Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Í endurskoðaðri útgáfu „Nýheimsþýðingarinnar“ frá 2013 (ekki til á íslensku) er Sálmur 144:12-15 heimfærður upp á þjóna Guðs. Í eldri þýðingu voru versin heimfærð upp á óguðlega útlendinga sem eru nefndir í versi 11. Hvers vegna var orðalaginu breytt?

Hægt er að skilja hebreska textann á báða vegu. Breytingin á orðalagi er byggð á eftirfarandi:

  1. Breytt orðalag styðst bæði við orðfræði og málfræði. Vers 12-15 í Sálmi 144 eru tengd við versin á undan með hebreska orðinu asjer sem er fyrsta orðið í versi 12. Hægt er að þýða asjer á ýmsa vegu. Til dæmis má skilja það sem tilvísunarfornafnið „sem“. Þannig var það skilið í eldri þýðingunni. Þar af leiðandi var hið góða, sem er nefnt í 12.-14. versi, sett í samband við óguðlega sem nefndir eru í versunum á undan. En asjer getur líka lýst afleiðingu eða árangri og má þá þýða sem „svo að“, „þetta“ eða „þá“. Í þýðingunni frá 2013 er það þýtt sem „þá“ og það er einnig gert í ýmsum öðrum biblíuþýðingum.

  2. Breytt orðalag er í takt við sálminn í heild. Orðið „þá“ í 12. versi gefur til kynna að blessunin, sem er lýst í 12. til 14. versi, eigi við réttláta – þá sem biðja um að vera bjargað úr greipum óguðlegra (vers 11). Breytingin endurspeglast einnig í versi 15 þar sem sama hugsun er tvítekin. Þar er talað um ,sæla þjóð‘ og í báðum tilvikum er átt við sömu þjóð – þá „sem á Jehóva að Guði“. (NW) Einnig ber að hafa í huga að í hebreska frumtextanum eru engin greinarmerki, svo sem tilvitnunarmerki. Þýðendur þurfa því að ákvarða merkinguna með hliðsjón af ljóðrænum stíl hebreskunnar, samhenginu og skyldum biblíuversum.

  3. Breytt orðalag er í samræmi við önnur biblíuvers þar sem Guð lofar að blessa trúa þjóna sína. Með því að þýða orðið asjer með þeim hætti sem nú er gert endurómar sálmurinn þá traustu von Davíðs að Guð veiti Ísraelsmönnum hamingju og velsæld eftir að hafa frelsað þá úr hendi óvina þeirra. (3. Mós. 26:9, 10; 5. Mós. 7:13; Sálm. 128:1-6) Til dæmis segir í 5. Mósebók 28:4: „Blessaður er ávöxtur kviðar þíns og ávöxtur akurlands þíns og ávöxtur búfjár þíns, kálfar nauta þinna og lömb sauðfjár þíns.“ Þjóðin bjó vissulega við einstakan frið og velsæld í stjórnartíð Salómons Davíðssonar. Að sumu leyti vísar stjórn Salómons fram til stjórnar Messíasar. – 1. Kon. 4:20 – 5:1; Sálm. 72:1-20.

Breytt orðalag í Sálmi 144 breytir ekki skilningi okkar á kenningum Biblíunnar. Það hefur hins vegar í för með sér að allur sálmurinn endurspeglar enn sterkar þá von sem þjónar Jehóva hafa lengi borið í brjósti – að hann afmái hina óguðlegu og í kjölfar þess búi hinir réttlátu við varanlegan frið og velsæld. – Sálm. 37:10, 11.