Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Johannes Rauthe í boðunarstarfinu, sennilega upp úr 1920.

 ÚR SÖGUSAFNINU

„Starf mitt ber árangur, Jehóva til lofs“

„Starf mitt ber árangur, Jehóva til lofs“

„ALLAR styrjaldir fortíðar ... hverfa í skuggann af stríðinu mikla sem nú er háð í Evrópu.“ Með þessum orðum var fyrri heimstyrjöldinni lýst í Varðturninum 1. september 1915 en um 30 þjóðir drógust inn í stríðið áður en yfir lauk. Varðturninn greindi frá því að stríðsátökin hefðu „að einhverju marki tálmað boðun Guðsríkis, einkum í Þýskalandi og Frakklandi“.

Á þessum örlagaríka tíma skildu biblíunemendurnir ekki til fullnustu hvað fólst í kristnu hlutleysi. Þeir voru samt ákveðnir í að boða fagnaðarerindið. Wilhelm Hildebrandt vildi leggja sitt af mörkum við að boða ríki Guðs og pantaði Mánaðarrit biblíunemenda á frönsku. En hann var ekki kominn til Frakklands sem farandbóksali (boðberi í fullu starfi) heldur sem þýskur hermaður. Við getum rétt ímyndað okkur undrun franskra vegfarenda að sjá „óvininn“ holdi klæddan í hermannabúningi boða frið.

Bréf, sem birtust í Varðturninum, bera með sér að fleiri þýskir biblíunemendur hafi fundið sig knúna til að boða fagnaðarerindið um ríkið meðan þeir gegndu herþjónustu. Bróðir Lemke var í sjóhernum. Hann sagði frá því að fimm í áhöfninni hans hefðu sýnt áhuga. „Starf mitt ber árangur, Jehóva til lofs, jafnvel um borð í þessu skipi,“ skrifaði hann.

Georg Kayser fór á vígstöðvarnar sem hermaður en sneri heim sem þjónn hins sanna Guðs. Hvernig bar það til? Einhvern veginn eignaðist hann eitt af ritum Biblíunemendanna, tók heils hugar við sannleikanum og lagði niður vopnin. Hann vann síðan önnur störf sem kröfðust ekki að hann bæri vopn. Að stríðinu loknu starfaði hann árum saman sem ötull brautryðjandi.

Biblíunemendurnir skildu ekki til fulls hvað fólst í kristnu hlutleysi. Viðhorf þeirra og framferði var þó allt annað en hjá þeim sem fögnuðu stríðinu.  Stjórnmálamenn og kirkjunnar menn studdu stríðið með ráðum og dáð en biblíunemendurnir fylgdu ,Friðarhöfðingjanum‘. (Jes. 9:6) Þeir voru ekki allir hlutlausir í strangasta skilningi orðsins en höfðu samt sömu sannfæringu og biblíunemandinn Konrad Mörtter sem sagði: „Ég skildi greinilega af orði Guðs að kristinn maður ætti ekki að verða manni að bana.“ – 2. Mós. 20:13. *

Hans Hölterhoff notaði þessa handkerru til að auglýsa tímaritið Das Goldene Zeitalter (Gullöldin).

Samkvæmt þýskum lögum var ekki í boði að vera undanþeginn herþjónustu af samviskuástæðum. Yfir 20 biblíunemendur þar í landi neituðu með öllu að gegna herþjónustu. Sumir þeirra voru flokkaðir sem geðveikir, þeirra á meðal Gustav Kujath sem var lokaður inni á geðveikrahæli og látinn taka geðlyf. Hans Hölterhoff neitaði líka að skrá sig í herinn. Honum var varpað í fangelsi og þar neitaði hann að vinna hvers kyns störf sem tengdust stríðinu. Fangaverðir settu hann í spennitreyju þar til hann varð dofinn og tilfinningalaus í handleggjum. Þegar það dugði ekki til var reynt að buga hann með því að stilla honum upp eins og það ætti að taka hann af lífi. En Hans var óhagganlegur allt stríðið.

Margir bræður, sem voru skráðir til herþjónustu, neituðu að bera vopn og báðu um að fá að vinna önnur störf sem kröfðust ekki vopnaburðar. * Johannes Rauthe tók slíka afstöðu og var látinn vinna hjá járnbrautunum. Konrad Mörtter var látinn starfa sem sjúkraliði og Reinhold Weber vann við hjúkrun. August Krafzig hafði það verkefni að gæta farangurs og var þakklátur fyrir að vera ekki sendur á sjálfan vígvöllinn. Þessir biblíunemendur og margir fleiri voru staðráðnir í að þjóna Jehóva í kærleika og hollustu í samræmi við þann skilning sem þeir höfðu.

Biblíunemendurnir voru undir smásjá yfirvalda vegna afstöðu sinnar í stríðinu. Á árunum eftir stríðið voru höfðaðar þúsundir dómsmála gegn þeim vegna boðunarinnar. Deildarskrifstofan í Magdeburg í Þýskalandi setti á stofn lögfræðideild til að aðstoða þá.

Vottar Jehóva fengu smám saman betri skilning á því hvað fælist í kristnu hlutleysi. Þegar síðari heimsstyrjöldin braust út voru þeir algerlega hlutlausir og neituðu með öllu að gegna herþjónustu. Þar af leiðandi voru þeir álitnir óvinir þýska ríkisins og voru ofsóttir grimmilega. Fjallað verður um það síðar í greinaröðinni „Úr sögusafninu“. – Úr sögusafninu í Mið-Evrópu.

^ gr. 7 Sjá frásögu breskra biblíunemenda í fyrri heimsstyrjöldinni sem birtist í Varðturninum 15. maí 2013 í greininni „Úr sögusafninu – þeir voru trúfastir ,á reynslustund‘“.

^ gr. 9 Stungið var upp á þessari leið í 6. bindi bókaraðarinnar Millennial Dawn (1904) og einnig í Varðturni Síonar (þýsku útgáfunni) í ágúst 1906. Í Varðturninum í september 1915 var málið skýrt betur og lagt til að biblíunemendur gengju ekki í herinn. Viðkomandi grein birtist þó ekki í þýskri útgáfu blaðsins.