Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þeir sem gefa örlátlega eru hamingjusamir

Þeir sem gefa örlátlega eru hamingjusamir

„Sælla er að gefa en þiggja.“ – POST. 20:35.

SÖNGVAR: 76, 110

1. Hvernig ber sköpunarverkið vitni um örlæti Jehóva?

Í FYRSTU var Jehóva aleinn. En þegar hann byrjaði að skapa hafði hann ekki aðeins sjálfan sig í huga. Öllu heldur gaf hann vitibornum verum, bæði andaverum og mönnum, lífið að gjöf. Jehóva, ,hinn sæli Guð‘, hefur yndi af að gefa góðar gjafir. (1. Tím. 1:11, Biblían 1912; Jak. 1:17) Hann vill líka að við séum hamingjusöm og kennir okkur þess vegna að vera örlát. – Rómv. 1:20.

2, 3. (a) Hvers vegna veitir það okkur hamingju að vera örlát? (b) Hvað ætlum við að skoða?

2 Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. (1. Mós. 1:27) Með öðrum orðum vorum við sköpuð til að endurspegla eiginleika hans. Til að geta verið hamingjusöm og lifað innihaldsríku lífi verðum við því að líkja eftir Jehóva með því að vera örlát og láta okkur umhugað um aðra. (Fil. 2:3, 4; Jak. 1:5) Hvers vegna? Einfaldlega vegna þess að Jehóva skapaði okkur þannig. Við getum líkt eftir örlæti hans þó að við séum ófullkomin.

3 Í Biblíunni er okkur sagt hvernig við getum verið örlát. Skoðum sumt af því sem hún segir um það. Við komumst að  því hvers vegna Guð hefur velþóknun á þeim sem eru örlátir og hvernig örlæti hjálpar okkur að inna af hendi það verk sem hann hefur falið okkur. Við könnum einnig hvernig örlæti tengist hamingju okkar og hvers vegna við þurfum stöðugt að rækta með okkur þennan eiginleika.

VIÐ GETUM NOTIÐ VELÞÓKNUNAR GUÐS

4, 5. Hvernig hafa Jehóva og Jesús sett okkur fordæmi um örlæti?

4 Jehóva vill að mennirnir líki eftir sér og þess vegna gleðjum við hann þegar við erum örlát. (Ef. 5:1) Það er augljóst að hann vill að við séum hamingjusöm. Við sjáum það af auðæfum og fegurð náttúrunnar og því hvernig við erum úr garði gerð. (Sálm. 104:24; 139:13-16) Við heiðrum því Guð þegar við leggjum okkur fram um að gleðja aðra.

5 Sannkristnir menn líkja eftir Kristi sem lét okkur eftir fullkomið fordæmi um örlæti. Jesús sagði sjálfur: „Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“ (Matt. 20:28) Páll postuli hvatti kristna menn: „Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var ... Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur.“ (Fil. 2:5, 7) Við ættum hvert og eitt að spyrja okkur: Get ég líkt eftir Jesú enn betur en ég geri nú þegar? – Lestu 1. Pétursbréf 2:21.

6. Hvað kenndi Jesús okkur með dæmisögunni um miskunnsama Samverjann? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

6 Við getum notið velþóknunar Jehóva með því að líkja eftir fullkomnu fordæmi hans og Krists, láta okkur annt um velferð annarra og leita leiða til að annast þarfir þeirra. Jesús ætlast til þess að fylgjendur sínir leggi lykkju á leið sína til að hjálpa öðrum, óháð uppruna þeirra. Það kom skýrt í ljós þegar hann sagði dæmisöguna um miskunnsama Samverjann. (Lestu Lúkas 10:29-37.) Manstu hvaða spurning leiddi til þess að Jesús sagði þessa dæmisögu? Gyðingur nokkur spurði hann: ,Hver er náungi minn?‘ Svar Jesú leiðir í ljós að við þurfum að vera fús til að gefa örlátlega eins og Samverjinn ef við viljum njóta velþóknunar Guðs.

7. Hvernig sýnum við að við erum sannfærð um að það sé alltaf fyrir bestu að gera vilja Jehóva? Skýrðu svarið.

7 Þjónar Guðs hafa margar góðar ástæður til að vera örlátir. Örlæti er til dæmis tengt deilumálinu sem Satan hleypti af stað í Edengarðinum. Hvernig þá? Satan fullyrti að Adam og Eva, og reyndar allt mannkynið, væri betur sett ef það einblíndi á sjálft sig og setti eigin hagsmuni framar því að hlýða Guði. Eva sýndi eigingirni með því að vilja vera eins og Guð. Og Adam lét undan þeirri eigingjörnu löngun að vilja þóknast Evu. (1. Mós. 3:4-6) Það er augljóst hvaða afleiðingar ákvarðanir þeirra höfðu. Eigingirni gerir mann ekki hamingjusaman. Síður en svo. En með því að vera örlát sýnum við að við erum sannfærð um að það sé alltaf fyrir bestu að gera vilja Guðs.

SINNUM ÞVÍ VERKI SEM GUÐ HEFUR FALIÐ ÞJÓNUM SÍNUM

8. Af hverju hefðu fyrstu hjónin átt að hugsa um velferð annarra?

8 Fyrirmælin, sem Guð gaf fyrstu hjónunum, hefðu átt að fá þau til að hugsa um velferð annarra þó svo að  þau væru ein í Edengarðinum. Jehóva blessaði Adam og Evu og hvatti þau til að fjölga sér, fylla jörðina og leggja hana undir sig. (1. Mós. 1:28) Þeim hefði átt að vera umhugað um ófædd börn sín og hamingju þeirra, rétt eins og skaparanum var umhugað um sköpunarverk sitt. Paradísin átti að ná yfir alla jörðina svo að afkomendur Adams gætu notið hennar. Til að svo gæti orðið þurfti sístækkandi fjölskylda hans að vinna vel saman.

9. Hvers vegna hefði það haft ómælda ánægju í för með sér að stækka paradísina?

9 Með því að stækka paradísina hefði fullkomið mannkyn getað unnið náið með Jehóva að því að fyrirætlun hans næði fram að ganga, og þar með gengið inn til hvíldar hans. (Hebr. 4:11) Ímyndaðu þér hve gefandi það hefði verið! Að gefa af sér í þágu annarra hefði haft í för með sér ríkulega blessun og ómælda ánægju.

10, 11. Hvernig getum við gert verkefni okkar að boða trúna og kenna góð skil?

10 Jehóva hefur falið þjónum sínum nú á dögum að boða fagnaðarerindið og gera fólk að lærisveinum. Til að geta gert því verki góð skil þurfum við að láta okkur einlæglega annt um fólk. Við getum aðeins haldið út í þessu starfi ef við sinnum því af réttum hvötum – af kærleika til Guðs og til náungans.

11 Á fyrstu öld sagði Páll að hann og vissir samstarfsmenn sínir væru „samverkamenn Guðs“ þar sem þeir áttu þátt í að gróðursetja og vökva sáðkorn Guðsríkis. (1. Kor. 3:6, 9) Við getum líka verið „samverkamenn Guðs“ með því að gefa örlátlega af tíma okkar, kröftum og fjármunum í þágu boðunarinnar sem hann hefur falið okkur. Það er stórkostlegur heiður!

Fátt er ánægjulegra en að hjálpa þakklátu fólki að skilja sannleika Biblíunnar. (Sjá 12. grein.)

12, 13. Hvaða blessun finnst þér hljótast af því að kenna fólki sannleika Biblíunnar?

12 Það veitir mikla gleði að gefa örlátlega af tíma sínum og kröftum til að boða fagnaðarerindið og gera fólk að lærisveinum. Margir hafa sagt að fátt sé skemmtilegra en að halda biblíunámskeið með nemanda sem tekur góðum framförum. Það er ákaflega ánægjulegt að sjá þakkláta nemendur ljóma af gleði þegar þeir skilja sannindi Biblíunnar, vaxa í trúnni, gera breytingar á lífi sínu og byrja að segja öðrum frá trú sinni. Jesús fann sömuleiðis fyrir mikilli gleði þegar boðberarnir 70, sem hann hafði sent út að boða trúna, ,komu aftur með fögnuði‘ yfir því sem þeir höfðu upplifað. – Lúk. 10:17-21.

13 Boðberar um heim allan gleðjast þegar þeir sjá fagnaðarboðskapinn hafa góð áhrif á líf fólks. Anna er ung einhleyp systir sem fluttist til Austur-Evrópu  til að boða trúna þar sem mikil þörf er á boðberum. * „Mér finnst æðislegt hvað það eru mörg tækifæri hér til að halda biblíunámskeið,“ skrifar hún. „Ég hef mikla ánægju af starfinu. Þegar ég kem heim hef ég ekki tíma til að hugsa bara um sjálfa mig. Ég hugsa um biblíunemendurna – vandamál þeirra og áhyggjur. Ég leita leiða til að hvetja þá og hjálpa þeim á ýmsa vegu. Nú veit ég fyrir víst að ,sælla er að gefa en þiggja‘.“ – Post. 20:35.

Þegar við förum í öll hús á svæðinu okkar gefum við fólki tækifæri til að bregðast við boðskapnum um ríki Guðs. (Sjá 14. grein.)

14. Hvernig geturðu haft ánægju af boðuninni, jafnvel þótt fáir vilji hlusta á fagnaðarerindið?

14 Við getum glaðst yfir því að gefa fólki tækifæri til að heyra fagnaðarerindið, jafnvel þótt það vilji ekki hlusta. Verkefni okkar nú til dags er ekki ósvipað því sem Esekíel spámanni var falið en Jehóva sagði við hann: „Þú skalt flytja þeim orð mín hvort sem þeir hlusta á þau eða gefa þeim engan gaum.“ (Esek. 2:7; Jes. 43:10) Þótt sumir kunni ekki að meta boðskap okkar kann Jehóva að meta það sem við leggjum á okkur. (Lestu Hebreabréfið 6:10.) Boðberi nokkur, sem hafði rétta hugarfarið, skrifaði: „Við gróðursetjum, vökvum og biðjum í von um að Jehóva láti áhugann vaxa.“ – 1. Kor. 3:6.

HVAÐ STUÐLAR AÐ HAMINGJU?

15. Hvernig bregðast margir við örlæti, og ættu viðbrögð þeirra að hafa áhrif á örlæti okkar?

15 Jesús vill að við séum hamingjusöm. Þess vegna hvetur hann okkur til að vera örlát. Margir bregðast vel við örlæti. „Gefið og yður mun gefið verða,“ sagði Jesús. „Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.“ (Lúk. 6:38) Auðvitað bregðast ekki allir vel við örlæti okkar, en þegar þeir gera það getur það komið af stað keðjuverkun. Tileinkum okkur því gjafmildi, hvort sem fólk kann að meta það eða ekki. Það er aldrei að vita hve  margt gott getur hlotist af einu góðverki.

16. Hver ætti hvötin að baki örlæti okkar að vera?

16 Þeir sem eru raunverulega örlátir ætlast ekki til að fá eitthvað til baka. Jesús hafði það í huga þegar hann sagði: „Þegar þú gerir veislu þá bjóð þú fátækum og örkumla, höltum og blindum og munt þú sæll verða því að þeir geta ekki endurgoldið þér.“ (Lúk. 14:13, 14) „Sá sem er örlátur hlýtur blessun,“ var einum ritara innblásið að skrifa. Annar sagði: „Sæll er sá sem sinnir bágstöddum.“ (Orðskv. 22:9, NW; Sálm. 41:2) Já, við ættum að gefa af því að það veitir gleði að hjálpa öðrum.

17. Hvers konar gjafmildi stuðlar að hamingju?

17 Þegar Páll vitnaði í orð Jesú, „sælla er að gefa en þiggja“, var hann ekki aðeins að tala um að gefa efnislega hluti heldur líka að uppörva, leiðbeina og aðstoða þá sem þurfa á því að halda. (Post. 20:31-35) Páll kenndi okkur í orði og verki að gefa af sjálfum okkur – af tíma okkar, kröftum, athygli og kærleika.

18. Hvað hafa margir rannsakendur ályktað varðandi örlæti?

18 Þeir sem stunda rannsóknir á sviði félagsvísinda hafa einnig komist að raun um að gjafmildi gerir fólk ánægt. Í einni vísindagrein kemur fram að „fólk segist upplifa mikla gleði eftir að hafa gert góðverk fyrir aðra“. Rannsóknir sýna fram á að það veitir fólki „aukinn tilgang“ í lífinu að hjálpa öðrum „því að það fullnægir grunnþörfum mannsins“. Þar af leiðandi mæla sérfræðingar oft með því að fólk bjóði sig fram til samfélagsþjónustu til að verða heilsuhraustara og hamingjusamara. Þetta kemur þjónum Jehóva ekki á óvart þar sem þeir líta á Biblíuna sem bók frá Jehóva, kærleiksríkum skapara mannkyns. – 2. Tím. 3:16, 17.

TEMJUM OKKUR ÖRLÆTI

19, 20. Hvers vegna langar þig til að sýna örlæti?

19 Það getur verið erfitt að vera örlát þegar við erum umkringd fólki sem hugsar fyrst og fremst um eigin hag. Jesús sagði hins vegar að tvö æðstu boðorðin væru þau að elska Jehóva af öllu hjarta, sálu og mætti og að elska náungann eins og sjálfan sig. (Mark. 12:28-31) Þeir sem elska Jehóva líkja eftir honum, eins og fram hefur komið í greininni. Bæði Jehóva og Jesús eru gjafmildir. Og þeir vilja að við séum það líka því að það veitir okkur sanna hamingju. Við heiðrum Jehóva þegar við leggjum okkur fram um að sýna bæði honum og náunganum örlæti. Auk þess er það sjálfum okkur og öðrum til góðs.

20 Þú leggur þig vafalaust þegar fram um að gefa af sjálfum þér í þágu annarra, ekki síst trúsystkina þinna. (Gal. 6:10) Ef þú heldur því áfram mun fólki þykja vænt um þig og meta þig mikils, og þú verður hamingjusamur fyrir vikið. „Örlátur maður hlýtur ríkulega umbun,“ segir í Orðskviðunum 11:25, „og sá sem gefur öðrum að drekka fær þorsta sínum svalað.“ Hægt er að sýna gjafmildi, góðvild og örlæti á ýmsa vegu og á mörgum sviðum í kristinni þjónustu okkar. Og það hefur mikla blessun í för með sér. Í næstu grein skoðum við á hvaða ýmsa vegu það er hægt.

^ gr. 13 Nafninu er breytt.