Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vinnum með Jehóva á hverjum degi

Vinnum með Jehóva á hverjum degi

„Samverkamenn Guðs erum við.“ – 1. KOR. 3:9.

SÖNGVAR: 64, 111

1. Á hvaða vegu getum við unnið með Jehóva?

ÞEGAR Jehóva skapaði mennina vildi hann að fullkomið mannkyn ynni náið með honum að því að fyrirætlun hans næði fram að ganga. Þótt mennirnir séu nú ófullkomnir geta trúfastir þjónar hans unnið með honum alla daga. Við erum til dæmis „samverkamenn Guðs“ þegar við boðum fagnaðarerindið um ríki hans og gerum fólk að lærisveinum. (1. Kor. 3:5-9) Hvílíkur heiður að vera talin þess verðug að vinna með almáttugum skapara alheims við verk sem hann álítur mikilvægt. En við vinnum ekki aðeins með Jehóva þegar við boðum trúna og gerum fólk að lærisveinum. Í þessari grein er rætt um á hvaða aðra vegu við getum unnið með honum – með því að aðstoða fjölskyldu okkar og trúsystkini, vera gestrisin, bjóða fram krafta okkar við verkefni á vegum safnaðarins og með því að auka þjónustu okkar við hann. – Kól. 3:23.

2. Af hverju ættum við ekki að bera saman það sem við gerum fyrir Jehóva og það sem aðrir gera?

2 Þegar við förum yfir þetta efni skaltu ekki bera saman það sem þú getur gert fyrir Jehóva og það sem aðrir geta gert. Mundu að aldur, heilsa, hæfni og aðstæður eru breytilegar  frá manni til manns. Páli postula var innblásið að skrifa: „Sérhver rannsaki breytni sjálfs sín og þá mun hann hafa hrósunarefni í samanburði við sjálfan sig en ekki í samanburði við aðra.“ – Gal. 6:4.

AÐSTOÐAÐU FJÖLSKYLDU ÞÍNA OG TRÚSYSTKINI

3. Hvers vegna getum við sagt að þeir sem annast fjölskyldu sína vinni með Guði?

3 Jehóva ætlast til þess að þjónar sínir annist fjölskyldu sína. Þú gætir þurft að vinna til að sjá fyrir fjölskyldunni. Margar mæður þurfa að vera heima til að annast ungbörn sín. Og sumir gætu þurft að annast veikburða foreldra sína. Allt er þetta nauðsynlegt. Í orði Guðs segir: „Ef einhver sér eigi fyrir sínum, sérstaklega heimilismönnum, þá hefur hann afneitað trúnni og er verri en vantrúaður.“ (1. Tím. 5:8, Biblían 1981) Ef þú hefur slíkum skyldum að gegna geturðu væntanlega ekki gert eins mikið og þú vildir í þjónustunni við Jehóva. En misstu ekki móðinn. Það gleður Jehóva að þú skulir sjá fyrir fjölskyldunni. – 1. Kor. 10:31.

4. Hvernig geta foreldrar sett hagsmuni Guðsríkis framar sínum eigin og hvað hlýst af því?

4 Foreldrar í söfnuðinum vinna með Jehóva þegar þeir hjálpa börnum sínum að setja sér markmið í þjónustunni við hann. Mörg börn, sem hafa fengið slíka hvatningu, hafa síðar meir ákveðið að þjóna í fullu starfi langt frá heimaslóðunum. Sum þeirra eru trúboðar, aðrir eru brautryðjendur þar sem mikil þörf er á boðberum og enn aðrir þjóna á Betel. Fjarlægðin gerir það kannski að verkum að fjölskyldan getur ekki hist eins oft og hún vildi. Fórnfúsir foreldrar hvetja samt börnin sín til að halda áfram að þjóna Jehóva þar sem þau eru. Hvers vegna? Það gleður foreldrana mikið að vita að börnin setji hagsmuni Guðsríkis í fyrsta sæti. (3. Jóh. 4) Mörgum þeirra líður ef til vill eins og Hönnu sem sagðist hafa ,gefið‘ Jehóva Samúel, son sinn. Þeim finnst mikill heiður að fá að vinna með Jehóva á þennan hátt. Þeir gætu ekki hugsað sér neitt betra. – 1. Sam. 1:28.

5. Hvernig geturðu aðstoðað bræður og systur í söfnuðinum? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

5 Kannski hefurðu ekki mikla fjölskylduábyrgð. Geturðu þá aðstoðað trúsystkini sem eru veik, öldruð eða þurfa á annars konar aðstoð að halda? Eða geturðu létt undir með þeim sem annast þau? Veltu fyrir þér hverjir í söfnuðinum þurfa á aðstoð að halda. Kannski þarf systir í söfnuðinum að annast aldrað foreldri. Gætirðu varið tíma með foreldri hennar meðan hún sinnir öðrum málum? Þú gætir líka aðstoðað trúsystkini þín með því að bjóða þeim far á samkomur, fara með þeim í búðina, útrétta fyrir þau eða fara með þeim að heimsækja einhvern á spítala. Þannig geturðu verið verkfæri í höndum Jehóva til að svara bæn. – Lestu 1. Korintubréf 10:24.

SÝNDU GESTRISNI

6. Hvað felst í því að sýna gestrisni?

6 Samverkamenn Guðs eru þekktir fyrir að vera gestrisnir. Gríska orðið, sem þýtt er ,gestrisni‘ í Biblíunni, merkir „kærleikur í garð ókunnugra“. (Hebr. 13:2) Við getum lært að sýna slíkan kærleika með því að lesa um atburði sem skráðir eru í orði Guðs. (1. Mós. 18:1-5) Við ættum að grípa hvert tækifæri sem við fáum til að hjálpa öðrum, hvort sem það eru trúsystkini okkar eða aðrir. – Gal. 6:10.

7. Hvað hlýst af því að vera gestrisinn við þá sem þjóna í fullu starfi?

 7 Við getum unnið með Guði með því að sýna gestrisni þeim sem þjóna í fullu starfi og þurfa á gistingu að halda. (Lestu 3. Jóhannesarbréf 5, 8.) Þegar við gerum það fáum við tækifæri til að „uppörvast saman“. (Rómv. 1:11, 12) Tökum Olaf sem dæmi. Þegar hann var ungur heimsótti einhleypur farandhirðir söfnuðinn en enginn gat boðið honum gistingu. Olaf spurði foreldra sína, sem voru ekki vottar, hvort farandhirðirinn mætti gista hjá þeim. Þau féllust á það en sögðu að Olaf þyrfti að sofa á sófanum. Það var vel þess virði. „Þetta var dásamleg vika,“ segir Olaf. „Við farandhirðirinn fórum snemma á fætur alla daga og ræddum margt áhugavert yfir morgunmatnum. Hvatningin, sem ég fékk, ýtti undir löngun mína til að þjóna í fullu starfi.“ Síðustu 40 ár hefur Olaf verið trúboði í ýmsum löndum.

8. Hvers vegna eigum við að sýna góðvild, jafnvel þótt það sé ekki vel metið í fyrstu? Lýstu með dæmi.

8 Við getum sýnt ókunnugum kærleika á marga vegu, jafnvel þótt það sé ekki vel metið í fyrstu. Tökum eitt dæmi. Systir á Spáni leiðbeindi Yesicu, konu frá Ekvador, við biblíunám. Dag einn meðan á náminu stóð gat Yesica ekki hætt að gráta. Systirin spurði hvað væri að. Yesica sagði frá því að áður en hún kom til Spánar hefði hún verið svo fátæk að einn daginn átti hún engan mat. Það eina sem hún gat gefið dóttur sinni var vatn. Hún bað Guð um hjálp meðan hún reyndi að vagga dóttur sinni í svefn. Stuttu síðar heimsóttu tveir vottar hana. En Yesica brást hranalega við og reif blaðið sem systurnar buðu henni. „Haldið þið að dóttir mín geti borðað þetta?“ hreytti hún út úr sér. Systurnar reyndu að hughreysta hana en það stoðaði lítið. Síðar skildu þær matarkörfu eftir fyrir utan dyrnar hjá henni. Yesica var djúpt snortin af góðvild þeirra og leið illa yfir að hafa gefið því engan gaum þegar Guð svaraði bæn hennar. Nú var hún hins vegar staðráðin í að þjóna Jehóva. Örlæti þeirra hafði greinilega góð áhrif. – Préd. 11:1, 6.

BJÓDDU ÞIG FRAM TIL AÐ STYÐJA VERKEFNI Á VEGUM SAFNAÐARINS

9, 10. (a) Við hvaða tækifæri var þörf á sjálfboðaliðum meðal þjóna Guðs á biblíutímanum? (b) Á hvaða vegu geta fúsir bræður hjálpað til í söfnuðinum?

9 Í Ísrael til forna var oft þörf á sjálfboðaliðum. (2. Mós. 36:2; 1. Kron. 29:5; Neh. 11:2) Við höfum líka mörg tækifæri til að bjóða fram tíma okkar, fjármuni og hæfileika í þágu bræðra okkar og systra. Við hljótum mikla gleði og ríkulega blessun þegar við bjóðum okkur fúslega fram.

10 Biblían hvetur menn í söfnuðinum til að vera samverkamenn Jehóva með því að setja sér það markmið að verða safnaðarþjónar og öldungar. (1. Tím. 3:1, 8, 9; 1. Pét. 5:2, 3) Þeir sem stefna að því vilja bæði aðstoða aðra í trúnni og á öðrum sviðum. (Post. 6:1-4) Hafa öldungarnir spurt þig hvort þú sért fús til að vera með umsjón í sal eða hjálpa til í ritadeildinni, í svæðisdeildinni, við viðhald eða eitthvað annað? Þeir sem sinna slíkum verkefnum segja að það veiti mikla ánægju að geta orðið öðrum að liði.

Sjálfboðaliðar við verkefni á vegum safnaðarins eignast oft nýja vini. (Sjá 11. grein.)

11. Hvernig hefur systir ein notið góðs af því að eignast vini við framkvæmdir á vegum safnaðarins?

11 Þeir sem bjóða sig fram til að vinna við framkvæmdir á vegum safnaðarins  eignast oft nýja vini. Systir að nafni Margie hefur tekið þátt í að byggja ríkissali í 18 ár. Á þeim árum hefur hún tekið að sér margar ungar systur og þjálfað þær. Henni finnst vinna við slíkar framkvæmdir vera frábær leið til að uppörvast saman. (Rómv. 1:12) Á erfiðum tímum hefur Margie fengið uppörvun frá vinum sem hún eignaðist í þessum verkefnum. Hefur þú einhvern tíma boðið þig fram til að vinna við slíkar framkvæmdir? Geturðu gert það, jafnvel þótt þú hafir ekki fagkunnáttu?

12. Hvernig gætirðu veitt aðstoð þegar hamfarir verða?

12 Þjónar Guðs hafa tækifæri til að vinna með Guði með því að aðstoða trúsystkini sín eftir hamfarir. Við getum meðal annars veitt fjárhagslegan stuðning. (Jóh. 13:34, 35; Post. 11:27-30) Önnur leið er að hjálpa til við hreinsun og endurbyggingu á hamfarasvæðinu. Gabriela er pólsk systir. Heimili hennar var næstum gerónýtt eftir flóð en hún tók gleði sína á ný þegar trúsystkini úr nálægum söfnuðum komu og hjálpuðu henni. „Ég vil ekki ræða um það sem ég missti,“ segir hún, „það voru bara efnislegir hlutir. Ég vil heldur segja frá því hve mikið ég eignaðist. Þessi upplifun hefur fullvissað mig um að það er einstakur heiður að fá að tilheyra söfnuði Jehóva. Það veitir sanna gleði og hamingju.“ Margir sem hafa fengið hjálp eftir hamfarir eru sama sinnis. Og þeir sem vinna með Jehóva við að veita slíka hjálp upplifa einnig mikla gleði. – Lestu Postulasöguna 20:35; 2. Korintubréf 9:6, 7.

13. Hvernig styrkir það sambandið við Jehóva að bjóða fram aðstoð okkar? Nefndu dæmi.

13 Stephanie og fleiri boðberar hafa notið þeirrar gleði að vinna með Guði með því að aðstoða votta sem hafa komið til Bandaríkjanna sem flóttamenn. Þau hjálpuðu til við að finna húsnæði og húsgögn handa fjölskyldum frá stríðshrjáðum svæðum. „Við vorum snortin að sjá hve glöð og þakklát þau voru að finna fyrir kærleikanum sem  ríkir innan alþjóðasafnaðar Jehóva,“ segir Stephanie. „Fjölskyldunum finnst við hafa hjálpað þeim en í raun hafa þær hjálpað okkur mun meira.“ Hún bætir við: „Við elskum Jehóva enn heitar eftir að hafa orðið vitni að þessari einingu, trú, kærleika og trausti sem fjölskyldurnar bera til hans. Fyrir vikið erum við enn þakklátari fyrir allt það sem við fáum fyrir milligöngu safnaðar hans.“

TAKTU AUKINN ÞÁTT Í ÞJÓNUSTU JEHÓVA

14, 15. (a) Hvaða hugarfar sýndi Jesaja spámaður? (b) Hvernig geta boðberar Guðsríkis líkt eftir Jesaja?

14 Langar þig til að vinna með Jehóva í enn ríkari mæli? Værirðu fús til að flytjast þangað sem er meiri þörf á boðberum? Þjónar Guðs þurfa auðvitað ekki að fara langt að heiman til að sýna örlæti. En sumir bræður og systur geta gert það. Þau hafa svipað hugarfar og Jesaja spámaður. Þegar Jehóva spurði: „Hvern skal ég senda? Hver vill reka erindi vort?“ svaraði Jesaja: „Hér er ég. Send þú mig.“ (Jes. 6:8) Hefur þú löngun og aðstæður til að bjóða fram krafta þína í þjónustu Jehóva? Hvar er þörf á fúsum höndum?

15 Jesús sagði um það að boða fagnaðarerindið og gera fólk að lærisveinum: „Uppskeran er mikil en verkamenn fáir. Biðjið því Drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ (Matt. 9:37, 38) Getur þú þjónað þar sem meiri þörf er á boðberum, kannski sem brautryðjandi? Eða geturðu hjálpað einhverjum öðrum til þess? Að vera brautryðjandi þar sem þörfin er mikil er að mati margra bræðra og systra besta leiðin til að sýna Guði og náunganum kærleika. Geturðu aukið þjónustuna á aðra vegu? Það veitir mikla gleði að gera það.

16, 17. Hvaða tækifæri standa til boða ef þú vilt auka þjónustu þína við Jehóva?

16 Ertu fús til að vinna á Betel eða aðstoða við byggingarframkvæmdir á vegum safnaðarins, hvort sem það er tímabundið eða í hlutastarfi? Það er stöðug þörf á bræðrum og systrum sem eru fús til að þjóna Jehóva hvar sem þeirra er þörf og við hvaða verkefni sem er. Það gæti þýtt að þeim sé falið verkefni á ákveðnu sviði þótt þau hafi kunnáttu og reynslu á öðru sviði. Jehóva metur mikils fórnfýsi þeirra sem bjóða sig fram hvar sem þörf er á. – Sálm. 110:3.

17 Myndir þú vilja hljóta frekari þjálfun svo að þú getir gert heilagri þjónustu þinni enn betri skil? Þú gætir kannski sótt um í Skólanum fyrir boðbera Guðsríkis. Þar hljóta andlega sinnaðir bræður og systur í fullu starfi þjálfun svo að kraftar þeirra geti nýst enn betur í þjónustu Jehóva. Þeir sem sækja um í skólanum þurfa að vera reiðubúnir að þjóna hvar sem er eftir að þeir útskrifast. Værir þú fús til að nýta þér þetta tækifæri til að gera meira fyrir Jehóva? – 1. Kor. 9:23.

18. Hvað hlýst af því að vinna með Jehóva á hverjum degi?

18 Sem þjónar Jehóva látum við okkur annt um aðra og finnum okkur knúin til að sýna örlæti á hverjum degi, en það er merki um gæsku, góðvild og kærleika. Það veitir okkur gleði, frið og hamingju. (Gal. 5:22, 23) Hverjar sem aðstæður þínar eru geturðu notið gleðinnar sem hlýst af því að líkja eftir örlæti Jehóva og vera samverkamaður hans. – Orðskv. 3:9, 10.