Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 NÁMSGREIN 7

Við elskum Jehóva föður okkar heitt

Við elskum Jehóva föður okkar heitt

„Við elskum því að hann elskaði okkur að fyrra bragði.“ – 1. JÓH. 4:19.

SÖNGUR 3 Von okkar, athvarf og öruggt traust

YFIRLIT *

1, 2. Hvers vegna opnaði Jehóva leið til að taka okkur inn í fjölskyldu sína og hvernig gerði hann það?

JEHÓVA bauð okkur að tilheyra fjölskyldu tilbiðjenda sinna. Það er stórkostlegt boð! Þessi fjölskylda okkar samanstendur af þeim sem hafa vígt líf sitt Guði og trúa á lausnarfórn sonar hans. Við erum hamingjusöm fjölskylda. Við eigum innihaldsríkt líf núna og gleðjumst yfir voninni um eilíft líf, annað hvort á himni eða í paradís á jörð.

2 Jehóva opnaði leið til að taka okkur inn í fjölskyldu sína vegna þess að hann elskar okkur heitt. En það kostaði hann mikið. (Jóh. 3:16) Við vorum „verði keypt“. (1. Kor. 6:20) Með lausnargjaldinu gerði Jehóva okkur mögulegt að eignast náið samband við sig. Við njótum þess heiðurs að mega kalla æðstu tignarpersónu alheims föður okkar. Og Jehóva er besti faðirinn, eins og við sáum í síðustu grein.

3. Hvers gætum við spurt okkur? (Sjá einnig rammann „ Tekur Jehóva eftir mér?“)

3 Við gætum spurt okkur líkt og einn biblíuritari: „Hvað á ég að gjalda Drottni fyrir allar velgjörðir hans við mig?“ (Sálm. 116:12) Við getum í rauninni aldrei endurgoldið himneskum föður okkar velgjörðir hans. En kærleikur hans fær okkur til að elska hann á móti. Jóhannes postuli skrifaði: „Við elskum því að hann elskaði okkur að fyrra bragði.“ (1. Jóh. 4:19) Hvernig getum við sýnt himneskum föður okkar að við elskum hann?

 VARÐVEITTU NÁIÐ SAMBAND VIÐ JEHÓVA

Við sýnum hve heitt við elskum Jehóva, himneskan föður okkar, með því að nálgast hann í bæn, vera honum hlýðin og hjálpa öðrum að elska hann. (Sjá 4.–14. grein.)

4. Hvers vegna ættum við að leggja okkur fram um að nálgast Jehóva samkvæmt Jakobsbréfinu 4:8?

4 Jehóva vill að við nálgumst sig og tölum við sig. (Lestu Jakobsbréfið 4:8.) Hann hvetur okkur til að ,halda áfram að biðja‘ og hann er alltaf fús til að hlusta á okkur. (Rómv. 12:12) Hann er aldrei of upptekinn eða þreyttur til að hlusta á okkur. Og við hlustum á hann með því að lesa í orði hans Biblíunni og ritum sem hjálpa okkur að skilja það. Við hlustum líka á hann með því að taka vel eftir á samkomum. Regluleg samskipti hjálpa börnum að eiga náið samband við foreldra sína. Eins hjálpa regluleg samskipti við Jehóva okkur að varðveita náið samband við hann.

(Sjá 5. grein.)

5. Hvernig getum við bætt bænir okkar?

5 Hugsaðu um hvernig bænir þínar eru. Jehóva vill að við úthellum hjarta okkar fyrir honum. (Sálm. 62:9) Við ættum að spyrja okkur: Hættir bænum mínum til að vera yfirborðslegar eins og bréf sem búið er að afrita aftur og aftur? Eða eru þær einlægar eins og persónulegt handskrifað bréf? Án efa elskarðu Jehóva heitt og vilt viðhalda sterku sambandi við hann. Til þess þarftu að tala reglulega við hann. Trúðu honum fyrir innstu tilfinningum þínum. Segðu honum frá því sem gleður þig og því sem veldur þér áhyggjum. Treystu að þú getir leitað til hans.

6. Hvað verðum við að gera til að varðveita náið samband við himneskan föður okkar?

6 Við verðum að vera þakklát til að varðveita náið samband við himneskan föður okkar. Við getum tekið undir með sálmaritaranum: „Drottinn, Guð minn, mörg eru máttarverk þín og áform þín oss til handa, ekkert jafnast á við þig. Ég vil segja frá þeim, kunngjöra þau, en þau eru fleiri en tölu verði á komið.“ (Sálm. 40:6) Við gerum meira en að finna til þakklætis. Við tjáum þakklæti okkar til Jehóva í orðum okkar og verkum. Það gerir okkur ólík mörgum nú á dögum. Fæstir eru þakklátir fyrir það sem Guð gerir fyrir þá. Eitt merki þess að við lifum á „síðustu dögum“ er að fólk er vanþakklátt. (2. Tím. 3:1, 2) Við viljum aldrei verða þannig.

7. Hvað vill Jehóva að við gerum og hvers vegna?

7 Foreldrar vilja ekki að börnin rífist heldur að þau séu vinir. Eins vill Jehóva að öllum börnum sínum komi vel saman. Kærleikurinn sem við berum hvert til annars sýnir að við erum sannkristin. (Jóh. 13:35) Við erum sammála sálmaritaranum sem skrifaði: „Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er þegar bræður búa saman.“ (Sálm. 133:1) Við sýnum Jehóva að við elskum hann með því að elska bræður okkar og systur. (1. Jóh. 4:20) Það er yndislegt að tilheyra fjölskyldu trúsystkina sem eru „góð hvert við annað“ og „samúðarfull“. – Ef. 4:32.

SÝNDU KÆRLEIKA MEÐ ÞVÍ AÐ VERA HLÝÐINN

(Sjá 8. grein.)

8. Hver er aðalástæðan fyrir því að við hlýðum Jehóva eins og sjá má af 1. Jóhannesarbréfi 5:3?

8 Jehóva ætlast til að börn hlýði foreldrum sínum og hann ætlast til að við hlýðum honum. (Ef. 6:1) Hann á hlýðni okkar skilda vegna þess að hann gaf okkur lífið og viðheldur því. Og hann er vitrari en nokkur annar faðir. Aðalástæðan fyrir því að við hlýðum Jehóva er þó að við elskum hann. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 5:3.) Jehóva þvingar okkur ekki  til að hlýða sér, jafnvel þó að við höfum margar ástæður til að gera það. Hann gaf okkur frjálsan vilja og gleðst þegar við veljum að hlýða honum vegna þess að við elskum hann.

9, 10. Hver vegna er mikilvægt að þekkja og fara eftir þeim hegðunarreglum sem Guð setur okkur?

9 Foreldrar vilja tryggja öryggi barna sinna og setja þeim þess vegna hegðunarreglur sem vernda þau. Börnin sýna að þau treysta foreldrum sínum og virða þá með því að fara eftir þessum reglum. Það er enn mikilvægara að við þekkjum þær hegðunarreglur sem himneskur faðir okkar setur og förum eftir þeim. Með því sýnum við Jehóva að við elskum hann og virðum og það er okkur sjálfum til góðs. (Jes. 48:17, 18) En þeir sem hafna Jehóva og þeim reglum sem hann setur gera sjálfum sér illt. – Gal. 6:7, 8.

10 Ef við lifum á þann hátt sem Jehóva er þóknanlegur verndar það okkur gegn líkamlegum, tilfinningalegum og andlegum skaða. Jehóva veit hvað er okkur fyrir bestu. Aurora býr í Bandaríkjunum. Hún segir: „Ég veit að líf okkar getur ekki orðið betra en þegar við hlýðum Jehóva.“ Það á við um okkur öll. Hvernig hefur þú notið góðs af því að hlýða kærleiksríkri leiðsögn Jehóva?

11. Hvernig hjálpar bænin okkur?

11 Bænin auðveldar okkur að vera hlýðin, jafnvel þegar það er erfitt. Stundum er erfitt fyrir okkur að hlýða Jehóva  en við verðum stöðugt að berjast gegn syndugum tilhneigingum okkar. Sálmaritarinn sárbændi Guð: „Veit mér skilning til að halda lögmál þitt og varðveita það af öllu hjarta.“ (Sálm. 119:34) Denise, sem er brautryðjandi, segir: „Þegar ég á erfitt með að fara eftir einhverju boði Jehóva bið ég hann um styrk til að gera rétt.“ Við megum vera viss um að Jehóva svarar alltaf slíkri bæn. – Lúk. 11:9–13.

HJÁLPAÐU ÖÐRUM AÐ ELSKA FÖÐUR OKKAR

12. Hvað ættum við að gera samkvæmt Efesusbréfinu 5:1?

12 Lestu Efesusbréfið 5:1Við gerum okkar besta til að líkja eftir Jehóva „sem elskuð börn hans“. Við líkjum eftir góðum eiginleikum hans með því að vera kærleiksrík, góðviljuð og fús til að fyrirgefa. Þegar þeir sem þekkja ekki Guð taka eftir góðri hegðun okkar getur það hvatt þá til að kynnast honum. (1. Pét. 2:12) Kristnir foreldrar ættu að líkja eftir Jehóva með því að reyna að koma fram við börnin eins og Jehóva kemur fram við okkur. Þá langar börnin eflaust til að eignast vináttusamband við kærleiksríkan föður okkar.

(Sjá 13. grein.)

13. Hvað þurfum við að gera til að fá kjark?

13 Lítil börn eru yfirleitt stolt af pabba sínum og finnst gaman að tala um hann. Við erum líka stolt af Jehóva, himneskum föður okkar, og viljum að aðrir kynnist honum. Innra með okkur líður okkur  eins og Davíð konungi sem sagði: „Ég hrósa mér af Drottni.“ (Sálm. 34:3) En hvað ef við erum feimin og óframfærin? Hvernig getum við fengið kjark til að tala um Jehóva? Með því að hugsa um hve ánægður Jehóva verður og hversu mikið gagn aðrir geta haft af því að fræðast um hann. Jehóva gefur okkur þann kjark sem við þurfum. Hann gaf trúsystkinum okkar á fyrstu öld kjark og hann gefur okkur hann líka. – 1. Þess. 2:2.

14. Hvers vegna er mikilvægt að taka þátt í að gera fólk að lærisveinum?

14 Jehóva mismunar ekki fólki og hann gleðst þegar hann sér okkur sýna öðrum kærleika óháð bakgrunni þeirra. (Post. 10:34, 35) Eitt af því besta sem við getum gert til að sýna öðrum kærleika er að færa þeim fagnaðarboðskapinn. (Matt. 28:19, 20) Hverju getur það áorkað? Þeir sem hlusta á okkur geta bætt líf sitt núna og eignast von um eilíft líf í paradís. – 1. Tím. 4:16.

ELSKUM FÖÐUR OKKAR OG VERUM GLÖÐ

15, 16. Hvaða ástæður höfum við til að gleðjast?

15 Jehóva er kærleiksríkur faðir og vill því að fjölskylda hans sé hamingjusöm. (Jes. 65:14) Við höfum margar ástæður til að gleðjast nú þegar, jafnvel þó að við glímum við erfiðleika. Til dæmis erum við sannfærð um að himneskur faðir okkar elski okkur heitt. Við höfum nákvæma þekkingu á orði Guðs. (Jer. 15:16) Og við tilheyrum einstakri fjölskyldu sem samanstendur af fólki sem elskar Jehóva, háleitar siðferðiskröfur hans og hvert annað. – Sálm. 106:4, 5.

16 Við getum haldið gleðinni vegna þess að við vitum að lífið verður enn betra í framtíðinni. Við vitum að bráðlega afmáir Jehóva alla vonda menn og gerir jörðina aftur að pardís undir stjórn ríkis síns. Við eigum einnig dásamlega von um að þeir sem eru dánir verði reistir upp til lífs og hitti aftur ástvini sína. (Jóh. 5:28, 29) Það verður yndislegt! Og það sem mestu máli skiptir er að innan skamms munu allir á himni og jörð tilbiðja og lofa kærleiksríkan föður okkar eins og hann á skilið.

SÖNGUR 12 Jehóva, hinn mikli Guð

^ gr. 5 Við vitum að Jehóva faðir okkar elskar okkur heitt og hefur tekið okkur inn í fjölskyldu tilbiðjenda sinna. Það fær okkur til að elska hann. Hvernig getum við sýnt umhyggjusömum föður okkar að við elskum hann? Í þessari grein skoðum við nokkrar leiðir til þess.