Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

SVIPMYNDIR ÚR FORTÍÐINNI

Alhazen

Alhazen

ÓVÍST er þú hafir nokkurn tíma heyrt minnst á Abū ‘Alī al-Ḥasan ibn al-Haytham. Á Vesturlöndum er hann betur þekktur undir nafninu Alhazen en það er latnesk mynd af arabísku nafni hans al-Ḥasan. Þú nýtur þó sennilega góðs af ævistarfi hans. Sagt hefur verið að hann sé „ein mikilvægasta og áhrifamesta persóna í sögu vísindanna“.

Alhazen fæddist um 965 í borginni Basra sem nú er í Írak. Hann hafði áhuga á stjörnufræði, efnafræði, stærðfræði, læknisfræði, tónlist, ljósfræði, eðlisfræði og ljóðlist. En hvað eigum við honum sérstaklega að þakka?

ÁFORM UM STÍFLU Í NÍLARFLJÓTI

Ákveðin saga af Alhazen hafði lengi verið þekkt. Hún tengdist áformum hans um að byggja stíflu til að stjórna vatnsrennslinu í Níl, hátt í 1.000 árum áður en ráðist var í byggingu hennar við Asúan árið 1902.

Sagan segir að Alhazen hafi haft metnaðarfull áform um að draga úr árstíðabundnum flóðum og þurrkum í Egyptalandi með því að byggja stíflu í Níl. Þegar kalífinn al-Hakim, sem réði ríkjum í Karíó, frétti af áformum Alhazens bauð hann honum til Egyptalands til að byggja stífluna. En þegar Alhazen sá fljótið með eigin augum gerði hann sér grein fyrir að verkefnið var honum ofviða. Af ótta við refsingu af hálfu hins illræmda og duttlungafulla stjórnanda gerði Alhazen sér upp geðveiki þar til kalífinn lést 11 árum síðar, eða árið 1021. Á meðan Alhazen var vistaður á hæli hafði hann nægan tíma til að sinna öðrum áhugamálum.

RITVERK UM LJÓSFRÆÐI

Þegar Alhazen var látinn laus af hælinu var hann langt kominn með sjö binda ritverk sitt um ljósfræði en það er talið vera „eitt mikilvægasta ritverk í sögu eðlisfræðinnar“. Í því ræðir hann um rannsóknir sínar á eðli ljóssins, meðal annars hvernig ljós brotnar í alla regnbogans liti, endurkastast af spegli og breytir um stefnu þegar það fer úr einu efni í annað. Hann rannsakaði einnig sjónræna skynjun og byggingu og starfsemi augans.

Þegar kom fram á 13. öld hafði ritverk Alhazens verið þýtt úr arabísku á latínu og öldum saman vitnuðu fræðimenn í Evrópu í það. Skrif Alhazens um linsuna ruddu brautina fyrir sjónglerjafræðinga í Evrópu en þeir fundu upp sjónaukann og smásjána með því að horfa í gegnum tvö sjóngler í einu.

FYRIRRENNARI MYNDAVÉLARINNAR

Alhazen uppgötvaði lögmálin sem liggja að baki ljósmyndun þegar hann bjó til það sem kalla mætti fyrsta myrkrakassa sögunnar. Þetta var ljósþéttur klefi með litlu opi á einum veggnum, og þegar ljós skein inn um það birtist á gagnstæðum vegg mynd á hvolfi af því sem fyrir utan var.

Alhazen bjó til það sem líklega mætti kalla fyrsta myrkrakassann.

Á 19. öld var farið að setja ljósmyndaplötur í myrkrakassa svo að hægt væri að taka varanlegar myndir. Þannig varð myndavélin til. Allar nútímamyndavélar – og reyndar augu okkar – byggja á sömu eðlislögmálum og myrkrakassinn. *

RANNSÓKNARAÐFERÐ VÍSINDANNA

Alhazen notaði framúrskarandi rannsóknaraðferðir og var þannig langt á undan sinni samtíð. Hann rannsakaði náttúrufyrirbæri á nákvæman og kerfisbundinn hátt og var einn fyrsti vísindamaðurinn til að sannreyna kenningar með tilraunum. Hann var ekki smeykur við að draga í efa viðteknar kenningar ef engar sannanir lágu þar að baki.

Segja má að meginreglan að baki nútímavísindum byggist á þessum orðum: „Sannreyndu það sem þú trúir.“ Sumir telja að Alhazen sé „faðir vísindarannsókna nútímans“. Við eigum honum þess vegna margt að þakka.

^ gr. 13 Á Vesturlöndum skildu menn ekki til fulls samsvörun myrkrakassans og augnanna fyrr en Johannes Kepler útskýrði hana á 17. öld.