Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Líkjum eftir trú og hlýðni Nóa, Daníels og Jobs

Líkjum eftir trú og hlýðni Nóa, Daníels og Jobs

,Nói, Daníel og Job myndu aðeins bjarga eigin lífi með réttlæti sínu.‘ – ESEK. 14:14.

SÖNGVAR: 89, 119

1, 2. (a) Hvers vegna geta fordæmi Nóa, Daníels og Jobs verið okkur til hughreystingar? (b) Við hvaða aðstæður skrifaði Esekíel það sem stendur í Esekíel 14:14?

ÁTT þú við erfiðleika að glíma eins og heilsubrest, fjárhagsvandamál eða ofsóknir? Finnst þér stundum erfitt að viðhalda gleðinni í þjónustu Jehóva? Ef svo er geta fordæmi Nóa, Daníels og Jobs verið þér til hughreystingar. Þeir voru ófullkomnir og upplifðu marga af þeim erfiðleikum sem við lendum í, þar á meðal erfiðleika sem stefndu lífi þeirra í hættu. Þeir voru samt ráðvandir og í augum Guðs var trú þeirra og hlýðni til fyrirmyndar. – Lestu Esekíel 14:12-14.

2 Esekíel skrifaði versið, sem þessi grein er byggð á, í Babýlon árið 612 f.Kr. * (Esek. 1:1; 8:1) Sá tími nálgaðist að hinni fráhverfu Jerúsalem yrði eytt eins og spáð hafði verið, en það gerðist árið 607 f.Kr. Fáir sýndu sömu eiginleika og Nói, Daníel og Job og fengu tákn um að þeir myndu bjargast.  (Esek. 9:1-5) Meðal þeirra voru þó Jeremía, Barúk, Ebed Melek og Rekabítar.

3. Hvað skoðum við í þessari grein?

3 Eins verður það á okkar tímum. Aðeins þeir sem eru ráðvandir í augum Jehóva – fólk eins og Nói, Daníel og Job – fá tákn um að þeir bjargist þegar þessi heimsskipan líður undir lok. (Opinb. 7:9, 14) Skoðum nú hvers vegna Jehóva leit á Nóa, Daníel og Job sem réttláta menn okkur til fyrirmyndar. Við ræðum um þá hvern fyrir sig og beinum athyglinni að því (1) hvaða erfiðleika þeir upplifðu og (2) hvernig við getum líkt eftir trú þeirra og hlýðni.

NÓI – TRÚR OG HLÝÐINN Í NÍU ALDIR

4, 5. Hvaða erfiðleikar mættu Nóa og hvers vegna var það sérstakt að hann skyldi vera þolgóður?

4 Erfiðleikar sem Nói þurfti að þola. Á tímum Enoks, langafa Nóa, var fólk orðið mjög óguðlegt. Það talaði jafnvel ,hörð orð‘ gegn Jehóva. (Júd. 14, 15) Ofbeldið jókst stöðugt og á dögum Nóa ,var jörðin orðin full ranglætis‘. Illir englar tóku á sig mannslíkama, tóku sér konur og áttu með þeim kynblendinga sem voru mjög grimmir. (1. Mós. 6:2-4, 11, 12) En Nói var ólíkur samtímamönnum sínum. „Nói fann náð fyrir augum Drottins ... Nói var réttlátur og vandaður maður á sinni tíð. Hann gekk með Guði.“ – 1. Mós. 6:8, 9.

5 Veltum fyrir okkur hvað þetta segir okkur um þennan réttláta mann. Nói gekk ekki bara með Guði í þeim illa heimi, sem var við lýði fyrir flóðið, í 70 eða 80 ár – sem er æviskeið margra núna. Hann lifði í þessum heimi í næstum 600 ár! (1. Mós. 7:11) Og ólíkt okkur hafði hann engan söfnuð með trúsystkinum – og jafnvel ekki systkini – sem studdu hann í trúnni. *

6. Hvernig sýndi Nói mikið hugrekki?

6 Nói sætti sig ekki einfaldlega við að lifa góðu lífi. Hann var líka hugrakkur ,boðberi réttlætisins‘ og játaði trú sína á Jehóva opinberlega. (2. Pét. 2:5) „Með trú sinni sýndi hann að heimurinn hafði á röngu að standa,“ skrifaði Páll postuli. (Hebr. 11:7) Það má því ætla að hæðst hafi verið að Nóa, hann hafi mætt andstöðu og jafnvel að honum hafi verið hótað ofbeldi. En hann óttaðist ekki menn. (Orðskv. 29:25) Hann bjó yfir því hugrekki sem Jehóva veitir trúum þjónum sínum.

7. Hvað þurfti Nói að þola þegar hann smíðaði örkina?

7 Jehóva sagði Nóa að smíða örk til að bjarga lífi manna og dýra. Nói hafði þá gengið með Guði í meira en fimm aldir. (1. Mós. 5:32; 6:14) Þetta verkefni hefur örugglega virst yfirþyrmandi, og ekki bara vegna sjálfrar smíðinnar. Nói vissi eflaust að það hefði í för með sér enn meiri háðung og andstöðu. Hann hélt samt áfram að hlýða Guði trúfastlega. „Nói gerði allt eins og Guð bauð honum.“ – 1. Mós. 6:22.

8. Hvernig sýndi Nói að hann treysti að Jehóva myndi sjá fyrir honum?

8 Annað sem reyndi á Nóa var að hann þurfti að sjá konu sinni og börnum farborða. Fyrir flóðið þurfti fólk að leggja mikið á sig til að rækta matvæli og þar var Nói engin undantekning. (1. Mós. 5:28, 29) Þrátt fyrir það lét hann lífið snúast um að þjóna Guði en ekki um efnisleg mál. Nói einbeitti sér að andlegum markmiðum jafnvel á meðan hann smíðaði  örkina, en það tók kannski 40 eða 50 ár. Og hann hélt því áfram í 350 ár eftir flóðið. (1. Mós. 9:28) Hann er okkur sannarlega góð fyrirmynd með trú sinni og hlýðni.

9, 10. (a) Hvernig getum við líkt eftir trú og hlýðni Nóa? (b) Hvað máttu vera viss um ef þú ert ákveðinn í að fylgja lögum Guðs?

9 Hvernig getum við líkt eftir trú og hlýðni Nóa? Við gerum það með því að styðja réttlætismælikvarða Guðs, vera ekki hluti af heimi Satans og setja ríki Guðs í fyrsta sæti. (Matt. 6:33; Jóh. 15:19) Við megum vera viss um að við verðum ekki vinsæl í þessum heimi með líferni okkar. Þar sem við erum ákveðin í að fylgja lögum Guðs, eins og þeim sem varða hjónaband og siðferði, höfum við fengið neikvæða umfjöllun í sumum löndum. (Lestu Malakí 3:17, 18.) Við óttumst þó ekki menn heldur Jehóva, líkt og Nói. Við vitum að það er bara hann sem getur veitt eilíft líf. – Lúk. 12:4, 5.

10 En hvað um þig? Ætlar þú að ,ganga með Guði‘ jafnvel þegar aðrir gera grín að þér eða gagnrýna? Gerirðu það þegar fjárhagserfiðleikar reyna á trú þína á að Jehóva sjái þér farborða? Ef þú líkir eftir trú og hlýðni Nóa máttu vera viss um að Jehóva sjái um þig. – Fil. 4:6, 7.

DANÍEL – TRÚR OG HLÝÐINN Í BORG SEM VAR FULL ILLSKU

11. Hvaða erfiðu prófraunum urðu Daníel og vinir hans þrír fyrir í Babýlon? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

11 Erfiðleikar sem Daníel þurfti að þola. Daníel hafði verið hernuminn og fluttur til Babýlonar, borgar sem var full af skurðgoðadýrkun og dulspeki. Babýloníumenn litu niður á Gyðinga og hæddust bæði að þeim og Jehóva, Guði þeirra. (Sálm. 137:1, 3) Þetta hlýtur að hafa sært trúfasta Gyðinga eins og Daníel. Hann og vinir hans þrír, þeir Hananja, Mísael og Asarja, voru auk þess í kastljósinu vegna þess að þeir áttu að fá þjálfun í þjónustu konungs. Það var jafnvel ákveðið fyrir þá hvað þeir ættu að borða. Matur og drykkur varð reyndar fljótlega að prófsteini fyrir Daníel þar sem hann vildi ekki „saurga sig ... á krásum af konungsborði“. – Dan. 1:5-8, 14-17.

12. (a) Hvaða góðu eiginleika sýndi Daníel af sér? (b) Hvernig leit Jehóva á Daníel?

12 Daníel getur líka hafa orðið fyrir lúmskari prófraun. Framúrskarandi hæfileikar hans urðu til þess að hann hlaut sérstaka tignarstöðu. (Dan. 1:19, 20) En í stað þess að verða stoltur og þver var hann auðmjúkur og hógvær sem fyrr og gaf Jehóva alltaf þann heiður sem honum bar. (Dan. 2:30) Daníel var enn ungur að árum þegar Jehóva taldi hann meðal réttlátra manna okkur til fyrirmyndar ásamt Nóa og Job. Bar Guð meira traust til Daníels en hann átti skilið? Alls ekki. Daníel reyndist trúr og hlýðinn allt til æviloka. Hann var líklega að nálgast tírætt þegar engill ávarpaði hann hlýlega og kallaði hann ástmög Guðs. – Dan. 10:11.

13. Hvernig getur staða Daníels hafa verið Gyðingum til blessunar?

13 Daníel var gerður að yfirhöfðingja bæði í babýlonska og medísk-persneska heimsveldinu vegna þess að Jehóva studdi hann. (Dan. 1:21; 6:2, 3) Kannski batt Jehóva þannig um hnútana svo að Daníel gæti hjálpað þjóð sinni, rétt eins og Jósef í Egyptalandi og Ester og Mordekaí á tímum Persaveldis. * (Dan. 2:48) Hugsaðu þér hve hughreystandi það hlýtur að hafa verið fyrir Gyðinga  í útlegðinni, þar á meðal Esekíel, að sjá hönd Jehóva að verki með þessum hætti.

Jehóva metur þá mikils sem eru honum ráðvandir. (Sjá 14. og 15. grein.)

14, 15. (a) Að hvaða leyti erum við í svipuðum aðstæðum og Daníel? (b) Hvað geta foreldrar nú á dögum lært af foreldrum Daníels?

14 Hvernig getum við líkt eftir trú og hlýðni Daníels? Við búum eins og útlendingar í heimi sem er siðferðilega og andlega spilltur. Fólk er undir áhrifum Babýlonar hinnar miklu, heimsveldis falstrúarbragða, ,heimkynna djöfla‘. (Opinb. 18:2) Þar af leiðandi skerum við okkur úr og verðum stundum fyrir háði. (Mark. 13:13) Við skulum því nálægja okkur Jehóva, Guði okkar, líkt og Daníel. Þegar við erum auðmjúk og hlýðin og treystum Jehóva erum við líka dýrmæt í augum hans. – Hag. 2:7.

15 Foreldrar geta lært af fordæmi foreldra Daníels. Hvað geta þeir lært? Daníel lærði að elska Jehóva þrátt fyrir illskuna sem ríkti í Júda á æskuárum hans. Það var auðvitað engin tilviljun heldur bar það merki um gott uppeldi. (Orðskv. 22:6) Nafn Daníels, sem þýðir „Guð er dómari minn“, gefur einnig til kynna að foreldrar hans hafi verið guðræknir. Foreldrar, gefist aldrei upp á börnunum ykkar heldur kennið þeim með þolinmæði. (Ef. 6:4) Biðjið líka með þeim og fyrir þeim. Þegar þið leggið ykkur fram um að láta sannleika Biblíunnar ná til hjartna þeirra getur Jehóva blessað ykkur ríkulega. – Sálm. 37:5.

JOB – TRÚR OG HLÝÐINN HVORT SEM HANN VAR RÍKUR EÐA FÁTÆKUR

16, 17. Hvaða ólíku aðstæður reyndu á Job?

16 Erfiðleikar sem Job þurfti að þola. Ævi Jobs einkenndist af miklum breytingum. Áður en prófraunirnar dundu á var hann „öllum öðrum auðugri í löndunum fyrir austan“. (Job. 1:3) Hann var ríkur, þekktur og mjög virtur. (Job. 29:7-16) Job leit samt ekki stórt á sig eða hugsaði sem svo að hann þyrfti ekki á Guði að halda. Jehóva kallaði hann ,þjón sinn‘ og bætti við: ,Hann er ráðvandur og réttlátur. Hann óttast Guð og forðast illt.‘ – Job. 1:8.

17 Á mjög stuttum tíma gerbreyttist líf Jobs. Hann missti allt sem hann átti og varð svo örvæntingarfullur að hann langaði til að deyja. Við vitum að Satan, rógberinn, stóð á bak við þetta en hann sakaði Job um að tilbiðja Guð af eigingjörnum hvötum. (Lestu Jobsbók  1:9, 10.) Jehóva sópaði þessari illu ásökun ekki undir teppið. Í staðinn gaf hann Job tækifæri til að sanna ráðvendni sína, að sýna að tilbeiðsla hans var sprottin af hreinu, óeigingjörnu hjarta.

18. (a) Hvað finnst þér merkilegt við ráðvendni Jobs? (b) Hvað lærum við um Jehóva af afskiptum hans af Job?

18 Satan réðst gegn Job með röð illskeyttra árása og taldi honum trú um að Guð ætti sökina á þeim. (Job. 1:13-21) Síðan komu þrír falsvinir Jobs og réðust á hann með særandi orðum. Þeir sögðu efnislega að Guð gæfi honum bara það sem hann ætti skilið. (Job. 2:11; 22:1, 5-10) Job varðveitti samt ráðvendni sína. Hann sagði að vísu sumt sem var vanhugsað en Jehóva skildi sársauka hans. (Job. 6:1-3) Guð sá mjög niðurdreginn mann sem sneri aldrei baki við honum, jafnvel þótt Satan hefði kastað Job í jörðina og sparkað síðan í hann með upplognum smánaryrðum. Þegar prófraunin var á enda gaf Jehóva Job tvöfalt það sem hann átti áður en erfiðleikarnir skullu á. Auk þess fékk hann að lifa 140 ár til viðbótar. (Jak. 5:11) Einnig þá hélt hann áfram að sýna Jehóva óskipta hollustu. Hvernig vitum við það? Job hafði verið dáinn um margar aldir þegar Esekíel skrifaði versið sem þessi grein byggist á.

19, 20. (a) Hvernig getum við líkt eftir trú og hlýðni Jobs? (b) Hvernig getum við sýnt öðrum meðaumkun eins og Jehóva gerir?

19 Hvernig getum við líkt eftir trú og hlýðni Jobs? Hverjar sem aðstæður okkar eru skulum við alltaf láta Jehóva vera fremstan í lífi okkar, treysta honum í einu og öllu og hlýða honum af heilu hjarta. Við höfum reyndar enn meiri ástæðu til þess en Job. Hugleiddu þetta: Við vitum margt um Satan og brögð hans. (2. Kor. 2:11) Við vitum hvers vegna Guð leyfir þjáningar, og það er meðal annars Jobsbók að þakka. Af spádómi Daníels skiljum við að ríki Guðs er raunveruleg ríkisstjórn í höndum Jesú Krists. (Dan. 7:13, 14) Og við vitum að þetta ríki bindur bráðlega enda á allar þjáningar fyrir fullt og allt.

20 Reynsla Jobs beinir líka athygli að þörfinni á að sýna meðaumkun þegar trúsystkini okkar þjást. Stundum segja þau kannski eitthvað vanhugsað eins og Job. (Préd. 7:7) Við ættum þó að sýna skilning og meðaumkun frekar en að dæma þau. Þannig líkjum við eftir ástríkum og miskunnsömum föður okkar, Jehóva. – Sálm. 103:8.

JEHÓVA STYRKIR ÞIG

21. Hvernig endurspegla orðin í 1. Pétursbréfi 5:10 það sem Nói, Daníel og Job upplifðu?

21 Nói, Daníel og Job voru uppi á mismunandi tímum og bjuggu við mjög ólíkar aðstæður, en þeir héldu allir út í erfiðleikunum sem mættu þeim. Frásögurnar af þeim minna okkur á orð Péturs postula. Hann skrifaði: „Er þið hafið þjáðst um lítinn tíma mun Guð, sem veitir alla náð ... sjálfur fullkomna ykkur, styrkja og gera ykkur öflug.“ – 1. Pét. 5:10.

22. Hvað skoðum við í næstu grein?

22 Með innblásnum orðum Péturs fullvissar Jehóva okkur um að hann sjái til þess að þjónar sínir verði staðfastir og styrkir. Þessi orð eiga ekki síður við um þjóna hans nú á dögum. Við þráum öll að Jehóva styrki okkur og viljum vera staðföst í tilbeiðslu okkar. Þess vegna langar okkur til að líkja eftir trú og hlýðni Nóa, Daníels og Jobs. Lykillinn að ráðvendni þeirra var að þeir þekktu Jehóva vel eins og við sjáum í næstu grein. Þeir ,skildu allt‘ sem hann ætlaðist til af þeim. (Orðskv. 28:5) Það getum við líka gert.

^ gr. 2 Esekíel var fluttur í útlegð árið 617 f.Kr. Esekíel 8:1 – 19:14 er tímasett ,á sjötta ári‘ útlegðarinnar eða árið 612 f.Kr.

^ gr. 5 Lamek, guðrækinn faðir Nóa, dó um fimm árum fyrir flóðið. Ef móðir Nóa og systkini voru á lífi við upphaf flóðsins hafa þau ekki lifað það af.

^ gr. 13 Hið sama getur hafa átt við um vini Daníels þrjá en þeir fengu einnig valdastöður. – Dan. 2:49.