Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 ÆVISAGA

Við fundum ,dýrmætu perluna‘

Við fundum ,dýrmætu perluna‘

WINSTON og Pamela (Pam) Payne starfa á deildarskrifstofunni í Ástralasíu. Þau hafa átt ánægjulegt líf saman en það hefur þó ekki verið þrautalaust. Þau hafa þurft að aðlagast framandi menningarheimum og urðu fyrir því áfalli að missa ófætt barn sitt. En þrátt fyrir það hefur kærleikurinn til Jehóva og þjóna hans ekki dvínað og þau hafa varðveitt gleðina í þjónustunni. Við tókum þau tali og báðum þau að segja frá reynslu sinni.

Winston, segðu okkur frá leit þinni að Guði.

Ég ólst upp á sveitabýli í Queensland í Ástralíu. Foreldrar mínir voru trúlausir og vegna þess að við bjuggum svo einangrað umgekkst ég ekki marga aðra en nánustu fjölskyldu mína. Þegar ég var um 12 ára fór ég að leita Guðs. Ég fór með bæn í von um að fá að kynnast sannleikanum um hann. Að því kom að ég fluttist að heiman og fékk vinnu í Adelaide í Suður-Ástralíu. Ég hitti Pam þegar ég var í fríi í Sydney, þá 21 árs. Hún sagði mér frá trúarhreyfingu sem heldur því fram að Bretar séu afkomendur hinna svokölluðu týndu ættkvísla Ísraels. Hreyfingin kennir að þessar ættkvíslir séu tíu ættkvíslir Norðurríkisins sem voru sendar í útlegð árið 740 f.Kr. Þegar ég kom aftur til Adelaide ræddi ég þetta við vinnufélaga minn sem var að kynna sér Biblíuna með aðstoð votta Jehóva. Eftir aðeins nokkurra klukkustunda umræður – aðallega um trúarskoðanir Vottanna – áttaði ég mig á að þetta var svar við bæninni sem ég bað þegar ég var drengur. Ég var að komast að sannleikanum um skapara minn og ríki hans. Ég hafði fundið ,dýrmætu perluna‘. – Matt. 13:45, 46.

Pam, þú fórst líka að leita að þessari perlu á unga aldri. Hvernig fannstu hana?

Ég ólst upp á trúuðu heimili í bænum Coffs Harbour í Nýja-Suður-Wales. Foreldrar mínir og amma og afi fylgdu kenningum bresk-ísraelsku trúarhreyfingarinnar. Okkur systkinunum þrem og mörgum systkinabörnum okkar var kennt að Guð hefði sérstaka  velþóknun á afkomendum Breta. Ég lét hins vegar ekki sannfærast og fannst ég ekki eiga náið samband við Guð. Þegar ég var 14 ára sótti ég ýmsar kirkjur í grenndinni, þar á meðal biskupakirkjuna, baptistakirkjuna og kirkju sjöunda dags aðventista. En ég var eftir sem áður andlega hungruð.

Síðar meir fluttumst við fjölskyldan til Sydney. Þar hitti ég Winston sem var þar í fríi. Eins og hann sagði leiddu samræður okkar til þess að hann fór að kynna sér Biblíuna með hjálp vottanna. Eftir það voru bréfin sem hann skrifaði mér uppfull af biblíuversum. Ég verð að viðurkenna að ég hafði áhyggjur í fyrstu, mér gramdist það jafnvel. En smám saman fór ég að átta mig á að þetta var sannleikurinn.

Árið 1962 fluttist ég til Adelaide til að vera nær Winston. Hann hafði hagað málum þannig að ég gæti búið hjá Thomas og Janice Sloman, vottahjónum sem höfðu verið trúboðar á Papúa Nýju-Gíneu. Þau voru einstaklega góð við mig. Ég var aðeins 18 ára og þau hjálpuðu mér að byggja upp samband við Jehóva. Ég fór því líka að kynna mér Biblíuna og fljótlega varð ég sannfærð um að ég hafði fundið sannleikann. Eftir að við Winston gengum í hjónaband tók við gefandi líf í þjónustu Jehóva. Þrátt fyrir erfiðleika lærðum við sífellt betur að meta þá fallegu perlu sem við höfðum fundið.

Winston, segðu okkur frá fyrstu árum þínum í þjónustu Jehóva.

A. Kort af ferðum okkar í farandstarfinu.

B. Frímerki frá sumum eyjunum. Kíribatí og Túvalú voru áður kallaðar Gilberts- og Ellice-eyjar.

C. Fallega kóraleyjan Funafuti á Túvalú, en hún er ein margra eyja sem við heimsóttum áður en trúboðar voru sendir þangað.

Fljótlega eftir að við Pam gengum í hjónaband opnaði Jehóva fyrir okkur „víðar dyr“ að auknum verkefnum í þjónustunni, þær fyrstu af mörgum. (1. Kor. 16:9) Bróðir Jack Porter (sem er nú með mér í deildarnefndinni í Ástralasíu) benti okkur á fyrstu dyrnar. Þegar hann heimsótti litla söfnuðinn okkar sem farandhirðir hvöttu hann og Roslyn konan hans okkur til að gerast brautryðjendur – og það vorum við í fimm ár. Þegar ég var 29 ára vorum við Pam beðin að hefja farandstarf á Suður-Kyrrahafseyjum en deildarskrifstofunni á Fídjí var þá falin umsjón með starfseminni þar. Eyjarnar voru Bandaríska Samóa, Samóa, Kíribatí, Naúrú, Níve, Tonga, Tókelá, Túvalú og Vanúatú.

Á þessum tíma var fólk á sumum afskekktustu eyjunum tortryggið gagnvart vottum Jehóva. Við þurftum því að vera varkár og gætin. (Matt. 10:16) Söfnuðirnir voru litlir og við gátum ekki alltaf gist hjá bræðrum og systrum. Við spurðum þess vegna þorpsbúa hvort við mættum gista hjá þeim og þeir voru alltaf mjög vingjarnlegir við okkur.

Þú hefur mikinn áhuga á þýðingarstarfinu, Winston. Hvernig kviknaði þessi áhugi?

Að kenna í öldungaskóla á Samóa.

Í þá daga höfðu trúsystkinin á Tonga aðeins nokkur smárit og bæklinga á tongversku sem er pólýnesískt mál. Í boðuninni notuðu þau námsbókina Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs á ensku. Þegar öldungarnir á svæðinu sóttu fjögurra vikna öldungaskóla samþykktu þrír þeirra að þýða bókina á tongversku þótt þeir hefðu takmarkaða enskukunnáttu. Pam vélritaði handritið og við sendum það til deildarskrifstofunnar í Bandaríkjunum til prentunar. Allt verkið tók um tvo mánuði. Bókin hjálpaði mörgum Tongverjum að kynnast sannleikanum þótt þýðingin hafi ekki verið upp á marga fiska. Við Pam erum ekki þýðendur en þetta verkefni vakti áhuga okkar á þessu starfi.

Pam, hvernig fannst þér lífið á eyjunum samanborið við Ástralíu?

Einn af gististöðum okkar meðan við vorum í farandstarfi.

Það var gerólíkt! Sums staðar var allt morandi í moskítóflugum, mikill hiti og raki, rottur, sjúkdómar og stundum lítið til af mat. En það var alltaf afslappandi að koma heim í lok dags og horfa út yfir hafið. Við  bjuggum í dæmigerðu pólýnesísku húsi með stráþaki og engum veggjum. Samóar kalla slík hús fale. Á björtum kvöldum horfðum við á kókospálmana bera við himin og mánann speglast í hafinu. Fegurðin var slík að við fundum okkur knúin til að hugleiða og biðja. Þannig viku neikvæðar hugsanir fyrir jákvæðum.

Okkur þótti afar vænt um börnin. Þau voru mjög skemmtileg og einkar forvitin þegar þau sáu okkur hvítu útlendingana. Þegar við heimsóttum eyjuna Níve strauk lítill drengur yfir loðinn handlegg Winstons og sagði: „Þú ert með flottar fjaðrir.“ Hann hafði greinilega aldrei séð svona loðna handleggi og vissi ekki alveg hvernig hann ætti að lýsa þeim.

Það stakk okkur að sjá hve margir lifðu við sára fátækt. Fólk bjó á fallegum stað en heilbrigðisþjónustan var ófullnægjandi og lítið drykkjarvatn að fá. En trúsystkini okkar virtust ekki hafa áhyggjur. Þau þekktu ekkert annað. Þau voru ánægð að vera umkringd fjölskyldunni og geta tilbeðið Jehóva og komið saman á samkomum. Fordæmi þeirra hjálpaði okkur að forgangsraða rétt og lifa einföldu lífi.

Stundum þurftirðu að sækja vatn og útbúa mat við mjög frumstæðar aðstæður. Hvernig fórstu að, Pam?

Pam að þvo fötin okkar á Tonga.

Ég hef föður mínum að þakka. Hann kenndi mér margt, eins og að kveikja opinn eld og elda við hann og hvernig hægt er að komast af með lítið. Í einni heimsókn okkar til Kíribatís gistum við í litlu húsi með stráþaki, bambusveggjum og gólfi úr þjappaðri kóralmöl. Til að elda einfalda máltíð gróf ég holu í gólfið til að gera eldstæði og notaði kókoshýði fyrir eldivið. Ég sótti vatn í brunn ásamt konunum á svæðinu. Til að draga vatnið upp festu þær mjótt band á endann á tveggja metra spýtu. Þetta leit út nokkurn veginn eins og veiðistöng. En í stað þess að festa öngul á enda bandsins festu þær dós. Konurnar biðu í röð og skiptust á að kasta út bandinu sínu. Síðan sneru þær úlnliðnum einmitt á réttu augnabliki svo að dósin veltist á hliðina og fylltist af vatni. Ég hélt að þetta væri ekkert mál – þar til röðin kom að mér. Ég kastaði bandinu mínu nokkrum sinnum en dósin lenti bara á vatninu og flaut. Eftir mikil hlátrasköll bauðst ein konan til að aðstoða mig. Heimamenn voru alltaf mjög hjálpsamir og vinalegir.

Þið nutuð þess bæði að starfa á eyjunum. Gætuð þið sagt okkur einhverjar frásögur?

Winston: Það tók okkur smá tíma að læra inn á suma siði. Ég skal nefna eitt dæmi. Þegar trúsystkinin buðu okkur í mat gáfu þau okkur vanalega allan matinn sem þau áttu. Í fyrstu vissum við ekki að við áttum að skilja eitthvað eftir handa þeim. Við borðuðum því allt sem var borið á borð fyrir okkur. Þegar okkur varð ljóst að við áttum að skilja eftir mat handa þeim gerðum við það. Trúsystkinin sýndu okkur skilning þótt okkur hafi stundum orðið á. Og þau voru hæstánægð að sjá okkur á hálfs árs fresti þegar við heimsóttum þau í farandstarfinu. Við vorum einu vottarnir sem þau hittu í þá daga fyrir utan þá sem bjuggu á svæðinu.

Á leið í boðunina á eyjunni Níve.

Heimsóknir okkar höfðu líka góð áhrif á fólkið á svæðinu. Margir þorpsbúar héldu að trúsystkinin hefðu sjálf fundið upp á trúnni. Þeir urðu því bæði undrandi og stórhrifnir þegar farandhirðishjón frá útlöndum heimsóttu þau.

Pam: Ein af mínum kærustu minningum er frá Kíribatí, en þar var söfnuður með aðeins fáeinum bræðrum og systrum. Itinikai Matera, eini öldungurinn, gerði sitt besta til að halda utan um okkur. Dag einn birtist hann með körfu sem í var aðeins eitt egg. „Handa ykkur,“ sagði hann. Hænuegg var sjaldgæf sjón fyrir okkur á þeim tíma. Þetta var ekki mikið en örlæti hans snerti hjörtu okkar.

 Nokkrum árum síðar misstuð þið ófætt barn ykkar. Hvað hjálpaði þér, Pam, að takast á við missinn?

Ég varð ófrísk árið 1973 þegar við Winston vorum á Suður-Kyrrahafseyjum. Við snerum aftur til Ástralíu en fjórum mánuðum síðar misstum við barnið okkar. Það var einnig mjög sárt fyrir Winston. Þetta var líka barnið hans. Sársaukinn dvínaði með tímanum en hann hvarf ekki að fullu fyrr en við fengum Varðturninn 15. apríl 2009. Í greininni „Spurningar frá lesendum“ var spurt: „Er einhver von um að barn, sem deyr í móðurkviði, hljóti upprisu?“ Greinin fullvissaði okkur um að málið væri í höndum Jehóva sem gerir alltaf það sem er rétt. Hann læknar þau mörgu sár sem þessi illi heimur veldur þegar hann felur syni sínum að ,brjóta niður verk Satans‘. (1. Jóh. 3:8) Greinin gerði okkur enn þakklátari fyrir dýrmætu „perluna“ sem við þjónar Jehóva eigum. Hvar værum við ef við hefðum ekki framtíðarvonina!

Eftir að við misstum barnið okkar tókum við aftur að þjóna Jehóva í fullu starfi. Við vorum nokkra mánuði á Betel í Ástralíu og síðan byrjuðum við aftur í farandstarfinu. Við störfuðum fjögur ár í sveitum Nýja-Suður-Wales og í Sydney en árið 1981 var okkur boðið á deildarskrifstofuna í Ástralíu, eins og hún var kölluð þá. Þar höfum við verið allar götur síðan.

Winston, þú hefur mikla reynslu af Suður-Kyrrahafseyjum. Kemur sú reynsla að gagni í deildarnefndinni í Ástralasíu?

Já, á ýmsa vegu. Fyrst var deildarskrifstofan í Ástralíu beðin að hafa umsjón með starfinu á Bandaríska Samóa og Samóa. Síðan sameinuðust deildarskrifstofurnar á Nýja-Sjálandi og í Ástralíu. Nú hefur deildarskrifstofan í Ástralasíu umsjón með starfinu í Ástralíu og á Bandaríska Samóa og Samóa, Cooks-eyjum, Níve, Nýja-Sjálandi, Tímor-Leste, Tonga og Tókelá – en ég hef fengið að heimsækja margar þessara eyja sem fulltrúi deildarskrifstofunnar. Að hafa unnið með trúföstum bræðrum og systrum á eyjunum hefur komið mér að miklu gagni þar sem ég þjóna þeim nú frá deildarskrifstofunni.

Winston og Pam við deildarskrifstofuna í Ástralasíu.

Að lokum langar mig til að segja að við Pam höfum lengi vel vitað að það eru ekki aðeins fullorðnir sem leita að Guði. Sú var raunin hjá okkur. Ungt fólk vill líka finna þessa ,dýrmætu perlu‘, jafnvel þótt aðrir í fjölskyldunni sýni því engan áhuga. (2. Kon. 5:2, 3; 2. Kron. 34:1-3) Það er alveg á hreinu að Jehóva er kærleiksríkur Guð sem vill að allir, jafnt ungir sem aldnir, hljóti eilíft líf.

Þegar við Pam hófum leitina að Guði fyrir rúmlega 50 árum óraði okkur ekki fyrir hvert hún myndi leiða okkur. Sannleikurinn um ríki Guðs er án efa ómetanleg perla. Við erum staðráðin í að halda í hana af öllum mætti!