Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 NÁMSGREIN 33

Þeir sem hlusta á þig munu bjargast

Þeir sem hlusta á þig munu bjargast

„Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni. Ver stöðugur við þetta. Þegar þú gerir það muntu bæði frelsa sjálfan þig og áheyrendur þína.“ – 1. TÍM. 4:16.

SÖNGUR 67 Boða trú

YFIRLIT *

1. Hvað viljum við öll að ættingjar okkar geri?

„ALLT frá því ég kynntist sannleikanum hef ég viljað að allir í fjölskyldunni verði með mér í paradís,“ segir systir sem heitir Pauline. * „Ég vildi sérstaklega að Wayne maðurinn minn og litli drengurinn okkar þjónuðu Jehóva með mér.“ Átt þú ættingja sem hafa ekki enn tekið afstöðu með Jehóva? Þá geturðu eflaust sett þig í spor Pauline.

2. Um hvaða spurningar er rætt í þessari grein?

2 Við getum ekki neytt ættingja okkar til að taka við fagnaðarerindinu. En við getum hvatt þá til að hugsa um boðskap Biblíunnar og bregðast við honum. (2. Tím. 3:14, 15) Hvers vegna ættum við að vitna fyrir ættingjum okkar? Af hverju þurfum við að sýna þeim skilning og tillitssemi? Hvað getum við gert til að hjálpa ættingjum okkar að elska Jehóva eins og við gerum? Og hvernig geta allir í söfnuðinum hjálpað til?

HVERS VEGNA ÆTTUM VIÐ AÐ VITNA FYRIR ÆTTINGJUM OKKAR?

3. Hvers vegna ættum við að vitna fyrir ættingjum okkar, samanber 2. Pétursbréf 3:9?

3 Það er stutt þangað til Jehóva bindur enda á þennan illa heim. Þeir einir munu bjargast sem hafa það hugarfar  sem þarf til að hljóta eilíft líf. (Post. 13:48, NW) Við notum mikinn tíma og orku í að vitna fyrir ókunnugum. Við viljum því eðlilega líka að ættingjar okkar þjóni Jehóva með okkur. Jehóva, kærleiksríkur faðir okkar, „vill ekki að neinn glatist heldur að allir komist til iðrunar“. – Lestu 2. Pétursbréf 3:9.

4. Hvaða mistök gætum við gert þegar við vitnum fyrir ættingjum okkar?

4 Við þurfum að hafa í huga að það er bæði til rétt leið og röng leið til að boða boðskapinn um björgun. Það getur verið að við séum háttvís þegar við vitnum fyrir ókunnugum en of beinskeytt þegar við tölum við ættingja okkar.

5. Hvað ættum við að hafa í huga áður en við reynum að tala við ættingja okkar um sannleikann?

5 Margir sjá eflaust eftir því hvernig þeir reyndu að vitna fyrir ættingjum sínum í fyrstu og óska þess að hafa farið öðruvísi að. Páll postuli ráðlagði kristnum mönnum: „Mál ykkar sé ætíð ljúflegt en salti kryddað til þess að þið vitið hvernig þið eigið að svara hverjum manni.“ (Kól. 4:5, 6) Það er gott að muna eftir þessu ráði þegar við tölum við ættingja okkar. Annars gætum við fælt þá frá í stað þess að vekja hjá þeim löngun til að hlusta á okkur.

HVAÐ GETUM VIÐ GERT TIL AÐ HJÁLPA ÆTTINGJUM OKKAR?

Hugulsemi þín og framkoma getur verið áhrifaríkasta leiðin til að bera trú þinni vitni. (Sjá 6.–8. grein.) *

6, 7. Nefndu dæmi sem sýnir fram á mikilvægi þess að sýna skilning þegar maki manns er ekki í trúnni.

6 Sýndu skilning. Pauline, sem áður var minnst á, segir: „Í fyrstu vildi ég bara tala um andleg mál við manninn minn. Við áttum engar ,eðlilegar‘ samræður.“ Wayne maðurinn hennar hafði hins vegar ekki mikla biblíuþekkingu og skildi  ekki það sem Pauline talaði um. Honum fannst hún ekki hugsa um annað en trúna. Hann óttaðist að hún væri að ganga í hættulegan sértrúarflokk og verið væri að blekkja hana.

7 Pauline viðurkennir að á tímabili hafi hún notað mikinn tíma um kvöld og helgar með trúsystkinum sínum – á samkomum, í boðuninni og á öðrum samverustundum. „Stundum kom Wayne heim að tómu húsi og var einmana,“ segir Pauline. Skiljanlega saknaði hann eiginkonu sinnar og sonar. Hann þekkti ekki fólkið sem þau voru með og þessir nýju vinir konunnar hans virtust vera farnir að skipta hana meira máli en hann. Wayne brást við með því að hóta að skilja við Pauline. Kemurðu auga á hvernig Pauline hefði getað sýnt meiri skilning?

8. Hvað hefur líklega mest áhrif á ættingja okkar, samanber 1. Pétursbréf 3:1, 2?

8 Láttu verkin tala. Ættingjar okkar taka oft betur eftir því sem við gerum en því sem við segjum. (Lestu 1. Pétursbréf 3:1, 2.) Pauline gerði sér að lokum grein fyrir því. „Ég vissi að Wayne elskaði okkur og vildi ekki skilja í alvörunni,“ segir hún. „En þessi hótun gerði mér ljóst að ég þurfti að gera hlutina eins og Jehóva vill. Ég þurfti að sýna gott fordæmi með hegðun minni í stað þess að tala svona mikið.“ Pauline hætti að þrýsta á Wayne til að tala um Biblíuna og fór að tala við hann um hversdagsleg mál. Wayne tók eftir að hún varð friðsamari og að sonur þeirra hegðaði sér betur. (Orðskv. 31:18, 27, 28) Þegar Wayne sá hve góð áhrif boðskapur Biblíunnar  hafði á fjölskylduna opnaði hann huga sinn og hjarta fyrir honum. – 1. Kor. 7:12–14, 16.

9. Hvers vegna megum við ekki gefast upp?

9 Haltu áfram að reyna að hjálpa ættingjum þínum. Jehóva er okkur góð fyrirmynd. „Hvað eftir annað“ gefur hann fólki tækifæri til að taka við fagnaðarerindinu og hljóta eilíft líf. (Jer. 44:4) Og Páll postuli hvatti Tímóteus til að halda ótrauður áfram að hjálpa öðrum. Hvers vegna? Vegna þess að þannig myndi hann bjarga sjálfum sér og þeim sem hlustuðu á hann. (1. Tím. 4:16) Við elskum ættingja okkar og viljum að þeir kynnist sannleikanum í orði Guðs. Orð Pauline og verk höfðu að lokum góð áhrif á fjölskylduna. Nú þjónar hún Jehóva ásamt eiginmanni sínum, henni til mikillar ánægju. Þau eru bæði brautryðjendur og Wayne er öldungur.

10. Hvers vegna þurfum við að vera þolinmóð?

10 Sýndu þolinmæði. Við gerum ýmsar breytingar á lífi okkar þegar við ákveðum að þjóna Guði. Það getur verið erfitt fyrir ættingja okkar að sætta sig við þessar breytingar. Oft taka þeir fyrst eftir að við höldum ekki lengur upp á trúarhátíðir með þeim og tökum engan þátt í stjórnmálum. Sumir ættingjar gætu verið reiðir út í okkur í fyrstu. (Matt. 10:35, 36) En við ættum ekki að gefast upp á þeim. Ef við hættum að reyna að hjálpa þeim að skilja trú okkar höfum við í raun dæmt þá óverðuga þess að hljóta eilíft líf. Jehóva hefur ekki falið okkur að dæma – það hefur hann falið Jesú. (Jóh. 5:22) Ef við erum þolinmóð má vera að ættingjar okkar verði að lokum fúsir til að hlusta á boðskapinn. – Sjá rammann „Notaðu vefsíðuna til að kenna“.

11–13. Hvað lærðir þú af framkomu Alice við foreldra sína?

11 Vertu ákveðinn en kurteis. (Orðskv. 15:2) Alice bjó langt frá foreldrum sínum þegar hún kynntist Jehóva, en foreldrar hennar voru trúlausir og tóku virkan þátt í stjórnmálum. Hún vissi að hún yrði að segja þeim frá því góða sem hún var að læra eins fljótt og hægt var. „Ef maður bíður með að segja fjölskyldunni frá nýju trúnni sinni og breyttum lífsstíl verður áfallið bara þeim mun meira,“ segir Alice. Hún skrifaði foreldrum sínum bréf um málefni sem hún vonaði að myndu höfða til þeirra, svo sem kærleika. Hún sagði hvað Biblían hefði til málanna að leggja og spurði síðan hvað þeim fyndist. (1. Kor. 13:1–13) Hún þakkaði foreldrum sínum fyrir að ala sig upp og annast, og hún sendi þeim gjafir. Þegar hún kom í heimsókn gerði hún allt sem hún gat til að aðstoða móður sína við húsverkin. Þegar Alice sagði foreldrum sínum frá nýju trú sinni brugðust þeir ekki vel við í fyrstu.

12 Alice las daglega í Biblíunni þegar hún var hjá foreldrum sínum. „Það hjálpaði mömmu að skilja hve Biblían skiptir mig miklu máli,“ segir Alice. Faðir hennar ákvað hins vegar að rannsaka Biblíuna til að geta skilið hvers vegna dóttir hans hafði breyst. Hann vildi líka finna eitthvað í Biblíunni til að gagnrýna. „Ég gaf honum biblíu,“ segir Alice, „og skrifaði í hana persónuleg skilaboð.“ Hver var árangurinn? Faðir hennar fann ekkert til að gagnrýna í Biblíunni heldur varð hann djúpt snortinn af því sem hann las.

13 Við þurfum að vera ákveðin en kurteis, líka þegar við verðum fyrir prófraunum. (1. Kor. 4:12b) Alice þurfti til að  mynda að þola mótlæti frá móður sinni. „Þegar ég skírðist sagði mamma að ég væri slæm dóttir.“ Hvernig brást Alice við? „Í stað þess að forðast vandann útskýrði ég kurteislega að ég hefði ákveðið að verða vottur Jehóva og myndi standa við þá ákvörðun. Ég reyndi að sannfæra mömmu um hve heitt ég elskaði hana. Við grétum báðar og ég eldaði fyrir hana góðan mat. Upp frá því skildi mamma að Biblían gerði mig að betri manneskju.“

14. Hvers vegna megum við aldrei láta undan þrýstingi?

14 Það getur tekið ættingja okkar tíma að skilja til fulls hve miklu máli það skiptir okkur að þjóna Jehóva. Þegar Alice ákvað að gerast brautryðjandi í stað þess að stefna á þann frama sem foreldrar hennar höfðu hugsað sér brast móðir hennar aftur í grát. En Alice var enn sem fyrr ákveðin. „Ef maður lætur undan þrýstingi á einu sviði,“ segir hún, „er líklegt að fjölskyldan beiti mann þrýstingi á fleiri sviðum. Ef maður er hins vegar kurteis en ákveðinn má vera að einhver í fjölskyldunni hlusti á mann.“ Sú var raunin hjá Alice. Nú eru báðir foreldrar hennar brautryðjendur og faðir hennar er öldungur.

HVERNIG GETA ALLIR Í SÖFNUÐINUM HJÁLPAÐ TIL?

Hvernig getur söfnuðurinn hjálpað ættingjum okkar sem eru ekki í trúnni? (Sjá 15. og 16. grein.) *

15. Hvernig geta „góð verk“ annarra haft góð áhrif á ættingja okkar, samanber Matteus 5:14–16 og 1. Pétursbréf 2:12?

15 Jehóva notar „góð verk“ þjóna sinna til að laða fólk að sér. (Lestu Matteus 5:14–16; 1. Pétursbréf 2:12.) Ef maki þinn er ekki vottur Jehóva, hefur hann  þá hitt einhverja í söfnuðinum? Pauline, sem áður var minnst á, bauð trúsystkinum heim svo að Wayne maðurinn hennar gæti fengið að kynnast þeim. Wayne minnist þess hvernig einn bróðir hjálpaði honum að sigrast á fordómum í garð votta Jehóva: „Hann tók sér frí úr vinnunni til að horfa á boltann með mér. Það kom í ljós að hann var bara ósköp eðlilegur.“

16. Hvers vegna ættum við að bjóða ættingjum okkar á samkomur?

16 Ein góð leið til að hjálpa ættingjum okkar er að bjóða þeim á samkomur með okkur. (1. Kor. 14:24, 25) Fyrsta samkoman sem Wayne sótti var minningarhátíðin vegna þess að hún var eftir vinnu og dagskráin var ekki svo löng. „Ég skildi ekki alveg um hvað ræðan fjallaði,“ segir hann, „en það var fólkið sem hafði áhrif á mig. Það kom til mín, heilsaði með þéttu handabandi og bauð mig velkominn. Ég sá að þetta var einlægt fólk.“ Ein hjón höfðu reynst Pauline sérstaklega vel en þau höfðu aðstoðað hana með soninn á samkomum og í boðuninni. Þegar Wayne ákvað loks að hann þyrfti að kynna sér betur þessa nýju trú eiginkonu sinnar bað hann bróðurinn um biblíunámskeið.

17. Hvað ættum við ekki að kenna sjálfum okkur um og af hverju megum við aldrei gefast upp á ættingjum okkar?

17 Við vonum að allir ættingjar okkar eigi eftir að þjóna Jehóva með okkur. En sama hvað við reynum til að hjálpa þeim er ekki víst að þeir taki við sannleikanum. Ef svo er ættum við ekki að kenna sjálfum okkur um ákvörðun þeirra enda getum við ekki neytt neinn til að verða vottur. En vanmettu ekki áhrifin sem þú getur haft á ættingja þína þegar þeir sjá hve mikla gleði það veitir þér að þjóna Jehóva. Biddu fyrir þeim. Talaðu við þá af kurteisi og virðingu. Og gefstu ekki upp. (Post. 20:20) Treystu því að Jehóva blessi það sem þú leggur á þig. Og mundu að ef ættingjarnir ákveða að hlusta á þig munu þeir bjargast.

SÖNGUR 57 Vitnum fyrir alls konar fólki

^ gr. 5 Við viljum að fjölskylda okkar og ættingjar kynnist Jehóva en hver og einn þarf að ákveða sjálfur hvort hann ætli að þjóna honum eða ekki. Í þessari grein er rætt hvað við getum gert til að auðvelda öðrum í fjölskyldunni að hlusta á okkur.

^ gr. 1 Sumum nöfnum er breytt. Í þessari grein eru orðin „fjölskylda“ og „ættingjar“ notuð yfir þá í fjölskyldunni sem þjóna ekki Jehóva eins og er.

^ gr. 53 MYND: Ungur bróðir hjálpar pabba sínum, sem er ekki vottur, að dytta að bílnum. Við hentugt tækifæri sýnir hann honum myndskeið á jw.org®.

^ gr. 55 MYND: Systir hlustar af athygli á manninn sinn, sem er ekki vottur, segja frá deginum sínum. Seinna á hún ánægjulega stund með fjölskyldunni.

^ gr. 57 MYND: Systirin hefur boðið trúsystkinum í heimsókn og þau leggja sig fram um að kynnast manninum hennar. Síðar sækir hann minningarhátíðina ásamt konunni sinni.