Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Það sem gott er að vita um orkusparnað

Það sem gott er að vita um orkusparnað

VIÐ þurfum öll orkugjafa fyrir faratækin okkar, til að halda mátulegum hita á heimilinu og til að sinna ýmsum daglegum verkum. Samt sem áður á fólk víða um heim erfitt með að mæta þessari þörf.

Fyrir Gary frá Suður-Afríku er „hækkandi eldsneytiskostnaður“ verulegt vandamál. Jennifer frá Filippseyjum hefur áhyggjur af því að geta ekki reitt sig á rafmagnið því að „rafmagnstruflanir eru algengt vandamál“. Fernando fá El Salvador hefur „áhyggjur af umhverfisáhrifum“. Víða um heim menga orkuveitur umhverfið.

Það er eðlilegt að spyrja sig: „Hvernig get ég brugðist við þessum vanda?“

Við getum öll ákveðið að nota orkugjafa skynsamlega. Að spara orku og að nota hana á hagkvæman hátt er gagnlegt. Við spörum peninga þegar við notum minni orku. Við verndum líka umhverfið með því að bæta ekki að óþörfu við vaxandi orkuþörf heimsins.

Skoðum þrjú svið þar sem gæti verið hægt að nota orkuna á skynsamlegri hátt: heimilið, samgöngur og dagleg störf.

HEIMILIÐ

Að kynda eða kæla húsnæðið hóflega. Könnun í einu Evrópuríki leiddi í ljós að það eitt að lækka hitann í húsum um aðeins tvær gráður yfir veturinn sparaði mesta orku á ársgrundvelli. Derek, sem býr í Kanada, er á sama máli. „Með því að vera í peysum á veturna í stað þess að stilla hitann í botn spörum við fjölskyldan orku,“ segir hann.

Það sama á við um að kæla húsnæði í heitari löndum. Rodolfo frá Filippseyjum stillir hitann hóflega og sparar þannig loftkælinguna. Hvers vegna? Hann segir: „Þannig spörum við bæði peninga og orku.“

Að loka gluggum og hurðum á meðan verið er að kynda eða kæla húsnæðið. * Við getum forðast að sóa orku með því að koma í veg fyrir að upphitað eða kælt loft sleppi út. Til dæmis eykur það orkunotkunina að skilja hurð eftir opna þegar verið er að hita hús í köldu veðri.

Sumir hafa gengið lengra í orkusparnaði en bara að loka gluggum og hurðum. Þeir hafa einangrað húsið betur og þétt gluggana.

Að skipta yfir í sparneytinn ljósabúnað. „Í stað þess að nota hefðbundnar glóperur skiptum við yfir í sparperur,“ segir Jennifer sem vitnað var í áður. Þó að sparperur og annar sparneytinn ljósabúnaður sé yfirleitt dýrari notar hann mun  minni orku og sparar þér því peninga með tímanum.

SAMGÖNGUR

Að nota almenningssamgöngur þegar hægt er. „Ég tek lest eða hjóla í vinnuna þegar ég get,“ segir Andrew sem er frá Bretlandi. Í bókinni Energy: What Everyone Needs to Know segir að „einkabílar nota að minnsta kosti þrisvar sinnum meiri orku á hvern farþega en strætisvagnar og lestar sem ferðast stuttar vegalengdir“.

Að skipuleggja ferðirnar. Með því að skipuleggja sig er hægt að fækka ferðum og nota minni orku. Þannig má spara bæði tíma og peninga.

Jethro frá Filippseyjum ákveður fyrir fram hversu miklu hann eyðir í eldsneyti á mánuði. „Það verður til þess að ég skipulegg ferðir mínar betur,“ segir hann.

DAGLEG STÖRF

Að draga úr notkun á heitu vatni. Könnun ein leiddi í ljós að „upphitun vatns í heimahúsum er að meðaltali 1,3 prósent af allri orkuneyslu ástralskra borga eða 27 prósent af orkuneyslu heimilanna.“

Þar sem það kostar orku að hita upp vatn sparar það orku að nota minna af heitu vatni. Það er því ekki að ástæðulausu að Victor frá Suður-Afríku segir: „Við reynum að nota eins lítið af heitu vatni og mögulegt er þegar við förum í sturtu.“ Vísindamaðurinn Steven Kenway segir: „Það hefur þrjá kosti að spara heita vatnið. Það minnkar vatns- og orkunotkun neytendanna, krefst minni orku frá veitukerfunum og hjálpar heimilunum ... að spara peninga.“

Að slökkva. Þá er átt við ljós, heimilistæki og önnur raftæki eins og sjónvörp og tölvur. Mörg tæki eyða rafmagni í biðham, jafnvel þótt það virðist vera slökkt á þeim. Sérfræðingar mæla með að taka tækin úr sambandi eða nota fjöltengi með rofa til að slökkva alveg á þeim og spara rafmagn. Fernando, sem vitnað var í áður, hefur tileinkað sér þetta. „Ég slekk á ljósunum og tek úr sambandi tækin sem ég er ekki að nota,“ segir hann.

Við ráðum kannski litlu um orkukostnað eða mengunaráhrif orkuframleiðslunnar – en við getum ákveðið að nota orkuna skynsamlega. Fólk víða um heim leggur sig fram um að gera það. Að vísu getur það kostað fyrirhyggju og átak að draga úr orkunotkun en því fylgja kostir. Valeria frá Mexíkó segir: „Ég spara peninga og vernda umhverfið.“

^ gr. 10 Til að tryggja öryggi skal leiðbeiningum frá framleiðanda kyndi- og kælibúnaðarins fylgt vandlega. Sum tæki þurfa ákveðna loftun í kringum sig sem útheimtir að hafa hurð eða glugga opinn.