Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 NÁMSGREIN 30

Metum mikils að fá að tilheyra fjölskyldu Jehóva

Metum mikils að fá að tilheyra fjölskyldu Jehóva

„Þú gerðir hann ögn lægri englunum og krýndir hann dýrð og heiðri.“ – SÁLM. 8:5NW.

SÖNGUR 123 Verum hlýðin skipan Guðs

YFIRLIT *

1. Hvaða spurningar gætu komið upp í hugann þegar við hugleiðum það sem Jehóva hefur skapað?

ÞEGAR við leiðum hugann að gríðarstórum alheiminum sem Jehóva hefur skapað er okkur kannski innanbrjósts eins og sálmaritaranum Davíð sem spurði Jehóva: „Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar, hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans, og mannsins barn að þú vitjir þess?“ (Sálm. 8:4, 5) Líkt og Davíð lítum við kannski á smæð okkar í samanburði við alheiminn og undrumst að Jehóva skuli yfirleitt hugsa til okkar. En eins og við munum sjá lét Jehóva sig ekki einungis varða fyrstu mennina, Adam og Evu, heldur leyfði hann þeim líka að vera hluti af fjölskyldu sinni.

2. Hvers ætlaðist Jehóva til af Adam og Evu?

2 Adam og Eva voru fyrstu jarðnesku börn Jehóva, hann var ástríkur himneskur faðir þeirra. Hann vænti þess að hjónin legðu sitt af mörkum sem hluti af fjölskyldunni. „Guð sagði við þau: ,Verið frjósöm, fjölgið ykkur og fyllið jörðina, gerið ykkur hana undirgefna.‘“ (1. Mós. 1:28) Hann vildi að þau eignuðust börn og hugsuðu vel um jarðneskt heimili sitt. Ef Adam og Eva hefðu verið hlýðin og gert það sem Jehóva ætlaðist til af þeim hefðu þau og afkomendur þeirra fengið að tilheyra fjölskyldu Guðs að eilífu.

3. Hvers vegna getum við sagt að Adam og Eva hafi notið virðingar í fjölskyldu Jehóva?

3 Adam og Eva nutu virðingar í fjölskyldu Jehóva. Davíð sagði um manninn sem Jehóva skapaði: „Þú gerðir hann ögn lægri englunum og krýndir hann dýrð og heiðri.“ (Sálm. 8:5, NW) Jehóva gaf mönnum að vísu ekki sama  vald, greind og hæfileika og hann gaf englunum. (Sálm. 103:20) Samt eru mennirnir aðeins „ögn lægri“ þessum voldugu andaverum. Það er magnað! Jehóva gaf fyrstu foreldrum okkar sannarlega frábæra byrjun.

4. Hvernig fór fyrir Adam og Evu vegna þess að þau óhlýðnuðust Jehóva og hvað ræðum við í þessari grein?

 4 Því miður kom að því að Adam og Eva óhlýðnuðust Jehóva og fengu ekki lengur að vera í fjölskyldu hans. Það hefur haft hræðilegar afleiðingar í för með sér fyrir afkomendur þeirra eins og við skoðum síðar í greininni. En fyrirætlun Jehóva hefur ekki breyst. Hann vill að hlýðnir menn séu börn hans um alla framtíð. Fyrst skoðum við hvernig Jehóva hefur sýnt að við erum dýrmæt í augum hans. Síðan ræðum við hvað við getum gert núna til að sýna að við viljum tilheyra fjölskyldu Guðs. Að lokum skoðum við þá blessun sem jarðnesk börn Jehóva munu njóta að eilífu.

HVERNIG HEFUR JEHÓVA SÝNT AÐ HANN METUR MENNINA MIKILS?

Hvernig hefur Jehóva sýnt okkur virðingu? (Sjá 5.–11. grein.) *

5. Hvernig getum við sýnt Guði þakklæti fyrir að gera okkur eftir sinni mynd?

5 Jehóva sýndi okkur virðingu með því að gera okkur eftir sinni mynd. (1. Mós. 1:26, 27) Þar sem við erum gerð eftir mynd Guðs getum við ræktað og sýnt marga af dásamlegum eiginleikum hans, eins og kærleika, samúð, tryggð og réttlæti. (Sálm. 86:15; 145:17) Við heiðrum Jehóva þegar við ræktum með okkur slíka eiginleika og sönnum að við erum honum þakklát. (1. Pét. 1:14–16) Við verðum glöð og ánægð þegar við gleðjum himneskan föður okkar með hegðun okkar. Og vegna þess að Jehóva gerði okkur eftir sinni mynd erum við fær um að verða þess konar manneskjur sem hann vill hafa í fjölskyldunni sinni.

6. Hvernig sýndi Jehóva mönnum virðingu þegar hann útbjó jörðina?

6 Jehóva útbjó einstakt heimili fyrir okkur. Jehóva bjó jörðina undir komu mannsins löngu áður en hann skapaði hann. (Job. 38:4–6; Jer. 10:12) Jehóva gaf okkur gnægð góðra gjafa til að njóta vegna þess að hann er hugulsamur og örlátur. (Sálm. 104:14, 15, 24) Við og við leit hann á það sem hann hafði skapað og „sá að það var gott“. (1. Mós. 1:10, 12, 31) Hann sýndi mönnunum virðingu með því að leyfa þeim að „ríkja yfir“ öllum stórkostlegum verkum sínum á jörðinni. (Sálm. 8:7) Fyrirætlun Guðs er að fullkomið mannkyn njóti gleðinnar af því að annast þetta fallega sköpunarverk að eilífu. Þakkarðu Jehóva reglulega fyrir þetta dásamlega loforð?

7. Hvernig gefur Jósúabók 24:15 til kynna að maðurinn hafi frjálsan vilja?

7 Jehóva hefur gefið okkur frjálsan vilja. Við getum valið þá leið sem við viljum fara í lífinu. (Lestu Jósúabók 24:15.) Möguleikinn til að velja kallast frjáls vilji. Kærleiksríkur Guð okkar gleðst þegar við kjósum að þjóna honum. (Sálm. 84:12; Orðskv. 27:11) Við getum notað frjálsa viljann á góðan hátt á mörgum sviðum lífsins. Skoðum fordæmi Jesú.

8. Nefndu dæmi um hvernig Jesús notaði frjálsa viljann.

8 Við getum líkt eftir Jesú með því að velja að setja hagsmuni annarra framar okkar eigin. Eitt sinn þegar Jesús og postular hans voru þreyttir fóru þeir á rólegan stað þar sem þeir vonuðust til að geta hvílt sig aðeins. En það fór á annan veg. Hópur fólks fann þá og vildi gjarnan  fá kennslu frá Jesú. En Jesús varð ekki pirraður. Þess í stað fann hann til með fólkinu. Hvað gerði hann? „Hann fór að kenna því margt.“ (Mark. 6:30–34) Þegar við líkjum eftir Jesú og notum tíma okkar og krafta til að hjálpa öðrum heiðrum við himneskan föður okkar. (Matt. 5:14–16) Og við sýnum Jehóva að við viljum tilheyra fjölskyldu hans.

9. Hvaða sérstöku gjöf hefur Jehóva gefið mönnum?

9 Jehóva hefur gefið mönnum hæfileikann til að eignast börn og falið þeim þá ábyrgð að kenna þeim að elska hann og þjóna honum. Ef þú ert foreldri, kanntu þá að meta þessa sérstöku gjöf? Jehóva hefur gefið englunum marga frábæra hæfileika en hann hefur ekki gefið þeim hæfileikann til að eignast börn. Ef þú átt barn hefurðu því ástæðu til að vera þakklátur fyrir þann möguleika. Foreldrar hafa fengið þá mikilvægu ábyrgð að ala börnin upp „með því að aga þau og leiðbeina þeim eins og Jehóva vill“. (Ef. 6:4; 5. Mós. 6:5–7; Sálm. 127:3) Til að hjálpa foreldrum hefur söfnuður Guðs séð þeim fyrir mörgum biblíutengdum hjálpargögnum, eins og ritum, myndböndum, tónlist og greinum á netinu. Það er greinilegt að himneskur faðir okkar og sonur hans elska börnin okkar. (Lúk. 18:15–17) Jehóva er ánægður þegar foreldrar treysta á hann og gera sitt allra besta til að annast dýrmæt börn sín. Og þá opna foreldrar börnum sínum möguleikann á að tilheyra fjölskyldu Jehóva að eilífu.

10, 11. Hvað hefur Jehóva gert okkur mögulegt með lausnargjaldinu?

10 Jehóva gaf kærasta son sinn til að við getum aftur tilheyrt fjölskyldu hans. Eins og minnst er á í  fjórðu grein fengu Adam og Eva ekki lengur að vera í fjölskyldu Jehóva þegar þau syndguðu og ekki heldur börn þeirra. (Rómv. 5:12) Adam og Eva óhlýðnuðust Guði vísvitandi og áttu því ekki lengur skilið að vera í fjölskyldu hans. En hvað um afkomendur þeirra? Í kærleika sínum gerði Jehóva hlýðnum einstaklingum meðal þeirra kleift að verða ættleiddir í fjölskyldu hans. Hann gerði það með því að gefa einkason sinn, Jesú Krist, sem lausnarfórn. (Jóh. 3:16; Rómv. 5:19) Vegna hennar gat Jehóva ættleitt 144.000 trúfasta einstaklinga sem syni sína. – Rómv. 8:15–17; Opinb. 14:1.

11 Milljónir annarra trúfastra einstaklinga gera líka vilja Guðs. Þeir vonast líka til að fá að vera í fjölskyldu hans eftir lokaprófið við lok þúsund áranna. (Sálm. 25:14; Rómv. 8:20, 21) Með þá von í hjarta ávarpa þeir Jehóva skapara sinn nú þegar föður. (Matt. 6:9) Þeir sem rísa upp til lífs á ný fá líka tækifæri til að komast að því hvers Jehóva væntir af þeim. Þeir sem bregðast vel við leiðbeiningum hans munu að lokum tilheyra fjölskyldu hans líka.

12. Við hvaða spurningu fáum við svar?

12 Eins og við höfum séð sýnir Jehóva mönnum virðingu á margvíslegan hátt. Hann hefur þegar ættleitt andasmurða einstaklinga sem syni sína og hann hefur gefið þeim sem tilheyra ,múginum mikla‘ þá von að verða börn hans í nýja heiminum. (Opinb. 7:9) Hvað getum við gert til að sýna Jehóva að við viljum vera í fjölskyldu hans að eilífu?

SÝNUM JEHÓVA AÐ VIÐ VILJUM VERA Í FJÖLSKYLDU HANS

13. Hvað getum við gert til að fá að vera í fjölskyldu Guðs? (Markús 12:30)

13 Sýnum að við elskum Jehóva með því að þjóna honum af öllu hjarta. (Lestu  Markús 12:30.) Ef til vill er ein stærsta gjöfin sem Jehóva hefur gefið okkur hæfileikinn til að tilbiðja hann. Við sýnum Jehóva að við elskum hann með því að „halda boðorð hans“. (1. Jóh. 5:3) Eitt af þeim boðum sem Jehóva vill að við hlýðum og Jesús gaf er að gera fólk að lærisveinum og skíra það. (Matt. 28:19) Hann bauð okkur líka að elska hvert annað. (Jóh. 13:35) Jehóva býður þeim sem hlýða boðum hans að vera í fjölskyldu tilbiðjenda sinna. – Sálm. 15:1, 2.

14. Hvernig getum við sýnt öðrum kærleika? (Matteus 9:36-38; Rómverjabréfið 12:10)

14 Sýnum öðrum kærleika. Kærleikur er fremsti eiginleiki Jehóva. (1. Jóh. 4:8) Jehóva sýndi okkur kærleika áður en við kynntumst honum. (1 Jóh. 4:9, 10) Við líkjum eftir honum þegar við sýnum öðrum kærleika. (Ef. 5:1) Ein besta leiðin til þess er að hjálpa þeim að læra um Jehóva meðan enn er tími til. (Lestu Matteus 9:36–38.) Þannig gefum við þeim tækifæri til að vera hluti af fjölskyldu Guðs. Eftir að einstaklingur hefur látið skírast verðum við að halda áfram að sýna honum kærleika og virðingu. (1 Jóh. 4:20, 21) Hvað felur það í sér? Við ætlum honum til dæmis góðar hvatir. Ef hann gerir eitthvað sem við skiljum ekki hugsum við ekki að hann hafi gert það af eigingjörnum ástæðum. Við sýnum honum öllu heldur virðingu og lítum á hann sem okkur meiri. – Lestu Rómverjabréfið 12:10; Fil. 2:3.

15. Hverjum ættum við að sýna miskunn og góðvild?

15 Sýnum öllum miskunn og góðvild. Við þurfum að fara eftir orði Guðs ef við viljum vera meðal þeirra sem geta réttilega kallað Jehóva föður sinn að eilífu. Jesús kenndi að við ættum að sýna öllum miskunn og góðvild, jafnvel óvinum okkar. (Lúk. 6:32–36) Það getur stundum verið erfitt. Þá þurfum við að læra að hugsa og breyta eins og Jesús. Þegar við gerum okkar besta til að hlýða Jehóva og líkja eftir Jesú sýnum við himneskum föður okkar að við viljum tilheyra fjölskyldu hans að eilífu.

16. Hvernig getum við verndað orðstír fjölskyldu Jehóva?

16 Stöndum vörð um orðstír fjölskyldu Jehóva. Í fjölskyldum er ekki óalgengt að lítill drengur líki eftir eldri bróður sínum. Eldri bróðirinn er þeim yngri góð fyrirmynd ef hann fer eftir meginreglum Biblíunnar. En ef sá eldri fer út á ranga braut gæti sá yngri fylgt í fótspor hans. Það er svipað í fjölskyldu Jehóva. Ef einhver í söfnuðinum sem var einu sinni trúfastur fer að tileinka sér fráhvarfshugmyndir eða leiðist út í siðleysi eða spillingu gætu aðrir freistast til að gera eins og hann. Þeir sem gera það skaða orðstír fjölskyldu Jehóva. (1. Þess. 4:3–8) Við megum ekki fylgja slæmum fordæmum og ekki láta neitt skemma samband okkar við kærleiksríkan föður okkar á himnum.

17. Hvers konar hugsun ættum við að hafna og hvers vegna?

17 Treystum á Jehóva en ekki efnislega hluti. Jehóva lofar að sjá okkur fyrir fæði, klæði og húsnæði ef við einbeitum okkur fyrst og fremst að ríki hans og lifum eftir réttlátum mælikvarða hans. (Sálm. 55:22; Matt. 6:33) Þegar við treystum þessu loforði hugsum við ekki að efnislegir hlutir sem heimurinn hefur upp á að bjóða veiti okkur öryggi eða varanlega hamingju. Við vitum að eina leiðin til að öðlast ósvikinn hugarfrið er að gera vilja Jehóva. (Fil. 4:6, 7) Þótt við höfum efni á að kaupa  margt þurfum við að hugleiða hvort við höfum tíma eða orku til að nota það og sinna því. Og gæti það gerst að við yrðum of tengd eigum okkar? Við verðum að muna að Guð væntir þess að við leggjum eitthvað af mörkum til fjölskyldu hans. Það þýðir að við megum ekki láta neitt raska einbeitingu okkar. Við viljum sannarlega ekki vera eins og ungi maðurinn sem hafnaði tækifærinu til að þjóna Jehóva og um leið möguleikanum til að vera ættleiddur sem sonur hans, bara vegna þess að hann var of tengdur fáeinum jarðneskum eigum. – Mark. 10:17–22.

HVERS NJÓTA BÖRN GUÐS UM ALLA EILÍFÐ?

18. Hvaða mikla heiðurs og blessunar mun hlýðið mannkyn njóta að eilífu?

18 Hlýðið mannkyn á eftir að njóta mesta heiðurs sem nokkur getur fengið – að elska og þjóna Jehóva að eilífu. Þeir sem hafa jarðneska von munu einnig njóta þeirrar gleði að annast fallegu plánetuna sem Jehóva útbjó til að vera fullkomið heimili þeirra. Bráðlega verður jörðin og allt líf á henni aftur gert fagurt undir stjórn Guðsríkis. Jesús á eftir að leysa öll þau vandamál sem fylgdu í kjölfarið þegar Adam og Eva ákváðu að yfirgefa fjölskyldu Guðs. Jehóva reisir milljónir manna til lífs á ný og gefur þeim tækifæri til að lifa að eilífu við fullkomna heilsu á jörð sem verður breytt í paradís. (Lúk. 23:42, 43) Þegar þeir sem þjóna Jehóva á jörðinni verða smám saman fullkomnir fara þeir að endurspegla þá ,hátign og heiður‘ sem Davíð skrifaði um. – Sálm. 8:6.

19. Hverju ættum við ekki að gleyma?

19 Ef þú tilheyrir múginum mikla áttu dásamlega von. Guð elskar þig. Hann vill hafa þig í fjölskyldu sinni. Gerðu því allt sem þú getur til að gleðja hann. Hafðu alltaf loforð Guðs í huga og hjarta. Mettu að verðleikum þann heiður að tilbiðja okkar kæra himneska föður og möguleikann á að lofa hann að eilífu.

SÖNGUR 107 Guð er fyrirmynd um kærleikann

^ gr. 5 Til að fjölskyldulífið gangi vel þurfa allir í fjölskyldunni að vita hvers er vænst af þeim og vinna saman. Faðirinn veitir kærleiksríka forystu, móðirin styður hann og börnin hlýða foreldrum sínum. Það er svipað í fjölskyldu Jehóva. Guð okkar hefur ákveðna fyrirætlun með okkur og ef við breytum í samræmi við hana fáum við að tilheyra fjölskyldu tilbiðjenda Jehóva að eilífu.

^ gr. 55 MYND: Hjónin geta sýnt hvort öðru og sonum sínum kærleika og samúð vegna þess að þau eru sköpuð eftir mynd Guðs. Þau elska Jehóva og sýna að þau kunna að meta þá gjöf sem það er að eiga börn með því að kenna þeim að elska Jehóva og þjóna honum. Þau nota myndband til að útskýra hvers vegna Jehóva gaf Jesú sem lausnarfórn. Þau útskýra líka fyrir þeim að í paradísinni sem er fram undan munum við annast jörðina og dýrin að eilífu.