Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 NÁMSGREIN 8

Stuðlum að friði með því að berjast gegn öfund

Stuðlum að friði með því að berjast gegn öfund

„Gerum ... allt sem við getum til að stuðla að friði og byggja hvert annað upp.“ – RÓMV. 14:19.

SÖNGUR 113 Friðurinn sem við njótum

YFIRLIT *

1. Hvaða áhrif hafði öfund á fjölskyldu Jósefs?

JAKOB elskaði alla syni sína en hann hafði sérstakt dálæti á Jósef sem var 17 ára. Hvernig tóku bræður Jósefs því? Þeir fóru að öfunda hann og urðu þar af leiðandi bitrir. Jósef hafði ekkert til saka unnið sem gaf þeim ástæðu til að hata hann. Þrátt fyrir það seldu þeir hann í þrælkun, lugu að föður sínum og sögðu að villidýr hefði drepið uppáhaldsson hans. Öfund varð til þess að þeir spilltu friði fjölskyldunnar og ollu föður sínum mikilli hjartasorg. – 1. Mós. 37:3, 4, 27–34.

2. Hvers vegna er öfund hættuleg samkvæmt Galatabréfinu 5:19–21?

2 Í Biblíunni er öfund * talin upp meðal ,verka holdsins‘ sem geta komið í veg fyrir að maður erfi ríki Guðs og leiða því til dauða. (Lestu Galatabréfið 5:19–21.) Öfund er oft rótin að beiskju sem veldur fjandskap, deilum, reiðiköstum og öðru slíku.

3. Um hvað er rætt í þessari grein?

3 Frásagan af bræðrum Jósefs sýnir hvernig öfund getur skaðað samband fólks og raskað friðinum innan fjölskyldunnar. Þó að við myndum aldrei gera það sem bræður Jósefs gerðu erum við öll með ófullkomið og spillt hjarta. (Jer. 17:9) Það ætti því ekki að koma okkur á óvart ef við finnum stundum til öfundar. Skoðum nú nokkur dæmi til viðvörunar sem finna má í Biblíunni. Þau sýna fram á  hvers vegna öfund getur skotið rótum í hjarta okkar. Síðan verður fjallað um nokkrar góðar leiðir til að berjast gegn öfund og stuðla að friði.

HVAÐ GETUR VALDIÐ ÖFUND?

4. Hvers vegna öfunduðu Filistear Ísak?

4 Efnisleg velmegun. Ísak var auðugur maður og Filistear öfunduðu hann fyrir velgengni hans. (1. Mós. 26:12–14) Þeir fylltu jafnvel upp í brunnana sem Ísak notaði til að brynna hjörðum sínum og búfé. (1. Mós. 26:15, 16, 27) Sumir nú á dögum fara að öfunda þá sem eiga meira efnislega en þeir sjálfir, rétt eins og Filistearnir. Þeir vilja eignast þá hluti sem aðrir eiga en á sama tíma myndu þeir helst vilja sjá að þeir ættu þá ekki.

5. Hvers vegna öfunduðu trúarleiðtogarnir Jesú?

5 Aðlaðandi persónuleiki. Trúarleiðtogar Gyðinga öfunduðu Jesú af því að fólki almennt líkaði mjög vel við hann. (Matt. 7:28, 29) Jesús var fulltrúi Guðs og hann kenndi sannleikann. Samt báru þessir trúarleiðtogar út lygar um Jesú og rægðu hann til að sverta mannorð hans. (Mark. 15:10; Jóh. 11:47, 48; 12:12, 13, 19) Hvaða viðvörun er fólgin í þessari frásögu? Við verðum að berjast gegn þeirri tilhneigingu að öfunda þá sem aðrir í söfnuðinum laðast að vegna eiginleika þeirra. Við ættum öllu heldur að reyna að líkja eftir kærleika þeirra. – 1. Kor. 11:1; 3. Jóh. 11.

6. Hvernig sýndi Díótrefes af sér öfund?

6 Verkefni innan safnaðarins. Díótrefes, sem var uppi á fyrstu öld, öfundaði þá sem fóru með forystuna í söfnuðinum. Hann vildi „vera fremstur“ meðal bræðranna og fór því að tala illa um Jóhannes postula og aðra bræður í ábyrgðastöðu til að koma óorði á þá. (3. Jóh. 9, 10) Við göngum kannski ekki eins langt og Díótrefes en við gætum farið að öfunda einhvern í söfnuðinum vegna þess að hann fær verkefni sem við höfðum vonast til að fá – sérstaklega ef okkur finnst við vera jafn hæf og hann til að sinna þessari ábyrgð.

Hjarta okkar er eins og jarðvegur og góðir eiginleikar okkar eins og falleg blóm. En öfund er eins og eitrað illgresi. Öfund getur komið í veg fyrir að við náum að þroska með okkur góða eiginleika eins og kærleika, samúð og góðvild. (Sjá 7. grein.)

7. Hvaða áhrif getur öfund haft á okkur?

7 Öfund er eins og eitrað illgresi. Ef fræ öfundar nær að festa rætur í hjarta okkar getur verið erfitt að eyða því. Öfund nærist á öðrum neikvæðum tilfinningum eins og óviðeigandi afbrýðisemi, hroka og eigingirni. Og hún getur komið í veg fyrir að við náum að þroska með okkur góða eiginleika eins og kærleika, samúð og góðvild. Við þurfum að uppræta öfund úr hjarta okkar um leið og hún gerir vart við sig. Hvernig getum við barist gegn öfund?

RÆKTUM MEÐ OKKUR AUÐMÝKT OG NÆGJUSEMI

Hvernig getum við barist gegn öfund, sem er eins og illgresi? Heilagur andi Guðs getur hjálpað okkur að uppræta hana og sýna í staðinn auðmýkt og nægjusemi. (Sjá 8. og 9. grein.)

8. Hvaða eiginleikar geta hjálpað okkur að berjast gegn öfund?

8 Við getum barist gegn öfund með því að rækta með okkur auðmýkt og nægjusemi. Þegar þessir góðu eiginleikar fylla hjarta okkar er ekkert pláss fyrir öfundina. Ef við erum auðmjúk hugsum við ekki of hátt um sjálf okkur. Auðmjúkri manneskju finnst hún ekki eiga meira skilið en aðrir. (Gal. 6:3, 4) Sá sem er nægjusamur er ánægður með það sem hann hefur og ber sig ekki saman við aðra. (1. Tím. 6:7, 8) Auðmjúk og nægjusöm manneskja samgleðst öðrum þegar þeir hljóta eitthvað gott.

9. Hvernig hjálpar heilagur andi okkur, samanber Galatabréfið 5:16 og Filippíbréfið 2:3, 4?

9 Við þurfum hjálp heilags anda Guðs til að forðast hvers kyns öfund  og til að rækta með okkur auðmýkt og nægjusemi. (Lestu Galatabréfið 5:16; Filippíbréfið 2:3, 4.) Heilagur andi Jehóva getur hjálpað okkur að rannsaka innstu hugsanir okkar og hvatir. Með hjálp Guðs getum við losað okkur við skaðlegar hugsanir og tilfinningar og í staðinn fyllt hugann af því sem er uppbyggilegt. (Sálm. 26:2; 51:12) Skoðum nú fordæmi Móse og Páls, manna sem tókst vel til í baráttunni gegn öfund.

Ungur Ísraelsmaður hleypur til Móse og Jósúa og segir þeim að tveir menn í tjaldbúðinni hagi sér eins og spámenn. Jósúa biður Móse að koma í veg fyrir það en það vill Móse ekki. Þess í stað segir hann Jósúa að hann sé ánægður að Jehóva hafi lagt anda sinn yfir mennina tvo. (Sjá 10. grein.)

10. Hvaða atvik hefði getað reynt á Móse? (Sjá mynd á forsíðu.)

10 Móse fór með mikið vald yfir þjónum Guðs en hann reyndi ekki að koma í veg fyrir að aðrir fengju hlut að því. Eitt sinn tók Jehóva hluta af anda sínum sem var yfir Móse og gaf hópi öldunga sem stóð nálægt samfundatjaldinu. Stuttu síðar frétti Móse að tveir öldungar sem höfðu ekki verið með við samfundatjaldið hefðu einnig fengið heilagan anda og hegðuðu sér nú eins og spámenn. Hvernig brást hann við þegar Jósúa bað hann að koma í veg fyrir það? Móse öfundaði ekki mennina tvo vegna athyglinnar sem þeir fengu frá Jehóva. Hann var öllu heldur auðmjúkur og samgladdist þeim fyrir það sem þeir gátu nú gert. (4. Mós. 11:24–29) Hvað getum við lært af Móse?

Hvernig geta öldungar líkt eftir Móse sem var mjög auðmjúkur? (Sjá 11. og 12. grein.) *

11. Hvernig geta öldungar líkt eftir Móse?

11 Ertu öldungur? Þá gætirðu einhvern tíma hafa verið beðinn um að kenna öðrum að sinna verkefni í söfnuðinum sem þú metur mjög mikils. Kannski hefurðu yndi af að stýra Varðturnsnáminu í hverri viku. En ef þú ert auðmjúkur eins og Móse finnst þér ekki stafa nein ógn af því ef þú ert beðinn að þjálfa annan bróður svo að hann geti með tímanum sinnt þessu verkefni. Í staðinn ertu ánægður með að fá að hjálpa bróður þínum.

12. Hvernig sýna margir bræður og systur að þau eru auðmjúk og ánægð með hlutskipti sitt?

12 Hugsum okkur aðrar aðstæður sem margir eldri bræður þurfa að horfast í augu við. Þeir hafa verið umsjónarmenn öldungaráðs um áratugabil. En þegar þeir verða áttræðir láta þeir verkefni sitt fúslega af hendi. Farandhirðar láta auðmjúkir af störfum þegar þeir verða sjötugir og þiggja annars konar verkefni í þjónustunni. Og undanfarin ár hafa margir Betelítar víðsvegar um heiminn verið beðnir að fara út á akurinn og einbeita sér að boðuninni. Þessir trúföstu bræður og systur eru ekki gröm út í þá sem hafa tekið við af þeim.

13. Hvers vegna hefði Páll auðveldlega getað farið að öfunda postulana 12?

13 Páll postuli var okkur líka til fyrirmyndar með því að rækta með sér auðmýkt og vera sáttur við hlutskipti sitt. Páll leyfði ekki öfund að komast að. Hann lagði sig allan fram við boðunina en sagði auðmjúkur: „Ég er sístur postulanna og er ekki þess verður að kallast postuli.“ (1. Kor. 15:9, 10) Postularnir 12 fylgdu Jesú meðan hann starfaði hér á jörð en Páll varð ekki kristinn fyrir en eftir að Jesús dó og var reistur upp. Þó að hann hafi síðar meir verið skipaður „postuli meðal þjóðanna“ var hann aldrei talinn með postulunum 12. (Rómv. 11:13; Post. 1:21–26) En Páll var ánægður með hlutskipti sitt og öfundaði aldrei þessa 12 menn fyrir stöðu þeirra eða fyrir að hafa átt náin samskipti við Jesú.

14. Hvað gerum við ef við erum auðmjúk og sátt við hlutskipti okkar?

14 Ef við erum auðmjúk og sátt við hlutskipti okkar líkjum við eftir Páli og  virðum þá sem Jehóva hefur falið ákveðið vald. (Post. 21:20–26) Jehóva hefur séð til þess að menn séu útnefndir til að taka forystuna í söfnuðinum. Hann lítur á þessa menn sem „gjöf“ þrátt fyrir ófullkomleika þeirra. (Ef. 4:8, 11) Þegar við virðum þessa útnefndu menn og fylgjum auðmjúk leiðbeiningum þeirra höldum við okkur nálægt Jehóva og eigum frið við trúsystkini okkar.

„GERUM ... ALLT SEM VIÐ GETUM TIL AÐ STUÐLA AÐ FRIÐI“

15. Hvað þurfum við að gera?

15 Enginn friður getur ríkt þar sem fólk öfundar hvert annað. Við þurfum að uppræta öfund úr hjarta okkar og forðast að vekja öfund hjá öðrum. Þetta er mikilvægt ef við viljum hlýða fyrirmælum Jehóva um að gera „allt sem við getum til að stuðla að friði og byggja hvert annað upp“. (Rómv. 14:19) Hvað getum við gert til að hjálpa öðrum að berjast gegn öfund og hvernig getum við stuðlað að friði?

16. Hvernig getum við hjálpað öðrum að berjast gegn öfund?

16 Viðhorf okkar og verk geta haft mikil áhrif á aðra. Heimurinn vill að við ,flíkum eigum okkar‘. (1. Jóh. 2:16) En það ýtir undir öfund. Við forðumst að ala á öfund hjá öðrum ef við tölum ekki stöðugt um það sem við eigum eða ætlum að kaupa. Önnur leið til að forðast að ýta undir öfund er að láta ekki á því bera ef við höfum verkefni í söfnuðinum. Ef við reynum að vekja athygli á því sem við fáum að  gera búum við til frjósaman jarðveg fyrir öfundina. Þegar við sýnum hins vegar einlægan áhuga á öðrum og því góða sem þeir gera auðveldum við þeim að vera ánægðir og við stuðlum að friði og einingu í söfnuðinum.

17. Hvað tókst bræðrum Jósefs að gera og hvers vegna?

17 Við getum sigrast á öfund! Skoðum aftur frásöguna af bræðrum Jósefs. Þeir hittu Jósef í Egyptalandi mörgum árum eftir að þeir höfðu farið illa með hann. Áður en Jósef sagði bræðrum sínum hver hann væri reyndi hann þá til að kanna hvort hugarfar þeirra hefði breyst. Hann hélt matarboð þar sem hann gaf yngsta bróður sínum mun meiri athygli en öllum hinum. (1. Mós. 43:33, 34) Ekkert gefur þó til kynna að bræður hans hafi öfundað Benjamín. Þeim var mjög annt um bróður sinn og hugsuðu einnig um Jakob föður sinn. (1. Mós. 44:30–34) Bræður Jósefs höfðu unnið bug á öfundinni og þess vegna var hægt að endurheimta friðinn í fjölskyldunni. (1. Mós. 45:4, 15) Á svipaðan hátt getum við átt þátt í að varðveita friðinn í fjölskyldunni og innan safnaðarins ef við upprætum hvers kyns öfund.

18. Hvað gerist ef við leggjum okkur fram um að stuðla að friðsælum aðstæðum, samanber Jakobsbréfið 3:17, 18?

18 Jehóva vill að við berjumst gegn öfund og stuðlum að friði. Hvort tveggja kostar töluverða vinnu. Eins og rætt hefur verið í þessari grein höfum við tilhneigingu til að verða öfundsjúk. (Jak. 4:5) Við búum líka í heimi sem ýtir undir öfund. En ef við ræktum með okkur auðmýkt, nægjusemi og þakklæti er ekkert pláss eftir fyrir öfund. Þannig getum við líka skapað friðsælar aðstæður þar sem góðir eiginleikar geta dafnað. – Lestu Jakobsbréfið 3:17, 18.

SÖNGUR 130 Fyrirgefum fúslega

^ gr. 5 Í söfnuði Jehóva ríkir friður. En friðurinn getur raskast ef við förum að öfunda aðra. Í þessari grein er rætt um hvað getur ýtt undir öfund. Við skoðum líka hvernig við getum barist gegn þessum skaðlega eiginleika og hvernig við getum stuðlað að friði.

^ gr. 2 ORÐASKÝRING: Af lýsingu Biblíunnar má sjá að öfund fær fólk ekki aðeins til að langa í það sem aðrir eiga heldur vonast það líka til að þeir missi það.

^ gr. 61 MYND: Á öldungafundi er eldri bróðir sem stýrir Varðturnsnámi safnaðarins beðinn að þjálfa yngri öldung til að geta tekið að sér þetta verkefni. Eldri bróðirinn hefur mikla ánægju af verkefninu en styður samt ákvörðun öldunganna af heilum hug og gefur yngri bróðurnum gagnleg ráð og einlægt hrós.