Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR

Stundvísi

Stundvísi

Þó að flestir kunni að meta stundvísi bregst mörgum bogalistin. Í Biblíunni er að finna gagnleg ráð hvað stundvísi varðar.

Hversu mikilvægt er að vera stundvís?

AF HVERJU SKIPTIR ÞAÐ MÁLI?

Það getur minnkað álag og stress að vera mættur örlítið fyrr en áætlað var. Stundvísi byggir líka upp gott mannorð. Hvernig þá?

Stundvísi ber vott um hæfni. Þegar þú ert stundvís sýnirðu að þú reynir að hafa stjórn á lífi þínu í stað þess að láta tilviljun ráða því hvort þú náir að gera það sem þú ætlaðir þér.

Stundvísi ber vott um áreiðanleika. Æ algengara er að fólk svíki loforð sín og standi ekki við skuldbindingar sínar. Flestir kunna því að meta þá sem standa við orð sín. Þeir sem eru áreiðanlegir ávinna sér virðingu fjölskyldu sinnar og vina. Vinnuveitendur kunna að meta starfsmenn sem koma til vinnu á réttum tíma og skila verki sínu á tilsettum tíma. Það eru meiri líkur á að starfsmaður, sem er áreiðanlegur, fái launahækkun og aukna ábyrgð.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Í Biblíunni er að finna vers sem undirstrika mikilvægi þess að vera stundvís. Þar segir meðal annars: „Allt fari sómasamlega fram og með reglu.“ (1. Korintubréf 14:40) Þegar maður hefur gert samkomulag um að hitta einhvern á ákveðnum stað og tíma er viðeigandi að vera stundvís. Í Biblíunni segir einnig: „Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.“ (Prédikarinn 3:1) Síðan segir í framhaldinu að það ,hafi sinn tíma að gróðursetja og sinn tíma að rífa upp hið gróðursetta‘. (Prédikarinn 3:2) Bændur sá korni sínu á réttum tíma, það er að segja nógu tímanlega til að fá sem besta uppskeru. Með öðrum orðum skilar „stundvísi“ bóndans honum góðri uppskeru.

Í Biblíunni er bent á enn ríkari ástæðu til að vera stundvís: Við sýnum að við berum virðingu fyrir öðrum og tíma þeirra þegar við erum stundvís. (Filippíbréfið 2:3, 4) Það mætti því segja að ef við látum aðra ætíð bíða eftir okkur séum við í raun að stela tíma þeirra.

„Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra.“ – Filippíbréfið 2:4.

Hvernig geturðu vanið þig á að vera stundvís?

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Hún hvetur okkur til að skipuleggja fram í tímann. (Orðskviðirnir 21:5) Ef þú hefur fyrir vana að koma of seint gæti dagskráin þín verið of þétt. Slepptu því sem er ónauðsynlegt og eyðir óþarflega miklum tíma. Ef þú þarft að mæta á nokkra staði yfir daginn skaltu skipuleggja þig þannig að þú hafir nægan tíma á milli og reyndu eftir bestu getu að koma nokkrum mínútum fyrr. Þá koma óvæntir hlutir, eins og umferðarteppa eða slæmt veður, síður í veg fyrir að þú sért stundvís.

Biblían hvetur okkur líka til að vera hógvær. (Orðskviðirnir 11:2) Ef þú ert hógvær gerirðu þér grein fyrir takmörkum þínum. Áður en þú ákveður að hitta einhvern eða skila einhverju verki á ákveðnum tíma skaltu hugleiða hvort þú getir örugglega staðið við það miðað við dagskrána þína. Þú veldur sjálfum þér og öðrum aðeins vonbrigðum og stressi ef þú lofar meiru en þú getur staðið við.

Biblían ráðleggur okkur líka að nýta tímann vel. (Efesusbréfið 5:15, 16) Forgangsraðaðu hlutunum eftir mikilvægi þeirra. (Filippíbréfið 1:10) Þegar þú ferðast með almenningsfarartækjum eða bíður eftir einhverjum gætirðu til dæmis notað tímann til að lesa eða skipuleggja daginn.

„Áform hins iðjusama færa arð.“ – Orðskviðirnir 21:5.