Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva umbunar þeim sem leita hans í einlægni

Jehóva umbunar þeim sem leita hans í einlægni

„Sá sem vill nálgast Guð verður að trúa því að hann sé til og að hann umbuni þeim er leita hans.“ – HEBR. 11:6.

SÖNGVAR: 85, 134

1, 2. (a) Hvernig tengist kærleikur og trú? (b) Um hvaða spurningar er rætt í þessari grein?

VIÐ elskum Jehóva ,því að hann elskaði okkur að fyrra bragði‘. (1. Jóh. 4:19) Kærleikur hans birtist meðal annars í því að hann hefur tekið frumkvæðið að því að blessa trúfasta þjóna sína. Því meira sem við elskum hann því sterkari verður trú okkar, ekki aðeins á að hann sé til heldur líka á að hann umbuni alltaf þeim sem hann elskar. – Lestu Hebreabréfið 11:6.

2 Það að Jehóva skuli umbuna þjónum sínum er veigamikill þáttur í persónuleika hans og því sem hann gerir. „Trúin er fullvissa um það sem menn vona“ þannig að trú okkar væri ábótavant ef við værum ekki sannfærð um að Guð umbuni þeim sem leita hans í einlægni. (Hebr. 11:1) Trú felur sem sagt í sér fullvissu um að Guð eigi eftir standa við loforð sín og blessa okkur. En hvernig njótum við góðs af voninni um að Jehóva umbuni þjónum sínum? Hvernig hefur hann gert það, bæði til forna og nú til dags? Skoðum málið.

 JEHÓVA LOFAR AÐ BLESSA ÞJÓNA SÍNA

3. Hvaða loforð fáum við í Malakí 3:10?

3 Jehóva Guð hefur skuldbundið sig til að umbuna trúföstum þjónum sínum og býður okkur að sækjast eftir blessun sinni. Við lesum: „Reynið mig ... segir Drottinn hersveitanna, og sjáið hvort ég lýk ekki upp flóðgáttum himins og helli yfir ykkur óþrjótandi blessun.“ (Mal. 3:10) Við sýnum að við erum innilega þakklát með því að þiggja þetta rausnarlega boð Jehóva.

4. Hvers vegna getum við treyst loforði Jesú í Matteusi 6:33?

4 Jesús lofaði lærisveinum sínum að Guð myndi styðja þá ef þeir settu ríki hans í fyrsta sæti. (Lestu Matteus 6:33.) Jesús treysti því fullkomlega þar sem hann hafði séð að Jehóva stendur alltaf við loforð sín. (Jes. 55:11) Við getum sömuleiðis verið viss um að ef við treystum Jehóva að öllu leyti efnir hann loforð sitt: „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ (Hebr. 13:5) Þetta loforð hjálpar okkur að treysta því sem Jesús sagði varðandi það að leita fyrst ríkis Guðs og réttlætis.

Jesús lofaði lærisveinum sínum að þeim yrði umbunað fyrir fórnir sínar. (Sjá 5. grein.)

5. Af hverju er svar Jesú við spurningu Péturs trústyrkjandi?

5 Pétur postuli spurði Jesú eitt sinn: „Við yfirgáfum allt og fylgdum þér. Hvað munum við hljóta?“ (Matt. 19:27) Jesús ávítti ekki Pétur fyrir að spyrja þessarar spurningar heldur sagði lærisveinunum að þeim yrði launað fyrir fórnir sínar. Trúfastir postular hans og aðrir eiga eftir að ríkja með honum á himnum. En  þjónar Guðs hljóta líka blessun nú þegar. Jesús sagði: „Hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá allt hundraðfalt aftur og öðlast eilíft líf.“ (Matt. 19:29) Allar fórnir, sem lærisveinar hans kynnu að færa, myndu blikna í samanburði við blessunina sem þeir hlytu. Eru ekki andlegir feður okkar, mæður, bræður, systur og börn langtum verðmætari en nokkuð sem við höfum fórnað eða sagt skilið við fyrir ríki Guðs?

„AKKERI FYRIR SÁLINA“

6. Hvers vegna lofar Jehóva tilbiðjendum sínum umbun?

6 Með því að lofa tilbiðjendum sínum umbun hjálpar Jehóva þeim að standast þegar reynir á hollustu þeirra. Trúfastir þjónar hans njóta ríkulegrar blessunar nú þegar en þeir hlakka líka til að hann blessi þá í enn ríkari mæli í framtíðinni. (1. Tím. 4:8) Ef við erum fullviss um að Jehóva „umbuni þeim er leita hans“ hjálpar það okkur að vera staðföst í trúnni. – Hebr. 11:6.

7. Hvernig er vonin eins og akkeri?

7 Jesús sagði í fjallræðunni: „Gleðjist og fagnið því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina sem voru á undan yður.“ (Matt. 5:12) Sumir þjóna Guðs hafa von um að fara til himna en vonin um eilíft líf í paradís á jörð er líka góð ástæða til að ,gleðjast og fagna‘. (Sálm. 37:11; Lúk. 18:30) Hvort sem við höfum himneska von eða jarðneska getur hún verið eins og „akkeri fyrir sálina, traust og öruggt“. (Hebr. 6:17-20) Örugg von okkar um umbun getur hjálpað okkur að halda tilfinningalegu og andlegu jafnvægi og að standa stöðug í trúnni, rétt eins og akkeri heldur skipi kyrru í óveðri. Vonin getur gefið okkur kraft til að halda út í erfiðleikum.

8. Hvernig getur vonin dregið úr áhyggjum?

8 Vonin, sem Biblían veitir okkur, getur dregið úr áhyggjum. Loforð Guðs eru eins og smyrsl sem græðir áhyggjufull hjörtu okkar. Það er hughreystandi til þess að vita að þegar við vörpum áhyggjum okkar á Jehóva ,ber hann umhyggju fyrir okkur‘. (Sálm. 55:23) Við getum treyst því fullkomlega að Guð geti gert „langt fram yfir allt það sem vér biðjum eða skynjum“. (Ef. 3:20) Hugsaðu þér – ekki aðeins fram yfir heldur „langt fram yfir allt það sem vér biðjum eða skynjum“.

9. Hversu örugg getum við verið um að hljóta blessun Jehóva?

9 Til að hljóta launin þurfum við að bera fullt traust til Jehóva og hlýða fyrirmælum hans. Móse sagði við Ísraelsþjóðina: „Í landinu, sem Drottinn, Guð þinn, fær þér sem erfðaland og þú tekur til eignar, mun Drottinn blessa þig ríkulega ef þú aðeins hlýðir Drottni, Guði þínum, og gætir þess að halda öll ákvæðin sem ég set þér í dag. Því að Drottinn, Guð þinn, mun blessa þig eins og hann hét þér.“ (5. Mós. 15:4-6) Treystir þú fullkomlega að Jehóva blessi þig ef þú þjónar honum trúfastlega? Þú hefur góða ástæðu til að bera slíkt traust til hans.

JEHÓVA UMBUNAÐI ÞEIM

10, 11. Hvernig umbunaði Jehóva Jósef?

10 Biblían var skrifuð okkur til gagns. Í henni eru margar frásögur af því hvernig Jehóva umbunaði trúföstum þjónum sínum. (Rómv. 15:4) Jósef er einstaklega gott dæmi um það. Hann var hnepptur í fangelsi í Egyptalandi eftir að bræður hans höfðu gert samsæri gegn honum og  kona húsbónda hans borið hann röngum sökum. En glataði hann sambandi sínu við Guð? Síður en svo. „Drottinn var með Jósef, auðsýndi honum miskunn ... Drottinn var með honum. Allt sem hann tók sér fyrir hendur lét Drottinn lánast honum.“ (1. Mós. 39:21-23) Jósef beið þolinmóður eftir Guði sínum á þessum erfiða tíma.

11 Árum síðar lét faraó Jósef lausan úr fangelsinu og gerði þennan auðmjúka þræl að næstæðsta stjórnanda Egyptalands. (1. Mós. 41:1, 37-43) Eiginkona Jósefs fæddi honum tvo syni. „Jósef nefndi hinn frumgetna Manasse, ,því að Guð hefur látið mig gleyma bæði þjáningum mínum og ætt,‘ sagði hann. En hinn nefndi hann Efraím, ,því að Guð hefur gert mig frjósaman í landi eymdar minnar,‘ sagði hann.“ (1. Mós. 41:51, 52) Jehóva umbunaði Jósef trúfestina með blessun sem varð bæði Ísraelsmönnum og Egyptum til lífs. Kjarni málsins er að Jósef gerði sér grein fyrir að það var Jehóva sem umbunaði honum og blessaði. – 1. Mós. 45:5-9.

12. Hvernig gat Jesús verið trúfastur í prófraunum?

12 Jesús Kristur mátti líka þola margar trúarprófraunir en eins og Jósef var hann hlýðinn Guði og hlaut umbun fyrir. Hvað hjálpaði honum að standast? Í orði Guðs segir: „Hann leið með þolinmæði á krossi og mat smán einskis af því að hann vissi hvaða gleði beið hans.“ (Hebr. 12:2) Það veitti Jesú mikla gleði að geta helgað nafn föður síns. Þar að auki hlaut hann velþóknun hans og mikinn heiður. Í Biblíunni segir að hann hafi „sest til hægri handar hástóli Guðs“. Og einnig segir: „Guð [hefur] hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra.“ – Fil. 2:9.

JEHÓVA GLEYMIR EKKI ÞVÍ SEM VIÐ GERUM

13, 14. Hvað finnst Jehóva um það sem við gerum fyrir hann?

13 Við getum verið viss um að Jehóva kunni að meta allt sem við leggjum á okkur til að þjóna honum. Hann skilur okkur ef við erum óörugg eða efumst um sjálf okkur. Hann sýnir okkur meðaumkun ef fjárhagserfiðleikar íþyngja okkur eða ef heilsan eða tilfinningar okkar eiga það til að takmarka þjónustu okkar við hann. Og við getum treyst því í hvívetna að Jehóva meti mikils það sem þjónar hans gera til að sýna honum hollustu. – Lestu Hebreabréfið 6:10, 11.

14 Höfum líka hugfast að við getum leitað til hans „sem heyrir bænir“ í trausti þess að hann gefi gaum að áhyggjum okkar. (Sálm. 65:3) „Faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar“ veitir okkur óspart þann stuðning sem við þurfum tilfinningalega og í trúnni. Stundum notar hann trúsystkini okkar til þess. (2. Kor. 1:3) Jehóva er snortinn þegar við sýnum öðrum umhyggju. „Sá lánar Drottni sem líknar fátækum, hann mun endurgjalda honum.“ (Orðskv. 19:17; Matt. 6:3, 4) Jehóva lítur sem sagt svo á að við séum að veita honum lán þegar við erum óeigingjörn og aðstoðum þá sem eiga við erfiðleika að stríða. Og hann lofar að umbuna okkur góðvildina.

VIÐ HLJÓTUM UMBUN NÚ OG UM ALLA EILÍFÐ

15. Hvaða umbun hlakkar þú til að hljóta? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

15 Andasmurðir kristnir menn eiga von um að hljóta ,sveig réttlætisins sem Drottinn, hinn réttláti dómari, mun gefa þeim á þeim degi‘. (2. Tím. 4:7, 8) En við  verðum ekki fyrir vonbrigðum ef Guð hefur gefið okkur annars konar von. Milljónir ,annarra sauða‘ Jesú hlakka til þess að hljóta þá umbun að lifa að eilífu í paradís á jörð. Þar munu þeir „gleðjast yfir miklu gengi“. – Jóh. 10:16; Sálm. 37:11.

16. Hvaða hughreystandi orð er að finna í 1. Jóhannesarbréfi 3:19, 20?

16 Stundum finnst okkur við kannski áorka litlu eða veltum fyrir okkur hvort Jehóva sé ánægður með það sem við gerum. Við gætum jafnvel efast um að við séum hæf til að hljóta nokkra umbun. En gleymum aldrei að „Guð er meiri en hjarta okkar og þekkir allt“. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 3:19, 20.) Við megum vera viss um að Jehóva umbuni okkur þegar við þjónum honum heils hugar af trú og kærleika, jafnvel þótt okkur finnist það sem við gerum vera lítils virði. – Mark. 12:41-44.

17. Nefndu dæmi um hvernig Jehóva umbunar okkur núna.

17 Jehóva blessar þjóna sína, jafnvel nú á þessum síðustu og myrku dögum í heimi Satans. Hann sér til þess að sannir tilbiðjendur sínir dafni í andlegu paradísinni þar sem þeir njóta andlegra gæða sem aldrei fyrr. (Jes. 54:13) Eins og Jesús lofaði umbunar Jehóva okkur núna með því að leyfa okkur að tilheyra kærleiksríkri fjölskyldu andlegra bræðra og systra sem búa um allan heim. (Mark. 10:29, 30) Að auki umbunar Jehóva þeim sem leita hans í einlægni með þeirri óviðjafnanlegu blessun að hljóta innri frið, lífsfyllingu og hamingju. – Fil. 4:4-7.

18, 19. Hvað finnst þjónum Jehóva um þá umbun sem þeir hljóta?

18 Þjónar Jehóva um allan heim hafa fundið hvernig hann umbunar þeim ríkulega. Bianca, sem býr í Þýskalandi, segir til dæmis: „Ég er Jehóva óendanlega þakklát fyrir að hjálpa mér með áhyggjur mínar og styðja mig á hverjum degi. Í heiminum ríkir glundroði og vesæld en ég finn fyrir öryggi í faðmi Jehóva þegar ég vinn náið með honum. Í hvert sinn sem ég fórna einhverju fyrir hann gefur hann mér hundraðfalt til baka.“

19 Paula er sjötug systir í Kanada en henni eru mikil takmörk sett vegna hryggraufar. „Takmörkuð hreyfigeta þýðir ekki endilega að boðunin sé takmörkuð,“ segir hún. „Ég nota mismunandi aðferðir við boðunina, eins og að vitna óformlega og nota síma. Ég á minnisbók sem mér finnst uppörvandi að líta í af og til. Í hana skrifa ég ritningarstaði og hugleiðingar úr ritunum okkar. Ég kalla hana ,neyðarbókina‘ mína. Depurð er tímabundin ef við einblínum á loforð Guðs. Jehóva er alltaf til staðar til að hjálpa okkur, sama hverjar kringumstæður okkar eru.“ Það getur verið að þínar aðstæður séu gerólíkar aðstæðum Biöncu og Paulu. En þú getur örugglega séð hvernig Jehóva hefur umbunað þér og öðrum í kringum þig. Það er verðmætt að hugleiða hvernig Jehóva umbunar þér núna og hvernig hann á eftir að umbuna þér í framtíðinni.

20. Til hvers getum við hlakkað ef við höldum áfram að þjóna Jehóva af heilum huga?

20 Gleymdu aldrei að þú munt „hljóta mikla umbun“ fyrir að biðja innilegra bæna og segja Guði frá því sem liggur þér á hjarta. Þú mátt vera viss um að þegar þú hefur ,gert vilja Guðs muntu öðlast fyrirheitið‘. (Hebr. 10:35, 36) Höldum því áfram að styrkja trúna og þjóna Jehóva af heilum huga. Við getum gert það fullviss um að hann umbuni okkur. – Lestu Kólossubréfið 3:23, 24.