Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Unglingar, einbeitið þið ykkur að markmiðum í þjónustu Jehóva?

Unglingar, einbeitið þið ykkur að markmiðum í þjónustu Jehóva?

„Fel Drottni verk þín og þá bera áform þín árangur.“ – ORÐSKV. 16:3.

SÖNGVAR: 135, 144

1-3. (a) Frammi fyrir hvaða áskorun standa allir unglingar og við hvað má líkja henni? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvernig geta ungmenni í söfnuðinum mætt þessari áskorun?

SEGJUM að þú sért á leiðinni út á land á mikilvægan viðburð. Til þess að komast þangað þarftu að fara í langa rútuferð. Á rútustöðinni eru margar rútur og enn fleiri farþegar. Það er eins gott að þú veist hvert ferðinni er heitið svo að þú finnir réttu rútuna. Ef þú færir í einhverja aðra rútu myndirðu fara í vitlausa átt.

2 Hægt er að líkja unglingum við þessa farþega. Þeir eiga langa ferð fram undan, ekki rútuferð heldur lífið sjálft. Stundum gæti þeim fundist allir möguleikarnir og ákvarðanirnar, sem þeir þurfa að taka, vera yfirþyrmandi. Þið sem eruð unglingar getið auðveldað ykkur lífið ef þið ákveðið hvert þið viljið stefna. Hvaða stefnu ættuð þið að taka í lífinu?

3 Í þessari grein eruð þið unglingar hvattir til að einbeita ykkur að því að gera vilja Jehóva. Það þýðir að hafa hann alltaf með í ráðum, til dæmis þegar þið takið ákvarðanir varðandi  menntun, vinnu og hvort þið ætlið að eignast maka og börn. Þið þurfið líka að setja ykkur markmið í þjónustunni við Jehóva. Unglingar, sem leggja áherslu á að þjóna Jehóva, geta verið vissir um að hann blessar áform þeirra. – Lestu Orðskviðina 16:3.

HVERS VEGNA AÐ SETJA SÉR MARKMIÐ Í ÞJÓNUSTUNNI?

4. Hvað skoðum við í þessari grein?

4 Það er skynsamlegt að setja sér markmið í þjónustunni við Jehóva snemma á lífsleiðinni. Hvers vegna? Skoðum þrjár ástæður fyrir því. Fyrstu tvær sýna fram á að þess konar markmið styrkja samband okkar við Jehóva. Sú þriðja bendir á hvernig það er okkur til góðs að setja okkur snemma markmið í þjónustunni.

5. Hver er aðalástæða þess að setja sér markmið í þjónustunni við Jehóva?

5 Þakklæti fyrir kærleika Jehóva og allt sem hann hefur gert fyrir okkur er aðalástæða þess að setja sér markmið í þjónustunni. Sálmaskáldið sagði: „Gott er að lofa Drottin ... Þú gleður mig, Drottinn, með dáðum þínum, ég fagna yfir verkum handa þinna.“ (Sálm. 92:2, 5) Hugsaðu um allt sem þú getur þakkað Jehóva fyrir – lífið, trúna, Biblíuna, söfnuðinn og dásamlegu framtíðarvonina. Með því að hafa markmiðin í þjónustu Jehóva í fyrirrúmi sýnirðu þakklæti fyrir þessar gjafir og þannig styrkirðu sambandið við hann.

6. (a) Hvaða áhrif hafa markmið í þjónustunni við Jehóva á samband okkar við hann? (b) Hvaða markmið er hægt að setja sér á unga aldri?

6 Önnur ástæðan er sú að þegar þú vinnur að markmiðum þínum gerirðu vel í þjónustunni við Jehóva og það gerir þig enn nánari honum. Páll postuli fullyrti: „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki ykkar og kærleikanum sem þið auðsýnduð honum.“ (Hebr. 6:10) Það er aldrei of snemmt að setja sér markmið. Christine var tíu ára þegar hún fór að lesa reglulega ævisögur um trúfasta votta. Þegar Toby var tólf ára setti hann sér það markmið að lesa alla Biblíuna áður en hann léti skírast. Maxim var ellefu ára þegar hann og Noemi, tíu ára systir hans, létu skírast. Þá settu þau sér það markmið að vinna á Betel. Þau hengdu umsókn um starf á Betel upp á vegg heima hjá sér til þess að minna sig á markmiðið. Gætir þú hugleitt hvaða markmið þú vilt setja þér og hvernig þú getur unnið að þeim? – Lestu Filippíbréfið 1:10, 11.

7, 8. (a) Hvers vegna er auðveldara að taka ákvarðanir ef maður hefur markmið? (b) Hvers vegna valdi Damaris að fara ekki í háskóla?

7 Þriðja ástæðan fyrir því að setja sér markmið snemma á lífsleiðinni tengist ákvörðunum. Ungt fólk þarf að taka ákvarðanir varðandi menntun, atvinnu og önnur mál. Að taka ákvarðanir er eins og að velja réttu leiðina þegar maður kemur að gatnamótum. Þegar þú veist hvert ferðinni er heitið er auðvelt að velja réttu leiðina. Ef þú veist hver markmið þín eru í lífinu er að sama skapi auðveldara að taka réttar ákvarðanir. Í Orðskviðunum 21:5 segir: „Áform hins iðjusama færa arð.“ Því fyrr sem þú setur þér markmið því fyrr nærðu árangri. Gott dæmi um slíkt er kona að nafni Damaris. Hún þurfti að taka mikilvæga ákvörðun þegar hún var unglingur.

8 Damaris útskrifaðist úr menntaskóla með framúrskarandi einkunnir. Henni bauðst styrkur til laganáms í háskóla en valdi frekar að vinna í banka. Hún útskýrir hvers vegna: „Ég ákvað snemma að gerast brautryðjandi þannig að ég  sóttist eftir hlutastarfi. Með háskólagráðu í lögfræði hefði ég getað haft háar tekjur en þá hefðu líkurnar á hlutastarfi verið litlar.“ Damaris hefur verið brautryðjandi í 20 ár. Er hún ánægð með markmið sitt og ákvörðunina sem hún tók sem unglingur? „Í bankanum, þar sem ég vinn, er ég oft í samskiptum við lögfræðinga. Ég væri í sams konar vinnu og þeir ef ég hefði farið í laganám, en margir þeirra eru óánægðir með vinnuna sína. Ákvörðun mín að gerast brautryðjandi hefur forðað mér frá því að velja starfsframa sem hefði gert mig óánægða. Í staðinn hef ég þjónað Jehóva með gleði í mörg ár.“

9. Hvers vegna eiga unglingarnir okkar hrós skilið?

9 Þúsundir unglinga í söfnuðum okkar um allan heim eiga hrós skilið. Þeir láta sambandið við Jehóva og markmiðin í þjónustunni hafa forgang. Þeir njóta lífsins en læra jafnframt að fylgja leiðsögn Jehóva í öllum málum. Það á jafnt við um menntun, vinnu og fjölskyldulíf. „Treystu Drottni af öllu hjarta,“ skrifaði Salómon. „Minnstu hans á öllum vegum þínum, þá mun hann gera leiðir þínar greiðar.“ (Orðskv. 3:5, 6) Unglingarnir í söfnuðinum eru dýrmætir í augum Jehóva og honum þykir afar vænt um þá. Hann veitir þeim vernd sína, leiðsögn og blessun.

VERTU VEL UNDIRBÚINN AÐ SEGJA ÖÐRUM FRÁ TRÚNNI

10. (a) Hvers vegna ætti boðunin að vera ofarlega á forgangslistanum? (b) Hvernig getum við orðið fær í að útskýra trú okkar?

10 Unglingur, sem einbeitir sér að því að vera Jehóva velþóknanlegur, leggur mikla áherslu á boðunina. Jesús Kristur lagði áherslu á að ,fyrst ætti að prédika fagnaðarerindið‘. (Mark. 13:10) Vegna þess hve boðunin er áríðandi ætti hún að vera ofarlega á forgangslistanum. Geturðu sett þér það markmið að boða trúna oftar? Gætirðu orðið brautryðjandi? En hvað ef þér finnst leiðinlegt að boða trúna? Hvernig geturðu orðið færari í að útskýra trú þína? Tvennt getur hjálpað þér: Undirbúðu þig vel og gefstu ekki upp á að segja öðrum frá því sem þú hefur lært. Kannski mun þá gleðin, sem hlýst af boðuninni, koma þér á óvart.

Hvernig undirbýrðu þig til að segja öðrum frá trúnni? (Sjá 11. og 12. grein.)

11, 12. (a) Hvernig geta unglingar undirbúið sig til að segja öðrum frá trúnni? (b) Hvernig nýtti Luca tækifæri til að boða trúna í skólanum?

11 Þú gætir byrjað á að undirbúa svör við algengum spurningum skólafélaganna eins og: „Hvers vegna trúirðu á Guð?“ Á vefsíðu okkar, jw.org, er að finna greinar sem hjálpa unglingum að finna út hvernig þeir geta svarað spurningunni sjálfir. Farðu inn á BIBLÍAN OG LÍFIÐ > UNGLINGAR. Þar finnurðu vinnublaðið „Hvers vegna trúi ég á Guð?“ Það hjálpar þér að undirbúa þitt eigið svar. Á vinnublaðinu er að finna þrjú biblíuvers sem þú getur notað þegar þú útskýrir trú þína – Hebreabréfið 3:4, Rómverjabréfið 1:20 og Sálm 139:14. Þú getur undirbúið þig með vinnublöðunum til að svara fleiri spurningum. – Lestu 1. Pétursbréf 3:15.

12 Þegar tækifæri gefst skaltu hvetja skólafélagana sjálfa til að skoða jw.org. Luca gerði einmitt það. Í skólanum var verið að ræða um mismunandi trúarbrögð þegar Luca tók eftir að í kennslubókinni voru rangar fullyrðingar um Votta Jehóva. Þótt hann hafi verið hikandi bað hann um leyfi til að leiðrétta þessar röngu upplýsingar og kennarinn samþykkti það. Luca útskýrði trú sína en lét ekki þar við sitja heldur sýndi  öllum bekknum vefsíðuna okkar. Kennarinn setti öllum bekknum fyrir að horfa á töfluteikninguna Þú getur sigrast á einelti án þess að nota hnefana. Luca var himinlifandi að geta svarað fyrir trú sína.

13. Hvers vegna ættum við ekki að gefast upp þegar á móti blæs?

13 Ekki missa kjarkinn þótt leiðin sé ekki greið. (2. Tím. 4:2) Þegar þú stendur frammi fyrir vandamálum skaltu halda þig við markmið þín. Katharina var 17 ára þegar hún ákvað að vitna fyrir öllum vinnufélögum sínum. Einn þeirra var margoft dónalegur við hana en hún lét það ekki slá sig út af laginu. Hegðun hennar í þessum erfiðu aðstæðum hafði mikil áhrif á annan vinnufélaga sem heitir Hans. Það varð til þess að hann byrjaði að lesa ritin okkar, fór að kynna sér Biblíuna og lét skírast. Katharina hafði þá flust í burtu og vissi ekkert af þessu. Þið getið rétt ímyndað ykkur gleði hennar þegar hún var á samkomu með fjölskyldu sinni 13 árum síðar og Hans var kynntur sem gestaræðumaður. Mikið var gott að Katharina gafst ekki upp á því að vitna fyrir vinnufélögum sínum.

HAFÐU MARKMIÐIN SKÝRT Í HUGA

14, 15. (a) Hvað ættu unglingar að hafa í huga þegar þeir verða fyrir þrýstingi frá öðrum? (b) Hvað geta unglingar gert til að standast hópþrýsting?

14 Hvatningin í greininni hingað til hefur beinst að því hvernig þú getur tekið ákvörðun um að einbeita þér að því að gera vilja Jehóva. Það þýðir að þungamiðjan í lífinu sé markmið þín í þjónustunni við Jehóva. Jafnaldrarnir láta sennilega lífið snúast um það að skemmta sér. Þeir vilja eflaust fá þig með líka. Fyrr eða síðar þarftu að sýna hversu ákveðinn þú ert í að standa við ákvarðanir þínar. Láttu ekki undan hópþrýstingi. Þú færir aldrei í rútu sem er ekki á þinni leið, eins og kom fram í myndlíkingunni í upphafi greinar – jafnvel þó að í rútunni sé mikið fjör.

15 Hægt er að bregðast við hópþrýstingi á ýmsa vegu. Þú getur til dæmis forðast aðstæður þar sem þú veist að þú  verður fyrir freistingum. (Orðskv. 22:3) Hafðu í huga afleiðingarnar af því að fylgja slæmri hegðun annarra. (Gal. 6:7) Það er líka gott að átta sig á því að maður þarf á leiðsögn að halda. Ef þú ert auðmjúkur ertu opinn fyrir leiðbeiningum frá foreldrum þínum og andlega þroskuðum trúsystkinum. – Lestu 1. Pétursbréf 5:5, 6.

16. Segðu frá dæmi um hvernig auðmýkt kom að gagni.

16 Auðmýkt hjálpaði bróður að nafni Christoph að þiggja góð ráð. Hann byrjaði að mæta í líkamsrækt stuttu eftir að hann lét skírast. Önnur ungmenni á staðnum hvöttu hann til þess að gerast meðlimur í íþróttafélaginu þeirra. Christoph ræddi um það við öldung. Öldungurinn bað hann að hugsa vel um hætturnar sem því fylgja, eins og hættuna á því að smitast af keppnisanda. Christoph gekk í félagið samt sem áður. Með tímanum áttaði hann sig á því að íþróttin var ofbeldisfull og jafnvel hættuleg. Hann ræddi þá við nokkra öldunga og þeir gáfu honum allir ráð byggð á Biblíunni. Christoph segir: „Jehóva sendi mér góða leiðbeinendur og ég hlustaði, þótt það hafi tekið mig smá tíma.“ Ertu nægilega auðmjúkur til þess að hlusta á góð ráð?

17, 18. (a) Hvers óskar Jehóva unglingum? (b) Hvernig er hægt að komast hjá vonbrigðum með unglingsárin? Lýstu með dæmi.

17 „Gleð þig, ungi maður, [eða kona] í æsku þinni og láttu liggja vel á þér unglingsár þín.“ (Préd. 11:9) Jehóva vill augljóslega að það liggi vel á ykkur unglingunum. Greinin hefur sérstaklega beint athygli að einni leið til þess, að einbeita sér að markmiðum sínum í þjónustunni við Jehóva og hafa hann með í öllum áformum. Því fyrr sem þú gerir það því fyrr finnur þú fyrir leiðsögn, vernd og blessun Jehóva. Hugleiddu öll þau góðu ráð sem þú finnur í orði Guðs og taktu til þín orðin í Prédikaranum 12:1: „Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum.“

18 Maður er ekki unglingur nema í stuttan tíma. Ungt fólk verður fullorðið. Því miður sjá margir eftir því að hafa fylgt rangri stefnu þegar þeir voru unglingar eða að hafa ekki haft nein markmið, en það er alveg jafn svekkjandi. En unglingar, sem einbeita sér að þjónustunni við Jehóva, geta glaðst yfir því langt fram á fullorðinsár. Mirjana finnur þessa gleði, en hún var efnilegur íþróttamaður þegar hún var unglingur. Henni var boðið að keppa á Vetrarólympíuleikunum en ákvað í staðinn að þjóna Jehóva í fullu starfi. Og nú, 30 árum síðar, er hún enn í fullu starfi ásamt eiginmanni sínum. Hún segir: „Frægð, heiður, völd og auður eru skammvinn og ómerkileg markmið í lífinu. Að þjóna Guði og leggja okkar af mörkum til að hjálpa fólki að kynnast honum eru göfug markmið sem framtíð er í.“

19. Nefndu kosti þess að einbeita sér að markmiðum í þjónustu Jehóva snemma á lífsleiðinni.

19 Unglingar í söfnuðinum eiga hrós skilið fyrir það hvernig þeir mæta þessum áskorunum og fyrir að vera staðráðnir í að einbeita sér að þjónustunni við Jehóva. Það gera þeir með því að vinna að markmiðum sínum í þjónustunni og með því að setja boðunina í forgang. Þeir eru ákveðnir í að láta heiminn ekki trufla sig og mega vera vissir um að það sem þeir leggja á sig sé vel þess virði. Unglingar hafa kærleiksríkan stuðning trúsystkina sinna og þegar þeir láta sambandið við Jehóva hafa forgang bera áform þeirra árangur.