Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Einstök góðvild Guðs frelsaði okkur

Einstök góðvild Guðs frelsaði okkur

„Synd skal ekki ríkja yfir ykkur þar eð þið eruð ... undir náðinni.“ – RÓMV. 6:14.

SÖNGVAR: 2, 61

1, 2. Hvers vegna er Rómverjabréfið 5:12 áhugavert fyrir þjóna Guðs?

SEGJUM að þú vildir taka saman biblíuvers sem við vottar Jehóva þekkjum vel og vitnum oft í. Væri Rómverjabréfið 5:12 ofarlega á listanum? Þú hefur ábyggilega oft vitnað í þetta vers: „Syndin kom inn í heiminn með einum manni og dauðinn með syndinni. Þannig er dauðinn runninn til allra manna því að allir syndguðu þeir.“

2 Í bókinni Hvað kennir Biblían? er vitnað nokkrum sinnum í þetta vers. Við lesum líklega Rómverjabréfið 5:12 þegar við förum yfir 3., 5. og 6. kafla bókarinnar með börnum okkar og öðrum. Versið varpar ljósi á lausnargjaldið, fyrirætlun Guðs með jörðina og eðli dauðans. En Rómverjabréfið 5:12 getur líka verið sjálfum okkur hvatning til að hugleiða samband okkar við Jehóva, verk okkar og þá framtíð sem hann hefur lofað okkur.

3. Hvað þurfum við að hafa hugfast varðandi sjálf okkur?

3 Við verðum auðvitað öll að horfast í augu við þann veruleika að við erum syndug og gerum mistök á hverjum degi. En Jehóva er miskunnsamur. Hann veit að við erum mold  og er fús til að fyrirgefa okkur. (Sálm. 103:13, 14) Jesús hvatti okkur til að biðja Guð að fyrirgefa syndir okkar. (Lúk. 11:2-4) Við höfum því enga ástæðu til að hugsa í sífellu um mistök sem Guð er búinn að fyrirgefa. Engu að síður getur verið gott að íhuga hvernig hann getur fyrirgefið okkur.

HVERNIG GETUR JEHÓVA FYRIRGEFIÐ OKKUR?

4, 5. (a) Hvað varpar ljósi á Rómverjabréfið 5:12? (b) Hvað er átt við þegar talað er um „náð“ í Rómverjabréfinu 3:24?

4 Rómverjabréfið, einkum sjötti kaflinn, varpar ljósi á hvernig Jehóva getur fyrirgefið syndir okkar. Í þriðja kaflanum kemur fram að allir hafi syndgað og síðan segir: „Guð réttlætir þá, án þess nokkur verðskuldi það, af náð með endurlausn sinni í Kristi Jesú.“ (Rómv. 3:23, 24) Hvað á Páll við þegar hann talar um „náð“? Hann notar hér grískt orð sem merkir samkvæmt heimildarriti „velvild sem er sýnd fúslega án þess að krefjast eða vænta endurgjalds“. Menn hafa hvorki áunnið sér hana né verðskulda hana.

5 Fræðimaðurinn John Parkhurst segir: „Þegar það [orðið] er notað um Guð eða Krist vísar það mjög oft til velvildar þeirra eða góðvildar að endurleysa manninn og veita honum hjálpræði.“ Hugsunin í gríska orðinu er því einstök og óverðskulduð góðvild. En hvernig sýndi Guð þessa einstöku góðvild? Og hvernig tengist hún von okkar og sambandi við hann? Lítum nánar á málið.

6. Hverjir geta notið góðs af einstakri góðvild Guðs?

6 „Syndin kom inn í heiminn með einum manni,“ Adam, og „dauðinn tók völd með þeim eina manni“. En Jehóva sýndi einstaka góðvild með því að gera öllu mannkyni kleift að bjargast „vegna hins eina, Jesú Krists“. (Rómv. 5:12, 15, 17) Eins og Páll segir verða margir „lýstir sýknir saka vegna hlýðni hins eina“. Þeir eiga í vændum ,eilíft líf í Jesú Kristi‘. – Rómv. 5:19, 21.

7. Hvers vegna var lausnargjaldið einstök og óverðskulduð gjöf?

7 Jehóva var ekki skylt að senda son sinn til jarðar til að greiða lausnargjaldið. Hann sýndi mikla góðvild með því að gera ráðstafanir til að leysa okkur undan synd og dauða. Ekkert okkar verðskuldar það sem Guð og Jesús gerðu fyrir okkur. En við erum innilega þakklát fyrir að þeir skuli bjóða okkur upp á fyrirgefningu og eilíft líf. Við ættum að sýna með daglegu lífi okkar hve mikils virði einstök góðvild Guðs er fyrir okkur.

ÞAKKLÁT FYRIR EINSTAKA GÓÐVILD GUÐS

8. Hvaða hugsunarhátt verðum við að forðast?

8 Við erum ófullkomnir afkomendur Adams og höfum því tilhneigingu til að gera rangt, að syndga. Við ættum þó aldrei að syndga upp á náðina, að misnota okkur einstaka góðvild Guðs og hugsa sem svo að við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur þó að við gerum eitthvað rangt – Guð fyrirgefi okkur bara. Sumir í frumkristna söfnuðinum hugsuðu því miður þannig, meira að segja meðan einhverjir af postulunum voru enn á lífi. (Lestu Júdasarbréfið 4.) Slíkar hugsanir gætu líka leynst innra með okkur eða einhver komið þeim inn hjá okkur ef við erum ekki vel á verði.

9, 10. Í hvaða skilningi voru Páll og aðrir frumkristnir menn leystir frá synd og dauða?

 9 Páll leggur áherslu á að við megum ekki hugsa sem svo að Guð fyrirgefi okkur þó að við höldum áfram að syndga. Hann bendir á að kristnir menn séu ,dánir syndinni‘. (Lestu Rómverjabréfið 6:1, 2.) Hvernig var hægt að segja að þeir væru ,dánir syndinni‘ meðan þeir voru enn á lífi?

10 Vegna lausnargjaldsins fyrirgaf Guð syndir Páls og annarra kristinna manna á fyrstu öld. Hann smurði þá með heilögum anda og þeir urðu andlegir synir hans. Þaðan í frá áttu þeir von um að fara til himna. Ef þeir reyndust trúir myndu þeir fá að ríkja með Kristi á himnum. En Páll gat sagt að þeir væru ,dánir syndinni‘ meðan þeir þjónuðu Guði á jörð. Hann tók dæmi af Jesú en hann dó sem maður og var síðan reistur upp til himna sem ódauðlegur andi. Dauðinn réð ekki lengur yfir Jesú. Hið sama mátti segja um andasmurða kristna menn. Þeir gátu litið svo á að þeir væru ,dánir frá syndinni en lifandi Guði í Kristi Jesú‘. (Rómv. 6:9, 11) Þeir lifðu ekki eins og áður. Þeir létu ekki lengur stjórnast af syndugum tilhneigingum og löngunum. Þeir voru dánir sínu fyrra líferni.

11. Hvernig erum við sem vonumst til að lifa að eilífu í paradís á jörð ,dáin syndinni‘?

11 Hvað um okkur? Við syndguðum oft áður en við urðum kristin, ef til vill án þess að gera okkur grein fyrir að við vorum að gera rangt í augum Guðs. Við létum „limina þræla fyrir óhrein öfl og siðleysi“. Það má orða það þannig að við höfum verið „þrælar syndarinnar“. (Rómv. 6:19, 20) Síðan kynntumst við sannleika Biblíunnar, breyttum líferni okkar, vígðumst Guði og létum skírast. Þaðan í frá höfum við reynt að vera „af hjarta hlýðin“ Jehóva og fylgja lögum hans og ákvæðum. Við vorum „leyst frá syndinni og bundin réttlætinu“. (Rómv. 6:17, 18) Það má því segja um okkur að við séum líka ,dáin syndinni‘.

12. Um hvað þurfum við öll að velja?

12 En við getum valið hvað við gerum. Páll skrifaði: „Látið ... ekki syndina ríkja í dauðlegum líkama ykkar svo að þið hlýðnist girndum hans.“ (Rómv. 6:12) Við getum ,látið syndina ríkja‘ með því að láta undan syndugum hugsunum og löngunum. Þar sem við getum „látið“ syndina ríkja eða neitað að láta hana ríkja er gott að spyrja sig: Hvað vil ég innst inni? Leyfi ég að rangar hugsanir eða langanir verði svo sterkar að ég geri rangt? Eða er ég dáinn syndinni? Lifi ég Guði í Kristi Jesú? Málið snýst um það hve þakklát við erum Guði fyrir að sýna okkur einstaka góðvild og fyrirgefa okkur.

ÞÚ GETUR BARIST GEGN SYNDINNI

13. Hvers vegna getum við treyst að það sé hægt að snúa baki við syndinni?

13 Þjónar Jehóva hafa snúið baki við því líferni sem þeir lifðu áður en þeir kynntust Guði, lærðu að elska hann og tóku að þjóna honum. Þeir skammast sín núna fyrir sumt af því sem þeir gerðu þá og hefði að lokum leitt til dauða. (Rómv. 6:21) En þeir breyttu sér. Margir í Korintu höfðu gert það. Sumir höfðu dýrkað skurðgoð, framið hjúskaparbrot, tamið sér líferni samkynhneigðra, verið þjófar, drykkjumenn og annað þessu líkt. En þeir ,létu laugast og helgast‘. (1. Kor. 6:9-11) Trúlega var sömu sögu að segja af söfnuðinum í  Róm. Páli var innblásið að skrifa honum: „Ljáið ekki ... syndinni limi ykkar sem ranglætisvopn. Nei, ljáið heldur Guði sjálf ykkur lifnuð frá dauðum og limi ykkar sem réttlætisvopn.“ (Rómv. 6:13) Páll var sannfærður um að trúsystkini sín gætu verið hrein í augum Guðs og notið einstakrar góðvildar hans áfram.

14, 15. Um hvað ættum við að spyrja okkur?

14 Hið sama er uppi á teningnum núna. Sum trúsystkini okkar lifðu kannski einu sinni eins og sumir í Korintu. En þau breyttu sér líka. Þau sneru baki við syndugu líferni og ,létu laugast‘. Öll höfum við gert einhverjar breytingar til að þóknast Guði og viljum sýna að við séum honum þakklát fyrir einstaka góðvild hans. Sýnum við það með því að ,ljá ekki syndinni limi okkar‘ heldur ,ljá Guði sjálf okkur lifnuð frá dauðum‘?

15 Til að gera það megum við auðvitað ekki að stunda af ásettu ráði alvarlegar syndir á borð við þær sem sumir í Korintu höfðu gert sig seka um. Annars getum við ekki sagt að við lifum í samræmi við einstaka góðvild Guðs og að ,syndin ríki ekki yfir okkur‘. En erum við líka staðráðin í að vera „af hjarta hlýðin“ og gera okkar besta til að forðast syndir sem sumum þykja ekki mjög alvarlegar? – Rómv. 6:14, 17.

16. Hvernig vitum við að það er ekki nóg að forðast að syndga alvarlega?

16 Tökum Pál postula sem dæmi. Hann gerði að sjálfsögðu ekki neitt af því ranga sem nefnt er í 1. Korintubréfi 6:9-11. Hann játaði engu að síður að hann væri syndugur og skrifaði: „Ég er jarðneskt hold, í greipum syndarinnar. Ég skil ekki hvað ég aðhefst. Það sem ég vil geri ég ekki, hitt sem ég hata, það geri ég.“ (Rómv. 7:14, 15) Þessi orð bera með sér að Páll átti í baráttu við ýmislegt sem hann taldi vera synd, þó að það væri ekki eins alvarlegt og það sem hann nefnir í Korintubréfinu. (Lestu Rómverjabréfið 7:21-23.) Við skulum líkja eftir Páli og gera allt sem við getum til að vera „af hjarta hlýðin“.

17. Hvers vegna viljum við vera heiðarleg?

17 Við vitum til dæmis að þjónn Jehóva þarf að vera heiðarlegur. Heiðarleiki er eitt af grundvallaratriðum kristninnar. (Lestu Orðskviðina 14:5; Efesusbréfið 4:25.) Satan er „lyginnar faðir“. Ananías og eiginkona hans dóu vegna þess að þau lugu. Við viljum ekki líkjast þeim og ljúgum ekki. (Jóh. 8:44; Post. 5:1-11) En nær heiðarleiki okkar ekki lengra en það? Ef við erum Guði innilega þakklát fyrir einstaka góðvild hans reynum við að vera heiðarleg á öllum sviðum.

18, 19. Hvað er fólgið í því að vera heiðarlegur?

18 Það er hægt að vera óheiðarlegur á fleiri vegu en beinlínis ljúga. Jehóva sagði Ísraelsmönnum: „Verið heilagir því að ég, Drottinn, Guð ykkar, er heilagur.“ Síðan nefndi hann dæmi sem sýna hvað það felur í sér. Hann sagði meðal annars: „Þið megið hvorki stela né svíkja.“ (3. Mós. 19:2, 11) Manneskja, sem lýgur aldrei berum orðum, gæti samt átt til að svíkja eða blekkja með einhverjum hætti. Það er líka óheiðarlegt.

Erum við ákveðin í að forðast bæði lygar og blekkingar? (Sjá 19. grein.)

19 Tökum dæmi: Maður segir yfirmanni sínum eða vinnufélögum að hann komist ekki í vinnu daginn eftir  eða þurfi að hætta snemma til að fara til læknis. Sannleikurinn er hins vegar sá að hann þarf bara að renna við á læknastofunni til að borga reikning. Ástæðan fyrir því að hann mætir ekki til vinnu er í rauninni sú að hann vill komast snemma af stað í ferðalag eða fara í lautarferð með fjölskyldunni. Það var vissulega sannleikskorn í því að hann þyrfti að „fara til læknis“. En var hann heiðarlegur eða beitti hann blekkingum? Þú þekkir kannski fleiri dæmi þar sem fólk beitti vísvitandi blekkingum. Stundum er það gert til að komast hjá refsingu eða hagnast á kostnað annarra. Jehóva bendir hins vegar á að við megum ekki svíkja aðra og gildir þá einu hvort við segjum beinlínis ósatt eða ekki. Ekki má heldur gleyma Rómverjabréfinu 6:19 þar sem við erum hvött til að ,láta limi líkamans þjóna réttlæti Guðs og helgast honum‘.

20, 21. Hvað leggjum við á okkur ef við kunnum að meta einstaka góðvild Guðs?

20 Málið er að það er ekki nóg að forðast bara syndir eins og kynferðislegt siðleysi, drykkjuskap eða aðrar alvarlegar syndir. Ef við lifum í samræmi við einstaka góðvild Guðs forðumst við ekki bara kynferðislegt siðleysi heldur líka siðlaust skemmtiefni. Ef við viljum láta limi líkamans þjóna réttlætinu forðumst við ekki bara drykkjuskap heldur líka að drekka okkur næstum drukkin. Það getur verið talsvert átak að standast freistingar af þessu tagi en það er samt hægt.

21 Það ætti að vera markmið okkar að forðast bæði grófar syndir og syndir sem teljast ekki eins alvarlegar. Okkur tekst það ekki fullkomlega en við ættum samt að reyna það, rétt eins og Páll. Hann hvatti trúsystkini sín og sagði: „Látið ... ekki syndina ríkja í dauðlegum líkama ykkar svo að þið hlýðnist girndum hans.“ (Rómv. 6:12; 7:18-20) Með því að berjast gegn stórum syndum og smáum sýnum við að við erum Guði og Jesú innilega þakklát fyrir þá einstöku góðvild sem þeir hafa sýnt okkur.

22. Hvað eigum við í vændum ef við sýnum að við séum Guði þakklát fyrir einstaka góðvild hans?

22 Jehóva hefur fyrirgefið syndir okkar og vill halda því áfram. Við skulum sýna að við kunnum að meta einstaka góðvild hans. Leggjum okkur fram um að forðast allt sem hann segir að sé rangt, jafnvel þótt öðrum finnist það smávægilegt. Páll bendir á launin sem við eigum í vændum fyrir það: „Nú eruð þið leyst frá syndinni og bundin Guði. Það ber ávöxt til helgunar og eilífs lífs að lokum.“ – Rómv. 6:22.