Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að afklæðast hinum gamla manni og halda sig frá honum

Að afklæðast hinum gamla manni og halda sig frá honum

,Afklæðist hinum gamla manni með gjörðum hans.‘ – KÓL. 3:9.

SÖNGVAR: 121, 142

1, 2. Hvað hafa menn sagt um votta Jehóva?

MARGIR hafa veitt því athygli að vottar Jehóva skera sig úr fjöldanum. Rithöfundurinn Anton Gill segir til dæmis um trúsystkini okkar í Þýskalandi á tímum nasista: „Nasistum var sérstaklega í nöp við votta Jehóva ... Árið 1939 voru 6.000 vottar í fangabúðunum.“ En þrátt fyrir að vottarnir væru ofsóttir grimmilega segir höfundurinn að þeir hafi verið „áreiðanlegir og haldið ró sinni undir álagi“ og jafnframt verið „trúir Guði og staðið saman“.

2 Þjónar Jehóva hafa líka vakið athygli í Suður-Afríku fyrir góða eiginleika sína. Áður fyrr var vottum með ólíkan hörundslit ekki leyft að halda sameiginlegar samkomur þar í landi. En sunnudaginn 18. desember 2011 söfnuðust saman meira en 78.000 vottar af ólíkum kynþáttum á stærsta leikvangi í Jóhannesarborg til að hlusta á trúarlega dagskrá. Einn af stjórnendum leikvangsins sagði um mótsgesti sem voru bæði frá Suður-Afríku og nágrannalöndunum: „Ég hef aldrei séð hóp hér á leikvanginum sem er til jafn mikillar fyrirmyndar og þið. Allir eru snyrtilega til fara. Og þið hafið  þrifið leikvanginn svo vel. Síðast en ekki síst er enginn kynþáttaaðskilnaður hjá ykkur.“

3. Hvað er einstakt við alþjóðasöfnuð okkar?

3 Slík ummæli fólks utan safnaðarins bera vitni um að alþjóðlegt samfélag votta Jehóva er einstakt í sinni röð. (1. Pét. 5:9) En hvað er það sem gerir okkur ólík öllum öðrum samtökum? Við leggjum okkur fram um að ,afklæðast hinum gamla manni‘ með hjálp Biblíunnar og heilags anda og ,íklæðast hinum nýja‘. – Kól. 3:9, 10.

4. Um hvað er rætt í þessari grein og hvers vegna?

4 Það er eitt að afklæðast hinum gamla manni en allt annað að halda sig frá honum. Í þessari grein ræðum við hvernig hægt er að afklæðast hinum gamla manni, hvers vegna það er áríðandi og hvernig hægt er að breyta sér óháð því hve langt maður hefur leiðst út á ranga braut. Við könnum einnig hvað þeir sem hafa verið lengi í sannleikanum geta gert til að halda sig frá hinum gamla manni. Hvers vegna er nauðsynlegt að minna á það? Því miður hafa sumir, sem þjónuðu Jehóva, slakað á verðinum og leiðst aftur út í sitt gamla hátterni. Við þurfum því öll að taka til okkar viðvörunina: „Sá er hyggst standa gæti því vel að sér að hann falli ekki.“ – 1. Kor. 10:12.

„DEYÐIГ ALLA LÖNGUN Í KYNFERÐISLEGT SIÐLEYSI

5. (a) Lýstu með dæmi hvers vegna það liggur á að afklæðast hinum gamla manni. (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvað tilheyrir hinum gamla manni samkvæmt Kólossubréfinu 3:5-9?

5 Hvað myndirðu gera ef fötin þín yrðu óhrein og jafnvel illa lyktandi? Þú myndir auðvitað klæða þig úr óhreinu fötunum eins fljótt og hægt væri. Við þurfum líka að vera fljót að losa okkur við hvaðeina sem Jehóva hefur andúð á. Við viljum hlýða skýrum fyrirmælum Páls til kristinna manna á fyrstu öld: „Nú skuluð þið segja skilið við allt þetta.“ Lítum á tvenns konar syndir sem Páll nefnir – kynferðislegt siðleysi og óhreinleika. – Lestu Kólossubréfið 3:5-9.

6, 7. (a) Hvernig bera orð Páls með sér að það þarf að leggja hart að sér til að afklæðast hinum gamla manni? (b) Hvernig lifði Sakura og hvað gaf henni kraft til að snúa við blaðinu?

6 Kynferðislegt siðleysi. Biblíuorðið, sem er þýtt ,hórdómur‘, merkir meðal annars kynmök fólks utan hjónabands og kynmök samkynhneigðra. Páll sagði trúsystkinum sínum að ,deyða hið jarðbundna í fari sínu‘, þar á meðal löngun í kynferðislegt siðleysi. Þau áttu sem sagt að sigrast á öllum löngunum í þá átt. Páll notar sterkt myndmál sem ber greinilega með sér að það þarf að beita kröftugum aðferðum til að losa sig við rangar langanir af þessu tagi. En það er hægt að sigra í baráttunni við syndugar langanir.

7 Sakura * er japönsk systir. Hún var einmana á uppvaxtarárunum og fannst lífið innantómt. Fimmtán ára fór hún að stunda kynlíf til að takast á við einmanaleikann og átti marga bólfélaga. Hún viðurkennir niðurlút að hún hafi farið þrisvar í fóstureyðingu. „Í fyrstu fann ég til öryggiskenndar þegar ég svaf hjá. Mér fannst ég elskuð og einhvers virði. En öryggisleysið jókst því oftar sem ég svaf hjá.“ Sakura hélt þessu áfram þar til hún var 23 ára. Þá fór hún að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva. Hún  hreifst af því sem hún lærði, og með hjálp Jehóva tókst henni að sigrast á djúpstæðri sektarkennd og skömm og snúa baki við sínu fyrra líferni. Núna er Sakura brautryðjandi og er ekki lengur einmana. „Það er yndislegt að njóta kærleika Jehóva daginn út og daginn inn,“ segir hún.

AÐ SIGRAST Á ÓHREINLEIKA

8. Hvað getur meðal annars gert mann óhreinan í augum Guðs?

8 Óhreinleiki. Biblíuorðið, sem er þýtt ,saurlifnaður‘ í Kólossubréfinu 3:5, hefur breiða merkingu og nær yfir margt fleira en syndir af kynferðislegu tagi. Það nær til dæmis yfir reykingar og að segja klúra brandara. (2. Kor. 7:1; Ef. 5:3, 4) Það nær einnig yfir ýmislegt óhreint sem fólk gerir í einrúmi, svo sem að lesa kynæsandi bækur eða horfa á klám en það getur leitt til sjálfsfróunar sem er óhreinn ósiður. – Kól. 3:5. *

9. Hvaða afleiðingar getur það haft að kynda undir „losta“?

9 Þeir sem horfa á klám að staðaldri kynda undir „losta“ og það getur leitt til þess að þeir verði kynlífsfíklar. Rannsóknir gefa til kynna að þeir sem hafa ómótstæðilega löngun til að horfa á klám sýni sömu einkenni fíknar og alkóhólistar og fíkniefnaneytendur. Það er engin furða að það skuli hafa skaðlegar afleiðingar að horfa á klám að staðaldri, svo sem djúpa sektarkennd, lítil afköst á vinnustað, óhamingju í hjónabandi, hjónaskilnaði og sjálfsvíg. Maður nokkur skrifaði eftir að hafa haft betur gegn klámfíkninni í eitt ár: „Ég hef endurheimt sjálfsvirðinguna sem mig skorti.“

10. Hvernig sigraðist Ribeiro á klámfíkn sinni?

10 Það er heilmikil barátta fyrir marga að halda sig frá klámi. En það er hægt að sigra í baráttunni. Ribeiro í Brasilíu er dæmi um það. Hann fluttist að heiman á unglingsaldri og fór að vinna á endurvinnslustöð fyrir pappír. Þar komst hann í kynni við klámfengið efni. „Ég ánetjaðist kláminu smám saman,“ segir hann. „Ég var svo langt leiddur að ég gat varla beðið eftir að sambýliskona mín færi úr húsi þannig að ég gæti horft á klámmyndbönd.“ En dag einn, þegar Ribeiro var í vinnunni, kom hann auga á bókina Farsælt fjölskyldulíf – hver er leyndardómurinn? í hrúgu af bókum sem biðu endurvinnslu. Hann tók bókina til að skoða hana nánar. Það sem hann las varð honum hvatning til að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva, en það tók hann langan tíma að sigrast á kláminu. Hvað skipti sköpum fyrir hann? Hann segir: „Með því að biðja, rannsaka Biblíuna og hugleiða það sem ég lærði skildi ég betur hvers konar Guð Jehóva er, og að lokum varð kærleikurinn til hans sterkari en löngunin í klámið.“ Með hjálp Biblíunnar og heilags anda afklæddist Ribeiro hinum gamla manni, lét skírast og er nú safnaðaröldungur.

11. Hvað er nauðsynlegt til að halda sig frá klámi?

11 Þú tekur eftir að Ribeiro þurfti að gera meira en að kynna sér Biblíuna. Hann þurfti líka að láta það sem hann lærði ná til hjartans. Hann þurfti að hugleiða það og biðja til Jehóva. Þannig varð kærleikur hans til Jehóva sterkari en löngunin í klámið. Að elska Jehóva og hata hið illa er besta leiðin til að halda sig frá klámi. – Lestu Sálm 97:10.

 AÐ LÁTA AF REIÐI, LYGUM OG LJÓTU ORÐBRAGÐI

12. Hvað hjálpaði Stephen að láta af reiði og leggja niður ljótt orðbragð?

12 Þeir sem eru skapbráðir eru oft fljótir til að gefa reiðinni lausan tauminn með meiðandi orðum. Það stuðlar auðvitað ekki að hamingjuríku heimilislífi. Stephen er fjölskyldufaðir í Ástralíu. Hann segir: „Ég blótaði mikið og reiddist oft heiftarlega út af smámunum. Við hjónin slitum samvistum þrisvar og vorum næstum skilin.“ Þá fóru þau að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva. Hvaða áhrif hafði það á Stephen að læra að fylgja ráðum Biblíunnar? „Fjölskyldulífið stórbatnaði,“ segir hann. „Svo er Jehóva fyrir að þakka að það er ró og friður yfir mér en áður var ég uppfullur af beiskju og reiði. Ég var eins og tifandi tímasprengja sem gat sprungið af minnsta tilefni.“ Núna er Stephen safnaðarþjónn og konan hans hefur verið brautryðjandi í nokkur ár. Öldungarnir í söfnuðinum hans segja: „Stephen er hæglátur, duglegur og auðmjúkur bróðir.“ Þeir minnast þess ekki að hafa nokkurn tíma séð hann skipta skapi. Þakkar Stephen þetta sjálfum sér? Hann segir: „Ekkert af þessari frábæru blessun hefði fallið mér í skaut ef ég hefði ekki þegið hjálp Jehóva til að umbreyta mér algerlega.“

13. Hvers vegna er reiði hættuleg og við hverju varar Biblían?

13 Það er ástæða fyrir því að Biblían varar við reiði, hávaða og ljótu orðbragði. (Ef. 4:31) Oft er þetta því miður undanfari ofbeldis. Í heiminum er stundum litið á reiði og ofsa sem eðlilegan hlut en slík hegðun heiðrar ekki skaparann. Margir hafa þurft að leggja af slíkt hátterni áður en þeir gátu íklæðst hinum nýja manni. – Lestu Sálm 37:8-11.

14. Getur ofbeldisfullur maður breytt sér og orðið blíðlyndur?

14 Hans er öldungur í söfnuði einum í Austurríki. „Hann er einhver blíðlyndasti bróðir sem hægt er að hugsa sér,“ segir umsjónarmaður öldungaráðsins í söfnuðinum hans. En Hans var ekki alltaf blíðlyndur. Hann fór að drekka sem unglingur og varð ofbeldishneigður. Einu sinni reiddist hann heiftarlega þegar hann var drukkinn og varð kærustunni sinni að bana. Hann var dæmdur í 20 ára fangelsi. Ofbeldishneigðin minnkaði ekki í fyrstu þótt hann sæti inni. Þá bað móðir hans öldung í söfnuðinum að heimsækja hann í fangelsinu og hann fór að kynna sér Biblíuna. Hann segir: „Það var ekki átakalaust fyrir mig að afklæðast hinum gamla manni. Mér fannst hvetjandi að lesa Jesaja 55:7 þar sem segir: ,Hinn guðlausi láti af breytni sinni‘ og 1. Korintubréf 6:11 en þar segir um fólk sem hafði snúið baki við syndsamlegu líferni: ,Þannig voruð þið sumir hverjir.‘ Árum saman hjálpaði Jehóva mér þolinmóður með heilögum anda sínum að íklæðast hinum nýja manni.“ Hans var leystur úr fangelsi sem skírður vottur eftir að hafa afplánað sautján og hálft ár. „Ég er þakklátur fyrir ólýsanlega miskunn Jehóva og fyrirgefningu,“ segir hann.

15. Hvað er algengt að fólk geri en hvað segir Biblían um það?

15 Lygar eru annað einkenni hins gamla manns. Til dæmis er algengt að fólk ljúgi þegar það telur fram til skatts eða segi ósatt til að þurfa ekki að taka afleiðingum gerða sinna. Jehóva er hins vegar „Guð sannleikans“. (Sálm. 31:5, NW) Hann ætlast því til að allir tilbiðjendur  sínir ,tali sannleika hver við sinn náunga‘. Þeir eiga ekki að ljúga. (Ef. 4:25; Kól. 3:9) Við verðum því að segja sannleikann jafnvel þó að okkur finnist það vandræðalegt eða óþægilegt. – Orðskv. 6:16-19.

HVERNIG BÁRU ÞAU SIGUR ÚR BÝTUM?

16. Hvernig er hægt að afklæðast hinum gamla manni?

16 Enginn getur afklæðst hinum gamla manni í eigin krafti. Þau Sakura, Ribeiro, Stephen og Hans, sem nefnd eru í greininni, þurftu að leggja hart að sér til að segja skilið við fyrra líferni. Þau sigruðu með því að opna hugann og hjartað fyrir kraftinum í orði Guðs og fyrir heilögum anda hans. (Lúk. 11:13; Hebr. 4:12) Til að nýta okkur þennan kraft þurfum við að lesa daglega í Biblíunni, hugleiða efnið og biðja í sífellu um visku og kraft til að fara eftir leiðbeiningum Biblíunnar. (Jós. 1:8; Sálm. 119:97; 1. Þess. 5:17) Við njótum líka góðs af orði Guðs og heilögum anda hans þegar við búum okkur undir safnaðarsamkomur og sækjum þær. (Hebr. 10:24, 25) Við viljum einnig nýta okkur sem best þær mörgu leiðir sem hinn trúi og hyggni þjónn notar til að miðla þjónum Guðs um allan heim andlegri fæðu. – Lúk. 12:42.

Hvernig getum við afklæðst hinum gamla manni? (Sjá 16. grein.)

17. Um hvað er rætt í næstu grein?

17 Við höfum nú rætt um ýmiss konar hátterni sem kristnir menn þurfa að láta af og halda sig frá eftir það. En er það nóg til að hljóta velþóknun Guðs? Nei, við þurfum líka að íklæðast hinum nýja manni. Í greininni á eftir ræðum við um ýmsa þætti hins nýja manns sem við þurfum íklæðast og tileinka okkur til frambúðar.

^ gr. 7 Sumum nöfnum í þessari grein er breytt.

^ gr. 8 Sjá 29. kafla bókarinnar Spurningar unga fólksins – svör sem duga, 2. bindi.