Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 ÆVISAGA

Staðráðinn í að láta mér ekki fallast hendur

Staðráðinn í að láta mér ekki fallast hendur

PABBI, AFI, FRÆNDI. Margt ungt fólk á Betel hefur kallað mig þessum nöfnum. Ég kann að meta það, enda orðinn 89 ára. Ég lít á það sem merki um væntumþykju þeirra og umbun frá Jehóva fyrir að hafa þjónað honum í fullu starfi í 72 ár. Það sem ég hef upplifað í þjónustu Guðs gerir mér kleift að segja af sannfæringu við þetta unga fólk: „Látið ykkur ekki fallast hendur því að ykkur verður umbunað fyrir verk ykkar.“ – 2. Kron. 15:7.

FORELDRAR MÍNIR OG SYSTKINI

Foreldrar mínir voru innflytjendur frá Úkraínu. Þeir settust að í bænum Rossburn í Manitoba-fylki í Kanada. Elskuleg móðir mín eignaðist átta drengi og átta stúlkur, enga tvíbura. Ég var fjórtánda barnið í röðinni. Faðir minn hafði yndi af Biblíunni og las í henni fyrir okkur á sunnudagsmorgnum. En hann leit á trúarbrögð sem peningaplokk og spurði oft í hæðnistón: „Hvað ætli Jesús hafi fengið borgað fyrir að prédika og kenna?“

Átta systkina minna – fjórir bræður og fjórar systur – tóku með tímanum við sannleikanum. Rose, systir mín, var brautryðjandi þar til hún dó. Síðustu daga ævinnar beindi hún athygli allra að Biblíunni og sagði: „Mig langar að sjá þig í nýja heiminum.“ Ted, eldri bróðir minn, prédikaði helvíti í útvarpinu. Á hverjum sunnudagsmorgni hamraði hann á því við áheyrendur sína að syndarar myndu brenna að eilífu í óslökkvandi vítiseldi. En síðar meir varð hann trúfastur og kappsamur þjónn Jehóva.

ÞJÓNUSTA Í FULLU STARFI

Dag einn í júní árið 1944, þegar ég kom heim úr skólanum, fann ég bæklinginn The Coming World Regeneration * á borðstofuborðinu. Ég las fyrstu blaðsíðuna, síðan þá næstu og eftir það gat ég ekki hætt að lesa. Þegar ég hafði lokið við að lesa allan bæklinginn var ég búinn að gera upp hug minn – ég vildi þjóna Jehóva alveg eins og Jesús.

Hvernig endaði bæklingurinn á borðinu hjá okkur? Steve, eldri bróðir minn, sagði að tveir menn hefðu bankað upp á til að „selja“ bækur og bæklinga. „Ég keypti þennan,“ sagði hann, „af  því að hann kostaði ekki nema fimm sent.“ Mennirnir komu aftur næsta sunnudag. Þeir sögðust vera vottar Jehóva og að þeir svöruðu spurningum fólks með hjálp Biblíunnar. Við kunnum að meta það því að foreldrar okkar höfðu kennt okkur að bera virðingu fyrir orði Guðs. Mennirnir tveir sögðu okkur líka að Vottarnir héldu bráðum mót í Winnipeg, borginni þar sem Elsie systir bjó. Ég ákvað að sækja mótið.

Ég hjólaði um 320 kílómetra til Winnipeg og kom við í bænum Kelwood þar sem vottarnir tveir áttu heima. Þar fór ég á samkomu og kynntist safnaðarlífinu. Ég áttaði mig líka á því að allir – karlar, konur og ungt fólk – ættu að boða trúna hús úr húsi eins og Jesús gerði.

Í Winnipeg hitti ég Jack, eldri bróður minn sem hafði ferðast á mótið frá norðurhluta Ontario. Fyrsta mótsdaginn var tilkynnt að skírn færi fram á mótinu. Við Jack ákváðum að nota tækifærið og láta skírast. Við vorum báðir staðráðnir í að gerast brautryðjendur eins fljótt og mögulegt væri eftir að við skírðumst. Jack byrjaði strax eftir mótið. Ég var 16 ára og þurfti að halda áfram í skóla en ári síðar byrjaði ég líka sem brautryðjandi.

ÉG LÆRI LEXÍU

Við Stan Nicolson hófum brautryðjandastarf okkar í Souris, bæ í Manitoba. Ég komst fljótlega að raun um að brautryðjandastarfið var ekki alltaf dans á rósum. Spariféð fór minnkandi en við gáfumst ekki upp. Dag einn héldum við heim sársvangir eftir að hafa boðað trúna allan daginn og áttum ekki krónu eftir. Okkur til mikillar undrunar beið okkar við dyrnar stór poki með mat. Við vitum ekki enn hver kom með hann. Við borðuðum eins og kóngar þetta kvöld. Hvílík umbun fyrir að hafa ekki látið okkur fallast hendur! Í lok mánaðar var ég reyndar þyngri en ég hafði nokkurn tíma verið áður.

Fáeinum mánuðum síðar vorum við sendir til Gilbert Plains en það er bær um 240 kílómetra norður af Souris. Í þá daga höfðu söfnuðirnir stórt spjald á sviðinu sem sýndi hverju hafði verið áorkað í boðuninni í hverjum mánuði. Þegar boðunin hafði minnkað einn mánuðinn flutti ég ræðu í söfnuðinum til að undirstrika að bræður og systur þyrftu að gera betur. Roskin brautryðjandasystir í söfnuðinum átti mann sem var ekki í trúnni. Hún kom til mín eftir samkomuna og sagði með tárin í augunum: „Ég gat ekki gert meira. Ég reyndi eins og ég gat.“ Þá brast ég líka í grát og baðst fyrirgefningar.

Ungir, ákafir bræður eins og ég var geta hæglega gert mistök sem þessi og orðið svekktir út í sjálfa sig. En það er mín reynsla að best sé að læra af mistökunum í stað þess að láta sér fallast hendur. Að þjóna áfram trúfastlega hefur umbun í för með sér.

BARÁTTAN Í QUEBEC

Þegar ég var 21 árs fékk ég þann heiður að sækja Gíleaðskólann. Ég útskrifaðist í febrúar 1950 með 14. nemendahópnum. Um fjórðungur hópsins var sendur til Quebec í Kanada þar sem töluð er franska. Þar voru ofsóknir á hendur vottum Jehóva í algleymingi. Ég var sendur til Val-d’Or, bæjar á gullnámusvæði. Einn daginn fórum við nokkur saman að boða trúna í nágrannaþorpinu Val-Senneville. Presturinn á staðnum hótaði að beita okkur ofbeldi ef við yfirgæfum ekki þorpið undireins. Hótunin leiddi til dómsmáls þar sem ég var stefnandinn. Málinu lauk með því að presturinn var sektaður. *

Þetta atvik og mörg önnur svipuð urðu þekkt sem baráttan í Quebec. Rómversk-kaþólska kirkjan hafði haft mikil áhrif á stjórnsýslu Quebec-fylkis í meira en þrjár aldir. Prestarnir og pólitískir bandamenn þeirra ofsóttu votta Jehóva. Þetta voru erfiðir tímar og við vorum fámennur hópur en við létum okkur ekki fallast hendur. Hjartahreint fólk í Quebec brást vel við boðun okkar. Ég leiðbeindi mörgum við biblíunám  og margir þeirra tóku síðan við sannleikanum. Á einu biblíunámskeiðanna var tíu manna fjölskylda. Öll fjölskyldan fór að þjóna Jehóva. Hugrekki þeirra var öðrum hvatning til að segja sig úr kaþólsku kirkjunni. Við héldum áfram að boða trúna og hrósuðum að lokum sigri í baráttunni.

BRÆÐUR HLJÓTA ÞJÁLFUN Á MÓÐURMÁLI SÍNU

Árið 1956 var ég sendur til Haítí. Flestir nýir trúboðar þar þurftu að hafa mikið fyrir því að læra frönsku, en fólk hlustaði. Trúboðinn Stanley Boggus sagði: „Það kom okkur á óvart hve mikið fólk skyldi leggja á sig til að hjálpa okkur að tjá okkur.“ Fyrst um sinn hafði ég forskot þar sem ég hafði lært frönsku í Quebec. En okkur varð fljótlega ljóst að flest trúsystkinin á staðnum töluðu aðeins haítíska kreólsku. Til að hafa erindi sem erfiði þurftum við því að læra tungumálið sem var talað á staðnum. Það gerðum við og okkur var umbunað fyrir.

Til að hjálpa bræðrum og systrum enn frekar gaf hið stjórnandi ráð leyfi til að þýða Varðturninn og önnur rit á haítíska kreólsku. Samkomusóknin rauk upp alls staðar í landinu. Árið 1950 voru 99 boðberar á Haítí en árið 1960 voru þeir orðnir yfir 800. Um þær mundir var ég kallaður til starfa á Betel. Árið 1961 fékk ég það ánægjulega verkefni að vera einn af kennurunum við Ríkisþjónustuskólann en þar fengu 40 öldungar og sérbrautryðjendur þjálfun. Á mótinu í janúar 1962 hvöttum við hæfa bræður og systur á staðnum til að færa út kvíarnar í þjónustunni og sum þeirra gerðust sérbrautryðjendur. Það reyndist tímabært því að ofsóknir voru í vændum.

Þann 23. janúar 1962, rétt eftir mótið, vorum við trúboðinn Andrew D’Amico handteknir á deildarskrifstofunni og birgðirnar af Vaknið! á frönsku 8. janúar 1962 voru gerðar upptækar. Í blaðinu var vitnað í frönsk dagblöð sem greindu frá því að vúdútrú væri stunduð á Haítí.  Sumir voru óánægðir með það og fullyrtu að við hefðum samið greinina á deildarskrifstofunni. Nokkrum vikum síðar var trúboðunum vísað úr landi. * En vel þjálfuð trúsystkinin á staðnum stóðu sig frábærlega og héldu ótrauð áfram. Enn þann dag í dag samgleðst ég þeim vegna þolgæðis þeirra og framfara í trúnni. Nú hafa þau meira að segja Nýheimsþýðingu Heilagrar ritningar á haítískri kreólsku – nokkuð sem við hefðum ekki getað ímyndað okkur í þá daga.

BYGGINGARFRAMKVÆMDIR Í MIÐ-AFRÍKULÝÐVELDINU

Þegar þjónustu minni á Haítí lauk var ég sendur sem trúboði til Mið-Afríkulýðveldisins. Síðar meir var ég útnefndur farandumsjónarmaður og síðar umsjónarmaður deildarskrifstofunnar.

Á þeim tíma voru margir ríkissalir mjög fábrotnir. Ég lærði að tína strá og setja stráþak á hús. Það var mikið sjónarspil fyrir þá sem gengu fram hjá að sjá mig spreyta mig í þessu nýja fagi mínu. En það hvatti líka bræður og systur til að taka meiri þátt í að byggja eigin ríkissali og viðhalda þeim. Trúarleiðtogar hæddust að okkur af því að kirkjurnar þeirra voru með bárujárnsþök en okkar ekki. Við létum það ekki á okkur fá og héldum áfram að nota stráþök á ríkissalina okkar. Háðsglósurnar hættu þegar aftakaveður gekk yfir höfuðborgina Bangui. Bárujárnsþakið á einni kirkjunni fauk af og skall á aðalgötunni. Stráþökin á ríkissölunum héldust hins vegar á sínum stað. Til að geta haft betri umsjón með boðun Guðsríkis reistum við nýja deildarskrifstofu og trúboðsheimili. Það tók aðeins fimm mánuði upp á dag. *

ÉG EIGNAST KAPPSAMAN FÉLAGA

Á brúðkaupsdeginum.

Árið 1976 var starfsemi safnaðarins bönnuð í Mið-Afríkulýðveldinu og ég var sendur til Ndjamena, höfuðborgar nágrannaríkisins Tjads. Það jákvæða var að þar hitti ég Happy, dugmikla sérbrautryðjandasystur frá Kamerún. Við giftum okkur 1. apríl 1978. Í sama mánuði braust út borgarastyrjöld og við flúðum sunnar í landið eins og svo margir aðrir. Við snerum aftur þegar átökunum lauk og komumst þá að raun um að vopnaðir menn höfðu notað heimili okkar sem bækistöð. Búið var að stela ritunum okkar en líka brúðarkjól Happy og brúðargjöfunum. Við létum okkur þó ekki fallast hendur. Við áttum enn hvort annað og hlökkuðum til að halda þjónustunni áfram.

Um tveim árum síðar var banninu aflétt í Mið-Afríkulýðveldinu. Við snerum þangað aftur og þjónuðum í farandstarfi. Við bjuggum í sendiferðabíl með niðurfellanlegu rúmi, gasísskáp, gaseldavél og tunnu sem tók 200 lítra af vatni. Það var hægara sagt en gert að komast á milli staða. Í einni ferð vorum við stöðvuð hvorki meira né minna en 117 sinnum við lögreglueftirlit.

Hitinn fór oft upp fyrir 50 gráður. Á mótum var stundum erfitt að finna nógu mikið vatn fyrir skírnina. Bræðurnir grófu því eftir vatni í uppþornuðum árfarvegum og náðu smátt og smátt að safna nógu miklu vatni fyrir skírnina, en hún fór oft fram í tunnu.

FLEIRI VERKEFNI Í ÖÐRUM AFRÍKULÖNDUM

Árið 1980 vorum við send til Nígeríu. Í tvö og hálft ár hjálpuðum við til við að undirbúa byggingu nýrrar deildarskrifstofu þar í landi. Bræðurnir höfðu keypt tveggja hæða vörugeymslu sem átti að taka í sundur og setja síðan aftur saman á byggingarsvæðinu okkar. Einn morguninn klifraði ég frekar hátt upp á bygginguna til að hjálpa til við verkið. Rétt fyrir hádegi ætlaði ég að klifra niður sömu leið og ég kom upp. En byggingin hafði breyst og þegar ég ætlaði að stíga niður var ekkert þar. Ég hrapaði niður. Það leit út fyrir að ég væri alvarlega slasaður en eftir skoðun og röntgenmyndatöku sagði læknirinn við Happy: „Engar áhyggjur, hann sleit bara  nokkur liðbönd og verður búinn að ná sér eftir viku.“

Á leið á mót með „almenningssamgöngum“.

Árið 1986 héldum við til Fílabeinsstrandarinnar. Þar vorum við í farandstarfi og heimsóttum meðal annars Búrkína Fasó. Mig óraði ekki fyrir því þá að mörgum árum síðar ættum við eftir að búa þar um tíma.

Við bjuggum í sendiferðabíl þegar við vorum í farandstarfi.

Ég fór frá Kanada árið 1956 en árið 2003, eftir 47 ára fjarveru, sneri ég þangað aftur til að starfa á Betel, en í þetta sinn með Happy. Á pappírunum vorum við Kanadamenn en okkur fannst við eiga heima í Afríku.

Með biblíunemanda í Búrkína Fasó.

Árið 2007, þegar ég var 79 ára, vorum við send til Afríku á ný. Ég var valinn til að sitja í landsnefndinni í Búrkína Fasó. Skrifstofu nefndarinnar var síðar breytt í þýðingastofu í umsjá deildarskrifstofunnar í Benín. Í ágúst 2013 vorum við síðan send til að starfa á Betel þar í landi.

Við Happy meðan við störfuðum á deildarskrifstofunni í Benín.

Boðunin er mér enn mjög hjartfólgin þótt aldurinn sé farinn að segja til sín. Með góðri hjálp öldunganna og stuðningi eiginkonu minnar hef ég notið þeirrar gleði á síðustu þrem árum að sjá tvo biblíunemendur mína skírast, þá Gédéon og Frégis. Báðir þjóna Jehóva af kappi.

Á sama tímabili vorum við hjónin beðin að flytjast til deildarskrifstofunnar í Suður-Afríku þar sem Betelfjölskyldan sér mér fyrir heilbrigðisþjónustu. Suður-Afríka er sjöunda Afríkulandið sem ég hef fengið að starfa í. Í október 2017 hlutum við síðan ólýsanlega blessun. Við fengum að vera viðstödd vígslu aðalstöðvanna í Warwick í New York. Það var ógleymanlegur viðburður!

Í árbókinni 1994 segir á síðu 255: „Við hvetjum alla sem hafa sýnt þolgæði í starfinu um margra ára skeið: ,Verið hughraustir. Látið ykkur ekki fallast hendur því að ykkur verður umbunað fyrir verk ykkar.‘ – 2. Kron. 15:7.“ Við Happy erum staðráðin í að fylgja þessari hvatningu og hvetja aðra til þess líka.

^ gr. 9 Gefinn út af Vottum Jehóva árið 1944 en ekki lengur fáanlegur.

^ gr. 18 Sjá greinina „Quebec Priest Convicted for Attack on Jehovah’s Witnesses“ í Vaknið! á ensku 8. nóvember 1953, bls. 3-5.

^ gr. 23 Ítarlegri frásögn er að finna í árbók Votta Jehóva 1994, bls. 148-150.

^ gr. 26 Sjá greinina „Building on a Solid Foundation“ í Vaknið! á ensku 8. maí 1966, bls. 27.