Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 ÆVISAGA

Ríkuleg trúararfleifð gerði mér kleift að dafna

Ríkuleg trúararfleifð gerði mér kleift að dafna

ÞAÐ var niðdimm nótt og hið geysistóra Nígerfljót blasti við okkur, straumhart og um 1,5 kílómetrar á breidd. Borgarastyrjöld geisaði í Nígeríu og því var lífshættulegt að fara yfir fljótið. En við þurftum að taka þá áhættu oftar en einu sinni. Hvernig lenti ég í þeirri stöðu? Byrjum á því að skoða hvað átti sér stað fyrir mína tíð.

John Mills, faðir minn, skírðist árið 1913 í New York-borg, þá 25 ára. Bróðir Russell flutti skírnarræðuna. Stuttu síðar fór pabbi til Trínidads þar sem hann kvæntist Constance Farmer, en hún var kappsamur boðberi. Pabbi aðstoðaði William R. Brown, vin sinn, við að sýna „Sköpunarsöguna í myndum“. Það gerðu þeir þar til Brown-hjónin voru send til Vestur-Afríku árið 1923. Pabbi og mamma, sem höfðu bæði himneska von, voru áfram á Trínidad.

FORELDRAR OKKAR ELSKUÐU OKKUR

Foreldrar mínir áttu níu börn. Það fyrsta nefndu þau Rutherford í höfuðið á þáverandi forseta Varðturnsfélagsins. Þegar ég kom til sögunnar, 30. desember 1922, var ég nefndur í höfuðið á Clayton J. Woodworth, ritstjóra The Golden Age (nú Vaknið!). Foreldrar okkar sáu til þess að við fengjum öll grunnmenntun en lögðu sérstaka áherslu á að við settum okkur markmið í þjónustu Jehóva. Mamma var einstaklega fær í að rökræða út frá Ritningunum. Og pabbi hafði yndi af að segja okkur biblíusögur og gæddi þær lífi með tilþrifamiklu látbragði.

Erfiði þeirra bar góðan árangur. Þrír okkar bræðranna fimm sóttu Gíleaðskólann og þrjár systur okkar voru brautryðjendur í mörg ár á Trínidad og Tóbagó. Foreldrar okkar ,gróðursettu‘ okkur börnin í húsi Jehóva með kennslu sinni og góðu fordæmi. Hvatning þeirra hjálpaði okkur að vera þar áfram og „blómgast í forgörðum Guðs vors“. – Sálm. 92:14.

Heimili okkar varð eins konar miðstöð boðunarinnar á svæðinu. Þar hittust brautryðjendurnir og töluðu gjarnan um bróður George Young, kanadískan trúboða sem hafði verið á Trínidad. Foreldrar mínir rifjuðu oft upp skemmtilegar sögur af Brown-hjónunum, fyrrverandi starfsfélögum sínum sem þá voru í Vestur-Afríku. Allt þetta var mér hvatning til að byrja að boða trúna aðeins tíu ára.

 STARFSEMIN ÁÐUR FYRR

Blöðin okkar voru mjög beinskeytt í þá daga. Þau afhjúpuðu falstrúarbrögð, græðgi viðskiptaheimsins og spillingu stjórnmálanna. Það varð til þess að landstjóri Trínidads bannaði öll rit Varðturnsfélagsins árið 1936 eftir þrýsting frá prestastéttinni. Við földum ritin en héldum áfram að nota þau þar til birgðirnar kláruðust. Við gengum og hjóluðum fylktu liði með upplýsingaskilti og gáfum fólki smárit. Við boðuðum trúna jafnvel á afskekktustu svæðum Trínidads ásamt trúsystkinum á hátalarabíl frá bænum Tunapuna. Það var spennandi! Þetta andlega umhverfi varð til þess að ég lét skírast 16 ára.

Hópurinn frá Tunapuna við hátalarabílinn sinn.

Fjölskylduarfleifðin og þessi spennandi uppvaxtarár kveiktu með mér löngun til að verða trúboði. Ég hafði enn þessa löngun þegar ég fór til Arúba árið 1944 þar sem ég slóst í lið með bróður Edmund W. Cummings. Við vorum himinlifandi að tíu skyldu sækja minningarhátíðina árið 1945. Árið eftir var fyrsti söfnuðurinn á eyjunni myndaður.

Ég naut lífsins á nýjan hátt með Oris mér við hlið.

Stuttu síðar vitnaði ég óformlega fyrir samstarfskonu að nafni Oris Williams. Oris gerði sitt ýtrasta til að verja trúarkenningarnar sem hún hafði lært. En með biblíunámi komst hún að því hvað orð Guðs kennir í raun og lét skírast 5. janúar 1947. Ekki leið á löngu þar til við urðum ástfangin og giftum okkur. Hún gerðist brautryðjandi í nóvember 1950. Ég naut lífsins á nýjan hátt með Oris mér við hlið.

SPENNANDI ÞJÓNUSTA Í NÍGERÍU

Árið 1955 var okkur hjónunum boðið að sækja Gíleaðskólann, okkur til mikillar ánægju. Til að búa okkur undir skólann sögðum við upp vinnunni, seldum húsið okkar og aðrar eigur og fluttumst frá Arúba. Þann 29. júlí 1956 útskrifuðumst við með 27. nemendahópi skólans og vorum send til Nígeríu.

Með Betelfjölskyldunni í Lagos í Nígeríu árið 1957.

Oris sagði þegar hún leit yfir farinn veg: „Lífið sem trúboði getur stundum verið erfitt. En andi Jehóva getur hjálpað manni að takast á við það. Ólíkt manninum mínum langaði mig aldrei til að verða trúboði. Ég vildi frekar eignast heimili og ala upp börn. En viðhorf mitt breyttist þegar mér varð ljóst hve áríðandi það er að boða fagnaðarerindið. Eftir Gíleað var ég bæði tilbúin og ákveðin í að þjóna sem trúboði. Þegar við stigum um borð í skipið Queen Mary óskaði Worth Thornton okkur góðrar ferðar, en hann var aðstoðarmaður bróður Knorrs. Hann sagði okkur að við ættum að starfa á Betel. ,Æ, nei!‘ sagði ég andvarpandi. En ég var fljót að taka það í sátt og hafði yndi af að þjóna á Betel þar sem ég hafði ýmis verkefni. Mér fannst skemmtilegast að vinna í móttökunni. Ég elska fólk og móttökustarfið gerði mér kleift að vera í nánum samskiptum við nígerísk trúsystkini okkar. Margir komu þreyttir, þyrstir, svangir og skítugir eftir ferðalagið. Það gladdi mig að geta útvegað þeim hressingu og séð til þess að þeim liði vel. Allt var þetta heilög þjónusta fyrir Jehóva og það veitti mér gleði og ánægju.“ Já, hvert einasta verkefni gerði okkur kleift að dafna.

Árið 1961 heimsóttum við Trínidad. Eitt sinn, þegar fjölskyldan kom saman, sagði bróðir Brown spennandi frásögur frá Afríku. Síðan sagði ég frá vexti safnaðarins í Nígeríu. Bróðir Brown tók vinalega utan um mig og sagði við pabba: „Johnny, þú komst aldrei til Afríku en það gerði Woodworth.“ Þá sagði pabbi: „Haltu þessu áfram, Worth! Haltu áfram!“ Hvatning þessara þaulreyndu bræðra styrkti löngun mína til að gera boðun minni góð skil.

William Brown (oftast kallaður Biblíu-Brown) og Antonia, konan hans, voru okkur mikil hvatning.

Árið 1962 fékk ég aftur að sækja Gíleaðskólann til að fá frekari þjálfun. Ég var í 37. nemendahópnum og skólinn stóð yfir í tíu mánuði. Bróðir Wilfred Gooch, sem var þá umsjónarmaður deildarskrifstofunnar í Nígeríu, sótti skólann með 38. nemendahópnum og var í kjölfarið sendur til Englands. Mér var þá falið að taka við af honum sem umsjónarmaður. Ég fetaði í fótspor bróður Browns með því að ferðast mikið. Þannig kynntist ég vel trúsystkinum í Nígeríu og mér fór að þykja ákaflega vænt um þau. Þau skorti ýmislegt sem fólk í þróaðri löndum telur sjálfsagðan hlut en gleði þeirra og ánægja sýndi og sannaði að  innihaldsríkt líf veltur ekki á peningum eða efnislegum eigum. Það var frábært að sjá þau mæta á samkomur hrein, snyrtileg og virðulega til fara þrátt fyrir aðstæður þeirra. Þegar þau flykktust á mótin komu mörg þeirra með vörubílum eða svokölluðum bolekaja * (rútum sem hafa opnar hliðar og eru smíðaðar þar í landi). Oft voru þessar rútur með forvitnilegum slagorðum. Á einni þeirra stóð: „Litlir vatnsdropar mynda stórt haf.“

Það eru orð að sönnu! Það sem hver og einn leggur á sig skiptir máli – og við lögðum okkar af mörkum. Árið 1974 voru boðberar í Nígeríu orðnir yfir 100.000 talsins. Þar með varð Nígería fyrsta landið fyrir utan Bandaríkin til að ná þeim áfanga. Starfið hafði heldur betur dafnað!

Meðan þessi vöxtur átti sér stað geisaði líka borgarastyrjöld í Nígeríu á árunum 1967 til 1970. Trúsystkini okkar í Bíafra, hinum megin við Nígerfljótið, voru einangruð frá deildarskrifstofunni mánuðum saman. Við hreinlega þurftum að færa þeim andlega fæðu. Við fórum margar ferðir yfir fljótið eins og ég nefndi í byrjun. Okkur tókst það með því að biðja til Jehóva og treysta á hann.

Ég man enn vel eftir þessum hættuförum yfir Níger. Skotglaðir hermenn, sjúkdómar og aðrar hættur ógnuðu lífi okkar. Það var nógu erfitt að komast fram hjá hermönnum ríkisstjórnarinnar en það var enn þá hættulegra að komast inn á víggirt svæðið hinum megin við fljótið þar sem uppreisnarmenn Bíaframanna héldu sig. Eina nóttina fór ég á stórum kanó yfir straumhart Nígerfljótið frá Asaba til Onitsha. Þaðan fór ég síðan til Enugu til að hvetja og uppörva öldungana þar. Í annarri ferð hvöttum við öldungana í borginni Aba en þar var fólki skipað að slökkva ljósin á kvöldin til að óvinirnir gætu ekki séð það. Í Port Harcourt þurftum við í snarhasti að ljúka samkomu með bæn þegar hermenn ríkisstjórnarinnar brutust í gegnum varnir Bíaframanna fyrir utan borgina.

Samkomurnar voru mikilvægur þáttur í að fullvissa ástkær trúsystkini okkar um að Jehóva bæri umhyggju fyrir þeim. Þær gerðu okkur líka kleift að gefa þeim mjög tímabærar leiðbeiningar um hlutleysi og einingu. Bræðrum okkar og systrum í Nígeríu tókst að halda út í þessum hræðilegu átökum. Kærleikur þeirra hvert til annars reyndist sterkari en hatur milli ættbálka, og þau varðveittu eininguna. Hvílíkur heiður að fá að standa þeim við hlið á þessum erfiðu tímum!

Árið 1969 var bróðir Milton G. Henschel fundarstjóri á alþjóðamótinu „Friður á jörð“ á Yankee Stadium í New York og ég lærði margt sem aðstoðarmaður hans. Það reyndist tímabært þar sem við héldum alþjóðamótið „Menn sem Guð hefur velþóknun á“ í Lagos í Nígeríu ári síðar. Mótið heppnaðist vel en það var aðeins hægt með blessun Jehóva enda var borgarastyrjöldin nýafstaðin. Mótið braut blað í sögunni þar sem það var haldið á 17 tungumálum og 121.128 voru viðstaddir. Meðal þeirra voru bróðir Knorr og Henschel ásamt gestum sem komu með leiguflugi frá Bandaríkjunum og Englandi. Þeir fylgdust með einni fjölmennustu skírn frá því á hvítasunnu árið 33, en skírnþegar voru 3.775 talsins! Ég hef sennilega aldrei verið eins önnum kafinn og þegar ég tók þátt í að undirbúa þetta mót. Það varð hreint út sagt sprenging í fjölda boðbera!

Alþjóðamótið „Menn sem Guð hefur velþóknun á“ var haldið á 17 tungumálum, þar á meðal igbó. Viðstaddir voru 121.128.

Við bjuggum rúma þrjá áratugi í Nígeríu og á þeim tíma þjónaði ég stundum sem farandhirðir og umdæmishirðir í Vestur-Afríku. Trúboðunum þótti ákaflega vænt um að fá uppörvun og að þeim væri sýndur persónulegur áhugi. Það var gott að geta fullvissað þá um að ekki væri litið fram hjá þeim. Þessi hlið þjónustunnar sýndi mér fram á hve mikilvægt það er að sýna fólki persónulegan áhuga. Það hjálpar fólki að dafna og halda söfnuði Jehóva sterkum og sameinuðum.

Það var aðeins með hjálp Jehóva að við gátum tekist á við erfiðleikana sem fylgdu veikindum og  borgarastyrjöldinni. Blessun Jehóva var alltaf augljós. Oris sagði:

„Við fengum bæði malaríu í nokkur skipti. Í eitt skiptið endaði Worth meðvitundarlaus á spítala í Lagos. Mér var sagt að hann myndi kannski ekki lifa það af, en sem betur fer gerði hann það. Þegar hann rankaði við sér talaði hann við hjúkrunarfræðing um ríki Guðs. Síðar fór ég með Worth að heimsækja þennan hjúkrunarfræðing, herra Nwambiwe, til að glæða áhuga hans á Biblíunni. Hann tók við sannleikanum og varð síðar öldungur í Aba. Ég fékk líka tækifæri til að hjálpa mörgum að verða vígðir þjónar Jehóva, meira að segja heittrúuðum múslímum. Það veitti okkur mikla ánægju að fá að kynnast Nígeríumönnum, menningu þeirra, siðum og tungumáli.“

Af þessu drógum við annan lærdóm: Til að geta dafnað á erlendu svæði þurftum við að læra að elska trúsystkini okkar, sama hve ólík menning okkar var.

NÝ VERKEFNI

Árið 1987 fengum við nýtt verkefni. Við höfðum fram að því þjónað á Betel í Nígeríu en nú var okkur falið að starfa sem trúboðar á Sankti Lúsíu, fallegri eyju í Karíbahafi. Það var mjög skemmtilegt verkefni en því fylgdu nýjar áskoranir. Í Afríku voru menn kvæntir mörgum konum. En á Sankti Lúsíu var vandinn sá að pör bjuggu saman án þess að vera löglega gift. Krafturinn í orði Guðs fékk marga biblíunemendur okkar til að gera nauðsynlegar breytingar.

Ég elskaði Oris heitt þau 68 ár sem við vorum gift.

Þrótturinn fór dvínandi með aldrinum. Hið stjórnandi ráð sýndi okkur þá tillitssemi að flytja okkur til aðalstöðvanna í Brooklyn í New York árið 2005. Ég þakka Jehóva fyrir Oris á hverjum degi. Árið 2015 féll hún fyrir hendi óvinarins, dauðans. Orð fá ekki lýst hve missirinn er mikill. Hún var dásamlegur lífsförunautur og yndisleg eiginkona. Ég elskaði hana innilega öll þau 68 ár sem við vorum saman. Við komumst að raun um að uppskriftin að hamingjunni, bæði í hjónabandi og söfnuðinum, er að virða forystuhlutverkið, vera fús til að fyrirgefa, vera auðmjúk og tileinka sér ávöxt andans.

Þegar við urðum vonsvikin eða niðurdregin leituðum við til Jehóva og báðum hann að hjálpa okkur að halda áfram að þjóna honum af heilum hug. Við þurftum stöðugt að laga okkur að breytingum í söfnuðinum en við sáum að hann varð sífellt betri – og það besta er enn fram undan! – Jes. 60:17; 2. Kor. 13:11.

Jehóva blessaði starf foreldra minna og annarra á Trínidad og Tóbagó. Þar eru nú 9.892 tilbiðjendur Jehóva samkvæmt nýjustu tölum. Margir áttu þátt í að styrkja upprunalega söfnuðinn sem ég tilheyrði á Arúba. Á eyjunni eru nú 14 dugmiklir söfnuðir. Í Nígeríu eru boðberar orðnir hvorki meira né minna en 381.398. Og á Sankti Lúsíu eru 783 boðberar sem styðja ríki Jehóva.

Nú er ég kominn á tíræðisaldur. Í Sálmi 92:15 segir um þá sem eru gróðursettir í húsi Jehóva: „[Þeir] bera ávöxt í hárri elli, eru safaríkir og grænir.“ Ég er innilega þakklátur fyrir það líf sem ég hef átt í þjónustu Jehóva. Ríkuleg arfleifð mín í trúnni hefur verið mér hvatning til að þjóna Jehóva af öllum mætti. Ég hef „blómgast í forgörðum Guðs [míns]“, þökk sé tryggum kærleika hans. – Sálm. 92:14.

^ gr. 18 Sjá Vaknið! á ensku 8. mars 1972, bls. 24-26.