Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

,Hyggja andans er líf og friður‘

,Hyggja andans er líf og friður‘

„Þau sem stjórnast af anda Guðs hafa hugann við það sem hann vill.“ – RÓMV. 8:5-7.

SÖNGVAR: 57, 52

1, 2. Hvers vegna á 8. kafli Rómverjabréfsins sérstakt erindi til hinna andasmurðu?

ÞÚ HEFUR kannski lesið Rómverjabréfið 8:15-17 um það leyti sem minningarhátíðin er haldin. Þessi vers útskýra hvernig kristinn maður veit að hann er andasmurður. Þar segir að heilagur andi vitni með anda hans. Í upphafsorðum kaflans er talað um þá sem „eru í Kristi Jesú“. En á 8. kafli Rómverjabréfsins aðeins erindi til hinna andasmurðu? Eða á hann líka erindi til þeirra sem eiga þá von að lifa að eilífu á jörðinni?

2 Áttundi kafli Rómverjabréfsins var skrifaður sérstaklega fyrir hina andasmurðu. Þeir fá ,andann‘ meðan þeir bíða ,þeirrar stöðu Guðs barna sem í vændum er með endurlausn líkama sinna‘. (Rómv. 8:23) Þeir eiga sem sagt í vændum að verða börn Guðs á himnum, það er að segja andasynir hans. Guð hefur fyrirgefið þeim syndir þeirra á grundvelli lausnargjaldsins. Hann hefur lýst þá réttláta þannig að þeir geta verið synir hans. – Rómv. 3:23-26; 4:25; 8:30.

3. Af hverju á 8. kafli Rómverjabréfsins erindi til þeirra sem eiga í vændum eilíft líf á jörð?

3 Rómverjabréfið kafli 8 á líka erindi til þeirra sem eiga í vændum eilíft líf á jörð af því að Guð lítur á þá sem réttláta  í vissum skilningi. Við sjáum merki um það fyrr í Rómverjabréfinu. Í kafla 4 ræðir Páll um Abraham en hann var uppi áður en Ísraelsmenn fengu lögmálið og löngu áður en Jesús dó fyrir syndir okkar. Engu að síður tók Jehóva eftir einstakri trú Abrahams og leit á hann sem réttlátan mann. (Lestu Rómverjabréfið 4:20-22.) Margir þjóna Jehóva trúfastlega núna og eiga í vændum að lifa að eilífu á jörðinni. Jehóva getur einnig talið þá réttláta og þeir geta notið gagns af ráðum Páls í 8. kafla Rómverjabréfsins.

4. Hvaða spurningar ættum við að spyrja okkur þegar við lesum Rómverjabréfið 8:21?

4 Samkvæmt Rómverjabréfinu 8:21 ábyrgist Jehóva að nýi heimurinn komi. Þar segir að „sjálf sköpunin verði leyst úr ánauð sinni undir hverfulleikanum og fái frelsið í dýrðinni með börnum Guðs“. Spurningin er hvort við verðum þar, hvort við hljótum þessi laun. Treystirðu að svo verði? Í Rómverjabréfinu kafla 8 finnum við góð ráð sem hjálpa okkur að gera það sem þarf til að fá að lifa í nýjum heimi Guðs.

„HYGGJA HOLDSINS“

5. Hverju lýsir Páll í Rómverjabréfinu 8:4-13?

5 Lestu Rómverjabréfið 8:4-13. Í Rómverjabréfinu kafla 8 er talað um þá sem ,holdið fær að leiða‘ og þá sem ,andinn fær að leiða‘. Sumir gætu ímyndað sér að hér sé átt við þá sem eru ekki í sannleikanum og hina sem eru það, þá sem þjóna ekki Guði og þá sem gera það. En Páll stílar bréfið á ,alla sem Guð elskar í Róm og kallar til heilags lífs‘. (Rómv. 1:7) Páll var því að bera saman þjóna Guðs sem láta holdið leiða sig og þjóna Guðs sem láta andann leiða sig. Að hvaða leyti voru þeir ólíkir?

6, 7. (a) Hvernig er orðið „hold“ notað í Biblíunni? (b) Hvað á Páll við þegar hann notar orðið „hold“ í Rómverjabréfinu 8:4-13?

6 Við hvað átti Páll þegar hann talaði um „hold“? Í Biblíunni er orðið „hold“ notað á marga vegu. Stundum á það við bókstaflegt hold, það er að segja líkamann. (Rómv. 2:28; 1. Kor. 15:50) Það getur líka merkt skyldleika. Jesús var „að holdinu ... fæddur af kyni Davíðs“. – Rómv. 1:3, Biblían 1981.

 7 Í 7. kafla er að finna vísbendingu um hvað Páll á við þegar hann talar um „hold“ í Rómverjabréfinu 8:4-13. Hann setti ,syndugar ástríður, sem virkuðu í limum fólks‘, í samband við það að ,lifa að holdsins hætti‘. (Rómv. 7:5.) Þetta varpar ljósi á það hvað Páll á við þegar hann talar um fólk sem ,stjórnast af holdinu og hefur hugann við það sem holdið krefst‘. Hann er að tala um ófullkomna menn sem láta langanir sínar og hneigðir stjórna huga sínum og gerðum. Í stórum dráttum eru þetta þeir sem láta ástríður sínar, skyndihvatir og þrár ráða ferðinni, hvort sem þær eru kynferðislegar eða af öðru tagi.

8. Hvers vegna var ástæða til að vara hina andasmurðu við að láta stjórnast af holdinu?

8 En þú spyrð kannski af hverju Páll varaði andasmurða kristna menn við því að láta stjórnast af holdinu. Steðjar sama hætta að kristnum mönnum nú á tímum sem Guð lítur á sem vini sína og eru réttlátir í augum hans? Því miður gæti það hent hvaða þjón Guðs sem er að fara smám saman út á þessa braut. Páll skrifaði til dæmis að sumir bræður í Róm þjónuðu „eigin maga“ eða löngunum. (Rómv. 16:17, 18; Fil. 3:18, 19; Júd. 4, 8, 12) Hann gat hafa átt við að kynlíf, matur eða eitthvað annað væri orðið aðalatriðið í lífi þeirra. Sumir þeirra blekktu „hjörtu hrekklausra manna“. (Rómv. 16:17, 18; Fil. 3:18, 19; Júd. 4, 8, 12) Mundu líka að bróðir í Korintu ,hélt við konu föður síns‘ um tíma. (1. Kor. 5:1) Það er engin furða að Guð skyldi hafa látið Pál skrifa bréf til að vara kristna menn við að láta stjórnast af holdinu. – Rómv. 8:5, 6.

9. Hvað var Páll ekki að tala um í Rómverjabréfinu 8:6?

9 Viðvörun Páls á jafn mikið erindi til okkar núna. Eftir áralanga þjónustu gæti kristinn maður farið að beina huganum að því sem holdið krefst. Var Páll að tala um að við ættum aldrei að hugsa um mat, vinnu, afþreyingu eða ástina? Að sjálfsögðu ekki. Allt er þetta eðlilegur hluti lífsins. Jesús naut góðs matar og hann gaf öðrum að borða. Hann vissi að hvíld og afþreying væri nauðsynleg. Og Páll skrifaði að kynlíf væri eðlilegur þáttur í hjónabandi.

Bera samræður þínar með sér að þú hafir hugann við það sem andinn vill eða það sem holdið krefst? (Sjá 10. og 11. grein.)

10. Hvað merkir orðasambandið „hafa hugann við“ í Rómverjabréfinu 8:5, 6?

 10 Hvað átti Páll við með orðunum ,hafa hugann við það sem holdið krefst‘? Hann notar hér grískt orð sem merkir „að einsetja sér, beita huganum við að skipuleggja, og áherslan er á eðlisfarið eða viðhorfin sem búa að baki“. Þeir sem láta stjórnast af holdinu láta syndugt eðli sitt aðallega ráða ferðinni í lífi sínu. Fræðimaður nokkur segir um þetta orð í Rómverjabréfinu 8:5: „Þeir einbeita sér að því sem snýr að holdinu – hafa mestan áhuga á því, tala stöðugt um það, fást við það og gleðjast yfir því.“

11. Á hverju gætum við fengið einum of mikinn áhuga?

11 Kristnir menn í Róm þurftu að skoða hvað skipti þá mestu máli í lífinu. Gat verið að líf þeirra snerist um eða stjórnaðist af því sem holdið krafðist? Við þurfum líka að líta í eigin barm. Á hverju höfum við mestan áhuga? Hvað tölum við mest um? Hvað finnst okkur skemmtilegast að gera? Sumir komast kannski að raun um að þeir hugsa einum of mikið um að prófa sig áfram með mismunandi tegundir af víni, fegra heimilið, kaupa ný föt, fjárfesta, skipuleggja frí og annað í þeim dúr. Ekkert af þessu er rangt í sjálfu sér og það getur verið eðlilegur hluti lífsins. Jesús breytti einu sinni vatni í vín í brúðkaupsveislu og Páll ráðlagði Tímóteusi að neyta „lítils eins af víni“. (1. Tím. 5:23; Jóh. 2:3-11) En töluðu þeir stöðugt um það? Var þetta einhvers konar ástríða hjá þeim? Nei. Hvað með okkur? Hvert er aðaláhugamál okkar?

12, 13. Hvers vegna er alvarlegt mál að beina huganum að því sem holdið krefst?

12 Sjálfsrannsókn af þessu tagi er mikilvæg. Af hverju? „Hyggja holdsins er dauði,“ skrifaði Páll. (Rómv. 8:6, neðanmáls) Þetta er alvarlegt mál – andlegur dauði núna og bókstaflegur í framtíðinni. En þetta þarf ekki að gerast. Það er hægt að snúa við blaðinu. Mundu eftir siðlausa manninum í Korintu. Hann lét undan holdlegum löngunum með þeim afleiðingum að honum var vikið úr söfnuðinum. Síðan sneri hann við blaðinu. Hann hætti að láta siðlausar langanir ráða ferðinni og komst aftur á rétta braut. – 2. Kor. 2:6-8.

13 Maðurinn í Korintu lifði mjög siðlausu lífi en gat samt breytt sér. Fyrst hann gat það ætti kristinn maður nú á tímum, sem er farinn að beina huganum að því sem holdið krefst, líka að geta breytt sér og snúið við, sérstaklega ef hann er ekki kominn mjög langt af réttri braut. Viðvörun Páls getur verið okkur hvatning til að gera þær breytingar sem þörf er á ef við erum farin að beina huganum að því sem holdið krefst.

„HYGGJA ANDANS“

14, 15. (a) Hver er andstæðan við ,hyggju holdsins‘? (b) Hvað merkir það ekki að hafa hugann við það sem andinn vill?

14 Eftir að Páll varaði við ,hyggju holdsins‘ sagði hann: „Hyggja andans [er] líf og friður.“ Það er ekki lítil umbun að hljóta líf og frið! Hvernig getum við hlotið þessa umbun?

15 Að hafa hugann við það sem andinn vill merkir ekki að vera úr tengslum við veruleikann. Það merkir ekki að  maður hugsi eða tali bara um Biblíuna, Guð og framtíðarvonina. Páll og fleiri kristnir menn á fyrstu öldinni lifðu eðlilegu lífi á flestan hátt. Þeir nutu matar og drykkjar, unnu fyrir sér og margir giftust og eignuðust börn. – Mark. 6:3; 1. Þess. 2:9.

16. Að hverju einbeitti Páll sér?

16 Páll og aðrir frumkristnir menn létu ekki lífið fara að snúast um þessa eðlilegu þætti lífsins. Við vitum að Páll vann fyrir sér sem tjaldgerðarmaður, svo dæmi sé tekið. En líf hans snerist ekki um vinnuna. Þjónustan við Guð skipti hann mestu máli og hann lagði mikla áherslu á að boða trúna og kenna. (Lestu Postulasöguna 18:2-4; 20:20, 21, 34, 35.) Hann hvatti trúsystkini sín í Róm til að láta boðunina og kennsluna ganga fyrir. Já, andlega fæðan og þjónustan við Guð var Páli mikils virði. Kristnir menn í Róm þurftu að líkja eftir honum og við sömuleiðis. – Rómv. 15:15, 16.

17. Hvernig verður lífið ef við einbeitum okkur að ,andanum‘?

17 Hvernig verður líf okkar ef við einbeitum okkur að þjónustunni við Jehóva? Í Rómverjabréfinu 8:6 stendur: „Hyggja andans [er] líf og friður.“ Þessi orð bera með sér að við þurfum að leyfa anda Jehóva að stýra huga okkar og læra að hugsa eins og hann. Ef við látum líf okkar snúast um ,andann‘ lofar Jehóva okkur ánægjulegu og innihaldsríku lífi núna og eilífu lífi í framtíðinni, annaðhvort á himni eða jörð.

18. Hvernig stuðlar hyggja andans að friði?

18 Hvað átti Páll við þegar hann sagði að ,hyggja andans væri friður‘? Margir þrá hugarfrið en finna hann ekki. Við getum hins vegar haft hugarfrið og það er Jehóva að þakka. Þessi friður birtist einnig í því að við reynum að stuðla að friði í fjölskyldunni og í söfnuðinum. Við gerum okkur grein fyrir að við og trúsystkini okkar erum ófullkomin. Þess vegna getur stundum komið upp ósætti og ef það gerist reynum við að fylgja ráðum Jesú en hann hvatti okkur til að ,sættast við bróður okkar‘. (Matt. 5:24) Það er auðveldara að fylgja þessu ráði ef við höfum hugfast að bróðir okkar eða systir þjónar ,Guði friðarins‘ eins og við. – Rómv. 15:33; 16:20.

19. Hvaða einstaka friðar getum við notið?

19 Ef við höfum hugann við það sem andinn vill hefur það líka í för með sér að við eigum frið við Guð. Það er ómetanlegt. Jesaja bendir á að Guð launi þeim sem treysta honum. Hann segir: „Þú [Jehóva] veitir ævarandi frið, því að þeir treysta á þig.“ Þessi orð áttu við á dögum Jesaja en rætast í enn fyllri mæli á okkar dögum. – Jes. 26:3, Biblían 1981; lestu Rómverjabréfið 5:1.

20. Hvers vegna máttu vera þakklátur fyrir ráðin í Rómverjabréfinu 8. kafla?

20 Við getum öll verið þakklát fyrir hin innblásnu ráð í Rómverjabréfinu 8. kafla, hvort sem við erum andasmurð eða eigum í vændum eilíft líf á jörð. Við getum verið afar þakklát fyrir þá hvatningu að láta ekki holdið verða ráðandi afl í lífi okkar. Við skiljum að það er skynsamlegt að hafa hugann við það sem andinn vill því að umbunin er mikil – líf og friður. Og hún er eilíf því að Páll skrifaði: „Laun syndarinnar er dauði en náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum.“ – Rómv. 6:23.