Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 NÁMSGREIN 50

Jehóva býður þér frelsi

Jehóva býður þér frelsi

,Þið skuluð ... boða lausn í landinu fyrir alla íbúa þess.‘ – 3. MÓS. 25:10.

SÖNGUR 22 Ríki Guðs er stofnsett – komi það!

YFIRLIT *

1, 2. (a) Hvað er fagnaðarár? (Sjá rammann „ Hvað var fagnaðarárið?“) (b) Hvað talar Jesús um í Lúkasi 4:16–18?

Í SUMUM löndum er haldið upp á 50. stjórnarár konungs eða drottningar með sérstökum hátíðahöldum. Árið er gjarnan kallað fagnaðarár valdhafans. Hátíðahöldin geta staðið yfir í einn dag, viku eða jafnvel lengur en þau taka alltaf enda og gleðin sem fylgir þeim gleymist fljótt.

2 Skoðum nú betra fagnaðarár, jafnvel betra en sú árslanga hátíð sem var haldin á 50 ára fresti í Ísrael til forna. Ísraelsmönnum var veitt frelsi á þessu ári. Hvernig snertir það okkur? Fagnaðarár Ísraelsmanna minnir okkur á dásamlega ráðstöfun sem Jehóva hefur gert fyrir okkur. Þessi ráðstöfun veitir okkur frelsi sem varir að eilífu og við getum nú þegar notið góðs af henni. Jesús talaði um þetta dásamlega frelsi. – Lestu Lúkas 4:16–18.

Gleði ríkti í Ísrael þegar þrælar sneru heim til fjölskyldu sinnar og landareignar á fagnaðarárinu. (Sjá 3. grein.) *

3. Hvernig nutu Ísraelsmenn góðs af fagnaðarárinu eins og sjá má af 3. Mósebók 25:8–12?

3 Við eigum auðveldara með að skilja hvað Jesús átti við þegar hann talaði um frelsi ef við kynnum okkur fyrst fagnaðarárið sem Guð setti handa fólki sínu til forna. Jehóva sagði Ísraelsmönnum: „Þannig skuluð þið kunngjöra helgi fimmtugasta ársins og boða lausn í landinu fyrir alla íbúa þess: Þetta skal vera ykkur fagnaðarár. Þá skal hver maður halda heim til jarðeignar sinnar, sérhver skal snúa heim til ættar sinnar.“ (Lestu 3. Mósebók 25:8–12.) Í síðustu grein skoðuðum við hvernig Ísraelsmenn  nutu góðs af vikulega hvíldardeginum. En hvernig nutu þeir góðs af fagnaðarárinu? Segjum að Ísraelsmaður hleypti sér í skuld og neyddist til að selja landareign sína til að greiða skuldina. Þá átti að skila landinu aftur til mannsins á fagnaðarárinu. Hann gat því ,haldið heim til jarðeignar sinnar‘ og arfleifð barna hans glataðist ekki. Einnig gat það gerst að maður var svo skuldugur að hann neyddist til að selja eitt barna sinna – eða sjálfan sig –í þrælkun til að borga skuldina. Á fagnaðarárinu átti þrællinn að „snúa heim til ættar sinnar“. Þar af leiðandi var enginn þræll til frambúðar með enga von um frelsi. En hugulsamt af Jehóva!

4, 5. Hvers vegna ættum við að kynna okkur hvað fagnaðarárið fól í sér?

4 Hver var annar kostur fagnaðarársins? Jehóva sagði: ,Enginn þín á meðal á að vera fátækur því að í landinu, sem Drottinn, Guð þinn, fær þér sem erfðaland og þú tekur til eignar, mun Drottinn blessa þig ríkulega.‘ (5. Mós. 15:4) Þetta er ólíkt því sem á sér stað í heiminum núna þar sem ríkir verða oft ríkari og fátækir fátækari.

5 Sem kristnir menn erum við ekki undir Móselögunum. Við höldum því ekki upp á fagnaðarár eins og Ísraelsmenn til forna þar sem fangar hlutu frelsi, gefnar voru upp skuldir og landareignum skilað aftur. (Rómv. 7:4; 10:4; Ef. 2:15) Samt sem áður er mikilvægt að við kynnum okkur hvað fagnaðarárið fól í sér. Hvers vegna? Vegna þess að við getum notið frelsis sem minnir okkur á þá ráðstöfun sem Jehóva gerði fyrir Ísraelsmenn.

JESÚS BOÐAÐI FRELSI

6. Undan hverju þarf mannkynið frelsun?

6 Við þurfum öll á frelsun að halda því að við erum þrælar syndarinnar – en sú þrælkun er vægðarlaus. Afleiðing syndarinnar er að við eldumst, veikjumst og deyjum. Margir sjá merki þess  þegar þeir líta í spegil eða fara til læknis vegna veikinda. Og við verðum niðurdregin þegar við syndgum. Páll postuli viðurkenndi að hann væri ,fangi undir lögmáli syndarinnar sem bjó í honum‘. Hann bætti við: „Ég er aumkunarverður maður. Hver getur frelsað mig frá líkamanum sem deyr með þessum hætti?“ – Rómv. 7:23, 24.

7. Hverju spáði Jesaja um frelsun?

7 En Guð sá okkur fyrir leið til að öðlast frelsi, eða losna undan synd. Jesús er lykillinn að þessari frelsun. Rúmlega 700 árum áður en Jesús kom til jarðar sagði spámaðurinn Jesaja fyrir um stórfenglega frelsun sem myndi eiga sér stað í framtíðinni. Hún yrði langtum meiri en frelsunin sem Ísraelsmenn hlutu á fagnaðarárinu. Jesaja skrifaði: „Andi Drottins er yfir mér því að Drottinn hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, til að græða þá sem hafa sundurmarin hjörtu, boða föngum lausn.“ (Jes. 61:1) Á hverjum rættist þessi spádómur?

8. Á hverjum rættist spádómur Jesaja um frelsun?

8 Þessi mikilvægi spádómur um frelsun uppfylltist að hluta eftir að Jesús hóf þjónustu sína. Þegar Jesús fór í samkunduhúsið í Nasaret, heimabæ sínum, las hann spádóm Jesaja fyrir Gyðingana sem voru þar saman komnir. Hann heimfærði eftirfarandi orð upp á sjálfan sig: „Andi Jehóva er yfir mér því að hann smurði mig til að flytja fátækum fagnaðarboðskap. Hann sendi mig til að boða að fangar fái frelsi og blindir sjón, að leysa undirokaða úr ánauð og boða þann tíma þegar fólk nýtur velvildar Jehóva.“ (Lúk. 4:16–19) Hvernig uppfyllti Jesús þennan spádóm?

ÞEIR FYRSTU SEM HLUTU FRELSUN

Jesús kunngerir frelsi í samkunduhúsinu í Nasaret. (Sjá 8. og 9. grein.)

9. Hvers konar frelsi vonuðust margir eftir á dögum Jesú?

9 Leiðin til frelsunar sem Jesaja sagði fyrir um og Jesús las um opnaðist fólki á fyrstu öld. Jesús staðfesti það þegar hann sagði: „Í dag hefur ræst þessi ritningarstaður sem þið heyrðuð.“ (Lúk. 4:21) Margir sem hlustuðu á Jesú vonuðust líklega eftir pólitískum breytingum, að verða leystir undan stjórn Rómaveldis. Þeim leið kannski eins og mönnunum tveim sem sögðu: „Við vonuðum  að það væri þessi maður sem myndi frelsa Ísrael.“ (Lúk. 24:13, 21) En við vitum að Jesús hvatti ekki fylgjendur sína til að gera uppreisn gegn þungu oki Rómaveldis. Þvert á móti hvatti hann þá til að gjalda ,keisaranum það sem tilheyrði keisaranum‘. (Matt. 22:21) Hvers konar frelsi var það þá sem Jesús veitti á þeim tíma?

10. Undan hverju frelsaði Jesús fólk?

10 Sonur Guðs kom til að veita fólki frelsun á tvo vegu. Í fyrsta lagi hjálpaði Jesús fólki að öðlast frelsi undan íþyngjandi kenningum trúarleiðtoganna. Í þá daga voru margir Gyðingar í ánauð erfðavenja og falskenninga. (Matt. 5:31–37; 15:1–11) Þeir sem þóttust geta veitt trúarlega leiðsögn voru blindir í vissum skilningi. Þeir voru í andlegu myrkri og fengu ekki fyrirgefningu synda sinna þar sem þeir höfnuðu Messíasi og sannleiksljósinu sem hann færði fólki. (Jóh. 9:1, 14–16, 35–41) Með kennslu sinni og góðu fordæmi sýndi Jesús auðmjúku fólki fram á hvernig það gat hlotið frelsun undan falskenningum. – Mark. 1:22; 2:23–3:5.

11. Hvers konar frelsi veitti Jesús einnig?

11 Í öðru lagi gaf Jesús fólki tækifæri til að öðlast frelsi undan þrælkun erfðasyndarinnar. Hann gaf líf sitt sem lausnargjald. Guð getur því fyrirgefið syndir þeirra sem sýna í verki að þeir viðurkenna lausnarfórnina. (Hebr. 10:12–18) Jesús sagði: „Ef sonurinn veitir ykkur frelsi verðið þið frjálsir í raun og veru.“ (Jóh. 8:36) Þetta frelsi var vissulega meira en frelsið sem Ísraelsmenn fengu á fagnaðarárinu. Maður sem fékk frelsi á fagnaðarárinu gat til dæmis aftur orðið þræll. Og fyrr eða síðar myndi hann deyja.

12. Hverjir nutu fyrstir góðs af frelsuninni sem Jesús kunngerði?

12 Á hvítasunnu árið 33 smurði Jehóva postulana og aðra trúfasta menn og konur með heilögum anda. Hann ættleiddi þau sem syni og gaf þeim þar með von um að verða reist upp til himna til að ríkja ásamt Jesú sem konungar. (Rómv. 8:2, 15–17) Þau voru fyrst til að njóta góðs af frelsuninni sem Jesús kunngerði í samkunduhúsinu í Nasaret. Þessir menn og konur voru ekki lengur í ánauð erfðavenja og falskenninga trúarleiðtoganna. Guð áleit þau einnig frjáls  undan syndinni sem leiðir til dauða. Táknræna fagnaðarárið sem hófst árið 33 þegar fylgjendur Krists voru smurðir heilögum anda endar við lok þúsundáraríkisins. Hverju hefur þá verið áorkað?

MILLJÓNIR ANNARRA HLJÓTA FRELSUN

13, 14. Hverjir geta hlotið frelsið sem Jesús kunngerði, auk þeirra sem eru andasmurðir?

13 Nú á dögum eru milljónir einlægra manna af öllum þjóðum í hópi ,annarra sauða‘. (Jóh. 10:16) Guð hefur ekki valið þá til að ríkja með Jesú á himni. Í Biblíunni segir að þeir hafi von um að lifa að eilífu á jörðinni. Átt þú þá von?

14 Að sumu leyti geturðu nú þegar notið sömu blessunar og hinir andasmurðu. Þú getur beðið um fyrirgefningu synda þinna á grundvelli trúar þinnar á lausnarfórn Jesú. Þannig geturðu haft velþóknun Guðs og góða samvisku. (Ef. 1:7; Opinb. 7:14, 15) Hugsaðu þér líka þá blessun að vera laus við falskenningar. Jesús sagði: „Þið munuð þekkja sannleikann og sannleikurinn veitir ykkur frelsi.“ (Jóh. 8:32) Það er dásamlegt frelsi!

15. Hvaða frelsis og blessunar megum við vænta í framtíðinni?

15 Þú getur vænst enn betra frelsis í framtíðinni. Bráðlega eyðir Jesús falstrúarbrögðunum  og spilltum stjórnum manna. Guð verndar „mikinn múg“ sem þjónar honum og hann nýtur síðan blessunar Guðs í paradís á jörð. (Opinb. 7:9, 14) Ótal margir verða reistir upp til lífs á ný og fá tækifæri til að losna undan öllum áhrifum syndar Adams. – Post. 24:15.

16. Hvaða stórfenglegu frelsun á mannkynið í vændum?

16 Í þúsundáraríkinu hjálpa Jesús og meðstjórnendur hans mannkyninu að ná fullkominni heilsu og eignast fullkomið samband við Guð. Þessi tími endurreisnar og frelsis verður eins og fagnaðarárið í Ísrael. Þá verða allir sem þjóna Jehóva trúfastlega orðnir fullkomnir og lausir við synd.

Í nýja heiminum munum við njóta þess bæði að vinna gagnleg og ánægjuleg verk. (Sjá grein 17.)

17. Hverju er spáð um þjóna Guðs í Jesaja 65:21–23? (Sjá mynd á forsíðu.)

17 Í Jesaja 65:21–23 má finna spádómlega lýsingu á lífinu á jörð. (Lestu.) Þar verður ekki setið auðum höndum. Biblían gefur til kynna að þjónar Guðs muni á þeim tíma vinna gagnleg og ánægjuleg störf. Við megum vera viss um að undir lok þúsundáraríkisins mun ,sköpunin sjálf verða leyst úr þrælkun forgengileikans og hljóta dýrlegt frelsi barna Guðs‘. – Rómv. 8:21.

18. Hvers vegna getum við treyst því að okkar bíður björt framtíð?

18 Jehóva hjálpaði Ísraelsmönnum að hafa jafnvægi milli vinnu og hvíldar. Og eins verður það í þúsundáraríki Krists. Þá verður nægur tími til að rækta sambandið við Guð. Hamingja okkar er háð tilbeiðslunni á Guði og í nýja heiminum höfum við tíma til að sinna henni. Allt trúfast mannkyn verður hamingjusamt undir þúsund ára stjórn Krists vegna þess að þá vinna allir ánægjuleg störf og þjóna Guði.

SÖNGUR 142 Höldum fast í vonina

^ gr. 5 Í Ísrael til forna gerði Jehóva ráðstöfun til að fólk gæti öðlast frelsi. Þjóðin átti að halda fagnaðarár. Við erum ekki undir Móselögunum en fagnaðarárið hefur samt þýðingu fyrir okkur. Í þessari grein skoðum við hvernig fagnaðarárið til forna minnir okkur á ráðstöfun sem Jehóva hefur gert fyrir okkur og hvernig við getum notið góðs af henni.

^ gr. 61 MYND: Á fagnaðarárinu fengu þrælar frelsi og gátu snúið aftur til fjölskyldu sinnar og landareignar.