Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Unglingar, skaparinn vill að þið njótið hamingju

Unglingar, skaparinn vill að þið njótið hamingju

„Hann mettar þig gæðum.“ – SÁLM. 103:5.

SÖNGVAR: 135, 39

1, 2. Hvers vegna er skynsamlegt að hlusta á skaparann þegar við setjum okkur markmið? (Sjá myndir í upphafi greinar.)

EF ÞÚ ert unglingur hafa eflaust margir gefið þér ráð varðandi framtíðina. Kennarar, námsráðgjafar og aðrir hafa kannski hvatt þig til að afla þér æðri menntunar og reyna að komast í vel launaða vinnu. En Jehóva hvetur þig til að taka aðra stefnu. Hann vill að vísu að þú leggir hart að þér á meðan þú ert í skóla svo að þú getir séð fyrir þér eftir að þú útskrifast. (Kól. 3:23) En þegar þú þarft að meta hvað eigi að hafa forgang í lífinu hvetur hann þig til að fara eftir skynsamlegum meginreglum sem samræmast fyrirætlun hans og vilja með okkur nú á endalokatímanum. – Matt. 24:14.

2 Mundu að Jehóva sér heildarmyndina af því að hann þekkir framtíð þessa heims og veit hve stutt er í endinn. (Jes. 46:10; Matt. 24:3, 36) Þar að auki þekkir hann okkur. Hann veit hvað gefur okkur sanna lífsfyllingu og gerir okkur hamingjusöm og einnig hvað veldur okkur vonbrigðum og óhamingju. Það skiptir því ekki máli hversu skynsamlegar  ráðleggingar manna kunna að virðast. Ef þær byggjast ekki á orði Guðs er ekkert vit í þeim. – Orðskv. 19:21.

,ENGIN VISKA ER TIL GEGN DROTTNI‘

3, 4. Hvaða afleiðingar hafði það fyrir Adam og Evu, og afkomendur þeirra, að þau fylgdu slæmu ráði?

3 Slæm ráð hafa verið til allt frá því snemma í mannkynssögunni þegar Satan kom til sögunnar. Hann varð hrokafullur og tók upp hjá sjálfum sér að gerast ráðgjafi. Hann sagði Evu að þau hjónin yrðu hamingjusamari ef þau færu sínar eigin leiðir í lífinu. (1. Mós. 3:1-6) En hvatir Satans voru eigingjarnar. Hann vildi að Adam og Eva – ásamt væntanlegum afkomendum þeirra – myndu lúta honum og tilbiðja hann frekar en að tilbiðja Jehóva. En hvað hafði Satan gert fyrir þau? Það var Jehóva sem gaf þeim allt sem þau áttu – hvort annað, fallega garðinn sem þau bjuggu í, fullkominn líkama og möguleika á eilífu lífi.

4 Því miður óhlýðnuðust Adam og Eva Guði og slitu sig þannig frá honum. Eins og við vitum voru afleiðingarnar hörmulegar. Líkt og blóm visna þegar þau eru slitin upp byrjuðu Adam og Eva að hrörna og dóu að lokum. Afkomendur þeirra fundu einnig fyrir afleiðingum syndarinnar. (Rómv. 5:12) En flestir velja samt sem áður að lúta ekki yfirráðum Guðs. Þeir vilja fara sínar eigin leiðir í lífinu. (Ef. 2:1-3) Afleiðingarnar sýna greinilega að það er „engin viska ... til gegn Drottni“. – Orðskv. 21:30.

5. Hvaða traust bar Guð til manna og var þetta traust á rökum reist?

5 En Jehóva vissi að einhverjir myndu leita hans og þjóna honum, þar af margir unglingar. (Sálm. 103:17, 18; 110:3) Honum þykir innilega vænt um þá. Ert þú einn af þeim? Ef svo er nýturðu eflaust margra ,gæða‘ frá Guði sem veita þér mikla gleði. (Lestu Sálm 103:5; Orðskv. 10:22) Skoðum núna hvernig þessi ,gæði‘ fela meðal annars í sér meira en nóg af andlegri fæðu, bestu vini sem hugsast getur, verðug markmið og raunverulegt frelsi.

JEHÓVA SÉR FYRIR ANDLEGRI ÞÖRF ÞINNI

6. Hvers vegna ættirðu að sinna andlegu þörfinni og hvernig sér Jehóva fyrir henni?

6 Ólíkt dýrum hefurðu andlega þörf sem aðeins skaparinn getur fullnægt. (Matt. 4:4) Þegar þú hlustar á hann með þakklæti hlýturðu visku, skilning og hamingju. „Sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það,“ sagði Jesús. (Lúk. 11:28) Guð sér fyrir andlegri þörf þinni með orði sínu og andlegu fæðunni sem hann gefur fyrir milligöngu ,trúa og hyggna þjónsins‘. (Matt. 24:45) Og þessi fæða er bæði fjölbreytt og nærandi. – Jes. 65:13, 14.

7. Hvernig er það okkur til góðs að taka við andlegu fæðunni sem Guð sér okkur fyrir?

7 Andlega fæðan, sem Guð sér fyrir, veitir þér visku og aðgætni og það getur verndað þig á margan hátt. (Lestu Orðskviðina 2:10-14.) Þessir eiginleikar geta til dæmis hjálpað þér að koma auga á falskenningar eins og þá að ekki sé til skapari. Þeir vernda þig gegn þeirri lygi að peningar og eignir séu lykillinn að hamingju. Og þeir hjálpa þér að koma auga á og hafna röngum löngunum og skaðlegri hegðun. Haltu því áfram að tileinka þér visku og aðgætni og mettu þessa eiginleika mikils. Þegar þú gerir það kemstu  að raun um að Jehóva elskar þig og vill þér allt það besta. – Sálm. 34:9; Jes. 48:17, 18.

8. Hvers vegna ættirðu að nálægja þig Guði núna og hvernig mun það gagnast þér?

8 Bráðlega hrynur heimur Satans og þá verður eina öryggið að finna hjá Jehóva. Við gætum jafnvel þurft að reiða okkur á að hann sjái okkur fyrir næstu máltíð. (Hab. 3:2, 12-19) Nú er rétti tíminn til að nálægja sig himneskum föður okkar og læra að reiða okkur á hann. (2. Pét. 2:9) Ef þú gerir það verður þú, eins og sálmaritarinn Davíð, öruggur um að Jehóva verndi þig sama hvað gerist í kringum þig. Davíð skrifaði: „Ég hef Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar hnýt ég ekki.“ – Sálm. 16:8.

JEHÓVA GEFUR ÞÉR BESTU VINI SEM HUGSAST GETUR

9. (a) Hvað gerir Jehóva samkvæmt Jóhannesi 6:44? (b) Hvað er einstakt við að hitta aðra votta?

9 Jehóva dregur þá til sín sem hann leyfir að tilheyra andlegri fjölskyldu sinni. Hann laðar hjartahreina einstaklinga blíðlega að sannri tilbeiðslu. (Lestu Jóhannes 6:44.) Þegar þú hittir einhvern í fyrsta sinn sem er ekki í sannleikanum veistu sennilega ekki mikið um hann annað en hvað hann heitir og hvernig hann lítur út. Það er öðruvísi þegar þú hittir einhvern sem þekkir og elskar Jehóva. Óháð uppruna, þjóðerni, kynþætti eða menningu veistu heilmikið um hann nú þegar – og hann um þig.

Jehóva vill að við eigum bestu vini sem hugsast getur og að við setjum okkur andleg markmið. (Sjá 9.-12. grein.)

10, 11. Hvað eiga þjónar Jehóva sameiginlegt og hvernig gagnast það okkur?

10 Þið kannist til dæmis fljótlega við „tungumál“ hvor annars – hið ,hreina tungumál‘ sannleikans. (Sef. 3:9, NW) Þið þekkið þar af leiðandi skoðun hins á Guði, siðferðisreglum og voninni um framtíðina svo eitthvað sé nefnt. Þetta er það mikilvægasta sem maður ætti að vita um aðra. Það styrkir traustið ykkar á milli og er grunnurinn að heilnæmri og varanlegri vináttu.

11 Það eru alls engar ýkjur að segja að sem þjónn Jehóva áttu bestu vini sem  hugsast getur. Og þeir búa um allan heim. Þú átt bara eftir að hitta flesta þeirra. Veistu um einhverja aðra en þjóna Jehóva sem njóta þessarar dýrmætu gjafar?

JEHÓVA GEFUR ÞÉR VERÐUG MARKMIÐ

12. Hvaða andlegu markmið geturðu sett þér?

12 Lestu Prédikarann 11:9 – 12:1Ertu að vinna að einu eða fleiri andlegum markmiðum? Kannski ertu að reyna að lesa í Biblíunni daglega. Eða kannski ertu að reyna að verða færari í að flytja ræður eða kenna. Hvernig líður þér þegar þú sérð árangur eða þegar einhver annar tekur eftir því sem þú leggur á þig og hrósar þér? Hvert sem markmiðið er finnst þér þú eflaust hafa áorkað einhverju og ert ánægður með það. Og þú ættir að vera ánægður vegna þess að þú líkir eftir Jesú og setur vilja Guðs framar þínum eigin. – Sálm. 40:9; Orðskv. 27:11.

13. Hvernig er þjónustan við Guð fremri því að sækjast eftir frama í heiminum?

13 Að einbeita sér að þjónustunni við Jehóva er einnig mjög ánægjulegt vegna þess að það er alltaf tilgangur með því. Páll postuli skrifaði: „Verið staðföst, óbifanleg, síauðug í verki Drottins. Þið vitið að Drottinn lætur erfiði ykkar ekki verða til ónýtis.“ (1. Kor. 15:58) Aftur á móti er alltaf tilgangslaust að sækjast eftir frama í heiminum, jafnvel þó að það virðist í fyrstu bera árangur. (Lúk. 9:25) Við getum séð það af reynslu Salómons konungs. – Rómv. 15:4.

14. Hvað má læra af reynslu Salómons?

14 Salómon var ótrúlega ríkur og valdamikill. Hann ákvað að prófa sig áfram og ,reyna gleðina og njóta gæða lífsins‘. (Préd. 2:1-10) Hann byggði hús, hannaði garða og gerði allt sem hann langaði til. Hvernig leið honum eftir það? Var hann sáttur og ánægður? Salómon svarar því sjálfur: „Svo leit ég á öll verk mín, þau sem hendur mínar höfðu unnið ... og þá sá ég að allt var það hégómi og ... enginn ávinningur.“ (Préd. 2:11) Ætlar þú að taka þennan áhrifamikla lærdóm til þín?

15. Hvers vegna er mikilvægt að hafa trú og hvaða gagn er af því samkvæmt Sálmi 32:8?

15 Jehóva vill hlífa þér við sársaukanum af að læra á lífið í hörðum skóla reynslunnar. Þú þarft auðvitað að hafa trú til að hlýða Guði og setja vilja hans í fyrsta sæti. Slík trú er ómetanleg og hún veldur aldrei vonbrigðum. Jehóva gleymir aldrei ,kærleikanum sem þú auðsýnir honum‘. (Hebr. 6:10) Leggðu því hart að þér að byggja upp sterka trú og kynnstu þannig af eigin raun að himneskur faðir þinn vill þér allt það besta. – Lestu Sálm 32:8.

JEHÓVA GEFUR ÞÉR RAUNVERULEGT FRELSI

16. Hvers vegna ættum við að meta frelsi mikils og nota það skynsamlega?

16 „Þar sem andi Drottins er, þar er frelsi,“ sagði Páll. (2. Kor. 3:17) Jehóva er annt um frelsið og hann gerði þig þannig úr garði að þér sé einnig annt um það. En hann vill samt að þú notir frelsi þitt á ábyrgan hátt því að það er þér til verndar. Þú þekkir ef til vill unglinga sem horfa á klám, stunda kynferðislegt siðleysi, taka þátt í áhættuíþróttum, misnota áfengi eða neyta fíkniefna. Þeir finna kannski fyrir spennu og ánægju í einhvern tíma  en oftar en ekki er það dýrkeypt. Því fylgja oft sjúkdómar, fíkn og jafnvel dauði. (Gal. 6:7, 8) Það er greinilegt að „frelsi“ þeirra er grimmileg sjálfsblekking. – Tít. 3:3.

17, 18. (a) Hvernig er hlýðni við Guð frelsandi? (b) Hvernig var frelsið, sem Adam og Eva nutu í byrjun, í samanburði við frelsi manna nú á dögum?

17 En hvað þekkirðu marga sem hafa veikst vegna þess að þeir fylgdu stöðlum Biblíunnar? Hlýðni við Jehóva er greinilega bæði heilnæm og frelsandi. (Sálm. 19:8-12) Og auk þess sýnirðu Jehóva og foreldrum þínum að þér er treystandi fyrir auknu frelsi ef þú notar frelsi þitt skynsamlega – það er að segja innan þeirra marka sem fullkomin lög og meginreglur Guðs setja. Guð ætlar að lokum að gefa trúföstum þjónum sínum fullkomið frelsi. Biblían talar um þetta frelsi sem „frelsið í dýrðinni með börnum Guðs“. – Rómv. 8:21.

18 Adam og Eva fengu að smakka þetta frelsi. Hversu margar hömlur setti Jehóva þeim í Edengarðinum? Aðeins eina. Þau máttu ekki borða ávexti af einu tré. (1. Mós. 2:9, 17) Myndirðu segja að þessi eina skipun hafi verið ströng eða þjakandi? Auðvitað ekki. Hvernig er hún í samanburði við þau óteljandi lög manna sem þeir hafa neytt aðra til að læra og fylgja?

19. Hvernig er okkur kennt að verða frjáls?

19 Jehóva sýnir mikla visku í samskiptum við þjóna sína. Í stað þess að gefa okkur óteljandi lög kennir hann okkur að fylgja lögmáli kærleikans. Hann vill að við lifum eftir meginreglum hans og hötum hið illa. (Rómv. 12:9) Fjallræða Jesú er gott dæmi um þessa kennslu vegna þess að hún tekur á undirrót syndarinnar. (Matt. 5:27, 28) Sem konungur Guðsríkis heldur Jesús áfram að kenna okkur í nýja heiminum svo að viðhorf okkar til réttlætis og ranglætis endurspegli viðhorf hans fullkomlega. (Hebr. 1:9) Hann mun einnig gera okkur fullkomin á huga og líkama. Hugsaðu þér hvernig verður að finna ekki lengur fyrir því að syndin togar í þig og finna ekki heldur fyrir skelfilegum áhrifum hennar. Þá muntu loks njóta ,frelsis í dýrðinni‘ eins og Jehóva hefur lofað.

20. (a) Hvernig notar Jehóva frelsi sitt? (b) Hvernig geturðu líkt eftir honum?

20 Frelsi okkar verður að sjálfsögðu aldrei algert. Það stjórnast af kærleika til Guðs og til manna. Jehóva er í raun bara að biðja okkur um að líkja eftir sér. Hann hefur ótakmarkað frelsi en hefur samt sem áður valið að láta kærleikann ráða ferðinni í samskiptum sínum við mennina. (1. Jóh. 4:7, 8) Það gefur því að skilja að frelsi okkar getur einungis notið sín til fulls þegar við látum kærleikann ráða ferðinni eins og Jehóva gerir.

21. (a) Hvaða tilfinningar bar Davíð til Jehóva? (b) Um hvað er rætt í næstu grein?

21 Kannt þú að meta þau mörgu ,gæði‘ sem Jehóva hefur gefið þér, eins og nóg af andlegri fæðu, góða vini, verðug markmið og vonina um fullkomið frelsi? (Sálm. 103:5) Þá líður þér eflaust eins og Davíð þegar hann sagði: „Kunnan gerðir þú mér veg lífsins, gleðignótt er fyrir augliti þínu, yndi í hægri hendi þinni að eilífu.“ (Sálm. 16:11) Í næstu grein skoðum við fleiri andlega gimsteina úr Sálmi 16. Þeir hjálpa þér að sjá enn betur hvernig þú getur átt besta líf sem völ er á.