Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 NÁMSGREIN 32

Styrkjum trú okkar á skaparann

Styrkjum trú okkar á skaparann

„Trú er ... sannfæring um þann veruleika sem ekki er hægt að sjá.“ – HEBR. 11:1.

SÖNGUR 11 Sköpunin lofar Guð

YFIRLIT *

1. Hvað hefur þér verið kennt um skapara okkar?

EF ÞÚ ert alinn upp sem vottur Jehóva hefurðu líklega lært um Jehóva frá unga aldri. Þér var kennt að hann væri skaparinn, að hann hefði aðlaðandi persónuleika og kærleiksríka fyrirætlun með mannkynið. – 1. Mós. 1:1; Post. 17:24–27.

2. Hvernig líta sumir á þá sem trúa á skapara?

2 Margir trúa hins vegar ekki að Guð sé til, hvað þá að hann sé skaparinn. Þeir trúa að lífið hafi kviknað fyrir tilviljun og síðan þróast hægt frá svokölluðum einföldum lífsformum yfir í flóknari. Sumir þeirra hafa mikla menntun. Þeir halda því ef til vill fram að vísindin hafi sannað að það sem Biblían segir sé rangt og að trú á skapara sé fyrir fáfrótt, óskynsamt eða auðtrúa fólk.

3. Hvers vegna er mikilvægt að við byggjum upp trú okkar?

3 Munu skoðanir áhrifamikilla manna grafa undan trú okkar á því að Jehóva sé kærleiksríkur skapari? Það veltur að stórum hluta á því hvers vegna við trúum því að Jehóva hafi skapað heiminn. Er það vegna þess að okkur var sagt að trúa því eða vegna þess að við höfum tekið okkur sjálf tíma til að rannsaka sönnunargögnin? (1. Kor. 3:12–15) Það er alveg sama hversu lengi við höfum verið vottar Jehóva, við þurfum öll að halda áfram að styrkja trú okkar. Þegar við gerum það látum við ekki blekkjast af „heimspeki og innantómum blekkingum“ sem menn kenna en stangast á við orð Guðs. (Kól. 2:8; Hebr. 11:6) Í þessari grein fáum við hjálp til að skoða (1) hvers vegna margir trúa ekki á skapara, (2) hvernig við getum byggt upp trú á Jehóva skapara okkar og (3) hvernig við getum haldið áfram að styrkja trú okkar.

 HVERS VEGNA TRÚA MARGIR EKKI Á SKAPARA?

4. Á hverju er ósvikin trú byggð samkvæmt Hebreabréfinu 11:1 og neðanmáls?

4 Sumt fólk heldur að trú feli í sér að trúa án þess að hafa nokkrar sannanir. En samkvæmt Biblíunni er það ekki ósvikin trú. (Lestu Hebreabréfið 11:1 og neðanmáls.) Taktu eftir að trú á það sem er ósýnilegt, eins og Jehóva, Jesú og himneskt ríki, byggist á sannfærandi rökum. (Hebr. 11:3) Vottur Jehóva sem er lífefnafræðingur orðar það þannig: „Trú okkar er ekki blind trú sem hunsar vísindalegar staðreyndir.“

5. Hvers vegna trúa svona margir að lífið hafi ekki verið skapað?

5 Hvers vegna trúa svona margir að Guð hafi ekkert með uppruna lífsins að gera ef það eru til fullnægjandi sannanir fyrir tilvist skapara? Sumir hafa einfaldlega aldrei rannsakað sönnunargögnin sjálfir. Vottur Jehóva að nafni Robert segir: „Ég dró þá ályktun að heimurinn væri ekki skapaður fyrst það var aldrei minnst á það í skólanum. Það var ekki fyrr en á þrítugsaldri að ég talaði við votta Jehóva og komst að því að í Biblíunni væri að finna sannfærandi rök fyrir sköpun.“ * – Sjá rammann „ Hvatning til foreldra“.

6. Hvers vegna trúa sumir ekki að til sé skapari?

6 Sumir trúa ekki á skapara vegna þess að þeir segjast aðeins geta trúað á það sem þeir geta séð. Þeir gera að sjálfsögðu undantekningu þegar um er að ræða ósýnileg fyrirbæri eins og þyngdaraflið, sem er viðurkennd staðreynd þegar allt kemur til alls. Sú trú sem Biblían fjallar  um felur í sér sannanir fyrir annars konar „veruleika sem ekki er hægt að sjá“. (Hebr. 11:1) Það kostar tíma og fyrirhöfn að rannsaka sönnunargögnin og margt fólk skortir vilja til að leggja það á sig. Sá sem rannsakar ekki sönnunargögnin sjálfur getur komist að þeirri niðurstöðu að Guð sé ekki til.

7. Trúir ekkert menntað fólk að Guð hafi skapað heiminn? Skýrðu svarið.

7 Sumir vísindamenn hafa sannfærst um að Guð hafi skapað alheiminn eftir að hafa rannsakað sönnunargögnin. * Kannski hafa sumir líkt og Robert, sem áður er minnst á, einfaldlega dregið þá ályktun að það sé ekki til skapari því að  sköpun hefur aldrei verið kennd í háskólum. Margir vísindamenn hafa hins vegar kynnst Jehóva og farið að elska hann. Rétt eins og þessir vísindamenn þurfum við öll að byggja upp trú á Guð óháð því hvaða menntun við höfum. Enginn annar getur gert það fyrir okkur.

HVERNIG BYGGJUM VIÐ UPP TRÚ Á SKAPARANN?

8, 9. (a) Hvaða spurningu skoðum við núna? (b) Hvernig kemur það þér að gagni að rannsaka sköpunarverkið?

8 Hvernig geturðu byggt upp trú þína á skaparann? Skoðum fernt sem þú getur gert.

9 Skoðaðu sköpunarverkið. Þú getur styrkt trú þína á skaparann með því að skoða vandlega dýrin, plönturnar og stjörnurnar. (Sálm. 19:2; Jes. 40:26) Því betur sem þú rannsakar þetta þeim mun sannfærðari verður þú um að Jehóva sé skaparinn. Í ritum okkar er oft að finna greinar sem útskýra margt varðandi sköpunina. Ekki veigra þér við að lesa slíkar greinar, jafnvel þótt þér finnist erfitt að skilja þær til fulls. Reyndu að skilja eins mikið og þú getur. Ekki gleyma að horfa aftur á fallegu myndböndin um sköpunina sem hafa verið sýnd á umdæmismótum undanfarin ár og er nú að finna á vefsetri okkar jw.org.

10. Nefndu dæmi um hvernig sköpunarverkið ber vitni um tilvist skapara. (Rómverjabréfið 1:20)

10 Þegar þú rannsakar sköpunarverkið skaltu taka vel eftir hvað það leiðir í ljós um skapara okkar. (Lestu Rómverjabréfið 1:20.) Sólin okkar sér okkur fyrir hita og ljósi sem er nauðsynlegt öllu lífi á jörðinni en hún gefur líka frá sér hættulega útfjólubláa geisla. Við þurfum vernd fyrir þessum geislum. Og hana fáum við! Heimili okkar, jörðin, hefur sinn eigin verndarskjöld – ósonlag sem hindrar að þessi hættulega geislun nái til okkar. Magnið af ósoni eykst eftir því sem útfjólublá geislun frá sólinni verður sterkari. Ertu ekki sammála því að það hljóti einhver að vera á bak við þetta ferli og að hann hljóti að vera kærleiksríkur og snjall skapari?

11. Hvar geturðu fundið trústyrkjandi upplýsingar um sköpunarverkið? (Sjá rammann „ Efni sem byggir upp trúna“.)

11 Þú getur fundið margar trústyrkjandi upplýsingar um sköpunina í Efnislykli að ritum Votta Jehóva og með því að leita á jw.org. Þú gætir byrjað á greinum og myndböndum í greinaröðinni „Býr hönnun að baki?“ Þetta efni er sett fram í stuttu máli og kynnir fáeinar merkilegar staðreyndir um dýr og annað í sköpunarverkinu. Þar er líka að finna dæmi um hvernig vísindamenn hafa reynt að líkja eftir því sem þeir sjá í náttúrunni.

12. Hverju ættum við að veita athygli þegar við rannsökum Biblíuna?

12 Rannsakaðu Biblíuna. Lífefnafræðingurinn sem er minnst á fyrr í greininni trúði ekki upphaflega á skapara. Með tímanum sannfærðist hann hins vegar um tilvist hans. Hann segir: „Trú mín var ekki eingöngu byggð á því sem ég hafði rannsakað á sviði vísinda. Hún byggðist einnig á því sem ég lærði í Biblíunni.“ Þú hefur ef til vill góða þekkingu á Biblíunni. En til að halda áfram að byggja upp trú á skapara þinn verðurðu að halda áfram að rannsaka orð Guðs. (Jós. 1:8; Sálm. 119:97) Taktu eftir því hve nákvæmlega Biblían lýsir því sem gerðist til forna. Taktu eftir spádómum hennar og  innra samræmi. Það getur styrkt trú þína á að kærleiksríkur og vitur skapari hafi gert okkur og að Biblían sé innblásið orð hans. * – 2. Tím. 3:14; 2. Pét. 1:21.

13. Nefndu dæmi um viskuna sem er að finna í orði Guðs.

13 Taktu eftir því þegar þú rannsakar Biblíuna hve gagnleg ráð hennar eru. Hún varaði til dæmis fyrir löngu við því að ást á peningum væri skaðleg og ylli „miklum þjáningum“. (1. Tím. 6:9, 10; Orðskv. 28:20; Matt. 6:24) Er þessi viðvörun enn í gildi? Í bókinni The Narcissism Epidemic segir: „Á heildina litið er efnishyggjufólk vansælla og niðurdregnara en aðrir og sjálf löngunin í meiri peninga kemur niður á andlegri líðan fólks. Það kvartar líka meira undan líkamlegum kvillum.“ Biblían gefur því gott ráð þegar hún varar við ást á peningum. Dettur þér í hug aðrar meginreglur í Biblíunni sem hafa reynst gagnlegar? Því meira sem við metum leiðbeiningar Biblíunnar því betur reiðum við okkur á þá sígildu visku sem kærleiksríkur skapari okkar veitir okkur. (Jak. 1:5) Fyrir vikið er líf okkar ánægjulegra. – Jes. 48:17, 18.

14. Hvað lærirðu um Jehóva með því að rannsaka Biblíuna?

14 Rannsakaðu Biblíuna með það að markmiði að kynnast Jehóva betur. (Jóh. 17:3) Eftir því sem þú rannsakar Biblíuna betur sérðu að hún dregur upp skýra mynd af persónuleika sem er í samræmi við þá eiginleika sem endurspeglast í sköpunarverkinu. Þessir eiginleikar hljóta að tilheyra raunverulegri persónu. Þeir geta ekki verið sprottnir af ímyndunarafli einhvers. (2. Mós. 34:6, 7; Sálm. 145:8, 9) Eftir því sem þú kynnist Jehóva betur styrkist trú þín á hann, kærleikur þinn til hans vex og vinátta þín við hann verður sterkari.

15. Hvaða gagn hefurðu af því að segja öðrum frá trú þinni?

15 Segðu öðrum frá trú þinni á Guð. Þegar þú gerir það verður trú þín sterkari. En hvað ef einhver sem þú boðar trúna efast um tilvist Guðs og þú veist ekki hvað þú átt að segja? Reyndu að finna efni frá söfnuðinum sem útskýrir það sem Biblían kennir og sýndu viðkomandi. (1. Pét. 3:15) Þú getur líka beðið trúsystkini með meiri reynslu um hjálp. Hvort sem viðmælandinn tekur svar Biblíunnar til greina eða ekki hafðir þú gagn af leitinni. Trú þín verður sterkari. Fyrir vikið ertu ekki varnarlaus gagnvart röngum fullyrðingum þeirra sem virðast svo vitrir og gáfaðir en segjast ekki trúa á skapara.

HÖLDUM TRÚ OKKAR STERKRI

16. Hvað getur gerst ef við höldum ekki áfram að byggja upp og viðhalda trú okkar?

16 Við verðum að halda áfram að byggja upp og viðhalda trú okkar á Jehóva, sama hversu lengi við höfum þjónað honum. Hvers vegna? Vegna þess að trú okkar getur veikst ef við gerum það ekki. Munum að trú felur í sér sannfærandi rök fyrir veruleika sem ekki er hægt að sjá. Við getum hæglega gleymt því sem við getum ekki séð. Þess vegna kallaði Páll skort á trú „syndina sem er auðvelt að flækja sig í“. (Hebr. 12:1) Hvernig getum við forðast þessa gildru? – 2. Þess. 1:3.

17. Hvaða hjálp þurfum við á að halda til að viðhalda trú okkar?

 17 Biddu Jehóva innilega um heilagan anda hans og gerðu það oft. Hvers vegna? Vegna þess að trú er hluti af ávexti andans. (Gal. 5:22, 23) Við getum ekki byggt upp og viðhaldið trú á skapara okkar án hjálpar heilags anda hans. Jehóva gefur okkur heilagan anda ef við höldum áfram að biðja hann um hann. (Lúk. 11:13) Við getum jafnvel beðið: „Gefðu okkur meiri trú.“ – Lúk. 17:5.

18. Hvaða dýrmætu gjafar njótum við núna samkvæmt Sálmi 1:2, 3?

18 Hafðu góða reglu á sjálfsnámi þínu í orði Guðs. (Lestu Sálm 1:2, 3.) Þegar þessi sálmur var ritaður höfðu fáir Ísraelsmenn afrit af lögum Guðs í heild. En konungurinn og prestarnir höfðu aðgang að afritum og á sjö ára fresti voru gerðar ráðstafanir til að karlar, konur, börn og aðkomumenn fengju að hlusta á upplestur úr lögum Guðs. (5. Mós. 31:10–12) Á dögum Jesú áttu aðeins fáir bókrollu af ritningunum, flest eintök voru geymd í samkunduhúsunum. Nú á dögum hafa aftur á móti flestir aðgang að orði Guðs, í heild eða að hluta. Það er ákaflega dýrmætt. Hvernig getum við sýnt að við erum þakklát fyrir að hafa aðgang að Biblíunni?

19. Hvað verðum við að gera til að viðhalda sterkri trú?

19 Við getum sýnt að við kunnum að meta það að hafa orð Guðs með því að lesa það reglulega. Við getum ekki leyft okkur að láta sjálfsnám vera háð tilviljun og sinna því bara þegar okkur finnst við hafa tíma til þess. Við getum haft sterka trú með því að taka okkur reglulega tíma til að rannsaka orð Guðs.

20. Hvað ættum við að vera ákveðin í að gera?

20 Ólíkt þeim sem eru ,vitrir og gáfaðir‘ að áliti heimsins höfum við trausta trú sem er byggð á orði Guðs. (Matt. 11:25, 26) Við höfum rannsakað Biblíuna og komist að því hvers vegna ástandið í heiminum hefur farið versnandi og hvað Jehóva ætlar að gera í málinu. Verum því ákveðin í að styrkja trú okkar og hjálpa eins mörgum og mögulegt er til að eignast trú á skaparann. (1. Tím. 2:3, 4) Og við hlökkum til þess tíma þegar allir jarðarbúar taka undir það sem segir í Opinberunarbókinni 4:11: „Jehóva Guð okkar, þú ert þess verður að fá dýrðina ... því að þú skapaðir allt.“

SÖNGUR 2 Þú heitir Jehóva

^ gr. 5 Í Biblíunni segir skýrt að Jehóva Guð hafi skapað allt. En margir trúa því ekki. Þeir halda því fram að lífið hafi kviknað af sjálfu sér. Fullyrðingar þeirra vekja ekki efasemdir ef við gerum allt sem við getum til að styrkja trú okkar á Guð og Biblíuna. Í þessari grein er útskýrt hvernig við getum gert það.

^ gr. 5 Í mörgum skólum er sköpunin ekki rædd sem möguleg skýring á tilveru okkar. Sumir kennarar segja að slík umræða bryti í bága við trúfrelsi nemenda.

^ gr. 7 Í Watch Tower Publications Index er að finna athugasemdir meira en 60 sérfræðinga, þar á meðal vísindamanna, sem trúa á sköpun. Þú finnur þetta efni undir viðfangsefninu „Science“, undir flettunni „scientists expressing belief in creation“. Sum af þessum viðtölum er að finna í Efnislykli að ritum Votta Jehóva. Þú finnur þau undir viðfangsefninu „Tækni og vísindi“, undir millifyrirsögninni „Viðtal“.

^ gr. 12 Sjá til dæmis greinina „Eiga vísindin og Biblían samleið?“ í Vaknið! apríl 2011 og greinina „Spádómar Jehóva rætast alltaf“ í Varðturninum 1. janúar 2008.