Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 FORSÍÐUEFNI | ER HEIMURINN FARINN ÚR BÖNDUNUM?

Leit að svörum

Leit að svörum

EF ÞÚ ert áhyggjufullur eða hreinlega hræddur við slæmu fréttirnar, sem dynja á okkur, ertu ekki einn um það. Árið 2014 sagði Barack Obama, þáverandi forseti Bandaríkjanna, að vegna allra slæmu fréttanna í fjölmiðlum telja margir „að heimurinn sé ... stjórnlaus og að enginn ráði við hann“.

En stuttu síðar talaði hann af ákafa um úrræði manna til að leysa mörg af vandamálum heimsins. Hann sagði vissa framtakssemi stjórnvalda vera „gleðifréttir“ og sagðist sjálfur vera „afar vongóður“ og „ákaflega bjartsýnn“. Með öðrum orðum sagði hann að með einlægum ásetningi gæti fólk tekið í taumana og komið í veg fyrir heimshamfarir.

Margir eru bjartsýnir líkt og hann. Sumir setja til dæmis traust sitt á vísindin og hraðar tækniframfarir og telja að þær eigi eftir að laga heimsástandið. Sérfræðingur í tölvutækni og nýsköpun er fullviss um að árið 2030 „verði tæknin orðin þúsund sinnum öflugri og 2045 verði hún milljón sinnum öflugri“. Hann bætir við: „Við stöndum okkur nokkuð vel. Þó að við höfum aldrei staðið frammi fyrir stærri vandamálum á færni okkar til að leysa vandamál eftir að aukast hraðar en þau.“

En hversu slæmt er heimsástandið? Stöndum við í raun og veru á barmi heimshörmunga? Þó að sumir vísindamenn og stjórnmálamenn boði von um betri tíma eru margir óöruggir hvað varðar framtíðina. Hvers vegna?

GEREYÐINGARVOPN. Hvorki Sameinuðu þjóðunum né öðrum stofnunum hefur tekist að útrýma kjarnavopnum þrátt fyrir bestu viðleitni þeirra. Þess í stað hæðast mótþróafullir leiðtogar að lögum um vopnabúnað. Þjóðir, sem hafa átt kjarnavopn, reyna nú í örvæntingu að koma sér upp nýjum og öflugri eyðingarvopnum. Þjóðir, sem hafa ekki átt gereyðingarvopn fyrr, geta nú stráfellt stóran hluta mannkyns.

Sú staðreynd að þjóðir eru betur búnar undir kjarnorkustríð en nokkru sinni fyrr gerir heiminn að mjög hættulegum stað, jafnvel á „friðartímum“. „Til dæmis væru sjálfstýrð drápstól, sem taka ákvörðun um að ,drepa‘ án þess að maðurinn komi þar nærri, sérstakt áhyggjuefni,“ segir í tímaritinu Bulletin of the Atomic Scientists.

HEILSA MANNKYNS Á UNDIR HÖGG AÐ SÆKJA. Það eru takmörk fyrir því hve góða heilsu vísindin geta tryggt okkur. Hár blóðþrýstingur, offita, loftmengun og fíkniefnaneysla eru vaxandi áhættuþættir margra sjúkdóma. Þeim fjölgar sem deyja úr alls kyns smitvana sjúkdómum svo sem krabbameini, hjarta- og æðasjúkdómum og sykursýki. Sífellt fleiri eru óvinnufærir vegna annarra sjúkdóma, þar á meðal geðrænna sjúkdóma. Og á undanförnum árum hafa komið upp ófyrirsjáanlegir faraldrar, til dæmis af völdum ebóluveirunnar og zíkaveirunnar. Kjarni málsins: Menn ráða ekki við sjúkdóma og það virðist ekki vera hægt að útrýma þeim.

MAÐURINN RÆÐST GEGN NÁTTÚRUNNI. Verksmiðjur halda áfram að menga andrúmsloftið. Á hverju ári deyja milljónir manna úr loftmengun.

Einstaklingar, samfélög og opinberar stofnanir losa sig við ýmis mengunarefni í hafið svo sem skolp, plast og úrgang frá landbúnaði og heilbrigðisstofnunum. Í alfræðibókinni Encyclopedia of Marine Science segir: „Þessir eitruðu mengunarvaldar eitra bæði fyrir dýrum og plöntum í hafinu og fyrir fólki sem borðar mengaða fæðu úr hafinu.“

Þar að auki erum við að verða uppiskroppa með ferskt vatn. Breski vísindarithöfundurinn Robin McKie gefur þessa viðvörun: „Heimurinn stendur frammi fyrir vatnsskorti sem mun hafa áhrif á alla jörðina.“ Stjórnmálamenn viðurkenna að vatnsskorturinn sé að mestu af mannavöldum og að okkur stafi veruleg hætta af honum.

NÁTTÚRAN RÆÐST GEGN MANNINUM. Stormar, fárviðri, hvirfilbyljir, fellibyljir og jarðskjálftar valda hrikalegum flóðum, ógurlegum skriðum og annars konar eyðileggingu. Fleiri en nokkru sinni fyrr verða illa úti eða farast vegna þessara náttúruafla. Rannsókn frá geimvísindastofnun Bandaríkjanna bendir á aukna hættu á „hvassari stormum, hættulegum hitabylgjum og alvarlegri flóðum og þurrkum“. Á náttúran eftir að gera út af við mannkynið?

Þér kemur eflaust fleira í hug sem ógnar tilveru okkar. En við finnum ekki fullnægjandi svör hvað varðar framtíðina með því að rannsaka allt það slæma sem er að gerast í heiminum núna. Og sumir segja að það sama gildi um að hlusta á stjórnmálamenn og vísindamenn. En eins og fram kom í greininni á undan hafa margir fengið sannfærandi svör við spurningum sínum um heimsástandið og framtíðina. Hvar er slík svör að finna?