Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 NÁMSGREIN 32

Styrkjum kærleikann

Styrkjum kærleikann

„Þess bið ég að elska ykkar aukist enn þá meir.“ – FIL. 1:9.

SÖNGUR 106 Ræktum með okkur kærleika

YFIRLIT *

1. Hverjir áttu þátt í að mynda söfnuðinn í Filippí?

ÞEGAR Páll postuli, Sílas, Lúkas og Tímóteus komu til rómversku nýlendunnar Filippí hittu þeir marga sem höfðu áhuga á boðskapnum um ríki Guðs. Þessir fjórir ötulu bræður hjálpuðu til við að mynda söfnuð og þeir sem tóku trú fóru að sækja samkomur, líklega heima hjá gestrisinni systur sem hét Lýdía. – Post. 16:40.

2. Hvaða prófraun varð söfnuðurinn fljótt fyrir?

2 Ekki leið á löngu þar til erfiðleikar dundu á hinum nýstofnaða söfnuði. Satan vakti upp óvini sannleikans sem börðust hatrammlega gegn boðun þessara trúföstu kristnu manna. Páll og Sílas voru handteknir, húðstrýktir og þeim varpað í fangelsi. Eftir að þeir höfðu verið látnir lausir heimsóttu þeir nýju lærisveinana og hughreystu þá. Páll, Sílas og Tímóteus yfirgáfu síðan borgina en svo virðist vera sem Lúkas hafi verið um kyrrt. Hvernig farnaðist hinum nýstofnaða söfnuði? Með hjálp anda Jehóva héldu bræður og systur áfram að þjóna honum af kappi. (Fil. 2:12) Páll hafði fulla ástæðu til að vera stoltur af þeim.

3. Hvað gerði Páll að bænarefni samkvæmt því sem segir í Filippíbréfinu 1:9–11?

3 Um tíu árum síðar skrifaði Páll bréf til safnaðarins í Filippí. Þegar við lesum bréfið er auðséð að Páll elskaði trúsystkini sín. „Ég þrái ykkur öll með ástúð Krists Jesú,“ skrifaði hann. (Fil. 1:8) Hann sagði þeim að hann bæði fyrir þeim. Hann bað Jehóva að styrkja kærleika þeirra  og hjálpa þeim að meta rétt það sem skipti máli, vera hrein, forðast að verða öðrum til hrösunar og bera ávöxt réttlætisins. Þú ert eflaust sammála því að við getum notið góðs af einlægum orðum Páls. (Lestu Filippíbréfið 1:9–11.) * Í þessari grein skoðum við það sem hann nefndi og ræðum hvernig við getum nýtt okkur það.

ELSKA YKKAR AUKIST

4. (a) Hvernig hefur Jehóva sýnt að hann elskar okkur, eins og sjá má af 1. Jóhannesarbréfi 4:9, 10? (b) Hversu heitt ættum við að elska Guð?

4 Jehóva sýndi hve heitt hann elskar okkur með því að senda son sinn til jarðar til að deyja fyrir syndir okkar. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 4:9, 10.) Óeigingjarn kærleikur Guðs fær okkur til að elska hann. (Rómv. 5:8) Hversu heitt ættum við að elska Guð? Jesús svaraði því þegar hann sagði farísea nokkrum: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“ (Matt. 22:36, 37) Við viljum elska Jehóva af öllu hjarta og við viljum að kærleikur okkar til hans styrkist dag frá degi. Páll sagði Filippímönnum að kærleikur þeirra ætti að ,aukast enn þá meir‘. Hvað getum við gert til að styrkja kærleika okkar til Guðs?

5. Hvernig getum við styrkt kærleika okkar?

5 Við þurfum að þekkja Guð til að geta elskað hann. Í Biblíunni segir: „Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð því að Guð er kærleikur.“ (1. Jóh. 4:8) Páll postuli gaf til kynna að kærleikur okkar til Jehóva styrkist þegar við öflum okkur nákvæmrar þekkingar á honum og lærum að líta hlutina sömu augum og hann. (Fil. 1:9) Þegar við byrjuðum að kynna okkur Biblíuna byggðum við upp kærleika til Guðs þrátt fyrir takmarkaða þekkingu á dásamlegum eiginleikum hans. Eftir því sem við kynntumst Jehóva betur því meira elskuðum við hann. Það er engin furða að okkur finnist mjög mikilvægt að stunda reglulegt biblíunám og hugleiða það sem við lesum. – Fil. 2:16.

6. Hverja eigum við líka að elska, samanber 1. Jóhannesarbréf 4:11, 20, 21?

6 Kærleikur Guðs til okkar knýr okkur til að elska bræður okkar og systur. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 4:11, 20, 21.) Við hugsum kannski sem svo að það sé auðvelt að elska trúsystkini okkar, enda tilbiðjum við Jehóva og reynum að líkja eftir honum. Við fetum líka í fótspor Jesú sem elskaði okkur svo mikið að hann gaf líf sitt í okkar þágu. Stundum gæti okkur þó fundist erfitt að hlýða boðorðinu um að elska hvert annað. Tökum dæmi frá söfnuðinum í Filippí.

7. Hvað lærum við af leiðbeiningum Páls til Evodíu og Sýntýke?

7 Evodía og Sýntýke voru kappsamar systur sem höfðu unnið náið með Páli postula. En þær létu ef til vill persónulegan ágreining verða til þess að það kastaðist í kekki milli þeirra. Páll nefndi Evodíu og Sýntýke sérstaklega í bréfinu til safnaðarins sem þær tilheyrðu og hvatti þær til að „vera samlyndar“. (Fil. 4:2, 3) Páll fann sig knúinn til að áminna allan söfnuðinn: „Gjörið allt án mögls og þráttunar.“ (Fil. 2:14, Biblían 1859) Skýrar leiðbeiningar Páls hafa án efa hjálpað þessum trúföstu systrum, sem og öllum  söfnuðinum, að styrkja kærleikann sín á milli.

Hvers vegna ættum við að hugsa jákvætt um trúsystkini okkar? (Sjá 8. grein.) *

8. Hvaða stóra hindrun gæti staðið í vegi fyrir því að við elskum trúsystkini okkar og hvernig getum við sigrast á henni?

8 Líkt og hjá Evodíu og Sýntýke gæti stór hindrun staðið í vegi fyrir því að við ræktum með okkur einlægan kærleika til annarra – tilhneigingin til að einblína á ófullkomleika þeirra. Við gerum öll mistök á hverjum degi. Ef við einblínum á ófullkomleika annarra mun kærleikur okkar til þeirra kólna. Tökum dæmi. Við gætum orðið pirruð ef bróðir gleymir að hjálpa okkur að þrífa ríkissalinn. Ef við förum síðan að rifja upp öll önnur mistök sem við vitum að hann hefur gert gætum við orðið enn pirraðri og kærleikur okkar til hans gæti dvínað. Ef þú lætur einhvern í söfnuðinum fara í taugarnar á þér ættirðu að hugleiða eftirfarandi staðreynd: Jehóva sér ófullkomleika okkar rétt eins og trúsystkina okkar. En samt elskar hann okkur öll. Við verðum þess vegna að líkja eftir kærleika Jehóva og einbeita okkur að því góða í fari trúsystkina okkar. Þegar við leggjum okkur fram um að elska þau styrkjum við eininguna okkar á milli. – Fil. 2:1, 2.

,ÞAÐ SEM MÁLI SKIPTIR‘

9. Nefndu sumt af því ,sem máli skiptir‘ sem Páll talar um í bréfi sínu til Filippímanna.

9 Heilagur andi innblés Páli að segja Filippímönnum, og öllum kristnum mönnum, að ,meta þá hluti rétt sem máli skipta‘. (Fil. 1:10) Það sem skiptir máli er meðal annars að nafn Jehóva helgist, að fyrirætlun hans nái fram að ganga og að friður og eining ríki innan safnaðarins. (Matt. 6:9, 10; Jóh. 13:35) Þegar þetta skiptir okkur mestu máli í lífinu sýnum við og sönnum að við elskum Jehóva.

10. Hvað þurfum við að gera til að vera hrein í augum Jehóva?

10 Páll sagði líka að við þyrftum að vera „hrein“. Við getum auðvitað ekki verið fullkomlega hrein eða óaðfinnanleg eins og Jehóva Guð. En við getum verið hrein í augum Jehóva ef við gerum okkar allra besta til að styrkja kærleikann og meta þá hluti rétt sem máli skipta. Ein leið til að sýna kærleika er að gera okkar ýtrasta til að verða ekki öðrum til hrösunar.

11. Hvers vegna þurfum við að gæta þess að verða ekki öðrum til hrösunar?

11 Leiðbeiningarnar um að verða ekki öðrum til hrösunar eru okkur til viðvörunar. Hvernig gætum við orðið öðrum til hrösunar? Það gæti verið með vali okkar á afþreyingu, klæðaburði eða jafnvel atvinnu. Það sem við gerum þarf ekki að vera rangt í sjálfu sér. En það er alvarlegt mál ef ákvarðanir okkar særa samvisku annarra svo að þeir hrasi. Jesús sagði að það væri betra að okkur væri kastað í hafið með þungan stein bundinn um hálsinn en að ákvarðanir okkar yrðu til þess að einn sauða hans hrasaði. – Matt. 18:6.

12. Hvað lærum við af því sem brautryðjendahjón nokkur gerðu?

12 Tökum eftir hvernig brautryðjendahjón nokkur tóku til sín viðvörun Jesú. Þau voru í sama söfnuði og nýskírð hjón sem höfðu fengið strangt uppeldi. Þessi nýskírðu hjón héldu að kristnir menn mættu ekki fara í bíó – ekki einu sinni til að sjá sakleysislegar myndir. Þau voru stórhneyksluð þegar þau fréttu að brautryðjendahjónin hefðu farið í bíó. Eftir það ákváðu brautryðjendahjónin að  fara ekki í bíó fyrr en nýskírðu hjónin höfðu þjálfað samvisku sína betur og náð ákveðnu jafnvægi í trúnni. (Hebr. 5:14) Óeigingirni þeirra sýndi að þau elskuðu nýju trúsystkini sín, ekki aðeins með orðum heldur í verki. – Rómv. 14:19–21; 1. Jóh. 3:18.

13. Hvernig gætum við fengið einhvern til að syndga?

13 Við gætum líka orðið einhverjum til hrösunar með því að fá hann til að syndga. Hvernig gæti það gerst? Hugsum okkur eftirfarandi aðstæður. Eftir langa og erfiða baráttu hefur biblíunemandi loksins náð tökum á áfengisfíkn sinni. Hann gerir sér grein fyrir að hann þarf að halda sig alfarið frá áfengi. Hann tekur góðum framförum og lætur skírast. Síðar fer hann í veislu með bræðrum og systrum. Gestgjafinn, sem er velviljaður bróðir, býður honum áfengan drykk og segir: „Nú ertu orðinn vottur og hefur anda Jehóva. Sjálfstjórn er hluti af ávexti andans. Ef þú sýnir sjálfstjórn ættirðu að geta drukkið áfengi í hófi.“ Við getum rétt ímyndað okkur hverjar afleiðingarnar yrðu ef nýskírði bróðirinn færi eftir þessum slæmu ráðum.

14. Hvernig hjálpa samkomurnar okkur að fara eftir leiðbeiningunum í Filippíbréfinu 1:10?

14 Safnaðarsamkomur hjálpa okkur á ýmsa vegu að fara eftir leiðbeiningunum í Filippíbréfinu 1:10. Í fyrsta lagi minnir andlega fæðan okkur á það sem Jehóva telur mikilvægt. Í öðru lagi er okkur kennt að fara eftir því sem við  lærum svo að við getum verið hrein. Og í þriðja lagi erum við hvött „til kærleika og góðra verka“. (Hebr. 10:24, 25) Því meiri hvatningu sem við fáum frá bræðrum og systrum því sterkari verður kærleikur okkar til Guðs og trúsystkina okkar. Þegar við elskum Guð og trúsystkini okkar af öllu hjarta gerum við okkar besta til að verða ekki öðrum til hrösunar.

VERUM SÍAUÐUG AÐ ÁVEXTI RÉTTLÆTISINS

15. Hvað merkir það að vera ,auðugur að réttlætisávexti‘?

15 Páll bað þess innilega að Filippímenn yrðu ,auðugir að réttlætisávexti‘. (Fil. 1:11) Eflaust fólst þessi réttlætisávöxtur í því að þeir elskuðu Jehóva og þjóna hans. Það fæli líka í sér að þeir segðu öðrum frá trú sinni á Jesú og þeirri dásamlegu von sem þeir höfðu. Í Filippíbréfinu 2:15 er notað annað myndmál – að ,skína eins og ljós í heiminum‘. Það á vel við vegna þess að Jesús kallaði lærisveina sína „ljós heimsins“. (Matt. 5:14–16) Hann sagði líka fylgjendum sínum að gera fólk að lærisveinum og að þeir yrðu „vottar ... allt til endimarka jarðarinnar“. (Matt. 28:18–20; Post. 1:8) Við berum ,réttlætisávöxt‘ með því að taka virkan þátt í þessu mikilvæga starfi.

Páll skrifar bréfið til safnaðarins í Filippí meðan hann er í stofufangelsi í Róm. Hann notar líka vel þau tækifæri sem hann fær til að vitna fyrir vörðum og gestum. (Sjá 16. grein.)

16. Hvernig má sjá af Filippíbréfinu 1:12–14 að við getum skinið sem ljós, jafnvel við erfiðar aðstæður? (Sjá mynd á forsíðu.)

16 Við getum skinið sem ljós sama hverjar aðstæður okkar eru. Stundum fáum við tækifæri til að boða fagnaðarerindið þótt það virðist ómögulegt í fyrstu. Páll postuli var í stofufangelsi í Róm þegar hann skrifaði bréfið til Filippímanna.  En fjötrarnir komu ekki í veg fyrir að hann boðaði bæði vörðum og gestum boðskapinn. Páll boðaði trúna af kappi þrátt fyrir erfiðar aðstæður og það gaf bræðrum og systrum hugrekki „til að tala orð Guðs óttalaust“. – Lestu Filippíbréfið 1:12–14; 4:22.

Leitum alltaf leiða til að boða trúna. (Sjá 17. grein.) *

17. Hvernig bera sum trúsystkini okkar ávöxt þrátt fyrir erfiðar aðstæður?

17 Margir bræður okkar og systur hafa tækifæri til að sýna sama hugrekki og Páll. Þau búa í löndum þar sem þau geta ekki boðað trúna fyrir opnum tjöldum eða hús úr húsi. Þau finna þess vegna aðrar leiðir til að boða fagnaðarerindið. (Matt. 10:16–20) Í einu slíku landi stakk farandhirðir upp á að boðberar færu yfir sitt eigið „svæði“ sem samanstóð af ættingjum, nágrönnum, skólafélögum, vinnufélögum og kunningjum. Á innan við tveim árum fjölgaði söfnuðum á farandsvæðinu gríðarlega. Við búum kannski ekki í landi þar sem hömlur eru á starfi okkar. Við getum hins vegar dregið dýrmætan lærdóm af úrræðagóðum bræðrum okkar og systrum: Leitum alltaf leiða til að boða trúna, fullviss um að Jehóva gefi okkur þann kraft sem við þurfum til að sigrast á hvaða hindrun sem er. – Fil. 2:13.

18. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera?

18 Á þessum merkistímum skulum við vera staðráðin í að fara eftir innblásnum leiðbeiningum Páls í bréfinu til Filippímanna. Metum þá hluti rétt sem máli skipta, verum hrein, gætum þess að verða ekki öðrum til hrösunar og berum ávöxt réttlætisins. Þannig styrkjum við kærleikann og heiðrum Jehóva, umhyggjusaman föður okkar.

SÖNGUR 17 „Ég vil“

^ gr. 5 Nú er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að styrkja kærleikann til trúsystkina okkar. Bréfið til Filippímanna bendir á hvernig kærleikur okkar getur vaxið, jafnvel þegar okkur finnst erfitt að sýna hann.

^ gr. 3 Filippíbréfið 1:10 (NW): „Svo að þið getið metið hvað sé mikilvægt. Þá verðið þið hrein allt til dags Krists og verðið ekki öðrum til hrösunar.“

^ gr. 55 MYND: Mikael tekur sér hlé frá því að þrífa ríkissalinn til að tala við feðga í söfnuðinum. Það fer í taugarnar á Alexander, bróðurnum sem er að ryksuga. Honum finnst að Mikael eigi að vinna en ekki spjalla. Síðar sér Alexander umhyggjusemi Mikaels þegar hann aðstoðar eldri systur. Það minnir Alexander á að hugsa um þá góðu eiginleika sem Mikael hefur.

^ gr. 59 MYND: Í landi þar sem við megum ekki boða trúna fyrir opnum tjöldum boðar bróðir kunningja sínum fagnaðarerindið án þess að láta mikið á því bera. Síðar um daginn vitnar hann fyrir vinnufélaga sínum í hádegishléinu.