Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI | SJÚKDÓMAR – HVERNIG MÁ DRAGA ÚR SMITHÆTTU?

Verðu þig gegn smitsjúkdómum

Verðu þig gegn smitsjúkdómum

MARGAR borgir til forna voru með sterka varnarmúra. Ef óvinum tókst að rjúfa skarð í borgarmúrinn ógnaði það allri borginni. Líkaminn er eins og múrgirt borg. Það hefur mikið að segja fyrir heilsuna hversu vel maður hugsar um varnir líkamans. Skoðum fimm þætti sem geta gert okkur berskjölduð fyrir sjúkdómum og hvernig við getum sem best varið okkur.

1 VATN

ÓGNIN: Skaðlegar örverur geta auðveldlega komist inn í líkamann með menguðu vatni.

VARNIRNAR: Besta vörnin er að koma í veg fyrir að neysluvatnið mengist. Ef vatnið er mengað, eða þig grunar að svo sé, geturðu meðhöndlað vatn til heimilisnota svo að það verði drykkjarhæft. * Geymdu drykkjarvatn í lokuðu íláti og gættu þess að ekki komist óhreinindi í það. Notaðu annaðhvort ílát með krana eða austu vatninu upp með hreinu áhaldi. Farðu aldrei með hendurnar ofan í hreint drykkjarvatn. Ef þú hefur tök á skaltu búa þar sem skolplögn er viðunandi og mengar ekki neysluvatn.

2 MATUR

ÓGNIN: Skaðlegar örverur geta leynst í matvælum.

VARNIRNAR: Skemmdur matur getur litið út fyrir að vera ferskur og hollur. Vendu þig þess vegna á að skola vel alla ávexti og grænmeti. Gættu þess að mataráhöld og borð séu hrein og þvoðu hendurnar áður en þú meðhöndlar mat. Sum matvæli þarf að hita upp fyrir ákveðið hitastig til að drepa skaðlegar örverur. Borðaðu ekki mat sem hefur breytt um lit eða lyktar eða bragðast óeðlilega. Það getur verið merki um að í honum sé heill her skaðlegra örvera. Settu afganga í kæli eins fljótt og hægt er. Útbúðu helst ekki mat fyrir aðra þegar þú ert lasinn. *

3 SKORDÝR

ÓGNIN: Í sumum skordýrum eru skaðlegar örverur sem geta borist í fólk.

VARNIRNAR: Reyndu að forðast skordýr sem bera með sér sjúkdóma með því að halda þig innandyra þegar þau eru sem mest á ferli eða klæðast fötum sem hylja líkamann vel. Sofðu undir flugnaneti sem hefur verið meðhöndlað með skordýraeitri og notaðu skordýrafælur. Láttu ekki vatn standa í opnum ílátum þar sem moskítóflugur geta tímgast. *

4 DÝR

ÓGNIN: Örverur, sem lifa í dýrum án þess að valda þeim skaða, geta ógnað heilsu okkar. Ef þú ert bitinn eða klóraður af gæludýri eða öðru dýri eða þú kemst í snertingu við dýrasaur áttu á hættu að smitast.

VARNIRNAR: Sumir kjósa að hafa dýr ekki inni hjá sér til að hafa sem minnsta beina snertingu við þau. Þvoðu hendurnar þegar þú hefur komið við húsdýr og forðastu alla snertingu við villt dýr. Ef dýr bítur þig eða klórar skaltu þvo sárið vel og leita ráða hjá lækni. *

5 FÓLK

ÓGNIN: Sumir sýklar geta borist í okkur þegar aðrir hósta eða hnerra í kringum okkur. Það getur einnig gerst við snertingu eins og handaband eða faðmlag. Örverur geta borist frá fólki yfir á hluti eins og hurðarhúna, handrið, síma, fjarstýringar, tölvuskjái og lyklaborð.

VARNIRNAR: Hluti eins og rakvél, tannbursta eða handklæði ætti hvorki að lána né fá lánað hjá öðrum. Varastu að komast í snertingu við blóð eða líkamsvessa úr dýrum eða fólki. Og ekki má vanmeta gagnið af því að þvo hendurnar oft og vel. Það er líklega árangursríkasta leiðin til að koma í veg fyrir smit.

Ef mögulegt er skaltu halda þig heima þegar þú ert veikur. Sóttvarna- og forvarnamiðstöðvar Bandaríkjanna ráðleggja fólki að hósta eða hnerra frekar í vasaklút eða ermina sína en í lófana.

Í fornum orðskviði segir: „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig.“ (Orðskviðirnir 22:3) Þetta á vel við núna þegar til eru svo margir sjúkdómar sem geta reynst hættulegir. Aflaðu þér upplýsinga hjá heilbrigðisstofnunum þar sem þú býrð. Gættu hreinlætis og styrktu varnir líkamans. Þannig geturðu dregið úr hættunni á að smitast af sjúkdómum.

^ gr. 6 Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir með nokkrum aðferðum við að hreinsa drykkjarvatn heima fyrir svo sem að sótthreinsa það með klór eða sólarljósi, sía það eða sjóða.

^ gr. 9 Frekari upplýsingar um hvernig gæta má öryggis í meðhöndlun matar má finna í Vaknið! á ensku júní 2012, bls. 3-9.

^ gr. 12 Frekari upplýsingar um hvernig hægt er að verja sig gegn malaríu er að finna í Vaknið! september-október 2015, bls. 14-15.

^ gr. 15 Ef þú ert bitinn eða stunginn af eitruðu dýri ættirðu að leita læknishjálpar án tafar.