Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjónum Jehóva, Guði frelsisins

Þjónum Jehóva, Guði frelsisins

„Þar sem andi Drottins er, þar er frelsi.“ – 2. KOR. 3:17.

SÖNGVAR: 49, 73

1, 2. (a) Af hverju var þrældómur og frelsi ofarlega í huga fólks á dögum Páls postula? (b) Hver sagði Páll að væri uppspretta raunverulegs frelsis?

ÞEGNAR Rómaveldis, þar sem frumkristnir menn bjuggu, hreyktu sér af því að vera málsvarar laga, réttar og frelsis. En Rómverjar áttu þó vald sitt og dýrð að miklu leyti þrælum að þakka. Á tímabili var um þriðjungur íbúanna þrælar. Þrældómur og frelsi var almenningi án efa ofarlega í huga, þar á meðal kristnum mönnum.

2 Páll postuli skrifaði oft um frelsi í bréfum sínum. En markmið hans var ekki að koma á samfélagslegum eða pólitískum umbótum eins og margir leituðust eftir á þeim tíma. Páll og trúsystkini hans treystu ekki á menn eða stjórnir manna til að veita þeim frelsi. Öllu heldur lögðu þau hart að sér við að hjálpa fólki að kynnast fagnaðarerindinu um ríki Guðs og leiða því fyrir sjónir hve dýrmæt lausnarfórn Jesú Krists væri. Páll benti trúsystkinum sínum á uppsprettu raunverulegs frelsis. Í síðara bréfi sínu til kristinna  manna í Korintu sagði hann skýrum orðum: „Drottinn er andinn og þar sem andi Drottins er, þar er frelsi.“ – 2. Kor. 3:17.

3, 4. (a) Í hvaða samhengi sagði Páll orðin í 2. Korintubréfi 3:17? (b) Hvað þurfum við að gera til að hljóta frelsið sem Jehóva veitir?

3 Fyrr í þessu bréfi til Korintumanna talar Páll um hvað gerðist þegar Móse kom niður af Sínaífjalli eftir að hafa verið í návist engils Jehóva. Ljómi stóð af andliti Móse. Þegar fólkið sá hann varð það hrætt og Móse huldi þá andlitið með skýlu. (2. Mós. 34:29, 30, 33; 2. Kor. 3:7, 13) Páll segir: „En ,þegar einhver snýr sér til Drottins er skýlan tekin burt‘.“ (2. Kor. 3:16) Hvað átti hann við?

4 Eins og fram kom í greininni á undan er Jehóva, skapari alls, sá eini sem hefur algert og ótakmarkað frelsi. Það er því rökrétt að frelsi ríki í návist Jehóva og „þar sem andi Drottins er“. En til að hljóta þetta frelsi og njóta góðs af því þurfum við að snúa okkur til Jehóva, það er að segja að eignast náið samband við hann. Ísraelsmenn í eyðimörkinni sáu það sem Jehóva gerði aðeins frá mannlegum sjónarhóli. Hugur þeirra og hjörtu voru forhert og hulin skýlu. Þeir hugsuðu eingöngu um að nota nýfengið frelsi sitt frá þrælkuninni í Egyptalandi til að fullnægja eigin löngunum. – Hebr. 3:8-10.

5. (a) Hvers konar frelsi gefur andi Jehóva? (b) Hvernig vitum við að fjötrar þurfa ekki að takmarka frelsið sem Jehóva veitir? (c) Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur?

5 Frelsið, sem andi Jehóva gefur, felur þó meira í sér en að vera frjáls úr bókstaflegri þrælkun. Andi Jehóva getur frelsað okkur undan synd og dauða og þrælkun falsguðadýrkunar ásamt því sem henni fylgir. Það er langt umfram það sem menn geta veitt okkur. (Rómv. 6:23; 8:2) Hvílíkt frelsi! Menn geta notið þess jafnvel þótt þeir séu þrælar eða í fangelsi. (1. Mós. 39:20-23) Systir Nancy Yuen og bróðir Harold King eru dæmi um það en þau sátu bæði í fangelsi árum saman vegna trúar sinnar. Þú getur séð þau segja sögu sína í Sjónvarpi Votta Jehóva. (Sjá VIÐTÖL OG FRÁSÖGUR > AÐ STANDAST PRÓFRAUNIR.) Veltum nú fyrir okkur tveim spurningum: Hvernig getum við sýnt að við metum frelsið að verðleikum? Og hvernig getum við notað frelsið skynsamlega?

METUM AÐ VERÐLEIKUM FRELSIÐ SEM GUÐ GEFUR OKKUR

6. Hvernig sýndu Ísraelsmenn að þeir kunnu ekki að meta frelsið sem Jehóva gaf þeim?

6 Þegar við fáum gjöf sem er okkur mikils virði langar okkur til að sýna þeim sem gaf okkur hana þakklæti. Ísraelsmenn kunnu ekki að meta frelsið sem Jehóva gaf þeim með því að leysa þá úr ánauðinni í Egyptalandi. Aðeins fáeinum mánuðum eftir að þeir fengu frelsi fóru þeir að sakna þess sem þeir höfðu haft að borða og drekka í Egyptalandi. Þeir kvörtuðu yfir því sem Jehóva gaf þeim og vildu meira að segja snúa aftur til Egyptalands. Hugsaðu þér! Þeir mátu ,fisk, gúrkur, melónur, blaðlauk, lauk og hvítlauk‘ meira en frelsið sem Jehóva gaf þeim til að tilbiðja hann. Er nokkur furða að Jehóva skyldi reiðast þjóð sinni? (4. Mós. 11:5, 6, 10; 14:3, 4) Við getum dregið dýrmætan lærdóm af þessu.

7. Hvernig breytti Páll í samræmi við eigin ráð í 2. Korintubréfi 6:1 og hvernig getum við farið að fordæmi hans?

 7 Páll postuli varaði alla kristna menn við að líta á það sem sjálfsagðan hlut að Jehóva hefur gefið okkur frelsi fyrir milligöngu sonar síns, Jesú Krists. (Lestu 2. Korintubréf 6:1.) Páli fannst hann vera þræll syndar og dauða, og það olli honum eymd og angist. Samt sem áður sagði hann þakklátur: „Guði sé lof að Jesús Kristur, Drottinn vor, frelsar.“ Hvernig gerir hann það? Páll sagði trúsystkinum sínum: „Því að lögmál þess anda sem lífið gefur í Kristi Jesú hefur frelsað mig frá lögmáli syndarinnar og dauðans.“ (Rómv. 7:24; 8:2) Við ættum, líkt og Páll, aldrei að líta á það sem sjálfsagðan hlut að Jehóva hefur frelsað okkur úr fjötrum syndar og dauða. Lausnargjaldið gerir okkur kleift að þjóna Guði okkar með hreinni samvisku, og það veitir okkur sanna gleði. – Sálm. 40:9.

Notar þú valfrelsið í eigin þágu eða í þágu Guðsríkis? (Sjá 8.-10. grein.)

8, 9. (a) Hvaða viðvörun gaf Pétur postuli varðandi frelsi okkar? (b) Hvaða hættum stöndum við frammi fyrir?

8 Auk þess að tjá þakklæti okkar þurfum við að gæta þess að misnota ekki dýrmætt frelsi okkar. Pétur postuli varaði við því að nota frelsið sem afsökun fyrir því að fullnægja röngum löngunum. (Lestu 1. Pétursbréf 2:16.) Þessi viðvörun minnir á það sem gerðist hjá Ísraelsmönnum í eyðimörkinni. Og hún á enn við, jafnvel betur en þá. Satan og heimur hans bjóða upp á sífellt fleiri freistingar hvað varðar klæðnað og útlit, mat og drykk, skemmtun og afþreyingu og fjölmargt annað. Auglýsingastofur skáka oft fram aðlaðandi fólki til að reyna að telja okkur trú um að við þurfum að eignast alls konar hluti sem við höfum enga þörf fyrir. Það er auðvelt að misnota frelsið með því að falla fyrir slíkum brellum.

9 Leiðbeiningar Péturs eiga líka við um stærri mál, svo sem val á menntun og atvinnu. Til dæmis er þrýst á unga fólkið að sækjast eftir æðri menntun. Þeim er talin trú um að hún opni þeim dyr að góðum og vel launuðum störfum. Oft er slegið upp tölum til að sýna launamuninn milli þeirra sem hafa lokið háskólanámi og þeirra sem hafa aðeins grunnmenntun. Æðri menntun getur virst freistandi þegar unga fólkið stendur frammi fyrir vali sem getur haft varanleg áhrif á líf þess. Hvað ættu unglingar og foreldrar þeirra að hafa í huga?

10. Hvað þurfum við að hafa í huga þegar við tökum ákvarðanir í persónulegum málum?

10 Þessar ákvarðanir snúast um persónuleg mál og því gæti sumum fundist að þeir ættu að hafa frelsi til að velja það sem þeim sýnist svo framarlega sem það brýtur ekki gegn samvisku þeirra. Ef til vill hafa þeir í huga það sem Páll skrifaði kristnum mönnum í Korintu varðandi mat: „Hvers vegna skyldi samviska annars manns geta heft frelsi mitt?“ (1. Kor. 10:29) Vissulega höfum við frelsi til að taka eigin ákvarðanir um menntun og atvinnu en við verðum þó að muna að frelsið er skilyrðum háð og að allar ákvarðanir okkar hafa einhverjar afleiðingar. Af þeirri ástæðu sagði Páll: „Allt er leyfilegt en ekki er allt gagnlegt. Allt er leyfilegt en ekki byggir allt upp.“ (1. Kor. 10:23) Þetta sýnir okkur fram á að þó að við höfum frelsi til að taka eigin ákvarðanir í persónulegum málum er ýmislegt sem  skiptir mun meira máli en hvað við viljum sjálf.

NOTUM FRELSIÐ SKYNSAMLEGA MEÐ ÞVÍ AÐ ÞJÓNA GUÐI

11. Hvers vegna frelsaði Jehóva okkur?

11 Þegar Pétur varaði við því að misnota frelsið benti hann líka á hvernig við ættum að nota það. Hann hvatti okkur til að „þjóna Guði“. Jehóva frelsaði okkur fyrir milligöngu Jesú undan lögmáli syndarinnar og dauðans til að við gætum vígt líf okkar því að „þjóna Guði“.

12. Hvernig settu Nói og fjölskylda hans okkur gott fordæmi?

12 Besta leiðin til að nota frelsið er að verja tíma okkar og kröftum í að þjóna Jehóva af kappi. Það kemur í veg fyrir að við látum lífið snúast um veraldleg markmið og eigin langanir. (Gal. 5:16) Tökum ættföðurinn Nóa og fjölskyldu hans sem dæmi. Þau bjuggu í ofbeldisfullum og siðlausum heimi. En þau létu ekki smitast af löngunum og markmiðum fólks í kringum þau. Hvernig tókst þeim það? Þau kusu að halda sér uppteknum af öllu því sem Jehóva hafði falið þeim að gera – að smíða örkina, vara aðra við flóðinu og safna matarbirgðum fyrir sig og dýrin. „Nói gerði allt eins og Guð bauð honum.“ (1. Mós. 6:22) Fyrir vikið lifðu Nói og fjölskylda hans af þegar heimur þess tíma leið undir lok. – Hebr. 11:7.

13. Hvaða verkefni var Jesú falið sem hann fól síðan fylgjendum sínum?

13 Hvað hefur Jehóva sagt okkur að gera nú á dögum? Sem lærisveinar Jesú er okkur vel kunnugt um hvaða verkefni Guð hefur falið okkur. (Lestu Lúkas 4:18, 19.) Satan, „guð þessarar aldar“, hefur blindað meirihluta mannkyns. Hann heldur fólki í fjötrum falstrúarbragða, stjórnmálaafla og efnahagskerfisins. (2. Kor. 4:4) Líkt og Jesús höfum við það verkefni að hjálpa fólki að kynnast og tilbiðja Jehóva, Guð frelsisins. (Matt. 28:19, 20) Það er hægara sagt en gert. Í sumum  löndum verður sífellt algengara að fólk sé áhugalaust og jafnvel fjandsamlegt gagnvart okkur. Við ættum öll að velta fyrir okkur hvort við getum notað frelsið til að styðja boðun Guðsríkis í enn ríkari mæli.

14, 15. Hvað hafa margir þjónar Jehóva ákveðið að gera? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

14 Það er ákaflega hvetjandi að sjá hve margir hafa einfaldað líf sitt til að geta þjónað Jehóva í fullu starfi þar sem þeir skynja hve tíminn er orðinn naumur. (1. Kor. 9:19, 23) Sumir þeirra starfa á heimasvæði sínu en aðrir hafa flust þangað sem þörfin er meiri. Á síðustu fimm árum hafa fleiri en 250.000 gerst brautryðjendur og brautryðjendur um allan heim eru nú orðnir yfir 1,1 milljón. Það er stórkostlegt að svo margir skuli nota frelsi sitt skynsamlega með því að þjóna Jehóva á þennan hátt. – Sálm. 110:3.

15 Hvað hjálpaði þessum bræðrum og systrum að nota frelsi sitt skynsamlega? Tökum John og Judith sem dæmi en þau hafa boðað trúna í ýmsum löndum síðastliðin 30 ár. Þau minnast þess að þegar Brautryðjendaskólinn hóf göngu sína árið 1977 voru nemendurnir hvattir til að flytjast þangað sem þörfin var meiri. John segir að hann hafi oft skipt um vinnu til að þau gætu lifað einföldu lífi og haft þetta markmið skýrt í huga. Að lokum tókst þeim að flytjast til annars lands. Með því að biðja til Jehóva og reiða sig á hann gátu þau sigrast á erfiðleikum eins og að læra nýtt tungumál og aðlagast nýrri menningu og framandi loftslagi. Hvaða áhrif hafði það á þau að þjóna Jehóva á erlendri grund í öll þessi ár? „Mér fannst ég vera á kafi í besta starfi sem ég hef nokkurn tíma kynnst,“ segir John. „Jehóva varð mér raunverulegri, hann varð mér eins og kærleiksríkur faðir. Nú skildi ég betur Jakobsbréfið 4:8: ,Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur.‘ Ég hafði fundið það sem ég leitaði að – ánægjulegt og innihaldsríkt líf.“

16. Hvernig hafa þúsundir votta notað frelsi sitt skynsamlega þrátt fyrir takmarkandi aðstæður?

16 Aðstæðna sinna vegna geta ekki allir þjónað Jehóva í fullu starfi í mörg ár eins og þau John og Judith. En margir grípa tækifærið til að starfa sem sjálfboðaliðar við byggingarverkefni á vegum safnaðarins víðs vegar um heim. Um 27.000 bræður og systur buðu til dæmis fram krafta sína þegar aðalstöðvarnar voru byggðar í Warwick í New York. Þau lögðu hönd á plóginn í allt frá hálfum mánuði upp í ár eða lengur. Mörg þeirra færðu miklar fórnir til að geta unnið í Warwick. Þau eru frábærar fyrirmyndir um að nota frelsi sitt til að heiðra og lofa Jehóva, Guð frelsisins.

17. Hvaða stórkostlega framtíð bíður þeirra sem nota frelsi sitt skynsamlega?

17 Við erum þakklát fyrir að hafa kynnst Jehóva og að geta notið þess frelsis sem sönn tilbeiðsla veitir. Sýnum með ákvörðunum okkar að við kunnum að meta þetta frelsi. Í stað þess að misnota það skulum við nota það og tækifærin sem það veitir til að þjóna Jehóva eins vel og við getum. Þá getum við hlakkað til að njóta þeirrar blessunar sem Jehóva lofar í þessum spádómi: ,Sjálf sköpunin verður leyst úr ánauð sinni undir hverfulleikanum og fær frelsið í dýrðinni með börnum Guðs.‘ – Rómv. 8:21.