Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 NÁMSGREIN 14

Hvernig geturðu fullnað þjónustu þína?

Hvernig geturðu fullnað þjónustu þína?

„Ger verk fagnaðarboða, fullna þjónustu þína.“ – 2. TÍM. 4:5.

SÖNGUR 57 Vitnum fyrir alls konar fólki

YFIRLIT *

Eftir að Jesús reis upp birtist hann lærisveinum sínum og sagði þeim að ,fara og gera allar þjóðir að lærisveinum‘. (grein 1.)

1. Hvað vilja allir þjónar Guðs gera og hvers vegna? (Sjá mynd á forsíðu.)

JESÚS KRISTUR sagði fylgjendum sínum að ,fara og gera allar þjóðir að lærisveinum‘. (Matt. 28:19) Allir trúfastir þjónar Guðs vilja vita hvernig þeir geta ,fullnað‘ þessa þjónustu sem þeim hefur verið falin. (2. Tím. 4:5) Hún er mikilvægari, göfugri og brýnni en nokkurt annað starf. Það getur hins vegar verið þrautin þyngri að nota eins mikinn tíma í boðuninni og við vildum.

2. Hvað getur gert okkur erfitt fyrir að fullna þjónustu okkar?

2 Margt annað er mikilvægt og krefst tíma okkar og krafta. Við gætum þurft að vinna marga tíma á dag til að sjá okkur og fjölskyldunni fyrir nauðsynjum. Kannski reynir annars konar fjölskylduábyrgð á okkur, við erum veik eða niðurdregin eða glímum við fylgikvilla ellinnar. Hvernig getum við fullnað þjónustu okkar ef við erum í slíkum aðstæðum?

3. Hvað má læra af því sem Jesús segir í Matteusi 13:23?

3 Við ættum ekki að láta deigan síga ef aðstæður okkar takmarka þann tíma sem við getum notað í þjónustu Jehóva. Jesús vissi að við gætum ekki öll borið jafn mikinn ávöxt í starfi Guðsríkis. (Lestu Matteus 13:23.) Jehóva metur mikils allt sem við gerum í þjónustu hans, svo framarlega sem við gerum okkar besta. (Hebr. 6:10-12) En okkur gæti fundist við geta gert meira miðað við aðstæður okkar. Í þessari grein skulum  við kanna hvernig við getum látið þjónustuna hafa forgang í lífi okkar, lifað einföldu lífi og tekið framförum í að boða og kenna. En hvað merkir það að fullna þjónustu sína?

4. Hvað merkir það að fullna þjónustu sína?

4 Til að fullna þjónustu okkar verðum við að taka eins mikinn þátt í boðunar- og kennslustarfinu og við getum. En það er ekki aðeins tíminn sem skiptir máli. Hvatir okkar skipta Jehóva miklu máli. Við þjónum honum * af öllum huga vegna þess að við elskum bæði hann og náungann. (Mark. 12:30, 31; Kól. 3:23) Að þjóna Guði af öllum huga merkir að gefa af sjálfum sér – að nota krafta sína sem best í þjónustunni. Ef við erum þakklát fyrir þann heiður að mega taka þátt í boðuninni reynum við að segja eins mörgum og við getum frá fagnaðarerindinu.

5-6. Lýstu með dæmi hvernig hægt er að setja boðunina í fyrsta sæti þótt maður hafi takmarkaðan tíma.

5 Ímyndum okkur ungan mann sem hefur gaman af að spila á gítar. Hann spilar hvenær sem tækifæri gefst. Dag einn fær hann vinnu við að spila á kaffihúsi um helgar. En launin duga ekki fyrir útgjöldum. Hann vinnur því á kassa í matvöruverslun frá mánudegi til föstudags. Þótt hann verji mestum tíma í versluninni á tónlistin hug hans og hjarta. Hann þráir að verða færari gítarleikari og gerast tónlistarmaður í fullu starfi. Hann nýtir því hvert tækifæri sem gefst til að spila tónlist þótt það sé ekki nema stutta stund í einu.

6 Á svipaðan hátt gætirðu haft takmarkaðan tíma til að sinna boðuninni þótt þú hafir yndi af henni. Þú reynir þitt besta til verða færari í að boða fagnaðarerindið þannig að það snerti hjörtu fólks. Þú veltir kannski fyrir þér hvernig þú getir sett boðunina í fyrsta sæti með svo margt á þinni könnu.

 SETTU ÞJÓNUSTUNA VIÐ GUÐ Í FYRSTA SÆTI

7-8. Hvernig getum við líkt eftir Jesú þegar kemur að boðuninni?

7 Jesús hafði framúrskarandi viðhorf til þjónustunnar við Guð. Honum fannst mikilvægast af öllu að tala um ríki Guðs. (Jóh. 4:34, 35) Hann gekk mörg hundruð kílómetra til að ná til sem flestra. Hann nýtti hvert tækifæri til að tala við fólk, hvort sem það var á götum úti eða á heimili þess. Allt líf Jesú snerist um þjónustuna við Guð.

8 Við getum líkt eftir Kristi með því að skapa tækifæri til að tala um fagnaðarerindið hvar og hvenær sem mögulegt er. Við erum fús til að fórna eigin þægindum til að geta boðað trúna. (Mark. 6:31-34; 1. Pét. 2:21) Sumir í söfnuðinum hafa tækifæri til að vera sérbrautryðjendur, brautryðjendur eða aðstoðarbrautryðjendur. Aðrir hafa lært nýtt tungumál eða flust á svæði þar sem þörf er á fleiri boðberum. Hins vegar hafa ekki allir boðberar tækifæri til þess. En þeir gera sitt besta og eiga stóran þátt í boðuninni. Sama hverjar aðstæður okkar eru ætlast Jehóva ekki til meira af okkur en við getum. Hann vill að við höfum öll ánægju af heilagri þjónustu okkar þegar við segjum frá „dýrð hins sæla Guðs“. – 1. Tím. 1:11, Biblían 1912; 5. Mós. 30:11.

9. (a) Hvernig setti Páll boðunina í fyrsta sæti þótt hann þyrfti að vinna fyrir sér? (b) Hvaða viðhorf hafði Páll til boðunarinnar eins og sjá má af Postulasögunni 28:16, 30, 31?

9 Páll postuli er okkur góð fyrirmynd um að setja boðunina í fyrsta sæti. Þegar hann var í Korintu í annarri trúboðsferð sinni hafði hann lítið handa á milli og varð að vinna fyrir sér um tíma með því að búa til tjöld. En Páll leit ekki á tjaldgerðina sem aðalstarf sitt. Hann vann til að geta séð fyrir sér og boðað Korintumönnum fagnaðarerindið án endurgjalds. (2. Kor. 11:7) Páll setti boðunina í fyrsta sæti þótt hann þyrfti að vinna, og prédikaði á hverjum hvíldardegi. Þegar aðstæður hans breyttust til hins betra gat hann notað meiri tíma í boðuninni. Hann „gaf sig allan að boðun orðsins og vitnaði fyrir Gyðingum að Jesús væri Kristur“. (Post. 18:3-5; 2. Kor. 11:8, 9) Síðar meir, þegar Páll var tvö ár í stofufangelsi í Róm, boðaði hann gestum sínum trúna og skrifaði bréf. (Lestu Postulasöguna 28:16, 30, 31.) Hann var staðráðinn í að láta ekkert trufla sig í þjónustunni. Hann skrifaði: „Guð hefur ... falið mér þessa þjónustu. Þess vegna læt ég ekki hugfallast.“ (2. Kor. 4:1) Við getum sömuleiðis sett þjónustuna við ríki Guðs í fyrsta sæti þótt við þurfum að nota tíma í veraldlega vinnu.

Við getum fullnað þjónustu okkar á marga vegu. (Sjá 10. og 11. grein.)

10-11. Hvernig getum við fullnað þjónustu okkar ef heilsan setur okkur takmörk?

10 Ef við getum ekki farið mikið hús úr húsi vegna aldurs eða veikinda getum við boðað trúna á aðra vegu. Trúboðar á fyrstu öld tóku fólk tali hvar sem það var að finna. Þeir nýttu hvert tækifæri til að tala um sannleikann – hús úr húsi, opinberlega og óformlega – hvar sem fólk varð á vegi þeirra. (Post. 17:17; 20:20) Ef við getum ekki gengið mikið gætum við setið á fjölförnum stað og boðað vegfarendum trúna. Við gætum líka vitnað óformlega, skrifað bréf eða hringt í fólk. Margir boðberar sem eru takmörkum  háðir hafa mikla ánægju af þessum boðunaraðferðum.

11 Þú getur fullnað þjónustu þína þótt heilsan setji þér takmörk. Tökum Pál postula aftur sem dæmi. Hann sagði: „Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.“ (Fil. 4:13) Páll þurfti á þessum styrk að halda þegar hann veiktist í einni trúboðsferð sinni. Hann útskýrði fyrir Galatamönnum: „Sjúkleiki minn varð tilefni til þess að ég fyrst boðaði ykkur fagnaðarerindið.“ (Gal. 4:13) Að sama skapi gætu veikindi þín gefið þér tækifæri til að segja fólki frá fagnaðarerindinu, svo sem læknum, hjúkrunarfræðingum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum. Margir þeirra eru í vinnunni þegar boðberar banka upp á heima hjá þeim.

GETURÐU EINFALDAÐ LÍFIÐ?

12. Hvað merkir það að hafa „heilt“ auga?

12 Jesús sagði: „Augað er lampi líkamans. Sé auga þitt heilt mun allur líkami þinn bjartur.“ (Matt. 6:22) Hvað átti hann við? Við þurfum að lifa einföldu lífi, einbeita okkur að einu markmiði og missa aldrei sjónar á því. Jesús setti okkur fordæmi með því að einbeita sér fyrst og fremst að þjónustunni. Hann kenndi líka lærisveinum sínum að einbeita sér að því að þjóna Jehóva og setja ríki hans í fyrsta sæti. Við líkjum eftir Jesú með því að gera þjónustuna að þungamiðju lífsins. Þannig leitum við „fyrst ríkis [Guðs] og réttlætis“. – Matt. 6:33.

13. Hvað getur hjálpað okkur að einbeita okkur að þjónustunni?

 13 Við getum einbeitt okkur að þjónustunni við Jehóva með því að einfalda lífið svo að við getum notað meiri tíma í að hjálpa öðrum að kynnast honum og læra að elska hann. * Getum við til dæmis breytt vinnutímanum þannig að við höfum meiri tíma til að boða trúna á virkum dögum? Gætum við dregið úr afþreyingu sem tekur mikið af tíma okkar?

14. Hvaða breytingar gerðu hjón nokkur til að geta einbeitt sér betur að boðuninni?

14 Skoðum hvað öldungur að nafni Elias og eiginkona hans gerðu. Hann segir: „Við gátum ekki verið brautryðjendur á þessum tíma en einhvers staðar urðum við að byrja. Við stigum því lítil skref til að nota meiri tíma í boðuninni. Við drógum til dæmis úr útgjöldum. Við áttuðum okkur líka á að við notuðum óhóflega mikinn tíma í afþreyingu og ákváðum að forgangsraða upp á nýtt. Auk þess báðum við yfirmenn okkar um sveigjanlegri vinnutíma. Þetta gerði okkur kleift að boða trúna á kvöldin, halda fleiri biblíunámskeið og taka þátt í boðuninni á virkum dögum tvisvar í mánuði. Við vorum svo ánægð!“

TAKTU FRAMFÖRUM Í AÐ BOÐA OG KENNA

Við getum tekið stöðugum framförum í boðuninni með því að nota það sem við lærum á samkomunni í miðri viku. (Sjá 15. og 16. grein.) *

15-16. Hvernig getum við orðið færari boðberar, samanber 1. Tímóteusarbréf 4:13, 15? (Sjá einnig rammann „ Markmið sem hjálpa mér að fullna þjónustuna“.)

15 Annað skref í átt að því að fullna þjónustu okkar er að verða færari boðberar. Í sumum atvinnugreinum þarf  fólk stöðugt að fá þjálfun og fræðslu til að bæta færni sína og kunnáttu. Það á einnig við um boðbera Guðsríkis. Við þurfum stöðugt að taka framförum í boðuninni. – Orðskv. 1:5; lestu 1. Tímóteusarbréf 4:13, 15.

16 En hvernig getum við tekið framförum? Með því að fylgjast vel með þeim leiðbeiningum sem við fáum á samkomunni Líf okkar og boðun. Á þessari vikulegu samkomu fáum við ómetanlega þjálfun sem hjálpar okkur jafnt og þétt að verða færari boðberar. Við getum til dæmis lært margt af leiðbeiningunum sem fundarstjórinn gefur þeim sem hafa nemendaverkefni. Næst þegar við segjum frá fagnaðarerindinu getum við nýtt okkur tillögurnar. Við gætum líka beðið umsjónarmann starfshópsins um ráð eða farið í boðunina með honum eða öðrum reyndum boðbera, brautryðjanda eða farandhirðinum. Við höfum meiri ánægju af að boða trúna og kenna fólki eftir því sem við verðum færari í að nota öll verkfærin í verkfærakistunni okkar.

17. Hvað máttu vera viss um þegar þú fullnar þjónustu þína?

17 Það er mikill heiður að fá að vera „samverkamenn Guðs“. (1. Kor. 3:9) Þú þjónar Jehóva með gleði þegar þú ,metur þá hluti rétt sem máli skipta‘ og einbeitir þér að þjónustunni við hann. (Fil. 1:10; Sálm. 100:2) Þú mátt vera viss um að hann gefur þér þann kraft sem þú þarft til að fullna þjónustu þína, sama hverjir erfiðleikar þínir eða takmörk eru. (2. Kor. 4:1, 7; 6:4) Þú hefur ástæðu til að gleðjast þegar þú sinnir þjónustunni af öllum huga, hvort sem aðstæður þínar leyfa að þú takir lítinn eða mikinn þátt í boðuninni. (Gal. 6:4) Með því að fullna þjónustu þína sýnirðu að þú elskar Jehóva og náungann. „Þegar þú gerir það muntu bæði frelsa sjálfan þig og áheyrendur þína.“ – 1. Tím. 4:16.

SÖNGUR 58 Leitum að friðarins vinum

^ gr. 5 Okkur hefur verið falið að boða fagnaðarerindið um Guðsríki og gera fólk að lærisveinum. Í þessari grein er rætt hvernig við getum fullnað þjónustu okkar, jafnvel þótt aðstæður okkar séu erfiðar. Við könnum einnig hvernig við getum tekið framförum í boðuninni og haft meiri ánægju af henni.

^ gr. 4 ORÐASKÝRING: Þjónusta okkar við Jehóva felur meðal annars í sér að boða og kenna, veita neyðaraðstoð og að byggja og viðhalda húsnæði sem söfnuðurinn á eða leigir. – Post. 11:29; 2. Kor. 5:18, 19.

^ gr. 13 Sjá tillögurnar sjö í rammanum „Hvernig geturðu einfaldað lífið?“ í Varðturninum júlí 2016, bls. 10.

^ gr. 62 MYNDIR: Bls. 6: Systir sýnir á samkomu í miðri viku hvernig fara má að í endurheimsókn. Meðan fundarstjórinn gefur henni leiðbeiningar skrifar hún minnispunkta í bæklinginn Að lesa og kenna. Í boðuninni næstu helgi notar hún það sem hún lærði á samkomunni.