Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lausnarfórnin – fullkomin gjöf frá föðurnum

Lausnarfórnin – fullkomin gjöf frá föðurnum

„Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ... frá föður ljósanna.“ – JAK. 1:17.

SÖNGVAR: 148, 109

1. Hvað hefur fórnardauði Jesú í för með sér?

LAUSNARFÓRN Jesú Krists hefur mikla blessun í för með sér. Hún opnar öllum afkomendum Adams, sem elska réttlætið, tækifæri til að tilheyra fjölskyldu Guðs þegar þar að kemur. Lausnarfórnin gerir þeim einnig kleift að lifa hamingjusamir að eilífu. En fórnardauði Jesú hefur ekki bara í för með sér dásamlegt líf í framtíðinni fyrir hlýðið mannkyn. Það hefur mikla þýðingu fyrir alla, bæði á himni og jörð, að Jesús skyldi gefa líf sitt fúslega og styðja réttlæti Jehóva. – Hebr. 1:9.

2. (a) Hvaða mikilvægu mál fjallaði Jesús um í faðirvorinu? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvað skoðum við í þessari grein?

2 Um tveim árum fyrir dauða sinn kenndi Jesús lærisveinum sínum að biðja á þessa leið: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matt. 6:9, 10) Skoðum hvernig lausnarfórnin tengist því að nafn Guðs helgist,  að ríki hans verði mannkyninu til blessunar og að vilji hans nái fram að ganga. Með því að hugleiða þetta verðum við enn þakklátari fyrir lausnarfórnina.

„HELGIST ÞITT NAFN“

3. Hvað felur heilagt nafn Jehóva í sér og hvernig kastaði Satan rýrð á það?

3 Jesús nefnir fyrst í faðirvorinu að nafn Guðs eigi að helgast. Nafn Jehóva felur í sér að hann sé hinn hæsti Guð og lýsir hátign hans og heilagleika. Í annarri bæn kallar Jesús hann ,heilagan föður‘. (Jóh. 17:11) Þar sem Jehóva er heilagur eru líka allar meginreglur hans og lög heilög. Í Edengarðinum ýjaði Satan hins vegar lævíslega að því að Jehóva hefði ekki rétt til að setja mönnum lög og reglur. Hann laug upp á Jehóva og kastaði rýrð á heilagt nafn hans. – 1. Mós. 3:1-5.

4. Hvernig átti Jesús þátt í að helga nafn Guðs?

4 Á hinn bóginn elskaði Jesús nafn Jehóva af öllu hjarta. (Jóh. 17:25, 26) Hann gerði allt sem hann gat til að helga það. (Lestu Sálm 40:9-11.) Með orðum sínum og verkum sýndi Jesús fram á að það er bæði sanngjarnt og réttlátt af Jehóva að setja vitibornum sköpunarverum sínum lög og reglur. Jesús var fullkomlega trúr föður sínum á himnum, jafnvel þegar Satan lét hann þjást og deyja hræðilegum dauðdaga. Þannig sannaði hann að fullkominn maður gæti verið hlýðinn Jehóva í einu og öllu.

5. Hvernig getum við átt þátt í að helga nafn Guðs?

5 Hvernig getum við sýnt að við elskum nafn Jehóva? Með verkum okkar. Jehóva gerir þá kröfu að við séum heilög. (Lestu 1. Pétursbréf 1:15, 16.) Það þýðir að við tilbiðjum aðeins Jehóva og hlýðum honum af öllu hjarta. Við gerum okkar besta til að hlýða réttlátum meginreglum hans og lögum, jafnvel þegar við erum ofsótt. Með því að gera það sem er rétt látum við ljós okkar lýsa og það heiðrar nafn Jehóva. (Matt. 5:14-16) Við sönnum með heilögu líferni okkar að lög Jehóva eru góð og ákærur Satans rangar. Þegar okkur verða á mistök, eins og gerist hjá okkur öllum, iðrumst við í einlægni og hættum að gera það sem kastar rýrð á nafn Jehóva. – Sálm. 79:9.

6. Hvers vegna getur Jehóva álitið okkur réttlát þótt við séum ófullkomin?

6 Á grundvelli lausnarfórnarinnar fyrirgefur Jehóva syndir þeirra sem trúa. Hann tekur opnum örmum öllum sem tilbiðja hann og vígjast honum. Jehóva lýsir andasmurða kristna menn réttláta sem syni en aðra sauði sem vini. (Jóh. 10:16; Rómv. 5:1, 2; Jak. 2:21-25) Svo er lausnarfórninni fyrir að þakka að við getum nú þegar átt gott samband við föður okkar og átt þátt í að helga nafn hans.

„TIL KOMI ÞITT RÍKI“

7. Hvaða blessun hefur lausnargjaldið í för með sér í ríki Guðs?

7 Það næsta, sem Jesús biður um í faðirvorinu, er að ríki Guðs komi. Hvernig tengist lausnarfórnin ríki Guðs? Vegna lausnarfórnarinnar er hægt að safna saman 144.000 manns til að vera konungar og prestar með Kristi á himnum. (Opinb. 5:9, 10; 14:1) Jesús og meðstjórnendur hans,  sem mynda í sameiningu stjórn Guðsríkis, beita lausnargjaldinu í þágu hlýðins mannkyns í þúsund ár. Jörðinni verður breytt í paradís og allir sem reynast trúfastir verða fullkomnir. Þjónar Guðs á himni og jörð verða loksins ein sameinuð fjölskylda. (Opinb. 5:13; 20:6) Jesús mer höfuð höggormsins og eyðir öllum ummerkjum um uppreisn Satans. – 1. Mós. 3:15.

8. (a) Hvernig sýndi Jesús lærisveinum sínum fram á að ríki Guðs væri afar mikilvægt? (b) Hvernig styðjum við ríki Guðs nú á tímum?

8 Þegar Jesús var á jörðinni sýndi hann lærisveinum sínum fram á að ríki Guðs væri afar mikilvægt. Strax eftir að hann lét skírast tók hann að boða „fagnaðarerindið um Guðs ríki“ vítt og breitt. (Lúk. 4:43) Það síðasta sem hann sagði við lærisveina sína áður en hann sneri til himna var að þeir ættu að vera vottar hans „allt til endimarka jarðarinnar“. (Post. 1:6-8) Fagnaðarerindið er boðað nú á dögum þannig að fólk hefur tækifæri til að fræðast um lausnarfórnina og verða þegnar Guðsríkis. Við getum sýnt að við styðjum ríki Guðs með því að aðstoða bræður Krists á jörð við að boða fagnaðarerindið um allan heim. – Matt. 24:14; 25:40.

„VERÐI ÞINN VILJI“

9. Hvernig getum við verið viss um að Jehóva láti fyrirætlun sína með mannkynið ná fram að ganga?

9 Hvað átti Jesús við þegar hann sagði: „Verði þinn vilji“? Jehóva er skaparinn. Þegar hann segir að eitthvað skuli gerast er öruggt að það gerist. (Jes. 55:11) Hann lætur uppreisn Satans ekki stöðva sig. Í upphafi var það ætlun Guðs að jörðin yrði byggð fullkomnum börnum Adams og Evu. (1. Mós. 1:28) Ef Adam og Eva hefðu dáið barnlaus hefði sú fyrirætlun hans að fylla jörðina afkomendum þeirra runnið út í sandinn. Jehóva leyfði þeim því að eignast börn eftir að þau syndguðu. Lausnarfórnin veitir öllum sem trúa tækifæri til að verða fullkomnir og lifa að eilífu. Jehóva elskar mennina og vill að þeir eigi dásamlegt líf á jörðinni.

10. Hvað gerir lausnarfórnin fyrir þá sem eru dánir?

10 En hvað um alla þá milljarða manna sem dóu án þess að fá tækifæri til að kynnast Jehóva og þjóna honum? Vegna lausnarfórnarinnar reisir kærleiksríkur faðir okkar þá upp og gefur þeim tækifæri til að kynnast vilja sínum og lifa að eilífu. (Post. 24:15) Jehóva vill ekki að fólk deyi heldur lifi. Hann er uppspretta lífsins og verður því faðir allra sem rísa upp. (Sálm. 36:10) Það var vel við hæfi að Jesús skyldi segja: „Faðir vor, þú sem ert á himnum“. (Matt. 6:9) Jehóva hefur gefið Jesú það mikilvæga hlutverk að reisa upp hina dánu og í paradís verður hann „upprisan og lífið“ eins og hann sagði. – Jóh. 6:40, 44; 11:25.

11. Hver er vilji Guðs með múginn mikla?

11 Örlæti Jehóva nær ekki aðeins til fáeinna útvalinna. Jesús sagði: „Hver sem gerir vilja Guðs, sá er bróðir minn, systir og móðir.“ (Mark. 3:35) Guð vill að fólk af öllum þjóðum, kynkvíslum  og tungum verði tilbiðjendur sínir, en í spádómi er sagt að þessi hópur sé „mikill múgur sem enginn gat tölu á komið“. Allir sem trúa á lausnarfórn Krists og gera vilja Guðs geta fengið að vera meðal þeirra sem hrópa: „Hjálpræðið kemur frá Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.“ – Opinb. 7:9, 10.

12. Hvað ætlast Jehóva fyrir með hlýðið mannkyn samkvæmt faðirvorinu?

12 Fyrirætlun Jehóva með þá menn sem hlýða honum er lýst í faðirvorinu. Við viljum lifa í samræmi við þessa bæn og gera okkar ýtrasta til að helga nafn Jehóva og heiðra hann. (Jes. 8:13) Nafn Jesú merkir „Jehóva er hjálpræði“. Fórnardauði hans gerir okkur kleift að bjargast og hjálpræði okkar heiðrar nafn Jehóva. Ríki Guðs sér til þess að lausnargjaldið verði hlýðnu mannkyni til blessunar. Já, faðirvorið undirstrikar að ekkert geti komið í veg fyrir að Jehóva láti vilja sinn ná fram að ganga. – Sálm. 135:6; Jes. 46:9, 10.

SÝNDU AÐ ÞÚ SÉRT ÞAKKLÁTUR FYRIR LAUSNARFÓRNINA

13. Hvað sýnum við með því að skírast?

13 Við getum sýnt að við séum þakklát fyrir lausnarfórnina með því að trúa á hana, vígjast Jehóva og skírast. Skírnin sýnir að við tilheyrum Jehóva. (Rómv. 14:8) Hún er bæn til hans um góða samvisku. (1. Pét. 3:21) Jehóva verður við þeirri bæn með því að beita lausnarfórninni í okkar þágu. Við treystum fullkomlega að hann veiti okkur allt sem hann hefur lofað. – Rómv. 8:32.

Hvernig sýnum við að við séum þakklát fyrir lausnarfórnina? (Sjá 13. og 14. grein.)

14. Hvers vegna segir Jehóva okkur að elska náungann?

 14 Kærleikur Jehóva stýrir öllu sem hann gerir og hann vill að allir tilbiðjendur sínir líki eftir sér. (1. Jóh. 4:8-11) Við sýnum að við þráum að vera ,börn föður okkar á himnum‘ með því að elska náungann. (Matt. 5:43-48) Boðorðið um að elska náungann er næstæðsta boðorðið. Hið æðsta er að elska Guð. (Matt. 22:37-40) Við sýnum að við elskum aðra með því að hlýða þeim fyrirmælum Jesú að boða fagnaðarerindið um ríki Guðs. Við endurspeglum dýrð hans þegar við sýnum öðrum kærleika. Ef við hlýðum boðinu um að elska hvert annað, einkum trúsystkini okkar, verður kærleikur Guðs „fullkomnaður í okkur“. – 1. Jóh. 4:12, 20.

LAUSNARFÓRNIN HEFUR „ENDURLÍFGUNARTÍMA“ Í FÖR MEÐ SÉR

15. (a) Hvaða blessun hefur lausnarfórnin í för með sér núna? (b) Hvaða blessun bíður okkar í framtíðinni?

15 Jehóva fullvissar okkur um að hann fyrirgefi okkur algerlega ef við trúum á lausnarfórnina. Biblían segir að hann „afmái syndir“ okkar. (Lestu Postulasöguna 3:19-21.) Eins og kom fram fyrr í greininni velur Jehóva fólk af jörðinni til að vera börn sín. Þetta eru hinir andasmurðu. (Rómv. 8:15-17) Og hvað um okkur hin sem tilheyrum öðrum sauðum? Það er eins og Jehóva hafi fyllt út ættleiðingarskjal sem nafn okkar stendur á. Þegar við erum orðin fullkomin og höfum staðist lokaprófið undirritar Jehóva skjalið, ef svo má að orði komast, og ættleiðir okkur sem jarðnesk börn sín. (Rómv. 8:20, 21; Opinb. 20:7-9) Jehóva mun elska dýrmæt börn sín að eilífu. Og lausnargjaldið verður til blessunar um alla framtíð. (Hebr. 9:12) Þessi gjöf fyrnist aldrei. Enginn getur tekið hana frá okkur.

16. Hvernig veitir lausnarfórnin okkur frelsi?

16 Ef við iðrumst synda okkar getur Satan alls ekki komið í veg fyrir að við fáum að tilheyra fjölskyldu Jehóva þegar fram líða stundir. Jesús kom til jarðar og dó „í eitt skipti fyrir öll“. Lausnargjaldið hefur því verið greitt fyrir fullt og allt. (Hebr. 9:24-26) Það gerir að engu fordæminguna sem við fengum í arf frá Adam. Svo er fórn Krists fyrir að þakka að við erum ekki þrælar þessa heims sem er á valdi Satans og óttumst ekki lengur dauðann. – Hebr. 2:14, 15.

17. Hvers virði er kærleikur Jehóva fyrir þig?

17 Loforð Jehóva eru alltaf áreiðanleg. Hann bregst okkur aldrei, ekkert frekar en náttúrulögmálin. Hann breytist ekki. (Mal. 3:6) Jehóva gefur okkur svo miklu meira en lífið. Við njótum líka kærleika hans. „Við þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á okkur, og trúum á hann. Guð er kærleikur.“ (1. Jóh. 4:16) Öll jörðin verður unaðsleg paradís og allir jarðarbúar munu endurspegla kærleika Guðs. Tökum undir með trúföstum andaverum Guðs á himnum sem segja: „Lofgjörðin og dýrðin, viskan og þakkargjörðin, heiðurinn og mátturinn og krafturinn sé Guði vorum um aldir alda. Amen.“ – Opinb. 7:12.