Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Í Biblíunni segir að það þurfi að minnsta kosti tvö vitni til að staðfesta mál. (4. Mós. 35:30; 5. Mós. 17:6; 19:15; Matt. 18:16; 1. Tím. 5:19) En samkvæmt lögmálinu var maður sekur um hjúskaparbrot ef hann nauðgaði trúlofaðri stúlku „úti á víðavangi“ og hún hafði öskrað. Hún var hins vegar saklaus. Hvers vegna var hún saklaus en ekki hann ef enginn varð vitni að nauðguninni?

Frásagan í 5. Mósebók 22:25–27 snýst ekki aðallega um að sanna sekt mannsins því að það var vitað mál að hann væri sekur. Þessi lög lögðu áherslu á að staðfesta sakleysi konunnar. Skoðum samhengið.

Í versunum á undan er talað um mann sem hefur mök við trúlofaða konu „í borginni“. Maðurinn gerist sekur um framhjáhald þar sem trúlofuð kona var álitin gift. Hvað um konuna? „Hún hrópaði ekki á hjálp í borginni.“ Hefði hún gert það hefðu aðrir heyrt í henni og komið henni til varnar. En hún hrópaði ekki. Hún hélt líka fram hjá og því voru þau bæði dæmd sek. – 5. Mós. 22:23, 24.

Í lögmálinu voru síðan dregnar upp aðrar aðstæður: „Ef maðurinn hittir föstnuðu stúlkuna úti á víðavangi, tekur hana með valdi og leggst með henni skal maðurinn, sem lagðist með henni, einn deyja. Þú skalt ekki gera stúlkunni neitt, hún hefur ekkert gert sem varðar dauðasök. Þetta mál er áþekkt því að maður ráðist á annan og myrði hann. Þar sem hann hitti stúlkuna úti á víðavangi kann fastnaða stúlkan að hafa hrópað á hjálp en enginn verið þar til að hjálpa henni.“ – 5. Mós. 22:25–27.

Hér er konunni leyft að njóta vafans. Að hvaða leyti? Gert var ráð fyrir að hún hefði „hrópað á hjálp en enginn verið þar til að hjálpa henni“. Hún var þess vegna ekki að fremja hjúskaparbrot. Maðurinn var hins vegar sekur um nauðgun og hjúskaparbrot vegna þess að hann ,tók hana með valdi og lagðist með henni‘, trúlofaðri konunni.

En þótt þessi lög hafi beint athyglinni að sakleysi konunnar sýnir frásagan réttilega fram á að maðurinn væri sekur um nauðgun og hjúskaparbrot. Við getum verið viss um að dómararnir hafi rannsakað málið gaumgæfilega og tekið ákvörðun í samræmi við skýrar og margendurteknar meginreglur Guðs. – 5. Mós. 13:15; 17:4; 2. Mós. 20:14.