Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 NÁMSGREIN 16

Verjum sannleikann um eðli dauðans

Verjum sannleikann um eðli dauðans

,Við þekkjum andann sem flytur sannleikann og andann sem fer með lygar.‘ – 1. JÓH. 4:6.

SÖNGUR 73 Veittu okkur hugrekki

YFIRLIT *

Hughreystu ættingja þína sem hafa misst ástvin í stað þess að taka þátt í siðvenjum sem eru Guði vanþóknanlegar. (Sjá 1. og 2. grein.) *

1-2. (a) Hvernig hefur Satan blekkt fólk? (b) Hvað skoðum við í þessari grein?

SATAN er „lyginnar faðir“ og hann hefur blekkt fólk frá upphafi mannkyns. (Jóh. 8:44) Sumar af lygum hans fela í sér falskenningar um dauðann og framhaldslíf. Þessar kenningar eru grunnurinn að mörgum algengum siðvenjum og alls konar hjátrú. Og því hafa mörg trúsystkini okkar þurft að ,berjast fyrir trúnni‘ þegar einhver í fjölskyldunni eða samfélaginu hefur dáið. – Júd. 3.

2 Hvað getur hjálpað þér að halda fast við það sem Biblían kennir um dauðann ef ætlast er til að þú fylgir slíkum siðvenjum? (Ef. 6:11) Hvernig geturðu hughreyst og styrkt trúsystkini sem þrýst er á að fylgja siðvenjum sem eru Guði vanþóknanlegar? Í þessari grein ræðum við um leiðsögnina sem Jehóva gefur okkur. Fyrst skulum við skoða hvað Biblían segir um dauðann.

SANNLEIKURINN UM EÐLI DAUÐANS

3. Hvaða afleiðingar hafði fyrsta lygin?

3 Guð ætlaði mönnunum ekki að deyja. Adam og Eva þurftu að hlýða Jehóva til að fá að lifa að eilífu. Hann gaf þeim einföld fyrirmæli: „Af skilningstré góðs og ills máttu ekki eta. Jafnskjótt og þú etur af því muntu deyja.“ (1. Mós. 2:16, 17) Þá kom Satan til sögunnar. Hann notaði höggorm til að segja við Evu: „Sannið til, þið munuð ekki deyja.“ Því miður trúði hún lyginni og borðaði af ávextinum. Seinna borðaði eiginmaður hennar einnig af ávextinum. (1. Mós. 3:4, 6) Þannig varð synd og dauði hlutskipti mannsins. – Rómv. 5:12.

4-5. Hvernig hefur Satan haldið áfram að blekkja fólk?

 4 Adam og Eva dóu, rétt eins og Guð hafði sagt. En Satan hætti ekki að ljúga til um dauðann. Seinna byrjaði hann að bera út fleiri lygar. Ein þessara lyga er kenningin um að líkaminn deyi en að einhver hluti einstaklingsins lifi áfram, til dæmis á andlegu tilverusviði. Ýmis afbrigði af þessari lygi hafa blekkt ótalmarga allt fram á okkar daga. – 1. Tím. 4:1.

5 Hvers vegna trúa svona margir lygum Satans? Hann notfærir sér það hvernig okkur er eðlislægt að hugsa um dauðann. Við vorum sköpuð til að lifa að eilífu og þess vegna viljum við ekki deyja. (Préd. 3:11) Við lítum á dauðann sem óvin. – 1. Kor. 15:26.

6-7. (a) Hefur Satan tekist að halda sannleikanum um eðli dauðans leyndum? Skýrðu svarið. (b) Hvernig hlífir sannleikur Biblíunnar okkur við óþarfa ótta?

6 Þrátt fyrir tilraunir Satans hefur sannleikanum um dauðann ekki verið haldið leyndum. Fleiri en nokkru sinni fyrr þekkja það sem Biblían kennir um eðli dauðans og vonina um að látnir fái líf á ný, og þeir segja öðrum frá því. (Préd. 9:5, 10; Post. 24:15) Þessi sannleikur huggar okkur og hlífir okkur við óþarfa ótta og óvissu. Við erum til dæmis hvorki hrædd við hina dánu né um þá. Við vitum að þeir eru ekki lifandi og geta ekki skaðað neinn. Það er eins og þeir sofi djúpum svefni. (Jóh. 11:11-14) Við vitum einnig að hinir dánu vita ekki hvað tímanum líður. Í upprisunni mun jafnvel þeim sem hafa verið dánir í aldaraðir finnast aðeins vera augnablik síðan þeir dóu.

7 Þú ert eflaust sammála því að sannleikurinn um eðli dauðans er skýr, einfaldur og rökréttur. Það er allt annað en ruglandi lygar Satans. Þær blekkja ekki aðeins fólk heldur rægja skapara okkar. Til að skilja betur skaðann sem Satan hefur valdið skulum við skoða eftirfarandi spurningar: Hvernig hafa lygar Satans rægt Jehóva? Hvernig hafa þær grafið undan trú fólks á lausnarfórn Krists? Og hvernig hafa þær aukið á sorg og þjáningar manna?

 LYGAR SATANS HAFA VALDIÐ MIKLUM SKAÐA

8. Hvernig rægja lygar Satans um hina dánu Jehóva eins og fram kemur í Jeremía 19:5?

8 Lygar Satans um hina dánu rægja Jehóva. Ein þessara lyga er falskenningin um að hinir dánu kveljist í eldi. Slíkar kenningar rægja Jehóva. Hvernig þá? Þær eigna Jehóva, Guði kærleikans, persónuleika djöfulsins. (1. Jóh. 4:8) Hvaða tilfinningar vekur það með þér? Og það sem mikilvægara er, hvað finnst Jehóva um það? Hann hatar grimmd í hvaða mynd sem er. – Lestu Jeremía 19:5.

9. Hvernig hafa lygar Satans áhrif á trú fólks á lausnarfórn Krists sem lýst er í Jóhannesi 3:16 og 15:13?

9 Lygar Satans um dauðann grafa undan trú fólks á lausnarfórn Krists. (Matt. 20:28) Önnur lygi Satans er að menn séu með ódauðlega sál. Ef það væri satt myndu allir lifa að eilífu og Jesús hefði ekki þurft að gefa líf sitt sem lausnarfórn fyrir okkur til að við hlytum eilíft líf. Hafðu í huga að fórn Krists er mesta kærleiksverk sem nokkurn tíma hefur verið unnið í þágu manna. (Lestu Jóhannes 3:16; 15:13.) Hugsaðu þér hvað Jehóva og Jesú hlýtur að finnast um kenningar sem grafa undan þessari dýrmætu gjöf.

10. Hvernig hafa lygar Satans um dauðann aukið á sorg og þjáningar manna?

10 Lygar Satans auka á sorg og þjáningar manna. Foreldrum sem syrgja barn sitt er stundum sagt að Guð hafi tekið barnið til að gera það að engli á himnum. Linar þessi lygi Satans sársaukann eða gerir hann meiri? Falskenningin um helvíti hefur verið notuð til að réttlæta pyntingar, svo sem að brenna á báli þá sem andmæltu kenningum kirkjunnar. Í bók um spænska rannsóknarréttinn kemur fram að sumir þeirra sem stóðu á bak við þessa grimmd hafi talið að þeir væru einungis að láta trúvillinga „finna fyrir því hvernig það væri að brenna að eilífu í vítiseldi“. Þetta gerðu þeir til að trúvillingarnir myndu iðrast áður en þeir dæju og bjargast frá því að brenna í helvíti. Í mörgum löndum finnst fólki það þurfa að tilbiðja látna forfeður sína til að heiðra þá eða hljóta blessun þeirra. Aðrir vilja friða forfeður sína til að forðast refsingu þeirra. Trú sem byggist á lygum Satans veitir fólki ekki sanna huggun. Hún lætur fólk öllu heldur finna til óþarfa kvíða eða hræðslu.

HVERNIG GETUM VIÐ VARIÐ SANNLEIKA BIBLÍUNNAR?

11. Hvernig geta velviljaðir ættingjar eða vinir þrýst á okkur að gera eitthvað sem stangast á við Biblíuna?

11 Kærleikurinn til Jehóva og til Biblíunnar styrkir okkur og auðveldar okkur að hlýða Jehóva, jafnvel þegar velviljaðir ættingjar eða vinir þrýsta á okkur að taka þátt í óbiblíulegum siðvenjum tengdum dauðanum. Þeir gætu reynt að láta okkur fá samviskubit, kannski með því að segja að við höfum ekki elskað ekki hinn látna eða borið virðingu fyrir honum. Eða þeir gætu sagt að hegðun okkar muni fá hinn látna til að skaða á einhvern hátt þá sem eru lifandi. Hvernig getum við varið sannleika Biblíunnar? Hugleiddu hvernig þú getur fylgt eftirfarandi meginreglum hennar.

12. Hvaða siðvenjur tengdar dauðanum eru greinilega óbiblíulegar?

12 Verið ákveðin í að ,skilja ykkur frá‘ óbiblíulegum trúarsiðum. (2. Kor. 6:17) Margir af eyþjóð í Karíbahafi trúa að þegar  einstaklingur deyr verði „vofa“ hans eftir og refsi þeim sem fóru illa með hann. „Vofan“ getur jafnvel „valdið usla í heilu samfélagi“, segir í uppsláttarriti. Í Afríku er venja að hylja spegla á heimili hins látna og snúa myndum þannig að þær snúi að veggnum. Fólk gerir þetta vegna þess að það telur að hinir dánu megi ekki sjá sig sjálfa. Við sem erum þjónar Jehóva erum ekki haldin nokkurri hjátrú eða tökum þátt í siðvenjum sem styðja lygar Satans. – 1. Kor. 10:21, 22.

Þú getur komið í veg fyrir vandamál með því að rannsaka Biblíuna vel og eiga góð samskipti við ættingja sem eru ekki vottar. (Sjá 13. og 14. grein.) *

13. Hvað ættirðu að gera ef þú ert ekki viss um hvort ákveðin siðvenja sé í lagi, samanber Jakobsbréfið 1:5?

13 Ef þú ert ekki viss um hvort ákveðinn siður eða venja sé í lagi skaltu leita til Jehóva í bæn og biðja hann í trú um visku. (Lestu Jakobsbréfið 1:5.) Síðan skaltu leita í ritum okkar. Þú getur líka leitað til öldunganna í söfnuðinum ef þess þarf. Þeir segja þér ekki hvað þú átt að gera en þeir geta bent þér á meginreglur í Biblíunni sem eiga við, eins og þær sem rætt er um í þessari grein. Þegar þú gerir það ,agarðu hugann‘ og það getur hjálpað þér að „greina gott frá illu“. – Hebr. 5:14.

14. Hvernig getum við komist hjá því að verða öðrum að falli?

14 ,Gerið allt Guði til dýrðar. Verið ekki öðrum til ásteytingar.‘ (1. Kor. 10:31, 32) Þegar við ákveðum hvort við ætlum að taka þátt í siðvenju eða hefð ættum við einnig að hugsa um hvaða áhrif ákvörðun okkar getur haft á samvisku annarra, sérstaklega trúsystkina okkar. Við myndum aldrei vilja verða einhverjum að falli. (Mark. 9:42) Við viljum ekki heldur móðga að óþörfu þá sem eru ekki vottar. Kærleikur fær okkur til að tala við þá af virðingu, en það er Jehóva til lofs. Við viljum alls ekki þræta við fólk eða gera grín að hefðum þess. Mundu að kærleikurinn býr yfir mætti. Þegar við sýnum öðrum kærleika með því að vera nærgætin og kurteis getum við jafnvel blíðkað þá sem eru á móti okkur.

15-16. (a) Hvers vegna er skynsamlegt að segja öðrum frá því hverju þú trúir? Nefndu dæmi. (b) Hvernig eiga orð Páls í Rómverjabréfinu 1:16 við okkur?

15 Láttu fólk vita að þú sért vottur Jehóva. (Jes. 43:10) Það verður líklega auðveldara fyrir þig að takast á við tilfinningaþrungnar aðstæður ef ættingjar  þínir og nágrannar vita að þú tilbiður Jehóva Guð. Francisco, sem býr í Mósambík, segir: „Þegar við Carolina konan mín kynntumst sannleikanum sögðum við fjölskyldunni að við myndum ekki lengur veita hinum dánu lotningu. Það reyndi á ákvörðun okkar þegar systir Carolinu lést. Venjan hér er að baða líkið við trúarlega athöfn. Svo á nánasti ættingi hins látna að sofa þrjár nætur þar sem baðvatninu er hellt. Þessi venja á að friða anda hins látna. Fjölskylda Carolinu ætlaðist til að hún tæki hlutverkið að sér.“

16 Hvernig brugðust Francisco og konan hans við? Hann segir: „Við neituðum að taka þátt í athöfninni vegna þess að við elskum Jehóva og viljum þóknast honum. Fjölskylda Carolinu varð mjög reið. Þau sökuðu okkur um að lítilsvirða hina látnu og sögðust myndu hætta að heimsækja okkur og hjálpa. Við ræddum þetta ekki meðan þau voru reið vegna þess að við höfðum áður útskýrt trú okkar fyrir þeim. Sumir í fjölskyldunni tóku jafnvel upp hanskann fyrir okkur og sögðu að við hefðum þegar útskýrt afstöðu okkar. Með tímanum róuðust málin og við náðum sáttum. Sumir í fjölskyldunni hafa meira að segja komið heim til okkar og beðið um biblíutengd rit.“ Við skulum aldrei skammast okkar fyrir að verja sannleikann um dauðann. – Lestu Rómverjabréfið 1:16.

STYÐJUM OG UPPÖRVUM ÞÁ SEM SYRGJA

Sannir vinir hughreysta og styðja þá sem hafa misst ástvin. (Sjá 17.-19. grein.) *

17. Hvað getur hjálpað okkur að vera sannur vinur trúsystkinis sem hefur misst ástvin?

17 Þegar trúsystkini missir ástvin ættum við að leggja okkur fram um að vera sannur vinur sem „í andstreymi reynist ... sem bróðir“. (Orðskv. 17:17) Hvernig getum við reynst sannur vinur, sérstaklega þegar þrýst er á syrgjandi trúsystkini að taka þátt í óbiblíulegum siðvenjum? Skoðum tvær meginreglur í Biblíunni sem geta hjálpað okkur að hughreysta þá sem syrgja.

18. Hvers vegna grét Jesús og hvað getum við lært af fordæmi hans?

18 „Grátið með grátendum.“ (Rómv. 12:15) Það getur verið erfitt að vita hvað  við eigum að segja við þá sem eru bugaðir af sorg. Stundum er nóg að við grátum með þeim. Þegar Lasarus vinur Jesú lést grétu María, Marta og fleiri ástkæran bróður sinn og vin. Jesús grét einnig þegar hann kom fjórum dögum seinna, jafnvel þó að hann vissi að hann ætti brátt eftir að reisa Lasarus upp frá dauðum. (Jóh. 11:17, 33-35) Þegar Jesús grét endurspeglaði hann tilfinningar föður síns. Það fullvissaði einnig fjölskylduna um að Jesús elskaði hana. Það hefur án efa hughreyst Maríu og Mörtu. Þegar trúsystkini okkar finna fyrir kærleika okkar og umhyggju vita þau að þau standa ekki ein heldur eru umkringd umhyggjusömum vinum sem styðja þau.

19. Hvernig getum við farið eftir Prédikaranum 3:7 þegar við hughreystum syrgjandi trúsystkini?

19 „Að þegja hefur sinn tíma og að tala hefur sinn tíma.“ (Préd. 3:7) Við getum einnig hughreyst syrgjandi trúsystkini með því að vera tilbúin til að hlusta. Leyfðu vini þínum að úthella hjarta sínu og ekki móðgast þó að eitthvað sé „mælt í gáleysi“. (Job. 6:2, 3) Hann er kannski undir miklu tilfinningalegu álagi vegna þrýstings frá ættingjum sem eru ekki vottar. Biddu til Jehóva með honum. Biddu þann „sem heyrir bænir“ að veita honum styrk og hjálpa honum að hugsa skýrt. (Sálm. 65:2) Lesið saman í Biblíunni ef aðstæður leyfa. Þið getið líka lesið viðeigandi grein í ritum okkar, svo sem uppörvandi ævisögu.

20. Um hvað er rætt í næstu grein?

20 Við erum innilega þakklát fyrir að þekkja sannleikann um hina dánu og þá dásamlegu framtíð sem bíður þeirra. (Jóh. 5:28, 29) Við skulum því í orði og verki verja sannleika Biblíunnar af hugrekki og segja öðrum frá honum við hvert tækifæri sem við á. Í næstu grein ræðum við um aðra leið sem Satan notar til að halda fólki í andlegu myrkri – spíritisma. Við skoðum hvers vegna við þurfum að forðast hverja þá iðju og afþreyingarefni sem tengist þessari gildru Satans.

SÖNGUR 24 Göngum á fjall Jehóva

^ gr. 5 Satan og illir andar hans hafa blekkt fólk með lygum um það hvað gerist við dauðann. Þessar lygar hafa leitt til margra óbiblíulegra siða. Efni þessarar greinar hjálpar okkur að vera Jehóva trúföst þegar aðrir reyna að fá okkur til að fylgja slíkum siðum.

^ gr. 55 MYND: Vottar hugga ættingja sinn sem syrgir ástvin.

^ gr. 57 MYND: Vottur útskýrir trú sína vingjarnlega fyrir ættingjum sínum eftir að hafa rannsakað útfararsiði.

^ gr. 59 MYND: Öldungar í söfnuðinum veita bróður sem hefur misst ástvin huggun og stuðning.