Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva leiðir þjóna sína

Jehóva leiðir þjóna sína

„Drottinn mun stöðugt leiða þig.“ – JES. 58:11.

SÖNGVAR: 152, 22

1, 2. (a) Hvernig eru Vottar Jehóva ólíkir öðrum trúarbrögðum? (b) Hvað skoðum við í þessari grein og þeirri næstu?

„HVER er leiðtogi ykkar?“ Vottar Jehóva fá oft þessa spurningu og það er ekki að undra. Mörg trúarbrögð eru með leiðtoga eða forstöðumann, annaðhvort karl eða konu. Við erum hins vegar stolt yfir því að geta sagt þeim sem spyrja að leiðtogi okkar sé ekki ófullkominn maður. Við fylgjum öllu heldur himneskum leiðtoga okkar, Jesú Kristi, en hann fylgir sjálfur leiðsögn föður síns, Jehóva. – Matt. 23:10.

2 Engu að síður höfum við sýnilegan hóp manna, ,hinn trúa og hyggna þjón,‘ sem fer með forystuna meðal þjóna Guðs nú á dögum. (Matt. 24:45) En hvernig vitum við þá að það er Jehóva sem leiðir okkur fyrir milligöngu sonar síns? Í þessari grein og þeirri næstu skoðum við hvernig Jehóva hefur um þúsundir ára leiðbeint ákveðnum mönnum til að fara með forystuna. Í báðum greinum er bent á þrennt sem sannar að Jehóva hefur leitt þessa menn og að hann hefur verið – og er enn – sannur leiðtogi þjóna sinna. – Jes. 58:11.

ÞEIR FENGU KRAFT HEILAGS ANDA

3. Hvaða kraft fékk Móse til að geta leitt Ísraelsmenn?

3 Fulltrúar Guðs fengu kraft heilags anda. Móse var falið að vera leiðtogi Ísraelsmanna. Hvað hjálpaði honum að sinna þessu ábyrgðarmikla verkefni? Jehóva „lét heilagan anda  sinn í hjarta hans“. (Lestu Jesaja 63:11-14.) Það var því Jehóva sem leiddi þjóð sína með því að veita Móse heilagan anda.

4. Hvernig gátu Ísraelsmenn séð að andi Guðs var með Móse? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

4 Hvernig gátu Ísraelsmenn séð að heilagur andi leiddi Móse þar sem hann er ósýnilegur kraftur? Heilagur andi gerði Móse kleift að vinna kraftaverk og kunngera faraó nafn Guðs. (2. Mós. 7:1-3) Heilagur andi laðaði líka fram fallega eiginleika í fari Móse eins og kærleika, hógværð og þolinmæði en þannig varð hann fær um að leiða Ísraelsþjóðina. Hvílík andstæða við harðneskjulega og eigingjarna leiðtoga annarra þjóða! (2. Mós. 5:2, 6-9) Þetta var skýr sönnun þess að Jehóva hafði útvalið Móse til að vera leiðtogi þjóðarinnar.

5. Hverjum öðrum veitti Jehóva heilagan anda til að leiða þjóð sína?

5 Síðar meir útvaldi Jehóva aðra menn til að leiða þjóð sína og veitti þeim einnig kraft heilags anda. „Jósúa Núnsson var fullur vísdómsanda.“ (5. Mós. 34:9) „Andi Drottins kom yfir Gídeon.“ (Dóm. 6:34) Og „andi Drottins kom yfir Davíð“. (1. Sam. 16:13) Þessir menn reiddu sig allir á anda Guðs og andinn veitti þeim kraft til að vinna afrek sem þeir hefðu ekki getað gert í eigin krafti. (Jós. 11:16, 17; Dóm. 7:7, 22; 1. Sam. 17:37, 50) Fyrir vikið hlaut Jehóva réttilega mikið lof.

6. Hvers vegna vildi Guð að fólk sitt virti leiðtoga Ísraels?

6 Hvernig hefðu Ísraelsmenn átt að bregðast við þessum skýru merkjum um að þessir menn hefðu kraft heilags anda? Þegar fólkið kvartaði yfir því hvernig Móse leiddi þjóðina spurði Jehóva: „Hversu lengi á þessari þjóð að leyfast að fyrirlíta mig?“ (4. Mós. 14:2, 11) Það var Jehóva sem hafði útvalið Móse, Jósúa, Gídeon og Davíð. Hann var leiðtogi þjóðarinnar og þeir voru fulltrúar hans. Þegar fólkið hlýddi þessum mönnum fylgdi það í raun forystu Jehóva.

ENGLAR AÐSTOÐUÐU ÞÁ

7. Hvernig aðstoðuðu englar Móse?

7 Englar aðstoðuðu fulltrúa Guðs. (Lestu Hebreabréfið 1:7, 14.) Jehóva notaði engla til að fela Móse verkefni, búa hann undir þau og leiðbeina honum. Hann sendi Móse „sem höfðingja og lausnara með fulltingi engilsins er honum birtist í þyrnirunnanum“. (Post. 7:35) Hann miðlaði lögmálinu „fyrir umsýslan engla“ en Móse notaði það síðan til að leiðbeina Ísraelsmönnum. (Gal. 3:19, Biblían 1981) Jehóva sagði líka við hann: „Leiddu fólkið þangað sem ég hef sagt þér. Engill minn mun ganga á undan þér.“ (2. Mós. 32:34) Í Biblíunni segir ekki að Ísraelsmenn hafi séð holdgaðan engil vinna þessi verk. En það hvernig Móse leiðbeindi fólkinu sýndi svo ekki varð um villst að hann fékk ofurmannlega hjálp.

8. Hvernig hlutu Jósúa og Hiskía aðstoð engla?

8 Að því kom að Jósúa tók við af Móse. „Hershöfðingi Drottins“ styrkti Jósúa þannig að hann gæti leitt þjóð Guðs í stríð gegn Kanverjum, og Ísraelsmenn fóru með sigur af hólmi. (Jós. 5:13-15; 6:2, 21) Öldum síðar átti Hiskía konungur við ofurefli að etja þegar firnastór her Assýringa hótaði að ráðast inn í Jerúsalem. En á einni nótt „fór engill Drottins út og deyddi hundrað áttatíu og fimm þúsund menn“. – 2. Kon. 19:35.

9. Var ófullkomleiki fulltrúa Guðs afsökun fyrir Ísraelsmenn til að fylgja ekki leiðsögn þeirra? Skýrðu svarið.

 9 Englarnir eru fullkomnir en mennirnir, sem þeir aðstoðuðu, voru það auðvitað ekki. Móse láðist eitt sinn að gefa Jehóva dýrðina. (4. Mós. 20:12) Jósúa leitaði ekki leiðsagnar Guðs áður en hann gerði sáttmála við Gíbeoníta. (Jós. 9:14, 15) Og Hiskía „gerðist hrokafullur“ um stuttan tíma. (2. Kron. 32:25, 26) En þrátt fyrir ófullkomleika þessara manna ætlaðist Jehóva til að Ísraelsmenn fylgdu leiðsögn þeirra. Hann studdi þessa menn með ofurmannlegum sendiboðum sínum. Já, Jehóva leiddi þjóð sína.

ÞEIR LÉTU ORÐ GUÐS LEIÐBEINA SÉR

10. Hvernig leiðbeindu lög Guðs Móse?

10 Orð Guðs leiðbeindi fulltrúum hans. Lögin, sem Ísraelsmenn fengu, eru í Biblíunni kölluð ,lögmál Móse‘. (1. Kon. 2:3) Hún bendir samt á að það hafi verið Jehóva sem setti lögin og Móse þurfti sjálfur að lúta þeim. (2. Kron. 34:14) Jehóva gaf honum til dæmis leiðbeiningar um hvernig hann ætti að reisa tjaldbúðina og hann „gerði í öllu nákvæmlega eins og Drottinn bauð honum“. – 2. Mós. 40:1-16.

11, 12. (a) Hvers var krafist af Jósúa og konungunum sem ríktu yfir þjóð Guðs? (b) Hvaða áhrif hafði orð Guðs á leiðtoga þjóðar hans?

11 Jósúa hafði undir höndum eintak af orði Guðs allt frá því að hann varð leiðtogi þjóðarinnar. Honum var sagt: „Þú skalt hugleiða efni [lögbókarinnar] dag og nótt svo að þú getir gætt þess að fylgja nákvæmlega því sem þar er skráð.“ (Jós. 1:8) Konungarnir, sem síðar ríktu yfir þjóð Guðs, voru með svipaðar venjur. Þeir áttu að lesa daglega í lögmálinu, gera sér afrit af því, ,halda öll fyrirmæli og ákvæði þess og breyta eftir þeim‘. – Lestu 5. Mósebók 17:18-20.

12 Hvaða áhrif hafði orð Guðs á þá sem fóru með forystuna? Tökum Jósía konung sem dæmi. Þegar handrit af lögmáli Móse fannst las ritari Jósía fyrir hann úr því. * Hvernig brást konungurinn við? „Konungur reif klæði sín þegar hann heyrði það sem stóð í lögbókinni.“ En hann lét ekki þar við sitja. Hann lét orð Guðs leiðbeina sér og fór í herferð gegn skurðgoðadýrkun. Hann skipulagði einnig mestu páskahátíð sem haldin hafði verið. (2. Kon. 22:11; 23:1-23) Þar sem Jósía og aðrir trúfastir leiðtogar fóru eftir orði Guðs voru þeir fúsir til að laga leiðbeiningar sínar að því og skýra þær fyrir þjóðinni. Þessar breytingar hjálpuðu þjónum Guðs til forna að lifa í samræmi við vilja hans.

13. Hver var munurinn á leiðtogum þjóðar Guðs og leiðtogum heiðinna þjóða?

13 Þessir konungar voru með öllu ólíkir leiðtogum annarra þjóða, leiðtogum sem höfðu visku manna og skammsýn áform að leiðarljósi. Leiðtogar Kanverja og þegnar þeirra stunduðu viðbjóðsleg athæfi eins og sifjaspell, kynmök við fólk af sama kyni eða við dýr, barnafórnir og skurðgoðadýrkun af verstu gerð. (3. Mós. 18:6, 21-25) Leiðtogar Babýlonar og Egyptalands fylgdu ekki þeim skynsamlegu reglum sem Guð setti Ísraelsmönnum um hreinlæti. (4. Mós. 19:13) Þjónar Guðs til forna sáu hins vegar hvernig trúfastir leiðtogar þeirra stuðluðu að andlegu, siðferðilegu og  líkamlegu hreinlæti. Það var greinilega Jehóva sem leiddi þá.

14. Hvers vegna agaði Jehóva suma leiðtoga þjóðar sinnar?

14 Konungarnir, sem ríktu yfir þjóð Guðs til forna, fylgdu þó ekki allir leiðsögn Guðs. Þeir sem óhlýðnuðust honum þáðu ekki leiðsögn heilags anda hans, engla né orðs hans. Í sumum tilfellum agaði Jehóva þá eða fól öðrum forystuna. (1. Sam. 13:13, 14) Þegar fram liðu stundir útvaldi hann leiðtoga sem yrði æðri öllum mönnum sem hann hafði notað fram að því.

JEHÓVA SKIPAR FULLKOMINN LEIÐTOGA

15. (a) Hvernig gáfu spámennirnir til kynna að von væri á einstökum leiðtoga? (b) Hver var þessi leiðtogi sem spáð var fyrir um?

15 Um aldaraðir spáði Jehóva að hann myndi skipa þjónum sínum leiðtoga sem yrði sérstaklega vel til þess fallinn. „Spámann slíkan sem ég er mun Drottinn, Guð þinn, láta fram koma úr hópi ættbræðra þinna,“ sagði Móse Ísraelsmönnum. „Á hann skuluð þið hlýða.“ (5. Mós. 18:15) Jesaja sagði fyrir að hann yrði ,höfðingi og stjórnandi‘. (Jes. 55:4) Daníel var líka innblásið að skrifa um ,hinn smurða höfðingja‘ sem koma skyldi. (Dan. 9:25, Biblían 1981) Að lokum lét Jesús Kristur í ljós að hann væri þessi „leiðtogi“ þjóna Guðs. (Lestu Matteus 23:10.) Lærisveinar Jesú fylgdu honum fúslega og staðfestu að hann var sá sem Jehóva hafði útvalið. (Jóh. 6:68, 69) Hvað sannfærði þá um að Jesús Kristur væri sá sem Jehóva notaði til að leiða þjóna sína?

16. Hvað sannar að Jesús hafi fengið kraft heilags anda?

16 Jesús fékk kraft heilags anda. Við skírn Jesú sá Jóhannes skírari ,himnana ljúkast upp og andann stíga niður yfir hann‘. Eftir það „knúði andinn [Jesú] út í óbyggðina“. (Mark. 1:10-12) Á allri þjónustutíð sinni hér á jörð gat Jesús síðan unnið kraftaverk og kennt í krafti heilags anda. (Post. 10:38) Þar að auki hjálpaði andinn Jesú að sýna eiginleika eins og kærleika, gleði og bjargfasta trú. (Jóh. 15:9; Hebr. 12:2) Enginn annar leiðtogi sýndi með eins skýrum hætti að hann hefði anda Guðs. Jehóva hafði greinilega útvalið Jesú.

Hvernig aðstoðuðu englar Jesú stuttu eftir skírn hans? (Sjá 17. grein.)

17. Hvað gerðu englar til að hjálpa Jesú?

17 Englar aðstoðuðu Jesú. Stuttu eftir skírn Jesú ,komu englar og þjónuðu honum‘. (Matt. 4:11) Nóttina áður en hann var tekinn af lífi „birtist honum engill af himni sem styrkti hann“. (Lúk. 22:39-43) Jesús var viss um að Jehóva myndi senda engla til að hjálpa honum að gera vilja hans hvenær sem hann þurfti á því að halda. – Matt. 26:53.

18, 19. Hvernig lét Jesús orð Guðs leiðbeina sér í lífinu og þegar hann kenndi öðrum?

 18 Orð Guðs leiðbeindi Jesú. Jesús lét ritningarnar leiðbeina sér allt frá upphafi þjónustu sinnar. (Matt. 4:4) Hann hlýddi reyndar orði Guðs svo staðfastlega að hann var fús til að deyja á kvalastaur. Hann vitnaði jafnvel í Messíasarspádóma með síðustu orðum sínum áður en hann dó. (Matt. 27:46; Lúk. 23:46) Trúarleiðtogar þess tíma virtu hins vegar orð Guðs að vettugi hvenær sem það stangaðist á við erfikenningar þeirra. Jesús vitnaði í orð Jehóva sem spámaðurinn Jesaja hafði boðað og sagði um þessa trúarleiðtoga: „Þessir menn heiðra mig með vörunum en hjarta þeirra er langt frá mér. Til einskis dýrka þeir mig því að þeir kenna það eitt sem menn hafa samið.“ (Matt. 15:7-9) Hefði Jehóva getað valið nokkurn þessara manna til að fara með forystu meðal þjóna sinna?

19 Jesús lét orð Guðs einnig leiðbeina sér þegar hann kenndi öðrum. Þegar upp komu trúarleg ágreiningsmál reiddi hann sig hvorki á eigin visku né reynslu, þótt mikil væri. Hann lét öllu heldur ritningarnar hafa lokaorðið. (Matt. 22:33-40) Jesús hefði getað vakið hrifningu áheyrenda sinna með sögum af lífinu á himnum eða sköpun alheims en í staðinn ,lauk hann upp huga þeirra að þeir skildu ritningarnar‘. (Lúk. 24:32, 45) Jesús hafði unun af orði Guðs og vildi ákafur segja öðrum frá því.

20. (a) Hvernig sýndi Jesús að hann viðurkenndi að Guð væri honum æðri? (b) Hvað var ólíkt með Jesú og Heródesi Agrippu fyrsta?

20 Jesús vakti vissulega undrun áheyrenda sinna með ,hugnæmum orðum‘ en hann gaf samt kennara sínum, Jehóva, alltaf heiðurinn. (Lúk. 4:22) Þegar ríkur maður vildi upphefja Jesú með því að titla hann ,góða meistara‘ svaraði hann hógvær: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn.“ (Mark. 10:17, 18) Það var reginmunur á Jesú og Heródesi Agrippu fyrsta sem varð konungur Júdeu um átta árum eftir dauða Jesú. Á formlegum fundi „klæddist Heródes konungsskrúða“. Mannfjöldinn hyllti hann og hrópaði: „Guðs rödd er þetta en eigi manns.“ Heródes var greinilega ánægður með upphefðina. Hvað gerðist svo? „Jafnskjótt laust engill Drottins hann sökum þess að hann gaf ekki Guði dýrðina. Hann var étinn upp af ormum og dó.“ (Post. 12:21-23) Enginn hlutlaus áhorfandi hefði með nokkru móti getað sagt að Jehóva hefði útvalið Heródes til að vera leiðtogi fólksins. Jesús sannaði hins vegar svo ekki varð um villst að hann var útvalinn af Guði og gaf honum alltaf heiðurinn af því að vera æðsti leiðtogi þjóðar sinnar.

21. Um hvað er rætt í næstu grein?

21 Jesús átti ekki aðeins að vera leiðtogi þjóna Guðs í fáein ár. „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu,“ sagði hann eftir að hafa verið reistur upp frá dauðum. „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Matt. 28:18-20) En hvernig átti Jesús að geta leitt þjóna Guðs á jörð þegar hann var orðinn ósýnileg andavera á himnum? Hverja ætlaði Jehóva að nota til að vinna undir stjórn Krists og fara með forystuna meðal þjóna sinna? Og hvernig gætu kristnir menn borið kennsl á fulltrúa hans? Þessar spurningar verða til umfjöllunar í næstu grein.

^ gr. 12 Þetta kann að hafa verið frumritið sem Móse skrifaði.