Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 NÁMSGREIN 14

Árás úr norðri!

Árás úr norðri!

„Þjóð hefur ráðist inn í land mitt.“ – JÓEL 1:6.

SÖNGUR 95 Ljósið verður bjartara

YFIRLIT *

1. Hvaða námsaðferð notuðu bróðir Russell og félagar hans og hvers vegna var hún góð?

FYRIR meira en öld byrjuðu bróðir Charles T. Russell og fáeinir aðrir biblíunemendur að hittast. Hópurinn vildi komast að því hvað Biblían kennir um Jehóva Guð, Jesú Krist, hina dánu og lausnarfórnina. Námsaðferðin var einföld. Einn úr hópnum varpaði fram spurningu og síðan skoðuðu þeir vandlega alla ritningarstaði tengda efninu. Að lokum skráðu þeir niðurstöðurnar af rannsóknum sínum. Með hjálp Jehóva uppgötvuðu þessir einlægu kristnu menn mörg grundvallarsannindi Biblíunnar sem eru okkur dýrmæt enn þann dag í dag.

2. Hvað getur stundum leitt til rangrar niðurstöðu þegar við reynum að skilja spádóma Biblíunnar?

2 Þessir biblíunemendur komust fljótt að því að það er eitt að skilja það sem Biblían segir um ákveðnar kenningar en allt annar handleggur að skilja rétt merkingu spádóma hennar. Hvernig stendur á því? Ein ástæða er sú að oft er auðveldast að skilja biblíuspádóma þegar þeir eru að rætast eða eftir að þeir hafa ræst. Önnur ástæða er að venjulega þarf að skoða spádóm í samhengi til að skilja hann rétt. Ef við einblínum aðeins á einn þátt hans má vera að við komumst að rangri niðurstöðu. Sú virðist hafa verið raunin varðandi spádóm í Jóelsbók. Við skulum rýna í spádóminn og sjá hvers vegna við þurfum að leiðrétta skilning okkar á honum.

3, 4. Hvernig höfum við skilið spádóminn í Jóel 2:7–9 hingað til?

3 Lestu Jóel 2:7–9. Í Jóelsbók segir frá engisprettuplágu sem leggur land Ísraels í eyði. Þessi skordýr eru  með tennur og kjálka eins og ljón og gleypa í sig allan gróður í landinu. (Jóel 1:4, 6) Í mörg ár töldum við að spádómurinn merkti að þjónar Guðs væru eins og óstöðvandi engisprettusveimur þegar þeir boða trúna. Við höfðum þann skilning að boðunin myndi afhjúpa bagalegt ástand ,landsins‘ eða fólks sem er undir áhrifum trúarleiðtoga. *

4 Þessi skilningur gæti virst réttur ef við læsum aðeins Jóel 2:7–9. En þegar við skoðum spádóminn í heild sinni er augljóst að hann hefur aðra merkingu en við töldum áður. Skoðum fjórar ástæður fyrir því.

FJÓRAR ÁSTÆÐUR FYRIR BREYTTUM SKILNINGI

5, 6. Hvaða spurning vaknar þegar við skoðum (a) Jóel 2:20? (b) Jóel 2:25?

5 Tökum í fyrsta lagi eftir loforði Jehóva varðandi engisprettupláguna: „Andstæðinginn í norðri [engispretturnar] rek ég langt frá yður.“ (Jóel 2:20) Hvers vegna myndi Jehóva lofa að reka burt engispretturnar ef þær táknuðu votta hans sem hlýða boði Jesú um að boða trúna og gera fólk að lærisveinum? (Esek. 33:7–9; Matt. 28:19, 20) Jehóva rekur augljóslega ekki burt þjóna sína heldur eitthvað eða einhvern sem er þeim fjandsamlegur.

6 Skoðum aðra ástæðu, en hún kemur fram í Jóel 2:25. Jehóva segir þar: „Ég bæti yður árin sem engisprettan át upp, þau sem smávargurinn, grasvargurinn og jarðvargurinn átu, sá mikli her sem ég sendi gegn yður.“ Tökum eftir að Jehóva lofar að bæta fyrir tjónið sem engispretturnar hafa valdið. Ef engispretturnar táknuðu boðbera Guðsríkis þýddi það að boðskapur þeirra ylli tjóni. En hann er lífsnauðsynlegur og getur knúið ranglátt fólk til að iðrast. (Esek. 33:8, 19) Það væri aðeins til góðs!

7. Hvaða þýðingu hefur orðið „síðar“ í Jóel 3:1, 2?

7 Lestu Jóel 3:1, 2Athugum þriðju ástæðuna, en hún felst í röð atburðanna sem spámaðurinn lýsir. Tókstu eftir að Jehóva segir: „Síðar mun ég úthella anda mínum,“ það er að segja eftir að engispretturnar hafa lokið verkefni sínu? Af hverju ætti Jehóva að úthella anda sínum eftir að engispretturnar lykju verkefni sínu ef þær táknuðu boðbera Guðsríkis? Þeir hefðu svo sannarlega aldrei getað boðað trúna andspænis andstöðu og jafnvel banni svo áratugum skipti nema með hjálp máttugs anda Guðs.

Bróðir Joseph F. Rutherford og aðrir andasmurðir þjónar Guðs sem tóku forystuna í að boða hugrakkir dómsboðskap Guðs gegn þessum illa heimi. (Sjá 8. grein.)

8. Hverja tákna engispretturnar í Opinberunarbókinni 9:1–11? (Sjá mynd á forsíðu.)

8 Lestu Opinberunarbókina 9:1–11Skoðum nú fjórðu ástæðuna. Áður tengdum við engisprettupláguna í Jóelsbók við boðunina vegna áþekks spádóms sem er að finna í Opinberunarbókinni. Sá spádómur lýsir aragrúa engispretta með mannsandlit og ,eitthvað sem líkist gullkórónum‘ á höfðinu. (Opinb. 9:7) Þær kvelja „það fólk [óvini Guðs] sem hefur ekki innsigli Guðs á enni sér“ í fimm mánuði, en það samsvarar æviskeiði engisprettu. (Opinb. 9:4, 5) Þetta lýsir smurðum þjónum Jehóva vel. Þeir kunngera  hugrakkir dóma Guðs gegn þessum illa heimi og það finnst þeim sem styðja heiminn mjög óþægilegt.

9. Hvaða veigamikli munur er á engisprettunum sem Jóel sá og þeim sem Jóhannes lýsti?

9 Vissulega er ýmislegt líkt með spádóminum í Opinberunarbókinni og þeim sem er að finna í Jóelsbók. En það er mikilvægur munur á þeim. Í spádómi Jóels eyða engispretturnar gróðrinum. (Jóel 1:4, 6, 7) Í sýn Jóhannesar er engisprettunum „sagt að skaða ekki gras jarðarinnar“. (Opinb. 9:4) Engispretturnar sem Jóel sá koma úr norðri. (Jóel 2:20) Þær sem Jóhannes sá koma úr undirdjúpinu. (Opinb. 9:2, 3) Engispretturnar sem Jóel lýsir eru reknar burt. Engispretturnar í Opinberunarbókinni eru ekki reknar burt heldur fá þær að ljúka verki sínu. Ekkert bendir til þess að Jehóva hafi vanþóknun á þeim. – Sjá rammann „Spádómar um engisprettur – svipaðir en ólíkir“.

10. Hvaða dæmi í Biblíunni sýna fram á að engispretturnar í lýsingu Jóels og engispretturnar í sýn Jóhannesar þurfa ekki að tákna það sama?

10 Þessi mikilvægi munur á spádómunum tveim leiðir í ljós að engin tengsl eru á milli þeirra. Þýðir það að engispretturnar  í lýsingu Jóels séu ekki þær sömu og við lesum um í Opinberunarbókinni? Já. Í Biblíunni er ekki óalgengt að sami hluturinn tákni fleira en eitt, allt eftir því í hvaða samhengi er rætt um hann. Í Opinberunarbókinni 5:5 er Jesús til að mynda kallaður „ljónið af ættkvísl Júda“ en í 1. Pétursbréfi 5:8 er Djöflinum lýst sem ,öskrandi ljóni‘. Ástæðurnar fjórar sem við höfum rætt gefa okkur tilefni til að leita annarrar skýringar á spádóminum í Jóelsbók. Hver gæti hún verið?

HVAÐ MERKIR SPÁDÓMURINN?

11. Hvernig hjálpar Jóel 1:6 og 2:1, 8, 11 okkur að bera kennsl á engispretturnar?

11 Nánari athugun á spádóminum í Jóelsbók leiðir í ljós að spámaðurinn var að segja fyrir um innrás hers. (Jóel 1:6; 2:1, 8, 11) Jehóva sagðist myndu nota ,mikinn her‘ (babýlonska hermenn) til að refsa óhlýðnum Ísraelsmönnum. (Jóel 2:25) Innrásarherinn er réttilega kallaður ,andstæðingurinn í norðri‘ vegna þess að Babýloníumenn myndu ráðast inn í Ísrael úr norðri. (Jóel 2:20) Hernum er líkt við vel skipulagðan engisprettusveim. Jóel segir um engispretturnar: „Hver [hermaður] stefnir eigin leið ... Þeir ráðast á borgina, þjóta um borgarmúrinn, klifra upp húsin, fara inn um gluggana eins og þjófar.“ (Jóel 2:8, 9) Geturðu séð þetta fyrir þér? Það eru hermenn alls staðar. Hvergi er hægt að fela sig. Enginn kemst undan sverði Babýloníumanna.

12. Hvernig rættist spádómur Jóels um engispretturnar?

12 Árið 607 f.Kr. réðust Babýloníumenn (eða Kaldear) eins og engisprettuher inn í Jerúsalem. Biblían segir: ,Konungur Kaldea felldi æskumenn þeirra með sverði. Hann hlífði hvorki ungum körlum né konum, kornabörnum né öldungum, Drottinn seldi alla í hendur hans. Kaldear brenndu hús Guðs, rifu niður múra Jerúsalem, kveiktu í öllum höllum borgarinnar og skemmdu allt verðmætt.‘ (2. Kron. 36:17, 19) Þegar Babýloníumenn höfðu lagt landið í eyði gat fólk ekki annað en sagt: „Það er eyðimörk án fólks og fénaðar, seld Kaldeum í hendur.“ – Jer. 32:43.

13. Útskýrðu hvað Jeremía 16:16, 18 merkir.

13 Um 200 árum eftir að Jóel skráði spádóm sinn fól Jehóva Jeremía að gefa fleiri upplýsingar um árásina. Jehóva sagði að Ísraelsmenn sem lögðu stund á vonskuverk yrðu leitaðir uppi og að enginn kæmist undan. „Ég sendi menn eftir mörgum fiskimönnum, segir Drottinn, þeir eiga að veiða þá. Því næst sendi ég eftir mörgum veiðimönnum. Þeir eiga að veiða þá á hverju fjalli og á hverri hæð og í klettaskorunum ... ég [mun] gjalda þeim tvöfalt fyrir sekt þeirra og synd.“ Iðrunarlausir Ísraelsmenn myndu hvergi finna skjól fyrir innrásarher Babýloníumanna, hvorki úti á hafi né í skógi. – Jer. 16:16, 18.

ENDURREISN

14. Hvernig rættist Jóel 3:1, 2?

14 En nú hefur Jóel góðar fréttir að færa. Landið mun aftur bera ávöxt. (Jóel 2:23–26) Og einhvern tíma í  framtíðinni yrðu gnóttir andlegrar fæðu á boðstólum. ,Ég mun úthella anda mínum yfir alla menn,‘ segir Jehóva. „Synir yðar og dætur munu spá ... jafnvel yfir þræla og ambáttir mun ég úthella anda mínum.“ (Jóel 3:1, 2) Jehóva úthellti ekki anda sínum strax eftir að Ísraelsmenn höfðu snúið aftur heim frá Babýlon. Það gerði hann nokkrum öldum síðar, á hvítasunnu árið 33. Hvernig vitum við það?

15. Hvernig breytti Pétur orðalaginu í Jóel 3:1 samkvæmt Postulasögunni 2:16, 17 og hvað gefur það til kynna?

15 Pétur heimfærði undir innblæstri Jóel 3:1, 2 upp á merkisatburð sem átti sér stað á hvítasunnudegi. Um níuleytið þann morguninn úthellti Guð heilögum anda sínum. Þeir sem fengu heilagan anda fundu sig knúna til að tala „um stórfengleg verk Guðs“. (Post. 2:11) Pétri var innblásið að breyta aðeins orðalaginu þegar hann vitnaði í spádóm Jóels. Kemurðu auga á breytinguna? (Lestu Postulasöguna 2:16, 17.) Í stað þess að byrja tilvitnunina á „síðar“ sagði Pétur að „á síðustu dögum“ – og átti þar við síðustu daga þjóðskipulags Gyðinga – yrði anda Guðs úthellt yfir „alls konar fólk“. Það gefur til kynna að talsverður tími hafi liðið áður en spádómur Jóels rættist.

16. Hvaða áhrif hafði andi Guðs á boðunina á fyrstu öld og hvaða áhrif hefur hann haft á okkar dögum?

16 Það var eftir að anda Guðs var úthellt með undraverðum hætti á fyrstu öld að hafið var boðunarátak sem næði með tímanum út um allan heim. Þegar Páll skrifaði bréf sitt til Kólossumanna  um árið 61 gat hann sagt að fagnaðarboðskapurinn hefði verið boðaður „allri sköpun undir himninum“. (Kól. 1:23, neðanmáls) Á dögum Páls vísaði ,öll sköpunin‘ til þess heims sem þá var þekktur. Með hjálp máttugs anda Jehóva hefur boðuninni vaxið stórlega fiskur um hrygg á okkar dögum og nær „til endimarka jarðar“. – Post. 13:47. Sjá rammann „Ég mun úthella anda mínum“.

HVAÐ HEFUR BREYST?

17. Hvernig hefur skilningur okkar á spádóminum um engispretturnar í Jóelsbók breyst?

17 Hvað hefur breyst? Við höfum nú nákvæmari skilning á spádóminum í Jóel 2:7–9. Þessi vers vísa augljóslega ekki til ötullar framgöngu okkar í boðuninni heldur til þess sem her Babýloníumanna gerði þegar hann réðst inn í Jerúsalem árið 607 f.Kr.

18. Hvað hefur ekki breyst hjá þjónum Jehóva?

18 Hvað hefur ekki breyst? Þjónar Jehóva halda áfram að boða fagnaðarboðskapinn alls staðar og nota allar mögulegar leiðir til þess. (Matt. 24:14) Engar hömlur sem yfirvöld kunna að setja geta hindrað okkur í að ljúka verkinu sem okkur hefur verið falið, að boða trúna. Með hjálp Jehóva boðum við hugrökk fagnaðarboðskapinn um ríkið og áorkum meiru en nokkru sinni fyrr. Við höldum auðmjúk áfram að reiða okkur á Jehóva og treysta að hann hjálpi okkur að skilja spádóma Biblíunnar, fullviss um að hann leiði okkur „í allan sannleikann“ á réttum tíma. – Jóh. 16:13.

SÖNGUR 97 Lífið er háð orði Guðs

^ gr. 5 Í mörg ár höfum við talið að spádómurinn í fyrstu tveim köflum Jóelsbókar segi fyrir um boðunina sem á sér stað nú á dögum. En við þurfum að leiðrétta skilning okkar á þessum hluta Jóelsbókar. Fyrir því eru fjórar ástæður. Hverjar eru þær?

^ gr. 3 Sjá til að mynda greinina „Sköpunarverkið segir frá visku Jehóva“ í Varðturninum 15. apríl 2009, gr. 14–16.