Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Brautryðjendurnir George Rollston og Arthur Willis stoppa til að fylla á vatnskassann í bílnum sínum. – Norðursvæðið, 1933.

 ÚR SÖGUSAFNINU

„Enginn vegur er of erfiður eða of langur“

„Enginn vegur er of erfiður eða of langur“

TVEIR lúnir ferðalangar silast á grútskítugum jeppa sínum inn í Sydney í Ástralíu. Það er 26. mars árið 1937. Þeir fóru úr borginni fyrir ári og eiga nú að baki meira en 19.000 kílómetra ferðalag gegnum sum afskekktustu og torfærustu svæði heimsálfunnar. Þessir menn eru ekki landkönnuðir eða ævintýramenn. Arthur Willis og Bill Newlands eru aðeins tveir af mörgum kappsömum brautryðjendum sem eru staðráðnir í að flytja fagnaðarerindið um ríki Guðs um víðáttumiklar auðnir Ástralíu.

Allt fram undir 1930 höfðu hinir fámennu Biblíunemendur * í Ástralíu boðað trúna að mestu leyti í borgum og bæjum við sjávarströndina. Innar í landinu er strjálbýl auðn, þurrt svæði af svipaðri stærð og hálf Evrópa. En Biblíunemendurnir vissu vel að fylgjendur Jesú áttu að vitna um hann „allt til endimarka jarðarinnar“, þar á meðal á afskekktum svæðum Ástralíu. (Post. 1:8) Hvernig gátu þeir gert þessu gríðarstóra verkefni skil? Þeir treystu algerlega að Jehóva myndi blessa viðleitni þeirra og voru staðráðnir í að gera sitt besta.

BRAUTRYÐJENDUR RYÐJA VEGINN

Söfnuðir í Queensland og Vestur-Ástralíu útbjuggu nokkra sendiferðabíla árið 1929 til að geta komist yfir svæðið innar í landinu. Þeir sem ferðuðust með bílunum voru harðgerir brautryðjendur sem gátu tekist á við erfið skilyrði og gert við bílana þegar þeir biluðu. Þessir brautryðjendur fóru á marga staði þar sem fagnaðarerindið hafði aldrei áður verið boðað.

Brautryðjendur, sem höfðu ekki efni á bíl, héldu út í auðnina á reiðhjólum. Árið 1932 lagði hinn 23 ára Bennett Brickell af stað frá Rockhampton í Queensland í fimm mánaða boðunarferð um norðurhluta ríkisins sem er afar strjálbýll. Reiðhjólið hans var þunghlaðið. Á því voru teppi, föt, matur og fjöldinn allur af bókum. Hann lét ekki deigan síga þegar dekkin á hjólinu voru orðin gatslitin heldur var hann fullviss um að Jehóva myndi leiðbeina honum. Bróðir Brickell leiddi hjólið síðustu 320 kílómetrana um svæði þar sem menn hafa dáið úr þorsta.  Næstu 30 árin ferðaðist hann hundruð þúsunda kílómetra um Ástralíu á hjóli, mótorhjóli og bíl. Hann ruddi brautina fyrir boðuninni meðal frumbyggja landsins og hjálpaði til við að mynda söfnuði. Hann varð vel þekktur og virtur um allt svæðið.

SIGRAST Á HINDRUNUM

Ástralía er eitt strjálbýlasta land í heiminum en óbyggðirnar eru sérstaklega strjálbýlar. Þjónar Jehóva hafa því þurft að sýna mikla einbeitni til að finna fólk á afskekktum svæðum álfunnar.

Brautryðjendurnir Stuart Keltie og William Torrington sýndu þess konar einbeitni. Árið 1933 fóru þeir yfir Simpson-eyðimörk, víðáttumikla sandöldueyðimörk, til að boða trúna í bænum Alice Springs um miðbik landsins. Litli bíllinn þeirra bilaði á leiðinni og þeir urðu að yfirgefa hann. Bróðir Keltie var með tréfót en hann hélt samt boðunarferðinni áfram, nú á baki úlfalda! Erfiði brautryðjendanna bar árangur þegar þeir hittu hótelstjóra á afskekktri lestarbiðstöð í William Creek. Hótelstjórinn, Charles Bernhardt, tók síðar við sannleikanum, seldi hótelið og starfaði einn síns liðs sem brautryðjandi í 15 ár á sumum þurrustu og einangruðustu svæðum Ástralíu.

Arthur Willis gerir sig kláran til að halda í boðunarferð um víðáttumiklar óbyggðir Ástralíu. – Perth í Vestur-Ástralíu, 1936.

Brautryðjendurnir á þessum tíma þurftu sannarlega hugrekki og seiglu til að sigrast á þeim mörgu hindrunum sem urðu á vegi þeirra. Eitt sinn í boðunarferð sinni um óbyggðir Ástralíu þurftu Arthur Willis og Bill Newlands, sem minnst var á í byrjun greinar, að erfiða í tvær vikur við að komast 32 kílómetra leið þar sem miklar rigningar höfðu breytt eyðimörkinni í eitt stórt drullusvað. Þeir fóru um grýtta dali og yfir sendna árfarvegi og stundum bogaði af þeim svitinn þegar þeir strituðu við að ýta jeppanum sínum yfir risavaxnar sandöldur í stingandi hitanum. Jeppinn bilaði oft, og þegar það gerðist gengu þeir eða hjóluðu dögum saman til næsta bæjar og biðu síðan vikum saman eftir að fá senda varahluti. En þrátt fyrir slíkar raunir voru þeir alltaf jákvæðir. Arthur Willis vitnaði seinna óbeint í orð sem birtust í tímaritinu The Golden Age og sagði: „Enginn vegur er of erfiður eða of langur fyrir votta Jehóva.“

Gamalreyndur brautryðjandi að nafni Charles Harris sagði að einangrunin og líkamlega erfiðið í óbyggðunum hefði styrkt samband hans við Jehóva. Hann bætti við: „Það er best að fara í gegnum lífið með eins lítið á bakinu og hægt er. Fyrst Jesús var fús til að sofa undir berum himni þegar þess var þörf ættum við sömuleiðis að gera það með glöðu geði ef verkefni okkar útheimtir það.“ Og það gerðu margir brautryðjendur. Þökk sé linnulausu starfi þeirra barst fagnaðarerindið allt til ystu hjara heimsálfunnar og ótal margir tóku afstöðu með ríki Guðs.

^ gr. 4 Biblíunemendurnir tóku upp nafnið Vottar Jehóva árið 1931. – Jes. 43:10.