður er stundum notaður sem herbragð til að draga úr mönnum kjark og baráttuhug. Hann getur jafnvel orðið til þess að hermenn fari að berjast innbyrðis eða þeir einangri sig frá öðrum hermönnum. Haft er eftir þýskum hershöfðingja að ein ástæðan fyrir því að Þýskaland beið ósigur í fyrri heimsstyrjöldinni hafi verið að „áróður óvinarins dáleiddi fólk eins og snákur bráð sína“. Satan notar svipaðar aðferðir til að sundra þjónum Guðs nú á dögum. Hann reynir til dæmis að vekja deilur milli trúsystkina og telja þeim trú um að óréttlæti eða ranglæti viðgangist í söfnuði Jehóva, í von um að þau einangri sig frá söfnuðinum.

Láttu ekki blekkjast! Fylgdu leiðbeiningum Biblíunnar. Hún hvetur okkur til að ,fyrirgefa hvert öðru‘ og vera fljót til að leysa ágreiningsmál þannig að við getum varðveitt friðinn við trúsystkini okkar. (Kól. 3:13, 14; Matt. 5:23, 24) Hún varar okkur líka eindregið við því að einangra okkur frá söfnuðinum. (Orðskv. 18:1, NW) Eru varnir þínar nógu sterkar til að standast áróður Satans? Spyrðu þig: Hvernig brást ég við síðast þegar trúsystkini móðgaði mig? Lét ég stjórnast af anda heimsins eða anda Guðs? – Gal. 5:16-26; Ef. 2:2, 3.

GÆTTU ÞESS AÐ VERÐA EKKI TORTRYGGINN

Hermaður, sem ber ekki fullt traust til foringja síns, berst ekki mjög vel. Áróðursmeistarar reyna því að grafa undan trausti hermanns í garð foringja síns. Þeir nota kannski áróður eins og: „Foringjum þínum er ekki treystandi“ og „láttu þá ekki leiða yfir þig ógæfu“. Þeir eru slungnir í að notfæra sér hver þau mistök sem foringjarnir kunna að gera. Þannig fer Satan að. Hann gefst aldrei upp á því að reyna að grafa undan trausti þínu í garð þeirra sem Jehóva hefur falið forystu.

Hvernig geturðu varið þig? Vertu staðráðinn í að halda þig við söfnuð Jehóva og  styðja dyggilega þá sem hann hefur falið að fara með forystu – þó svo að þeir séu ófullkomnir. (1. Þess. 5:12, 13) ,Vertu ekki fljótur til að komast í uppnám‘ þegar söfnuðurinn verður fyrir árás fráhvarfsmanna eða annarra – sama hversu trúverðugar ásakanir þeirra virðast. (2. Þess. 2:2; Tít. 1:10) Fylgdu ráðinu sem hinn ungi Tímóteus fékk. Haltu þig við sannleikann sem þú hefur lært og gleymdu ekki hver kenndi þér hann. (2. Tím. 3:14, 15) Það eru ótal sannanir fyrir því að þú getir treyst þeirri boðleið sem Jehóva hefur notað í meira en hundrað ár til að leiða okkur á vegi sannleikans. – Matt. 24:45-47; Hebr. 13:7, 17.

LÁTTU EKKI HRÆÐSLUÁRÓÐUR DRAGA ÚR ÞÉR KJARK

Munum þó að Satan beitir ekki alltaf áróðri á lúmskan hátt. Stundum notar hann hræðsluáróður, en hann er „ein elsta mynd áróðurs“. (Easily Led – A History of Propaganda) Breskur prófessor að nafni Philip M. Taylor skrifaði til dæmis að Assýringar „hafi beitt áróðri og vakið ótta“ með óvinum sínum til að ná tangarhaldi á þeim. Satan notar ótta við menn, ótta við ofsóknir, ótta við dauðann og allan annan óheilbrigðan ótta til að reyna að yfirbuga þig og fá þig til að hætta að þjóna Jehóva. – Jes. 8:12; Jer. 42:11; Hebr. 2:15.

Leyfðu ekki Satan að nota ótta til að draga úr þér kjark eða fá þig til að falla frá ráðvendni þinni. Jesús sagði: „Hræðist ekki þá sem líkamann deyða og fá að því búnu ekki meira að gert.“ (Lúk. 12:4) Treystu fullkomlega að Jehóva standi við orð sín og vaki yfir þér, gefi þér ,kraftinn mikla‘ og hjálpi þér að standast allar tilraunir Satans til að buga þig. – 2. Kor. 4:7-9; 1. Pét. 3:14.

Þú gætir að sjálfsögðu lent í aðstæðum sem vekja með þér ótta eða draga úr þér kjark. En mundu að Jehóva uppörvaði Jósúa og sagði: „Hef ég ekki boðið þér að vera djarfur og hughraustur? Óttastu ekki og láttu ekki hugfallast því að Drottinn, Guð þinn, er með þér hvert sem þú ferð.“ (Jós. 1:9) Ef þú finnur fyrir ótta skaltu leita strax til Jehóva í bæn og segja honum frá öllum áhyggjum þínum. Þú mátt vera viss um að ,friður Guðs muni varðveita hjarta þitt og hugsanir þínar‘ svo að þú hafir styrk til að standast allan áróður Satans. – Fil. 4:6, 7, 13.

Manstu hvernig marskálkur Assýringa beitti áróðri gegn þjóð Guðs? Hann sagði efnislega: ,Ekkert getur varið ykkur fyrir Assýringum. Jehóva, Guð ykkar, getur ekki einu sinni gert neitt fyrir ykkur.‘ Síðan bætti hann kokhraustur við: ,Jehóva sjálfur sagði okkur að leggja landið í eyði.‘ Hvað sagði Jehóva við þessu? „Þú skalt ekki óttast smánaryrðin sem þjónar Assýríukonungs svívirtu mig með.“ (2. Kon. 18:22-25; 19:6) Síðan sendi hann engil sem deyddi 185.000 Assýringa á einni nóttu. – 2. Kon. 19:35.

VERTU VITUR – HLUSTAÐU ALLTAF Á JEHÓVA

Hefurðu einhvern tíma horft á kvikmynd þar sem þér finnst augljóst að verið er að ráðskast með einhvern eða hann blekktur? Þig hefur ef til vill langað að hrópa: „Ekki trúa þessu! Þeir eru að ljúga að þér!“ Ímyndaðu þér þá að englarnir hrópi líka til þín: „Láttu ekki lygar Satans blekkja þig!“

Þú skalt því loka eyrunum fyrir áróðri Satans. (Orðskv. 26:24, 25) Hlustaðu á Jehóva og treystu honum í öllu sem þú gerir. (Orðskv. 3:5-7) Þar sem hann elskar þig segir hann þér: „Öðlastu visku, sonur minn, og gleddu hjarta mitt.“ (Orðskv. 27:11) Ef þú gerir það muntu sigra í baráttunni um hugann.