Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Útnefndir bræður – lærið af Tímóteusi

Útnefndir bræður – lærið af Tímóteusi

Á SÍÐASTLIÐNU ári voru þúsundir bræðra útnefndir öldungar og safnaðarþjónar í söfnuðum Votta Jehóva um heim allan. Ef þú ert í hópi þessara kæru bræðra geturðu sannarlega glaðst yfir þessu nýja verkefni þínu.

Það er þó skiljanlegt ef þú ert líka svolítið áhyggjufullur. Ungur öldungur að nafni Jason segir: „Þegar ég var útnefndur fannst mér verkefnin yfirþyrmandi.“ Móse og Jeremía fannst þeir fyrst um sinn ekki vera hæfir til að sinna þeim verkefnum sem Jehóva fól þeim. (2. Mós. 4:10; Jer. 1:6) Hvernig geturðu sigrast á slíkum tilfinningum og haldið áfram að taka framförum ef þér líður eins og þeim? Skoðum fordæmi lærisveinsins Tímóteusar. – Post. 16:1-3.

LÍKIÐ EFTIR TÍMÓTEUSI

Tímóteus var líklega að nálgast tvítugt eða rúmlega tvítugur þegar Páll postuli bauð honum að vera ferðafélagi sinn. Þar sem Tímóteus var svona ungur hefur hann kannski skort sjálfstraust til að byrja með og hikað við að taka frumkvæðið í sínu nýja starfi. (1. Tím. 4:11, 12; 2. Tím. 1:1, 2, 7) Áratugi síðar gat Páll samt sagt við söfnuðinn í Filippí: „Ég vona að Drottinn Jesús geri mér bráðum fært að senda Tímóteus til ykkar ... Ég hef engan honum líkan.“ – Fil. 2:19, 20.

Hvers vegna var Tímóteus svona góður öldungur? Skoðum sex svið þar sem við getum lært af fordæmi hans.

1. Honum var innilega annt um fólk. Páll sagði trúsystkinum sínum í Filippí: ,Tímóteus lætur sér einlæglega annt um hagi ykkar.‘ (Fil. 2:20) Já, Tímóteusi var umhugað um fólk. Það skipti hann miklu máli að það ætti gott samband við Jehóva og hann lagði sig fúslega fram við að hjálpa því.

Vertu ekki eins og strætóbílstjórinn sem hugsar meira um að vera á réttum tíma á hverri strætóbiðstöð en að taka upp farþega. William hefur verið öldungur í rúm 20 ár og er mikils metinn. Hann ráðleggur nýútnefndum bræðrum að elska trúsystkini sín. „Einbeitið ykkur að þörfum þeirra frekar en að skipulagslegum atriðum.“

2. Hann setti andlegu málin í fyrsta sæti. Páll benti á muninn á Tímóteusi og öðrum þegar hann sagði: „Allir leita þess sem sjálfra þeirra er en ekki þess sem Krists Jesú er.“ (Fil. 2:21) Páll skrifaði þetta þegar hann var í Róm. Hann hafði tekið eftir að bræðurnir þar voru of uppteknir af eigin hugðarefnum. Að vissu leyti voru þeir sérhlífnir. En það átti ekki við um Tímóteus. Þegar tækifæri gáfust til að efla boðun fagnaðarerindisins hugsaði hann eins og Jesaja sem sagði: „Hér er ég. Send þú mig.“ – Jes. 6:8.

Hvernig geturðu fundið jafnvægi milli þess að sinna skyldum þínum innan safnaðarins og á öðrum sviðum? Í fyrsta lagi þarftu að forgangsraða. „Metið þá hluti rétt sem máli skipta,“ sagði Páll. (Fil. 1:10) Forgangsraðaðu eins og Guð gerir. Í öðru lagi er  mikilvægt að einfalda lífið. Ýttu því frá þér sem stelur tíma þínum og kröftum. Páll hvatti Tímóteus til að ,flýja æskunnar girndir en stunda réttlæti, trú, kærleika og frið‘. – 2. Tím. 2:22.

3. Hann lagði hart að sér í heilagri þjónustu. Páll minnti Filippímenn á hvernig Tímóteus hafði starfað og sagði: „Þið vitið hvernig hann hefur reynst, að hann hefur þjónað að boðun fagnaðarerindisins með mér eins og barn með föður sínum.“ (Fil. 2:22) Tímóteus var ekki latur. Hann vann ötullega með Páli og það styrkti vináttuböndin milli þeirra.

Það vantar aldrei verkefni í söfnuði Guðs nú á dögum. Þau veita mikla ánægju og geta dregið þig nær trúsystkinum þínum. Hafðu það því að markmiði að vera ,síauðugur í verki Drottins‘. – 1. Kor. 15:58.

4. Hann fór eftir því sem hann lærði. Páll skrifaði Tímóteusi: „Þú hefur fylgt mér í kenningu, hegðun, ásetningi, trú, langlyndi, kærleika, þolgæði.“ (2. Tím. 3:10) Þar sem Tímóteus fór eftir því sem hann lærði varð hann hæfur til að taka á sig enn meiri ábyrgð. – 1. Kor. 4:17.

Hefurðu einhvern reyndan bróður til að leiðbeina þér? Ef ekki, væri þá ekki gott finna einhvern sem gæti gert það? Tom, sem hefur verið öldungur í áraraðir, segir: „Reyndur öldungur tók mig að sér og kenndi mér mjög margt. Ég bað hann oft um ráð og nýtti mér þau. Þannig varð ég fljótlega öruggari.“

5. Hann lagði sig fram um að verða færari. Páll sagði við Tímóteus: „Æf sjálfan þig í guðrækni.“ (1. Tím. 4:7) Íþróttamenn eru oft með þjálfara en þeir þurfa líka að æfa sig. Páll bætti við: „Ver kostgæfinn við að lesa upp úr Ritningunni, uppörva og kenna ... Stunda þetta, ver allur í þessu til þess að framför þín sé öllum augljós.“ – 1. Tím. 4:13-15.

Þú þarft líka að halda áfram að brýna hæfileika þína. Leyfðu þér ekki að staðna í trúnni og vertu vel að þér í nýjustu leiðbeiningunum frá söfnuðinum. Gættu þess að verða ekki sjálfsöruggur um of og hugsa að þú hafir svo mikla reynslu að þú getir tekið á öllum málum án þess að lesa þér vandlega til um þau. Eins og Tímóteus þarftu stöðugt að hafa „gát á sjálfum þér og fræðslunni“. – 1. Tím. 4:16.

6. Hann treysti á anda Jehóva. Páll sagði Tímóteusi varðandi þjónustu hans: „Varðveittu hið góða, sem þér er trúað fyrir, með hjálp heilags anda sem í okkur býr.“ (2. Tím. 1:14) Tímóteus þurfti að treysta á anda Guðs til að geta varðveitt þjónustuverkefni sín og sinnt þeim vel.

Donald hefur verið öldungur í áratugaraðir en hann segir: „Útnefndir bræður þurfa að láta sér annt um samband sitt við Guð. Þeim sem gera það ,eykst æ kraftur‘. Ef þeir biðja um anda Guðs og þroska með sér ávöxt hans verða þeir trúsystkinum sínum til mikillar blessunar.“ – Sálm. 84:8; 1. Pét. 4:11.

LÁTIÐ YKKUR ANNT UM VERKEFNI YKKAR

Það er ákaflega hvetjandi að sjá svona marga nýútnefnda bræður, eins og þig, taka framförum í trúnni. Jason, sem sagt var frá í byrjun greinar, segir: „Ég hef lært margt á þeim tíma sem ég hef verið öldungur og er orðinn öruggari með sjálfan mig. Núna hef ég mikla ánægju af verkefnum mínum og lít á það sem heiður að fá að sinna þeim.“

Ætlar þú að halda áfram að taka framförum í trúnni? Reyndu að líkja eftir Tímóteusi. Þá getur þú líka verið þjónum Guðs til blessunar.